13.10.2010 | 15:50
Nennir Jón Gnarr ekki að sinna borgarstjórastarfinu?
Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hyggst breyta stjórnkerfi borgarinnar á næstunni og stofna ný og breytt embætti, sem eiga að taka mest alla vinnu af borgarstjóranum og gefa honum þannig tíma til að sinna sínum eigin áhugamálum, sem eins og allir vita snúa aðallega að leiklist og fíflagangi.
Nú vill Jón Gnarr losna við allt stúss í kringum sviðsstjóra og aðra sem að verklegum þáttum koma hjá borginni og þar með þarf borgarstjórinn ekki lengur að vera að setja sig inn í þau mál, eða sitja á leiðinlegum fundum um verkefni borgarinnar. Hann hefur marg sagt að hann sé hundleiður á allri þeirri fundarsetu, sem starfinu fylgir og fái þar að auki höfuðverk af því að þurfa að hlutsta á umræður mjög lengi og þar að auki detti hann bara út og umfjöllunarefnið festist honum ekki í minni.
Í sjónvarpsþætti nýlega sagði Jón Gnarr að hann væri alltaf að skrifa handrit að uppistandi og sjónvarpsþáttum og nú þegar væri hann búinn að safna að sér talsverðu efni í nýja gamanseríu í borgarstjórastarfinu og vonaðist eftir að fá tækifæri að kjörtímabilinu loknu til að vinna það efni fyrir sjónvarp, enda yrði hann að þeim tíma liðnum kominn með ógrynni af efni til að moða úr.
Þar sem Jón Gnarr hyggst hætta að skipta sér að mestu af daglegum rekstri borgarinnar og ætlar þá væntanlega að snúa sér af meiri krafti að handritsskrifum fyrir væntanlega sjónvarpsseríu, ætti líklega að hætta að titla hann sem borgarstjóra og nefna hann frekar borgarlistamann.
Þá yrðu borgarstjóralaunin væntanlega kölluð sínu rétta nafni eftir það, eða listamannalaun.
![]() |
Ný staða eða aukin verkefni? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
13.10.2010 | 11:37
5-10 flokka ríkisstjórnir?
Rúmlega 70% þjóðarinnar telja mikla, eða frekar mikla, þörf fyrir nýja stjórnmálaflokka á Alþingi til viðbótar við núverandi flokka, eða í staðinn fyrir þá, ef marka má nýja skoðanakönnun MMR. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt í lýðræðisríki að fólk með líkar skoðanir á málefnum stofni með sér samtök eða flokka til að vinna skoðunum sínum fylgis og koma sínu fólki í valdastöður til þess að þessar skoðanir og lífsviðhorf fái að njóta sín við lagasetningar á Alþingi og í stjórn landsins.
Það sem er þó heldur kvíðavænlegt við að flokkar á Alþingi skipti jafnvel tugum er, að erfitt gæti orðið að mynda starfhæfa meirihluta á þinginu, því fram að þessu hafa þriggja flokka meirihlutar aldrei náð að starfa saman heilt kjörtímabil og eins og allir vita, hangir núverandi tveggja flokka stjórnarsamstarf varla saman, nema á valdafíkninni og gerir meira ógagn en gagn, t.d. í atvinnumálum.
Því fleiri flokkar sem bjóða fram til Alþingis, því líklegra er að margir þeirra verði myndaðir um fá, eða jafnvel einstök hagsmunamál, að líklegt verður að telja að afar erfitt gæti orðið að mynda starfhæfa meirihluta á þinginu, enda er það reynsla þeirra þjóða þar sem fjöldi stjórnmálaflokka er mikill.
Þyki fólki vera losarabragur á Alþingi núna, hvernig halda menn að ástandið verði þegar t.d. tuttugu flokkar eiga þar fulltrúa? Hvað sem því líður er það sjálfsagður lýðræðislegur réttur að stofna sem flesta stjórnmálaflokka og bjóða þá fram í þingkosningum.
![]() |
70% vilja ný framboð til Alþingis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.10.2010 | 09:29
Engar almennar niðurfellingar skulda
Eftir tunnubarsmíðarnar á Austurvelli, þar sem áttaþúsund manns, komu saman til að mótmæla getuleysi lélegustu ríkisstjórnar lýðveldissögunnar í öllum málum, ekki síst atvinnumálum og vanda heimilanna, hefur ríkisstjórnin reynt að kaupa sér frið og framhaldslíf með síendurteknum loforðum um að nú skuli vandamál heimilanna "sett í forgang" og þykir mörgum það síst vera ofrausn, í tilefni tveggja ára afmælis efnahagshrunsins.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur látið í veðri vaka, að til greina komi að farið verði út í almennar skuldaniðurfærslur, jafnvel um 18% í anda tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna, en Steingrímur J. hefur passað sig á að taka ekki undir það, enda mun ekki verða farið út í slíkar aðgerðir, enda myndi kostnaðurinn af því lenda af mestum þunga á elli- og ororkulífeyrisþegum lífeyrissjóðanna og afgangurinn á skattgreiðendum.
Til að reyna að fela aðgerðarleysið og ekki síður til að geta reynt að kenna öðrum um, þegar kemur að því að tilkynna að ekki verði unnt að fara í almennar skuldaniðurfellingar, hefur ríkisstjórnin verið að boða stjórnarandstöðuna og hinar ýmsu nefndir Alþingis á fundi til að láta líta út fyrir að verið sé að kynna og ræða tillögur um skuldamálin og "nánari útfærslur" þeirra, sem kynntar yrðu "í næstu viku", eins og vinsælasti frasi ríkisstjórnarinnar hefur hljómað í eitt og hálft ár.
Um þessa fundi má vitna til þriggja aðila, sem þá hafa setið og hafa þetta um málið að segja í viðtendri frétt: ""Skemmst er frá því að segja að ekkert nýtt kom fram á þessum fundi, segir Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, segir andrúmsloftið á fundinum hafa verið gott, og samstarfsvilja hjá viðstöddum. En ekkert nýtt var kynnt og hvað þá almennar aðgerðir. Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tekur í sama streng. Það virðist greinilega vera þannig að stjórnvöld eru komin mjög skammt á veg með þessa svokölluðu verkáætlun um lausnir í skuldamálum heimilanna."
Velkist einhver í vafa lengur um tilgang "fundanna"? Auðvitað eru þeir haldnir til að reyna svo að kenna öllum öðrum en ríkisstjórninni um að niðurstaða þeirra verður engin og framkvæmdir í framhaldinu minni en engar.
![]() |
Engin verkáætlun kynnt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)