29.1.2010 | 23:14
Alger niðurlæging
Bretar og Hollendingar hafa kúgað og rassskellt ráðamenn á Íslandi í hálft annað ár og virðast þeir íslensku vera orðnir svo háðir kvölurum sínum, að þeir eru farnir að sækjast í að láta hæða sig og spotta á opinberum vettvangi.
Síðast liðið sumar skrifaði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherralíki, auðmjúkt bréf ti forsætisráðherra Breta og Hollendinga og bað um viðtal við þá, væntanlega til að játa þeim hollustu siína, en þeir virtu hana ekki viðlits og svöruðu bréfunum ekki fyrr en eftir marga mánuði, án þess að samþykkja nokkurt samtal við frúna.
Síðan hafa þessir kvalarar íslensku þjóðarinnar ekkert sýnt, nema hortugheit og staðið óhaggaðir við sínar ýtrustu og ólöglegu kröfur um að Íslendingar greiði obbann af sköttum sínum næstu áratugi til þessara erlendu þrælahaldara. Ekki nóg með að þeir vilji að íslenska ríkið ábyrgist höfuðstól þeirra greiðslna, sem þeir inntu af hendi, umfram lágmarksinnistæðutryggingu, heldur okurvexti að auki.
Steingrímur J., fjármálaráðherralíki, plataði formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks með sér á fund í Haag, væntanlega undir því yfirskini, að þrælapískararnir ætluðu að sýna einhverja sanngiri í málinu, en það var öðru nær. Ferðin var enn ein niðurlæging íslenskra ráðamanna, enda kom ekkert nýtt fram á fundinum. Eingöngu voru ítrekaðar kröfurnar um greiðslurnar ólöglegu, með okuvöxtunum.
Fram kemur í hollenskum fjölmiðli að: "Frá sjónarhóli hollenskra stjórnvalda væri tilgangurinn fyrst og fremst að fá skýrslu um stöðuna á Íslandi."
Sendinefndin var sem sagt kölluð til Haag til þess að gefa Hollendingum skýrslu um stöðuna á Íslandi.
Hvað ætla Íslendingar að láta niðurlægja sig lengi?
Vonandi ekki lengur en fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þá verða kjósendur að segja NEI, hingað og ekki lengra.
![]() |
Hollendingar gefa sig ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.1.2010 | 15:23
Farðu nú að semja nýja ræðu, Jóhanna
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherralíki, ávarpaði fund sóknaráætlunar 20/20, sem er sýndarnefnd á vegum ríkisins, og flutti þar sömu ræðuna og hún er búin að flytja ótal sinnum á undanförnum mánuðum.
Kjarninn í ræðunni er þessi: Við erum að glata dýrmætum tíma og tafir á framkvæmd efnahagsáætlunar Íslands og AGS, frestun á áætlun um afnám gjaldeyrishafta og takmarkanir á aðgengi Íslands að alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum munu verða okkur afar dýrkeypt ef fram heldur sem horfir"
Einnig fylgdi þetta með: "Ljóst er að óvissa í efnahagsmálum hefur aukist vegna frestunar á því að leysa deiluna um bætur til innistæðueigenda útibúa Landsbankans erlendis." Nú heitir það að leysa deiluna um bætur, en ekki greiðslu á "alþjóðlegum skuldbindingum" Íslendinga og er þetta orðalag eina tilbreytingin frá fyrri ræðum.
Það er ekki fyrst og fremst "deilan um bætur", sem tafið hefur allar efnahagsumbætur hérlendis, heldur aðgerðarleysi ríkisstjórnarnefnunnar sjálfrar og sú staðreynd, að hún hefur gert allt sem í hennar valdi hefur staðið, til að koma í veg fyrir þá atvinnuuppbyggingu, sem kostur hefur verið á, allt undanfarið ár og sér ekki fyrir endann á þeirri skaðlegu framgöngu ennþá.
Þær litlu framkvæmdir sem ríkið hefur ætlað að ráðast í, hafa tafist vegna hringlandaháttar og nægir þar að nefna staðsetningu samgöngumiðstöðvar, sem dæmi.
Jóhanna þarf að láta semja handa sér nýja ræðu og hún og félagar hennar í ríkisstjórnarnefnunni, að fara að hugsa um fleiri mál en Icesave, enda á það ekki að vera neitt forgangsmál, því það ætti nánast ekki að koma ríkissjóði nokkuð við.
Jóhanna getur ekki afsakað ræfildóminn endalaust með Icesaverugli.
![]() |
Jóhanna: Vextir lækka en óvissa eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2010 | 13:23
Óbreyttur hópur gegn Frökkum
Á morgun verður háður einhver afdrífaríkasti handboltaleikur sögunnar, þar sem Íslendingar mæta Frökkum í undanúrslitum EM.
Frakkar eru nú heims- og Ólimpíumeistarar og eru áfjáðir í að bæta Evrópumeistaratitlinum við og veraða þannig fyrstir karlalandsliða til að hampa öllum titlunum þrem á sama tíma. Þeir munu því koma til leiksins á morgun fullir eldmóðs og berjast eins og hungruð ljón til síðustu sekúndu.
Íslendingar hafa aldrei átt betra og reynslumeira lið, en það sem nú er að leika á EM og eftir að hafa unnið silfrið á ÓL, eru þeir komnir á bragðið og munu gera allt sem þeir mögulega geta, til að leggja Frakkana að velli á morgun og tryggja sér þátttöku í úrslitaleiknum sjálfum á sunnudaginn.
Þetta verður erfiður leikur, en liðið hefur sýnt, að ef allt smellur saman, getur það unnið hvaða lið sem er, enda orðið eitt af þeim bestu í heiminum.
Þjóðin mun standa sem ein sál með liðinu á morgun og hvernig sem fer, verða þetta "strákarnir okkar" áfram. Hvað sem gerist á morgun, er liðið orðið öruggt um sæti á heimsmeistaramótinu á næsta ári og þá verður skemmtunin og ánægjan, sem liðið hefur veitt löndum sínum endurtekin.
ÁFRAM ÍSLAND.
![]() |
EM: Óbreyttur leikmannahópur Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2010 | 11:31
Samræma málflutninginn
Ólafur Ragnar Grímsson, notar aðstöðu sína til hins ýtrasta til að ræða stöðu Íslands og Icesave málið í erlendum fjölmiðlum, t.d. í útsendingum ýmissa sjónvarpsstöðva, sem sérhæfa sig í fréttaflutningi um allan heim. Fáir, ef nokkrir, af framámönnum þjóðarinnar, hafa rætt við jafn marga og útbreidda fjölmiðla og hann, þannig að málflutningur hans fer miklu víðar, en annarra.
Það er vægast sagt óheppilegt, að forsetinn og ráðherrarnir skuli ekki tala máli, þegar þeir eru að ræða Icesavemálið við erlenda fjölmiðla, því ráðherrarnir tala ekki um annað en að Íslendingar "muni standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar", án þess að útskýra nokkurn tíma í hverju þær ættu að vera fólgnar.
Lágmarkskrafa ætti að vera, að þessir aðilar samræmdu málflutning sinn, þannig að allir aðilar töluðu sömu röddu um málið, en rugluðu það ekki, með misvísandi yfirlýsingum, eftir því hver er að tala hverju sinni.
Einu "alþjóðlegu skuldbindingarnar" af Íslands hálfu var að stofna Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta og ef sá sjóður þarf að taka lán, til að standa við sínar skuldbindingar, þá er það hans mál, en ekki íslenskra skattgreiðenda.
Bretar og Hollendingar greiddu Icesave innistæðueigendum meira en sjóðnum bar skylda til að tryggja og verður það að vera á þeirra ábyrgð. Einnig lánuðu þeir tryggingasjóðnum fyrir hans hluta og eiga því forgangskröfu í þrotabú Landsbankans, að upphæð 20.807 Evrur á hvern innistæðueiganda, en ekki fyrir umframgreiðslum sínum.
Svavarssamningurinn gefur þeim þó jafnstæða kröfu á tryggingasjóðinn fyrir umframgreiðslunum og því er óvíst að eignir Landsbankans dugi fyrir kröfum beggja og Svavari og Steingrími J., fannst þá bara sjálfsagt að láta íslenska skattgreiðendur þræla fyrir þessum aukakröfum og það með háum vöxtum.
Íslendingar hafa staðið við allar "alþjóðlegar skuldbindingar" varðandi Icesave og um það eiga ráðamenn þjóðarinnar að sameinast í málflutningi sínum.
![]() |
Ólafur Ragnar ræðir stöðu Íslands við fjölda fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.1.2010 | 09:57
Ætli vinstri grænir skilji þetta?
Vöruskiptajöfnuður síðasta árs var um 87,2 milljarðar króna, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands. Þetta er líklega algert met, því vöruskiptajöfnuður hefur verið lítill, sem enginn, undanfarna áratugi og ekki hægt að reikna með svo miklum afgangi í framtíðinni, þegar efnahagslífið og kaupmáttur almennigs tekur við sér að nýju, nema ný og öflug útflutningsfyrirtæki bætist við hérlendis á næstunni.
Ekki er líklegt að hægt verði að auka verulega við fiskveiðar á næstu árum og því enn mikilvægara að flýta uppbyggingu annarra atvinngugreina, svo sem iðnaðar og þá sérstaklega stóriðju.
Fram kemur að: "Iðnaðarvörur voru 48,2% alls útflutnings og er þetta annað árið í röð, frá því að skráning á árlegum útflutningi hófst með reglubundnum hætti árið 1862, sem hlutdeild iðnaðarvara er hærri en sjávarafurða. Verðmæti iðnaðarvara var 26,5% minna á árinu 2009 en árið áður og vó ál þyngst í útflutningnum. Sjávarafurðir voru 42,0% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 9,2% minna en á sama tíma árið áður."
Álverð var tiltölulega lágt á heimsmarkaði á síðasta ári, en hefur farið mjög hækkandi undanfarnar vikur og því er tími til kominn að vinstri grænir fari að tala af virðingu um þessa aðalútflutningsgrein landsins og hætti skemmdarverkum sínum gegn frekari uppbyggingu í greininni.
Allur sá gjaldeyrir, sem fæst út úr þessum vöruskiptajöfnuði, dugar ekki til greiðslu vaxta og afborgana af Icesave einu saman á næstu árum og eru þá allar aðrar vaxtagreiðslur og afborganir þjóðarbúsins af erlendum skuldum eftir og enginn gjaldeyrir til fyrir þeim.
Vinstri grænir og aðrir verða að skilja það, að efling útflutningsatvinnuveganna er nauðsynlegasta efnahagsaðgerðin sem þarf að ráðast í og verður að hafa forgang á allt annað næstu árin.
![]() |
Vöruskiptin hagstæð um 87,2 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2010 | 08:35
Augu beinast að þjóðaratkvæðagreiðslu, sem aldrei verður haldin
Írska dagblaðið Irish Times birti viðtal við Ólaf Ragnar, forseta, og segir í framhaldi af því, að allra augu muni beinast að Íslandi, vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem boðuð hefur verið 6. mars n.k.
Forsetinn gerir sitt besta, til þess að útskýra málið fyrir blaðamanninum, ólíkt því sem ráðherralíki ríkisstjórnarnefnunnar hafa gert, enda vilja þeir enga þjóðaratkvæðagreiðslu og gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að flauta hana af.
Síðasta áróðursbragð Steingríms J. var, að fresta yrði atkvæðagreiðslunni, svo kjósendur hefðu tíma til að lesa og melta skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, en lét þess ógetið hvers vegna hann sagði strax í fyrravor, að engan tíma mætti missa og Alþingismenn yrðu að samþykkja Icesave lögin strax, því hver einasti dagur væri svo dýrmætur. Ekki var talin nokkur einasta ástæða fyrir þingheim, að bíða niðurstöðu skýrslunnar, til þess að sjá hvort hún varpaði einhverju nýju ljósi á aðdraganda málsins, eins og Steingrímur J. segir nú, að þjóðin þurfi að vita, áður en hún ákveður sig í málinu.
Þessi frestshugmynd er eingöngu sett fram til vara, ef ekki skyldi takast að ná einhverri smávægilegri breytingu á samningnum við Breta og Hollendinga, sem hægt væri að nota til að afturkalla lögin og setja ný, lítið breytt, í þeirri von, að fosetinn synji nýjum breytingarlögum ekki staðfestingar.
Vegna þessa, er Steingrímur J. nú að draga formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks með sér í teboð hjá fjármálaráðherrum kúgunarlandanna, með það í huga að fá þá til að taka þátt í afnámi þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Augun, sem hvíla á þjóðaratkvæðagreiðslunni mega ekki blikka, því þá verður búið að slá hana af.
![]() |
Allra augu á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)