Nú hriktir illilega í VG

Það hefur verið ljóst undanfarnar vikur að djúpar sprungur eru komnar í samstarfið innan Vinstri grænna og ekki síður milli flokkanna í ríkisstjórn.  Samfylkingin hangir saman á ESB líminu og hefur samþykkt möglunarlaust hvaðeina, sem þurft hefur til þess að komast að samningaborði ESB.  Nú eru hinsvegar farnar að berast fréttir af því, að jafnvel sumum þingmönnum Samfylkingarinnar sé hætt að lítast á Icesave blikuna og séu orðnir tvístígandi í málinu, án þess þó að þora að viðurkenna það opinberlega.

Bardaginn, manna á milli, hefur hins vegar verið miklu sýnilegri innan VG, en þar var hart tekist á um samþykktina um aðildarumsóknina að ESB og ef ekki hefðu komið til fimm stjórnarandstæðingar, hefði tillagan fallið á atkvæðum þeirra VG manna sem greiddu atkvæði samkvæmt samvisku sinni.  Ótrúlegasta atkvæði, sem greitt hefur verið á Alþingi, var greitt af Svanhildi Svavarsdóttur, sem lýsti því í löngu máli, að hún væri algerlega andvíg aðildarumsókninni að ESB og þess vegna myndi hún greiða atkvæði með henni.  Vitlausara geta mál ekki orðið.

Nú gliðnar sprungan milli VG manna enn, því nú þurfti að kúpla Lilju Mósesdóttur út úr Efnahags- og skattanefnd, til þess að hægt væri að ná að afgreiða "meirihlutaálit" stjórnarliða út úr nefndinni.  Lilja Mósesdóttir, sem er doktor í hagfræði, hefur lýst sig algerlega andvíga samningi Svavars stúdents og Steingríms J., jarðfræðings, sem álíta sig hafa miklu meira vit á málinu en hún.

Ekkert virðist framundan, annað en VG klofni.  Spurningin er bara hvort það verður í tvo eða þrjá smáflokka.


mbl.is Icesave keyrt út úr efnahags- og skattanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferð í fyrirrúmi - eða hitt þó

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna byrjaði sinn feril með upphrópunum um, að hagur heimilanna og þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu yrði hafður í forgangi í anda norrænna velferðarstjórna.

Afar lítið hefur farið fyrir efndum í þessum efnum, enda stjórnarflokkarnir meira en uppteknir í baráttu innbyrðis og sín í milli, um ESB, Icesave, stóriðjumál o.fl., o.fl., þannig að norrænu velferðarmálin hafa ekkert komist að.

Í darraðardansinum vegna ofangreindra mála, hafa t.d. málefni öryrkja og aldraðra algerlega gleymst og nú hefur Landssamband eldri borgara sent frá sér harðorða athugasemd vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar í þeim málum, sem að öldruðum snúa.

Í yfirlýsingu landssambandsins segir ma:  "Það hefur verið viðtekin venja, að lífeyrir aldraðra hækkaði í samræmi við hækkun lágmarkslauna.LEB væntir þess, að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fylgi þeirri venju og geri ekki verr við eldri borgara en fyrri ríkisstjórnir í því efni."

Í stjórnarandstöðu náðu Vinstri grænir oft ekki upp í nefið á sér, fyrir reiði yfir því hve fyrri ríkisstjórnir voru vondar við öryrkja og eldri borgara.

Það er hart að áminna þurfi "norrænu velferðarstjórnina" svo harkalega, eftir því hvernig fulltrúar hennar töluðu í stjórnarandstöðunni.  

Ríkisstjórnin minnir enn á umskiptinginn í þjóðsögunni.


mbl.is LEB andvígt því að grunnlífeyrir falli niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bildt handrukkar fyrir Breta og Hollendinga

Össur, utanríkisgrínari, mun á morgun skríða á fjórum fótum, á fund Carls Bildt, formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins, og taka við nokkrum svipuhöggum á sitt rauða og bólgna bak, vegna vonaðrar inngöngu Íslands í ESB.

Það er táknrænt, að ganga á fund norræns ráðamanns til að afhenda fullveldisafsalsbeiðni Íslands, því síðast þegar það var gert, var það Noregskonungur sem móttók slíka gjörð af hálfu Íslendinga.  Mörg hundruð ára barátta fyrir endurheimt fullveldis og loks sjálfstæðis verður nú fótum troðin, af bognum, brotnum og kúguðum "leiðtogum" þjóðarinnar.

Í fréttinni kemur fram að:  "Bildt sagði er hann kom fyrir nefnd þingmanna Evrópuþingsins í gær að Íslendingar hafi þegar gengið í gegnum stóran hluta þess aðlögunarferlis sem nauðsynlegt sé til aðildar."  Án þess að það sé útskýrt nánar, á hann væntanlega við, að Ísland sé aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og því séu tiltölulega fá atriði, sem berja þurfi Íslendinga til fylgis við.

Athyglisverðara er það, sem kemur fram í lok fréttarinnar:  "„Það eru mikilvæg mál sem enn á eftir að leiða til lykta en stór hluti ferlisins hefur þó farið fram,” sagði Bildt."

Þarna á Bildt augljóslega við Icesace efnahagsþvinganir ESB gegn Íslendingum.  Þar með er það opinbert, að Carl Bildt er formlegur handrukkari fyirir Breta og Hollendinga.


mbl.is Ræðir við Bildt um ESB umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fá náðasamlegast að ganga í ESB

Margir virðast halda að nóg sé fyrir Íslendinga að senda einfalt bréf til ESB með beiðni um  inngöngu í sambandið og í leiðinni sé ESB sett ýmis skilyrði fyrir inngöngu Íslands, svo sem í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Þetta er auðvitað reginfirra, því margoft hefur komið fram frá forkólfum ESB, að ekkert land fái inngöngu í sambandið, nema það uppfylli skiyrði ESB um inngönguna, enda skiljanlegt, því nýjir félagar í hvaða félagi sem er, geta ekki sett þeim félagsskap sem þeir vilja ganga í, afarkosti um breyttar reglur, sér í hag.

Þetta virðast margir hérlendis ekki hafa áttað sig á, þrátt fyrir margar ítrekanir framkvæmdastjóra ESB, stækkunarstjóra, annarra embættismanna og stjórnmálamanna innan ESB.  Utanríkisráðherra Hollands tekur af öll tvímæli í þessu efni í eftirfarandi tilvitnun:  "Verhagen segir í samtali við Trouw að það sé algjörlega nauðsynlegt að Ísland samþykki samkomulagið. Annars geti liðið langur tími þar til Ísland fái inngöngu í Evrópusambandið."   Hér er utanríkisráðherrann auðvitað að meina nauðungarsamninginn um ríkisábyrgð á hluta skulda Landsbankans.

Hvað eru íslenskir stjórnmálamenn tilbúnir til að leggjast lágt, til þess að að ganga í ESB.


mbl.is Þrýst á Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband