Ekki eftir neinu að bíða lengur

Sérfræðingahópurinn um skuldavanda heimilanna hefur nú skilað af sér útreikningum sínum um nokkrar leiðir, sem opinberir aðilar geta notfært sér til að koma skuldsettustu heimilum landsins til aðstoðar.  Án þess að hafa skoðað þessar leiðir nákvæmlega, virðist sértæk skuldaaðlögun vera fljótlegasta leiðin til að koma þeim verst settu út úr mesta vandanum og verði sú leið valin, er ekki annað að gera en að drífa í málunum og láta fólkið ekki engjast í snörunni mikið lengur.

Til viðbótar þessari aðgerð í þágu þeirra verst settu ætti að hækka vaxtabætur verulega og ætti slík aðgerð að koma öllum til góða sem húsnæðislán skulda, jafnt þeim sem verulega eru illa staddir og hinum sem betur standa, en skulda þó háar upphæðir í húsnæði sínu.

Í öllum áföllum, sem yfir dynja, á að sjálfsögðu að vera í algerum forgangi að bjarga þeim sem í mestu tjóni lenda, en láta aðra bíða sem betur sleppa og engum dettur í hug að leggja fé og fyrirhöfn í björgunaraðgerðir vegna fólks, sem alls ekki er í neinum vanda.

Sama á að gilda þó hörmungarnar séu af efnahagslegum toga.  Þeir sem þurfa ekki hjálp, eiga ekki að fá hana, en þeir sem eru að missa heimili sín vegna slíkra hörmunga eiga að fá skyndihjálp og aðrir ættu að sameinast um björgunaraðgerðirnar, jafnvel þó viðkomandi þurfi einhverju til að fórna sjálfur.

Loksins er búið að greina vandann og þá ætti ekkert að vera að vanbúnaði til að leysa hann.


mbl.is Mikilvægir útreikningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mælum með meðmælum

Hollvinir heilbrigðisþjónustunnar hafa boðað til meðmæla á Austurvelli á morgun og ætla þar að mæla með góðri heilbrigðisþjónustu um allt land og að hún verði ekki skorin niður við trog á landsbyggðinni, eins og fjárlög gera ráð fyrir.

Meðal annars segir í tilkynningu frá hollvinunum:  "Markmiðið er að sýna styrk í samstöðu landsmanna með meðmælum með heilbrigðisþjónustunni. Víða um landið er verið að veita góða, hagkvæma og örugga þjónustu. Þannig viljum við hafa það áfram."  Ekki er með nokkru móti hægt að mótmæla þessari hógværu og göfugu bón um áframhaldandi gott heilbrigðiskerfi.

Það er alveg óhætt að mæla með þessum meðmælafundi.


mbl.is Meðmælafundur á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Írar í helgreipum evrunnar

Í bankahrunini mikla í árslok 2008 forðuðu írsk yfirvöld algjöru efnahagshruni á Írlandi með því að lýsa yfir að ríkið ábyrgðist allar skuldbindingar bankakerfisins og er sú ákvörðun nú að koma í bakið á írum með gífurlegum halla á ríkissjóði og miklum skattahækkunum og öðrum auknum álögum á launafólk í landinu.

Nú hafa Írar fengið heimild EBS til þess að framlengja þessar ríkisábyrgðir þar til í júni á næsta ári, en í reynd mun írska ríkið aldrei geta hlaupið frá þessum ábyrgðum sínum og því mun taka mörg ár að vinda ofan af þeim og í raun ekki gerast nema með uppgreiðslu ríkistryggðu skuldbindinganna, a.m.k. annarra en beinna innlána sparifjáreigenda.

Því hefur verið haldið fram, m.a. af Össuri Skarphéðinssyni, að engin bankakreppa hefði orðið á Íslandi, hefði gjaldmiðill landsins verið evra en ekki króna, þó allir viti að það er eingöngu lygaáróður fyrir inngöngu í ESB, en Írland er með evru og engu bjargaði hún þar í landi, frekar en í Grikklandi, Portúgal eða Spáni, svo nokkur lönd séu nefnd. 

Í fréttinni segir m.a:  "Írland er eitt nokkurra Evrópuríkja sem hefur þurft að veita bönkum ríkisábyrgð í kjölfar hrunsins.Skuldatryggingarálag á Írland er afar hátt og í dag var það 8,18% á ríkisskuldabréf til tíu ára. Er þetta það hæsta frá því Myntbandalag Evrópu varð að veruleika árið 1999."

Með svona skuldatryggingarálagi getur Írland ekki tekið nein lán á næstu árum til að létta lífróðurinn í efnahagsmálum og er þetta hærra álag en Íslendingar þurftu að búa við, þegar verst var eftir bankahrunið. 

Íslendingar mega þakka sínum sæla fyrir að hafa ekki verið aðilar að ESB og ekki síður fyrir krónuna, sem gera mun sitt til að hraða efnahagsbata hér á landi, þveröfugt við áhrif evrunnar á írskt efnahagslíf.


mbl.is Bankaábyrgðir framlengdar á Írlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skíða-, sundlauganotendur o.fl. greiði raunkostnað

Geimveran Jón Gnarr, borgarstjóri í Múmíndal, skýrði í annars fáránlegu sjónvarpsviðtali, frá þeirri hugmynd sem undanfarið hefur verið til umræðu hjá ÍTR, að skíðasvæðinu í Bláfjöllum yrði lokað næstu tvö ár til að spara 87 milljónir króna í rekstrarkostnaði borgarsjóðs.  Forstöðumaður Bláfjallasvæðisins mótmælti strax þessari upphæð, þar sem hann sagði að sinna þyrfti viðhaldi mannvirkja eftir sem áður og enhvern mannskap þyrfti til þess, án þess að nefna nokkrar upphæðir í því sambandi.

Á þessum niðurskurðartímum er ekki óeðlilegt að fyrst sé farið yfir alla þætti í borgarrekstrinum, sem ekki fellur beint undir lögboðið hlutverk sveitarfélaga og t.d. er rekstur skíðasvæða ekki eitt af skylduverkefnum Reykjavíkurborgar eða annarra sveitarfélaga.  Margt annað fellur ekki undir þessar skyldur, eins og t.d. rekstur sundstaða, listasafna, strætó og samkvæmi borgarstjóra, svo eitthvað sé nefnt.

Fyrsta verk borgarstjórnarmeirhlutans ætti að vera að hætta öllum slíkum rekstri, ef ekki er hægt að verðleggja þjónustuna þannig að hún standi undir rekstrinum, eins og gert er með annan fyrirtækjarekstur borgarinnar, t.d. orkuveituna, en þar er nýbúið að hækka verðið á söluvörunni, ekki vegna taprekstrar, heldur vegna afborgana af skuldum.  Allan rekstur, sem ekki er lögbundinn ætti borgin að koma af sínum höndum yfir til einkaaðila, ef þeir treysta sér til að reka þessi fyrirtæki án tapreksturs, en að öðrum kosti verði reksturinn aflagður.

Ekki dugar að segja að rekstur sund- og skíðastaða sé hluti af átaki til að viðhalda heilsu og hraustleika borgarbúa, því þetta er starfsemi sem er náskyld rekstri heilsuræktarstöðva og verða þær að standa algerlega undir rekstri sínum með gjaldtöku af viðskiptavinum og virðist verðið ekkert hamla aðsókn að þeim.

Það er a.m.k. ekki réttlætanlegt að niðurgreiða ólögbundna starfsemi Reykjavíkurborgar með hækkun á útsvari og öðrum sköttum. 


mbl.is Mótmæla hugmyndum um lokun skíðasvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband