9.10.2010 | 20:44
Níðingslegar árásir á útrásarvíkinga
Það er óhætt að taka undir með Pálma í Iceland Express, að endalausar árásir óvandaðra manna á fyrrverandi útrásarvíkinga eru algerlega óþolandi og ósanngjarnar, enda útrásarvíkingar eins og aðrir víkingar vanir að að sölsa undir sig eignir, gersemar og jafnvel lönd, án þess að mikil mótspyrna sé veitt.
Eftir að Pálma, í félagi við vin sinn Jón Ásgeir og fleiri, mistókst að eyðileggja Icelandair í eitt skipti fyrir öll, tókst Pálma að "bjarga" Iceland Express undan þrotabúi Fons og reynir nú sem best hann má, að knésetja Icelandair með því að setja upp áætlunarflug á alla viðkomustaði félagsins og ekki annað að sjá, en íslenskir ferðalangar styðji hann dyggilega í þeirri herferð.
Útrásarvíkingarnir hafa líklega þurft að þola nóg, með því að missa bankana sína, þó ekki sé verið að eltast við þá vítt og breitt um heiminn til þess að reyna að reita af þeim þá aura, sem þeim tókst að hafa út úr þjóðinni á útrásarvíkingatímanum.
Þjóðin hefur lengi þakkað Bónusgenginu allt það góða sem fyrir þjóðina hefur komið í gegn um tíðina og nú væri sanngjarnt að bæta Pálma í Iceland Express í þann hóp. Jafnvel fleiri útrásarvíkingum, þó þeir hafi ekki verið hálfdrættingar í góðverkum sínum á við Bónusgengið.
![]() |
Slitastjórn í veiðiferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.10.2010 | 17:53
Flöt skuldalækkun verður ekki samþykkt
Ríkisstjórnin, með Jóhönnu Sig. og Steingrím J. í broddi fylkingar, hefur margsagt að flöt skuldalækkun komi ekki til greina, enda eigi þeir að borga skuldir sínar, sem það geti, en hjálpa skuli hinum, sem komnir eru í þrot og geta ekki staðið undir skuldabyrði sinni.
Eftir stærsta mótmælafund sögunnar, sem haldinn var á Austurvelli á meðan á þingsetningarræðu Jóhönnu stóð á mánudagskvöldið var, var ráðherrunum svo brugðið að þeir byrjuðu umsvifalaust að lofa öllum skuldurum öllu fögru og gengu svo langt að gefa í skyn, að farið yrði út í almenna skuldalækkun, sem ná myndi til allra, hvort sem þeir þyrftu á því að halda eða ekki.
Í gær, þegar Jóhanna var aðeins farin að ná sér eftir mótmælasjokkið, byrjaði hún að draga í land aftur og sagði að almenn skuldalækkun yrði "skoðuð" eins og annað, en skuldamál heimilanna myndu hafa algjöran forgang á næstunni, en útskýrði ekki hvers vegna ríkisstjórninni hefði ekki dottið í hug að gera allt sem mögulegt var í þeim efnum fyrr. Hún tók jafnframt fram, að til þess að hægt væri að fara í almenna lækkun skulda, þyrfti að ná samningum við bankana, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóðina, ásamt heildarsátt við aðila vinnumarkaðarins.
Vitað er að Íbúðalánasjóður hefur ekkert svigrúm til að fella niður skuldir, bankarnir hafa engan vilja til að fara í almennar skuldaniðurfellingar, hvort sem þeir geta það eða ekki, án aðkomu skattgreiðenda og lífeyrissjóðirnir vilja alls ekki fara í slíkar aðgerðir, enda þyrfti að láta elli- og örorkulifeyrisþega sjóðanna greiða fyrir það. Um hvað á að ræða við aðila vinnumarkaðarins í þessu sambandi er óútskýrt og ekki auðséð.
Ríkisstjórnin hrökklast úr einu víginu í annað og nú er varla nema dagaspursmál, þangað til hún lýsir yfir algerum ósigri og játar að hafa aldrei meint neitt með loforðinu um almennu skuldalækkunina.
![]() |
Þingmenn vilja leysa skuldavandann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)