Upprifjun fyrir minnislausa þjóð

Á Haustráðstefnu KPMG í dag rifjaði Már Guðmundsson upp fyrir fundarmönnum að búið var að ræða um væntanlega niðursveiflu í íslenska hagkerfinu eftir "loftbóluárin" sem hófust með innkomu bankanna á fasteignamarkaðinn seinni hluta ársins 2004 og í framhaldi af því trúnni á "nýja hagkerfið", sem átti að byggjast á því að allt væri keypt, sem falt væri, á lánum og engar áhyggjur þyrfti að hafa af endurgreiðslunum, því verðmæti eigna myndi hækka endalaust og því yrði aldrei hægt að tapa á fjárfestingum framar.

Þessu gleypti almenningur við og yfirbauð hver annan á fasteignamarkaði, með þeim afleiðingum að húsnæðisverð rauk upp úr öllu valdi og meðfylgjandi lántökur sömuleiðis, bílar voru keyptir sem aldrei fyrr, bæði fínni og dýrari en áður, gegn erlendri lántöku, húsvagnar, tjaldvagnar og aðrar dýrar neysluvörur voru rifnar út á lánum og yfirdráttar- og greiðslukortaskuldir fóru upp úr öllu valdi.  Allir vildu baða sig í fínheitunum og tóku lán fyrir öllu sem hægt var að taka lán fyrir og mikill fjöldi fjölskyldna stefndi beint í gjaldþrot, þótt engin sérstök kreppa hefði skollið á, því lántökuæðið var þvílíkt hjá mörgum, að engin leið hefði verið að endurgreiða öll lánin, miðað við eðlileg og stöðug laun í þjóðfélaginu.

Núna þykist enginn hafa tekið þátt í þessu lánarugli sjálfviljugur, því allir segjast hafa verið plataðir til að taka óhófleg lán og ekki gert sér nokkra einustu grein fyrir því hvað þeir hafi verið að gera, segjast ekki hafa skilið áhættu gengis- og verðtryggðra lána, ekki skilið hvað annuietslán væri, eða hvernig slík lán væru endurgreidd og yfirleitt ekki botnað upp eða niður í fjármálum yfirleitt og því orðið fórnarlömb "glæpamanna" í bönkunum, sem hafi logið út lánum, eins og þeir fengju borgað fyrir það, sem var auðvitað reyndin.  Nú er svo komið að enginn vill endurgreiða lánin sem hann tók, hvort sem hann getur það eða ekki, því ef greiðslugeta er fyrir hendi er bara borið við skorti á greiðsluvilja og þess krafist að vegna þessa skorts á greiðsluvilja einstaklinganna verði einhver annar látinn greiða skuldirnar fyrir þá.

Vegna alls þessa er upprifjun seðlabankastjórans gott innlegg inn í umræðuna og ekki síst eftirfarandi:  "Már sagði einnig að hafa beri í huga að margs konar áföll hafi dunið á íslenska hagkerfinu árið 2008. Gengi krónunnar hafi hrunið vorið 2008, bankahrun haustið sama ár og mikill samdráttur í erlenda hagkerfinu á fjórða ársfjórðungi 2008 og fyrsta fjórðungi 2009. Sagði Már að það væri verðugt rannsóknarefni að skoða hver þessara þátta hefði ráðið mestu um þann samdrátt sem varð hér á árunum 2009 og 2010, en það myndi hins vegar ekki koma honum á óvart ef í ljós kæmi að bankahrunið sjálft hefði ekki ráðið mestu."

Ef að líkum lætur mun ekki standa á gagnrýninni á þessa ræðu Más Guðmundssonar og bendingar á allan þann skara "glæpamanna" sem ollu lánabrjálæði heimilanna á þessum árum "nýja hagkerfisins".


mbl.is Samdráttur lá alltaf fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða hald er í ESB?

Össur Skarphéðinsson fer mikinn í fjölmiðlum þessa dagana og dásamar ESB og segir að innlimun Íslands í stórríkið verði landinu og þjóðinni til mikillar blessunar og ekki síst muni upptaka evru bjarga atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar.  Öll hans rök eru þó falsrök, en slíkir smámunir hafa aldrei flækst neitt fyrir þeim ágæta manni.

Grikkland, sem er innlimað í ESB og notar evru sem gjaldmiðil er að hruni komið efnahagslega og hafa ýmsir efnahagssérfræðingar sagt, að eina bjargráð Grikkja sem hald myndi vera í, væri að skipta aftur í sinn gamla gjaldmiðil, Drökmuna, enda hentaði evran, sem í raun er þýska markið undir nýju nafni, alls ekki öðrum ríkjum en Þýskalandi sjálfu og ef til vill nágrannaríkjum þess.

Á fjármálaráðstefnu Financial Times hélt Mohamed El-Erian, framkvæmdastjóri PIMCO, stærsta skuldabréfasjóðs heimsins, ræðu og sagði að gjaldþrot gríska ríkissjóðsins væri óumflýjanlegt innan þriggja ára, þrátt fyrir fjáraustur AGS og ESB til Grikklands í þeirri örvæntingarfullu von að bjarga mætti ríkissjóði landsins og þar með evrunni, sem myndi hrynja sem trúverðugur gjaldmiðill með hruni gríska ríkissjóðsins og þar með sönnun þess að evran væri ónýt sem fjölþjóðamynt.

El-Erian taldi að skuldastaða Grikklands minnti mjög á stöðu sumra ríkja Rómönsku-Ameríku fyrir nokkrum áratugum opg að mikil hætta væri á því að næstu tíu árin í Grikklandi myndu einkennast af miklu atvinnuleysi og litlum hagvexti á meðan ríkið skæri niður útgjöld til þess að standa undir skuldabyrðinni. Með þessu vísaði hann til níunda áratugarins sem oft verið kallaður „týndi áratugurinn“ í hagsögu Rómönsku-Ameríku. Grikkir hafa nú þegar fengið forsmekkinn af þessu. Atvinnuleysi hefur ekki mælst meira í tíu ár og er nú um 12%. Á sama tíma er gert ráð fyrir að hagvöxtur dragist saman 4% í ár og 2,6% á næsta ári.

Þrátt fyrir að á Íslandi hafi orðið það sem margir segja mesta efnahagshrun veraldarsögunnar, spáir ríkisstjórnin 3% hagvexti hérlendis á næsta ári og þó varlega skuli treysta því sem frá stjórninni kemur, er þó a.m.k. ekki líklegt að hagvöxtur verði minni en enginn næstu misseri og er það eingöngu krónunni að þakka og sterkri stöðu útflutningsatvinnuveganna hennar vegna.

Skyldi það vera tilviljun að raddir skuli vera farnar að heyrast frá írskum hagfræðingum, að eina bjargráð Írlands út úr kreppunni þar í landi sé úrsögn úr ESB og nýr gjaldmiðill í stað evru?


mbl.is Grískt greiðslufall óumflýjanlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að bjarga rjúpnaskyttum þessa helgina?

Á morgun opnast fyrir hina árlegu rjúpnaveiði og einhver hundruð manna hafa beðið spennt eftir því að komast til þess að ná í jólamatinn og svo eru nokkrir, sem þessar veiðar stunda af hreinni peningagræðgi og skjóta nánast á allt kvikt, þrátt fyrir sölubann á rjúpunni.  Einmitt vegna sölubannsins selst rjúpan á svarta markaðinum á háu verði og eins og annarri svartri starfsemi fylgja skattsvikin jólamatnum, sem settur er í pottinn með þessari aðferð.

Hverri einustu rjúpnavertíð hefur fylgt að björgunarsveitir séu kallaðar út til að leita að týndum rjúpnaskyttum og hafa þessar óeigingjörnu sveitir þrautþjálfaðra karla og kvenna bjargað ófáum rjúpnaskyttulífum í áranna rás.  Á hverri einustu rjúpnavertíð hafa verið gefnar út viðvaranir frá veðurstofum vegna líklegra óveðra, en oftast láta rjúpnaskytturnar slíkar viðvaranir sem vind um eyru þjóta og halda eftir sem áður til fjalla eftir jólamatnum og björgunarsveitir hafa svo fylgt í kjölfar búdrýgindamannanna.

Nú er spáð snarvitlausu veðri nánast um allt land á opnunardegi rjúpnaveiðanna.  Hvað skyldu margar skyttur lenda í vandræðum og villum vegna veðurs þessa helgina?


mbl.is Útlit fyrir afar slæmt veður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband