23.7.2009 | 16:41
Ekki samskonar stjórnmálamenn og í þorskastríðunum
Samfylkingin hefur jafnan reynt að koma því inn hjá þjóðinni, að aðildarumsóknin að ESB, ein og sér, muni auka svo traust á Íslandi og Íslendingum, að efnahagurinn fari á fljúgandi siglingu umsvifalaust. Fremsta tímarit um efnahagsmál í Evrópu fjallar um umsókn Íslands að ESB og virðist ekki sannfært um þessa galdralausn og telur að umheimurinn sé það ekki heldur, að minnsta kosti ekki allur, en í fréttinni segir t.d: "Þá sé ástand efnahagsmála á Íslandi skelfilegt og þýskir og hollenskir áhrifamenn hafi þegar gefið í skyn að ekki komi til greina að Íslendingar fái aðild að sambandinu fyrr en þeir hafi komið þeim málum ílag."
Össur, utanríkisgrínari, rétti ESB vopnin í sjávarútvegsmálunum upp í hendurnar, með því að lýsa því yfir á Alþingi, að hann vissi vel að Íslendingar myndu ekki fá neinar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni, enda þyrftu þeir þess ekki, vegna sérstöðu landsins. Economist er sammála grínaranum um þetta efni, en lítur málið hins vegar allt öðrum augum, eða eins og þar segir: "Litlar líkur verði að teljast á því því að Íslendingar fái undanþágu frá sjávarútvegsstefnu sambandsins og staðfesta Íslendinga í þorskastríðunum gefi ekki til kynna að þeir muni gefa neitt eftir varðandi yfirráð yfir fiskimiðum sínum."
Þarna skjátlast Economist hrapalega, að minnsta kosti varðandi ráðherra og þingmenn Samfylkingarinnar.
Þjóðin getur ekki þakkað það nógsamlega, að þetta fólk skuli ekki hafa verið við völd í þorskastríðunum.
![]() |
Economist: Líklegt að farið verði að dæmi Norðmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.7.2009 | 13:28
Hvað hefur ESB að bjóða?
Össur, utanríkisgrínari, segir að Ísland hafi margt að bjóða ESB, svo sem kunnáttu til að stjórna fiskveiðiauðlindum, heilbrigði matvæla, nýtingu jarðvarma og jafnvel eitthvað fleira.
Allt þetta geta Íslendingar boðið Evrópuríkjunum og öðrum sem áhuga hafa á, án þess að ganga í ESB. Íslendingar eru aðilar að Evrópska efnahagsvæðinu og geta boðið fram alla sína aðstoð þar og auk þess er hægt að selja slíka þekkingu til hvers sem hafa vill, ekki síst ef Ísland væri utan ESB.
Þetta er því sami blekkingarleikurinn og sá, að halda því fram að Íslendingar fengju ódýrari matvæli og lægri vexti af lánum, eingöngu með inngöngu í ESB.
Carl Bildt tók undir með grínaranum, starfsbróður sínum, og til viðbótar gat hann þess að Ísland myndi veita ESB aðgang að norðuslóðum, en sá aðgangur verður sífellt verðmætari, t.d. vegna siglingaleiða, auðlinda o.fl. Ekki síst vegna þessara framtíðarhagsmuna leggur ESB áherslu á að ná að innlima Ísland í stórríki framtíðarinnar.
Bildt lét þess hins vegar algerlega ógetið, hvaða hag Íslendingar hefðu af inngöngunni, umfram hagsmunina af Evrópska efnahagssvæðinu.
Það hefði verið viðkunnanlegra, ef þeir félagar hefðu a.m.k. látið líta út fyrir að hagur Íslands væri í fyrirrúmi.
![]() |
Össur: Ísland hefur margt að bjóða ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2009 | 10:11
Sótt um tvisvar?
Daginn eftir að Alþingi samþykkti, illu heilli, að sækja um aðild að Evrópusambandinu, afhenti Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra, umsóknina, undirritaða af forsætis- og utanríkisráðherra, í forsætisráðuneyti Svíþjóðar.
Svo mikið lá á, að koma umsókninni til skila, að hún var afhent í Stokkhólmi nákvæmlega einum sólarhring eftir samþykkt Alþingis. Því er óskiljanlegt hvaða plagg Össur, grínari, er nú að afhenda Carli Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Er þetta eingöngu leiksýning, þar sem Carl Bildt var áður búinn að "lána" Össuri umsóknareyðublaðið, til þess að Össur gæti rétt honum það aftur, fyrir framan ljósmyndara og fjölmiðlamenn.
Varla hefur Össur verið að sækja um aðild að ESB í annað sinn.
Þó gæti það verið, því Össur er svo gamansamur.
![]() |
Afhenti Svíum aðildarumsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.7.2009 | 09:09
Ríkisstjórnin búin að stórskaða málstaðinn
Sífellt færri stjórnarþingmenn eru tilbúnir til að samþykkja uppgjafaskilmála Breta og Hollendinga vegna efnahagsstríðs þeirra á hendur Íslendinga, þ.e.a.s ríkisábyrgðina á Icesave skuldum Landsbankans. Þessir uppgjafaskilmálar setja slíkar fjárhagslegar drápsklyfjar á Íslendinga til næstu áratuga, að þeir yrðu að teljast óviðunandi, jafnvel þótt mögulegt væri að standa í skilum, en það myndi draga lífskjörin svo mikið niður, að óviðunandi væri, að ekki sé talað um, ef stöðnun eða afturkippur kæmi í efnahagslífið næstu fimmtán árin. Þá yrði greiðslubyrðin algerlega óviðráðanleg.
Samningnum verður að hafna og senda nýja öfluga samninganefnd til að ná fram viðunandi lausn á þessu máli, en staðan verður þó þung, vegna afstöðu ríkisstjórnarinnar í málinu til þessa. Forsætis-, utanríkis-, félagsmála-, fjármálaráðherrar o.fl. stjórnarliðar, hafa keppst við að lýsa Icesave samningnum sem góðri og réttlátri niðurstöðu málsins og engin leið yrði að ná betri samningi.
Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis og hefur því ekkert gildi, fyrr en Alþingi samþykkir hann. Alþingi hlýtur því að vera í fullum rétti til að hafna honum eða samþykkja hverjar þær breytingar á honum, sem því sýnist. Alþingi er ekki stimpilpúði fyrir ríkisstjórnina og heiður þingsins er í húfi í þessu máli.
Þess vegna er ekki hægt að sætta sig við að ráðherrar og einstaka þingmenn keppist við, að tala máli kúgara þjóðarinnar og leggja Bretum og Hollendingum öll vopn upp í hendurnar í framhaldi málsins.
Því miður var ekki bara samninganefnd Íslands í Icesave málinu handónýt málstað Íslands, heldur eru ráðherrarnir það einnig.
![]() |
Icesave sett á ís? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)