Köngulóarvefur viðskipta

Kröfur í þrotabú Baugs nema a.m.k. 233 milljörðum króna og þar af eru óveðtryggðar skuldir a.m.k. um 50 milljarðar króna.  Veðkröfurnar eru að mestu hjá gjaldþrotabönkunum þrem, enda höfðu útrásarmógúlarnir óheftan aðgang að fjármunum þar.  Eins og kunnugt er, var búið að flytja allar helstu innlendar eignir félagsins yfir í einkafélag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, en erlendu eignirnar hafa allar verið yfirteknar af lánastofnunum og er tapið af þeim því ekki ljóst ennþá.

Athygli vekur að meira en þriðjungur hinna óöruggu veðkrafna var vegna skulda Baugs við tengda aðila eins og Landic Property, Fons og Stoðir.  Þessi félög eru öll komin í gjaldþrotameðferð og skulda gjaldþrotabönkunum gífurlegar fjárhæðir, sem samkvæmt þessu hafa verið endurlánaðar til Baugs, að einhverjum hluta.  Alltaf kemur því betur og betur í ljós hvernig þessi viðskiptavefur hefur verið spunninn, þó ekki sjáist nema brot af ísjakanum, t.d. vegna allra fyrirtækjanna sem skráð eru í skattaparadísum, hringinn í kringum hnöttinn.

Á meðan reynt er að greiða úr þessari flækju, styður almenningur við bakið á forkólfunum, með því að versla sem aldrei fyrr við þá, í þeim verslunum, sem þeim virðist ætla að takast að koma undan þrotabúinu.

Þetta eru alveg sama aðferð og venjulegar köngulær veiða bráðina í sinn vef.


mbl.is 233 milljarða skuld á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur að leiða athyglina frá aðalatriðinu

Sjálfsagt og eðlilegt er, að lögsækja alla, sem hugsanlega hafa brotið lög í sambandi við banka- og útrásarhrunið og eins sjálfsagt er, að sækja skaðabætur til þeirra allra, ef mögulegt er.  Þetta er svo sjálfsagt og eðlilegt að varla hefur hvarflað að nokkrum, að slík málaferli væru ekki í undirbúningi.  Voru ekki einmitt Rannsóknarnefnd Alþingis og embætti sérstaks saksóknara sett á fót í þessum tilgangi.

Nú fer fram lokaumræða um ríkisábyrgð á Icesave skuldir Landsbankans og virðist Steingrímur J. eingöngu vera að leiða athyglina frá þeim drápsklyfjum, sem hann er að berjast fyrir að koma á þjóðina, með þrælasamningunum við Breta og Hollendinga.

Steingrímur veit sem er, að samþykki Alþingi ríkisábyrgðina, munu Bretar og Hollendingar ekki taka nokkurt mark á þeim, enda er óleyfilegt að gera breytingar á samningnum, nema með samþykki beggja aðila.  Því má Alþingi alls ekki samþykkja ríkisábyrgðina, nema fá skriflegt samþykki Breta og Hollendinga fyrirfram.

Um þetta er nánar fjallað í þessu bloggi hérna


mbl.is Ríkið í mál vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirvarar þurfa skriflegt samþykki Breta og Hollendinga

Stjórnarflokkarnir halda þeirri blekkingu að almenningi, að fyrirvarar sem Alþingi hyggst samþykkja vegja ríkisábyrgðar á Icesave skuldum Landsbankans, "rúmist innan samningsins" og því þurfi ekkert að hafa áhyggjur af því hvað Bretar og Hollendingar hafi um málið að segja. 

Ef fyrirvararnir "rúmast innan samningsins" hafa þeir auðvitað ekkert gildi, en hafi þeir breytingar í för með sér, má Alþingi alls ekki samþykkja ríkisábyrgðina, án þess að fá fyrst skriflegt samþykki Breta og Hollendinga fyrir þeim breytingum.  Slík samþykkt Alþingis væri algert glapræði, því 13. grein samningsins fjallar um allar breytingar og er fyrsti málsliður greinarinnar alveg skýr, hvað þetta varðar, en hann hljóðar svona:

"ALLUR SAMNINGURINN, BREYTINGAR

13.1    Breytingar
13.1.1    Aðeins er heimilt að gera breytingar á samningi þessum, bæta við hann eða falla frá honum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila."

Ástæða er til að minna fjármálaráðherrann Steingrím J. Sigfússon, á það sem stjórnarandstæðingurinn Steingrímur J. Sigfússon, skrifaði í Morgunblaðsgrein í janúar s.l., en þar sagði hann m.a:  "Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki tryggingasjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið:  Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn."

Stjórnarandstæðingurinn, Steingrímur J., taldi í janúar að fyrrverandi ríkisstjórn hefði ekki dug í sér til að standa gegn þvingunarskilmálunum.

Ráðherrann, Steingrímur J., hefur nú tækifæri til að bæta úr því.

 

 


mbl.is Lýsti andstöðu í bréfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið á alls ekki að kaupa

Ríkissjóður Íslands er algerlega galtómur um þessar mundir og blóðugur niðurskurður stendur fyrir dyrum í rekstri ríkisins, þar á meðal í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfum.  Á sama tíma þarf ríkið að endurfjármagna bankana til þess að koma starfsemi þeirra í eðlilegt horf, til þess að þeir geti svo eftir það lagt sitt á vogarskálar endurreisnar atvinnulífsins.

Bankarnir eru að fá í fangið öll stærstu fyrirtæki landsins og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.  Erlend lánafyrirgreiðsla til landsins og íslenskra fyrirtækja er ekki inni í myndinni til langrar framtíðar, þannig að öll endurreisn og atvinnuuppbygging mun reynast miklu erfiðari en annars væri.

Á sama tíma og verið er að glíma við þessi vandamál, leyfa menn sér þann munað, að ræða ríkisvæðingu minnihluta eignar í HS orku, en fyrirtækið er nú þegar í meirihlutaeign einkaaðila.  Það er ekki bara tímaskekkja, að ræða þessa ríkisvæðingu nú, heldur hreint glapræði, því frekar ætti að fagna hverjum dollar, sem erlendir einkaaðilar eru tilbúnir að fjárfesta hérlendis. 

Ef erlendi aðilinn stenst áreiðanleikapróf á ekki að slá hendi á móti erlendri fjárfestingu hérlendis um þessar mundir.

Hvað skyldi annars Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn segja um þessar ríkisvæðingarhugmyndir?


mbl.is Eignist hlut OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband