Af hverju var niðurstaðan ekki skynsamleg fyrir Íslendinga?

Jóhanna og Steingrímur J., með einstaka gjammi frá Össuri, hafa dásamað samninginn um Icesave skuldir Landsbankans, sagt að ekki væri hægt að fá betri samning og enginn vandi yrði fyrir þjóðina, að axla skuldbindinguna, vandinn væri ekki meiri en svo, að hækka þyrfti tekjuskatta einstaklinga um aðeins 20%.  Velferðarstjórninni finnst það ekki mikil skattahækkun, þó greiðendur skattanna séu ekki alveg á sama máli.

Í dag kom Lee Buchheit, bandarískur sérfræðingur í skuldaskilum ríkissjóða, fyrir Fjárlaganefnd Alþingis og samkvæmt fréttinni sagði hann m.a:  "Menn þurfi að fallast á að skuldin verði greidd þegar allar staðreyndir málsins liggi fyrir.  Þannig sé hugsanlegt að loka málinu um tíma þangað til eignir Landsbankans hafa verið gerðar upp og menn viti hvað þeir geti greitt."  Okkar menn hafa alltaf sagt, að sama hver upphæðin yrði, við myndum bara borga og brosa.

Áður hafði Buchheit reyndar sagt, að skynsamt fólk ætti að geta komist að skynsamlegri niðurstöðu.

Hvers vegna skyldu íslensku samningamennirnir og ríkisstjórnin ekki hafa komist að þannig niðurstöðu í málinu?

Því verður hver að svara fyrir sig.


mbl.is Skynsamlegt að semja að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilraunalagasetning

Við myndun ríkisstjórnarinnar setti hún sér verkefnalista, sem átti að framkvæma á fyrstu hundrað starfsdögum hennar.  Síðan hefur reglulega verið gefnar út yfirlýsingar um hvað mörg mál hafi verið afgreidd og hve mörg séu eftir.

Samkvæmt féttinni af kerfisbreytingu skattalaga, sem samþykkt var fyrr í sumar og Pétur Blöndal kallar tilraunalagasetningu, þarf nú að breyta og laga þessi lög, eins og sjá má hérna

Það er ekki nóg, að setja sér fyrir ákveðin verkefni og vinna þau svo illa, eins og í þessu tilfelli, þar sem hjólbörðum og skyldum vörum er ruglað saman við sælgæti og hjúpaður lakkrís og slíkar vörur gleymast, þegar hækka á gjöld á öðrum tegundum af lakkrís.

Nær væri, að gefa sér betri tíma til að vinna verkin, en gorta sig minna af fjölda þeirra.


mbl.is Kerfisbreyting á 15 mínútum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er skýringa þörf

Ef Victor I. Tatarintsev, sendiherra Rússa, er að segja satt og rétt frá "Rússaláninu", sem engin ástæða er til að efast um, verður að krefjast skýringa á málinu frá íslenskum stjórnvöldum.  Davíð Oddson, fyrrverandi seðlabankastjóri, skýrði frá því 7. október í fyrra, að Rússar væru tilbúnir til þess að lána Íslendingum þessar fjórar milljónir Evra, en síðan var málinu snúið á þann veg, að hann hefði hlaupið á sig með tilkynningunni og að ekki væri annað en könnunarviðræður í gangi við Rússana.

Allir vita, að Davíð Oddson og forysta Sjálfstæðisflokksins var andsnúin því, að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, en Samfylkingin barðist hins vegar með oddi og egg fyrir þeirri leið.  Nú verða ráðherrar ríkisstjórnar Geirs Haarde og Ingibjargar Sólrúnar, og þau sjálf, að sjálfsögðu, að útskýra þetta mál, eins og svo mörg önnur mál frá haustinu, sem ennþá eru sveipuð huliðshjúp.

Fullyrðing sendiherrans um að sótt hafi verið um lánið og það síðan afþakkað, þrátt fyrir að Rússar hafi verið tilbúnir til að lána, er svo grafalvarleg, að hún krefst tafarlausrar rannsóknar og útskýringar.

Þarna gæti hafa verið um þvílík mistök að ræða, að þau hafi stórskaðað málstað Íslendinga í öllum samskiptum við Breta, Hollendinga, norðulöndin, ESB, Noreg og fleiri þjóðir.  Staða Íslendinga í samningaviðræðum við aðrar þjóðir um lánamál væru örugglega í öðrum og betri farvegi nú, ef þetta lán hefði fengist á sínum tíma.

Var verið að slá á puttana á Davíð Oddssyni, eingöngu til að sverta trúverðugleika hans og Seðlabankans, í baráttunni við að losna við hann úr bankanum?

Upplýsa málið núna.  STRAX.


mbl.is „Íslendingar vildu ekki lán frá Rússum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri skilningur en hjá ríkisstjórninni

Gífurlega mikilvægur stuðningur við Íslendinga í deilunni um ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, berst nú úr óvæntri og vel þeginni átt, þ.e. frá hinu virta breska viðskiptablaði Financial Times.  Blaðið segir að Bretar og Hollendingar eigi að taka á sig aukinn hluta þeirra byrða sem uppgjafaskilmálarnir gera ráð fyrir að falli á Íslendinga, annars verði hætta á langvarandi stöðnun í íslensku efnahagslífi.

Merkilegur samanburður kemur fram í blaðinu, en þar segir:  "„Þeir 3,3 milljarðar punda, sem stjórnvöld í Reykjavík féllust á að ábyrgjast, eru lág upphæð í augum flestra þjóða en hún svarar til yfir 10 þúsund punda (2,1 milljón króna) á hvern íbúa í þessu landi út við heimskautsbaug. Hin efnahagslega byrði - um það bil helmingur af árlegri landsframleiðslu - vegna bóta til erlendra sparifjáreigenda, er svipuð og kostnaður breska ríkisins vegna samdráttarins í Bretlandi sem þó er minni en á Íslandi," segir Financial Times."

Íslenska ríkisstjórnin, með Jóhönnu og Steingrím J. í fararbroddi, hafa reynt að sannfæra þjóðina um að Íslendingar réðu vel við að greiða þessar stríðsskaðabætur, en meira að segja Breskir blaðamenn sjá, hvers konar áþján er verið að leggja á þjóðina, með þessum afarkostum.

Blaðið segir réttilega, að íslenskar eftirlitsstofnanir hafi sofið á verðinum, en segir jafnframt:  "En ensk og hollensk stjórnvöld hefðu getað séð í hendi sér, að háir vextir Icesave-reikninganna hefðu ekki verið öruggari en geta Íslendinga til að ábyrgjast innlánin." 

Það er nokkuð hart að íslensk stjórnvöld berjist með kjafti og klóm, fyrir málstað Breta og Hollendinga, en þeirra eigin viðskiptablöð taki upp hanskann fyrir íslensku þjóðina.


mbl.is FT segir að jafna eigi Icesave-byrðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú snýst þetta um andlit Steingríms J.

Ástandið á stjórnarheimilinu verður sífellt erfiðara vegna afgreiðslu ríkisábyrgðarinnar á skuldum Landsbankans, því stöðugt vex þeim fiskur um hrygg innan stjórnarflokkanna, sem berjast gegn samþykkt ábyrgðarinnar.  Nú er svo komið, að jafnvel einstaka þingmaður Samfylkingarinnar er farinn að gæjast út úr skápnum og viðra andstöðu sína við ríkisábyrgð á óbreyttan samning.

Málið snýst nú um að semja fyrirvara við ríkisábyrgðarfrumvarpið sem verði orðaðir á þann hátt, að ekki eingöngu Bretar og Hollendingar geti sætt sig við það, heldur snýst málið ekki síður um að Steingrímur J. haldi andlitinu út á við, án þess að hann og raunar Jóhanna og Össur, þurfi að játa sig algerlega sigruð í málinu.

Þessir ráðherrar og fleiri áhugamenn um inngönguna í ESB, hafa barist með kjafti og klóm fyrir þessari ríkisábyrgð og nánast talað eins og blaðafulltrúar Breta og Hollendinga í áróðri sínum fyrir ríkisábyrgðinni.

Ráðherrarnir eru farnir að undirbúa undanhaldið með mildari yfirlýsingum undanfarna daga.

Nú þarf bara að púðra aðeins á þeim andlitin og bera á þá svolítinn kinnalit og reyna þannig að láta þá líta betur út við afgreiðslu fyrirvaranna við ríkisábyrgðinni.

Þjóðin mun svo fá reikninginn fyrir snyrtingunni.


mbl.is Andstaða líka í Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband