Eitt klúðrið enn

Ríkisstjórninni virðist vera algerlega fyrirmunar að koma frá sér nokkru máli án stórkostlegra ágalla og oft klúðrast þau algerlega vegna lélegs skipulagns og enn verri undirbúnings.  

Nýjasta dæmið er fyrirhugað Stjórnlagaþing, sem þjóðin lét berlega í ljós í kosingunum til þess að hún kærði sig alls ekki um neitt slíkt þing, en eftir því sem Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir, þá er niðurstaða talningar kosningaklúðursins ekki í samræmi við lögin sem um þingið giltu og aðeins 11 þingfulltrúar réttilega kjörnir samkvæmt þeim.

Fulltrúar landskjörsstjórnar munu hafa viðurkennt á fundi þingnefndar að stjórnin hafi ekki skilið lögin sem kosið var eftir til Stjórnlagaþingsins, né greinarnar um úthlutun þingsæta og því hafi niðurstaðan orðið sú, að enginn gæti skorið úr um réttmæti sætisúthlutananna annar en Hæstiréttur og þangað yrði að skjóta málinu til úrlausnar.

Sé þetta staðreynd og niðurstaðan verði sú að Hæstiréttur þurfi að skera úr klúðrinu, er þetta enn einn skandallinn í langri sögu slíkra í tíð ríkisstjórnarinnar og ljótur blettur á þingsögunni, sem þó mátti ekki við að miklu meira væri sullað niður á þá skítugu flík til viðbótar við það sem áður hafði þangað lekið.

Ljótt er að ekki skuli einu sinni vera hægt að úthluta sætum á þetta umboðslitla ráðgjafaþing án þess að ríkisstjórnin geri sig að athlægi í leiðinni.  


mbl.is Stjórnlagaþing til Hæstaréttar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður engin "niðurstaða" í vikunni

Jóhanna Sigurðardóttir segist vonast til að niðurstaða fáist í Icesave-málinu í vikunni og á þá væntanlega við þessa viku, sem nú er nýhafin, en ekki "eftir helgi" eða í "næstu viku", eins og verið hefur um allar "niðurstöður" ríkisstjórnarinnar fram að þessu.

Þó Jóhanna og ríkisstjórnin öll og jafnvel allur þingheimur samþykki fjárkúgunarkröfur Breta og Hollendinga á hendur íslenskum skattgreiðendum vegna viðskipta einkafyrirtækis, sem þar að auki var rekið af fjárglæframönnum, þá verður það engin "niðurstaða" í þrælasölumálinu, því tilvonandi þrælar Breta og Hollendinga munu aldrei samþykkja að ganga sjálfviljugir í skattaþrældóm fyrir erlenda kúgara.

Þjóðin mun hrinda þessu nútíma "Tyrkjaráni" af höndum sér, jafnvel þó ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir gefist enn einu sinni upp fyrir innrás þrælakaupmanna.


mbl.is Niðurstaða vonandi í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrum af grófasta tagi

Enginn hefur stundað annað eins lýðskrum undanfarna mánuði og Lilja Mósesdóttir, nema ef vera skyldi þingmenn Hreyfingarinnar, með þvaðrinu um að hægt sé að gera allt fyrir alla, þurrka nánast út skuldir hvers einasta manns og láta eins og aldrei hafi orðið neitt bankahrun.

Nú er Lilja farin að tala eins og það sé einfalt val fyrir fólk að "fara í gjaldþrot" og verða laust allra skuldamála eftir tvö ár, þegar það er staðreynd, að  lánadrottnar geta vel haldið kröfum sínum vakandi áfram, þó það verði meiri skilyrðum háð en nú er, ef frumvarp til breytinga á gjaldþrotalögum nær fram að ganga á Alþngi.

Lilja segir marga sem nú séu með yfirveðsettar eignir munu telja "að það sé best að fara í gjaldþrot" þegar staðreyndin er sú að ef fólk á ekki fyrir skuldsetningum sínum, þá ER það gjaldþrota og þó þær leiðir til skuldaniðurfellinga sem fyrir hendi eru, hreinsi fólk ekki af skuldamistökum sínum, þá gera þær fólki kleyft að halda eignum sínum og sleppa við að ganga í gegn um gjaldþrotauppgjör, sem er eitt það versta sem nokkur maður þarf að upplifa og enginn hefur gert að gamni sínu fram að þessu.

Lilja er svo óforskömmuð að segja að til standi að "bjóða fólki upp á" að fara í gjaldþrot með tveggja ára fyrningartíma krafna.  Þetta er versta og grófasta lýðskrum og blekkingar, sem lengi hafa sést frá nokkrum stjórnmálamanni.

 


mbl.is Kjósa að fara í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband