Jibbí jei og jibbí jei, það er kominn September

Þjóðinni hlýtur að hafa létt ótrúlega mikið, við þá yfirlýsingu Steingríms J., að það væri kominn September.  Það bendir til þess, að hann sé þá búinn að átta sig á því, að þjóðin er búin að bíða frá því í Febrúar, eftir því að ríkisstjórnin kæmi með efnahagsaðgerðir, sem dygðu til að koma efnahagslífinu í gang, að ekki sé talað um raunhæfar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

Annað sem er athyglisvert, er að Steingrímur segir að stjórnarandstaðan hefði átt að sofa á höfnun Breta og Hollendinga á fyirivörnunum við ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Landsbankans, en sjálfur sagði hann og Jóhanna reyndar líka, í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi, að vonandi yrði hægt að ganga frá málinu á morgun, sem sagt í dag.  Nú segir sami Steingrímur, að málið muni þurfa að fara aftur til afgreiðslu á Alþingi, sem ekki kemur saman fyrr en í Október.

Vonandi er Steingrímur með það á hreinu, að Október kemur næstur á eftir September.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær, að ríkisstjórnin virðist vera að vakna af Þyrnirósarsvefninum.


mbl.is Það er kominn september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi fella Írar

Bundesrat, efri deild þýska þingsins hefur nú samþykkt lög, sem heimila staðfestingu Lissabonsáttmálans.  Tímasetningin er engin tilviljun, því hún er hugsuð til að setja pressu á almenning í Írlandi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna þar í landi þann 2. október.

Írar hafa áður hafnað sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu og nú eru úrslit tvísýn, samkvæmt skoðanakönnunum og því er öllu til tjaldað, til þess að reyna að tryggja samþykki sáttmálans í þjóðaratkvæðagreiðslunni nú.

Írum hefur verið lofað nokkrum undanþágum frá sáttmálanum, t.d. varðandi fóstureyðingar og nú hefur öll ESB maskínan verið virkjuð í áróðrinum á Írlandi, en vonandi láta Írar ekki snúa sér í þessu máli.

Það yrði tímamótasigur í baráttunni gegn sambandsríki ESB, ef Írar felldu sáttmálann.


mbl.is Staðfestu Lissabon-sáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar og Hollendingar sveifla þrælapískinum

Nú er komið í ljós, að Bretar og Hollendingar hafna fyrirvörum Alþingis um ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Landsbankans og það er eins og við manninn mælt, að hin þreytuhokna Jóhanna og umskiptingurinn Steingrímur snúa strax svipubörðum afturenda sínum að þrælahöfðingjunum og nánast grátbiðja um að fá að ganga svipugöngin aftur.

Undirlægjuháttur Steingríms í málinu er nánast óskiljanlegur, en ræfildómur Jóhönnu kemur ekki á óvart, enda lítur hún á Icesavesamninginn sem aðgöngumiða að ESB og til þess að komast þangað inn, er Jóhanna og Samfylkingin tilbúin að fórna hvaða hagsmunum þjóðarinnar sem er.

Ríkisábyrgðin með þeim fyrirvörum, sem Alþingi setti fyrir henni, var afgreidd, illu heilli fyrir þjóðina, sem lög frá Alþingi og því ber ríkisstjórninni að fara eftir þeim lögum, en ekki í kringum þau.  Því er ályktun þingflokks Sjálfstæðisflokksins afgerandi, en hún er svona: 

„Höfnun Breta og Hollendinga á þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti í lok ágúst við Icesavesamningana, felur í sér að ríkisábyrgð vegna skuldbindinganna tekur ekki gildi.

 

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins telur að ekki komi til greina að hverfa frá þeim fyrirvörum sem Alþingi samþykkti vegna ríkisábyrgðarinnar.

 

Ríkisstjórn Íslands hefur ekki heimild til að víkja frá þeim skýru fyrirvörum sem gildandi lög kveða á um.”

Málið er í raun einfalt, annaðhvort samþykkja þrælahöfðingjarnir fyrirvarana eða ekki.  Geri þeir það ekki, tekur ríkisábyrgðin ekki gildi og samningurinn þar með ónýtur. 

Þá þarf að setja saman alvörunefnd til að koma Bretum og Hollendingum í skilning um að þessar skuldir séu ekki á ábyrgð íslensku þjóðarinnar, samkvæmt tilskipun ESB.


mbl.is Ríkisábyrgð tekur ekki gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband