1.10.2010 | 19:21
Er Steingrímur J. loksins að kveikja?
Eitthvað örlítið virðist vera að rofa til í höfði Steingríms J., því hann sýnist loksins hafa uppgötvað það í mótmælunum í dag, að fólk væri óánægt með ástandið í þjóðfélaginu og vildi aðgerðir til aðstoðar skuldugum heimilum. Að vísu hefur þessum kröfum verið haldið á lofti í meira en eitt og hálft ár, en ríkisstjórnin hefur fram að þessu haldið að fólk væri bara að grínast með þessi mál.
Steingrímur segir að líklega sé fólkið ekki að mótmæla ríkisstjórninni, þó það sé að krefjast afsagnar stjórnarinnar og nýrra þingkosninga. Það heldur Steingrímur að sé alls ekki í raun vantraust á ríkisstjórnina, enda sé fólkið bara óánægt með skuldastöðuna, en ekki ráðherrana.
Nú þegar styttist í tveggja ára afmæli hrunsins er Steingrímur J. þó að byrja að kveikja á þeim vandamálum, sem almenningur er að glíma við í landinu og batnandi manni er best að lifa. Eftir því sem skilningur Steingríms eykst, fer hann kannski að sjá að atvinnuleysi er eitt mesta böl, sem vinnufús maður lendir í og atvinnuleysið er undirrót vanda fjölda heimila og hefur rekið þau út í vanskil og gjaldþrot.
Vonandi tekur ekki tvö ár í viðbót fyrir Steingrím að öðlast fullan skilning á þessum vandamálum.
![]() |
Óánægja vegna skuldavanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.10.2010 | 16:16
Bankarnir verði rannsakaðir
Starfsemi bankanna eftir endurreisn þeirra hefur verið þoku hulin og í raun veit enginn eftir hvaða reglum, ef nokkrum, þeir starfa í sambandi við skuldauppgjör einstaklinga og fyrirtækja. Fyrirtæki eru látin lifa og deyja eftir einhverju lögmáli, sem enginn skilur og skuldir eru afskrifaðar svo tugum milljarða nemur hjá sumum, á meðan önnur fyrirtæki eru sett í þrot fyrir tiltölulega litlar skuldir.
Sama á við um einstaklinga, enginn veit hvort kunningsskapur ræður þar einhverju um afgreiðslu mála, en heyrst hafa raddir um einkennilegar móttökur sem skuldarar hafa fengið hjá lánastofnunum. Í einhverjum tilfellum hafa bankarnir hert innheimtuaðgerðir sínar og jafnvel knúið fólk í gjaldþrot, um leið og þeir hafa frétt af því, að viðkomandi hafi leitað til Umboðsmanns skuldara og þannig gert möguleikana á skuldaaðlögun að engu. Slík framkoma af hálfu bankanna er algerlega óverjandi.
Nú eru að birtast fréttir af því að tvöþúsunogsexhundruð milljónir króna hafi verið afskrifaðar af félagi í eigu eins stöndugasta útgerðarfélags landsins, allir vita af afskriftum vegna fyrirtækja útrásarvíkinga, Jón Ásgeir á ennþá lúxusíbúðir austan hafs og vestan, ásamt skíðahöll, Bakkabræður halda öllu sínu, þar á meðal skíðahöll, eins og Jón Ásgeir, Pálmi í Iceland Express kemst upp með að stinga fyrirtækinu undan gjaldþroti Fons, ásamt flugfélaginu Astereus og heldur áfram og útvíkkar rekstur þeirra og engum virðist þykja neitt athugavert við það.
Svona mætti lengi telja og því er reiði almennings, sem stigmagnast, afar skiljanleg og til þess að fá einhvern botn í vinnubrögð lánastofnana verður að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að fara ofan í starfsemi þeirra eftir hrun, ásamt því að rannsaka störf skilanefnda gömlu bankanna frá árinu 2008.
Það er ekki nóg að gera upp tímann fyrir hrun, það þarf ekki síður uppgjör á það sem hefur verið að gerast eftir það.
![]() |
Réðist inn í Landsbankann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2010 | 14:02
Skríllinn mættur á Austurvöll
Samkvæmt fréttum eru nokkur hundruð manns á Austurvelli að mótmæla við þingsetninguna og í hópnum eru greinilega nokkrir upphlaups- og ofstopamenn, því strax í upphafi mótmælanna voru rúður brotnar í Dómkirkjunni og eggjum, tómötum og einhverju fleiru var kastað í þingmenn á leið þeirra frá Alþingishúsinu í kirkjuna. DV segir frá því, að m.a. hafi eggi verið kastað í höfuð Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og eins mun hafa verið púað á forsetann, sem a.m.k. til skamms tíma var einn allra vinsælasti maður þjóðarinnar.
Jafn sjálfsögð og friðsöm mótmæli eru, á að fordæma með öllu skrílslæti, uppþot og ofbeldi tengd þeim, en ofstopamenn eru gjarnir á að nýta sér slíkar aðstæður til óhæfuverka og reyna að réttlæta ofbeldishneigð sína og ribbaldahátt með því að illvirkin séu framkvæmd í mótmælaskyni við eitthvert málefni, ríkisstjórn á hverjum tíma, eða bara hverju sem mótmælt er hvert sinn.
Sem betur fer er óþjóðalýðurinn sem fyrir skrílslátunum stendur aðeins lítið brot þeirra sem mæta til mótmæla, en setja hins vegar ljótan svip á ástandið, hvar sem hann blandar sér í fjöldann.
![]() |
Eggjum kastað í alþingismenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
1.10.2010 | 09:56
Úr upplausn í algjört öngþveiti?
Einar Mar Þórðarson, stjórnmálafræðingur, telur að stjórnmálaflokkarnir muni ekki vilja nýjar kosningar á næstunni, vegna hræðslu um að fram komi nýjir framboðslistar í anda Besta flokksins, enda hafi óvenju margir verið óákveðnir í síðustu skoðanakönnun, um hvað þeir myndu kjósa í næstu kosningum.
Það er í sjálfu sér skiljanlegt, að miðað við fordæmið sem við öllum blasir í stjórn Reykjavíkurborgar núna, séu menn ekki áfjáðir í að fá álíka lista og Besta flokkinn inn á Alþingi, sem er miklu merkilegri og þýðingarmeiri samkoma en sveitarstjórnin í höfuðborginni. Alþingi er mikilvægasta og merkasta stofnun lýðveldisins og þangað eiga ekki að veljast aðrir en úrval bestu sona og dætra þjóðarinnar, þó nú um stundir njóti Alþingi ekki þeirrar virðingar, sem það á skilið.
Þyki fólki að nú ríki óvissa og ákveðin upplausn í þinginu, þá getur getur lausnin á þeim vanda varla verið að búa til enn meiri ringulreið með því að kjósa í staðinn inn á þingið Gnarrara og aðra álíka vanhæfa einstaklinga til að setja þjóðinni lög til að lifa eftir. Það sem vantar aðallega núna, er starfhæf ríkisstjórn, en bæði Jóhanna og Steingrímur haf sýnt að þau hafa engin tök á landsstjórninni, enda flestir sem bundu vonir við þeirra flokka, löngu gengnir af þeirri trú.
Ekki er ólíklegt, að stjórnin springi á limminu við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár og verður að mynda nýja ríkisstjórn hið allra fyrsta og best væri að núverandi þingmenn öxluðu þá ábyrgð, því ekki er vænlegt að boða til kosninga um miðjan vetur og láta landið verða algerlega stjórnlaust í nokkra mánuði fram að kosningum og fyrst þar á eftir, á meðan ný stjórn væri mynduð.
Sú upplausn sem nú ríkir í stjórn landsins og þjóðfélaginu öllu verður ekki leyst með algerri ringulreið.
![]() |
Skíthræddir við nýtt framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)