Ósannsöglir ráðherrar

Jóhanna, ríkisverkstjóri, og Steingrímur Jong Sig., fjármálajarðfræðingur, hafa marg sagt að undirritun samningsins um Icesave sé forsenda þess að hægt væri að ganga frá lánssamningum við AGS, norðurlandaþjóðirnar, Pólverja og Rússa og hefur utanríkisráðherra Noregs staðfest það, sem og utanríkisráðherra Finnlands og fulltrúi AGS.

Nú koma hinsvegar utanríkisráðherrar Svíþjóðar og Danmerkur og segja lausn Icesave deilunnar enga forsendu fyrir lánum norðulandaþjóðanna.  Ef þessir tveir eru að segja satt, þá hljóta hinir að vera að segja ósatt, eða öfugt.  Ef sá danski og sá norski eru að segja satt, hvers vegna er þá ekki löngu búið að ganga frá málunum?  Ef hinir eru að segja satt, þá er það stóralvarlegt mál að erlendir ráðherrar fari með staðlausa stafi í fjölmiðlum hér á landi og hlýtur það að kalla á mótmæli og leiðréttingu af hendi íslenska utanríkisráðherrans.

Ef til vill eru aðrir utanríkisráðherrar norðurlandanna jafn miklir grínarar og sá íslenski og allt sem þeir láta út úr sér, sé sagt af sama alvöruleysinu og einkennir það, sem frá okkar manni kemur.

Svona ósannsögli ráðamanna er afar hvimleitt til lengdar.


mbl.is Lausn Icesave ekki forsenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pottaglamur í þingsalnum?

Fjármálaeftirlitið setti upp gamanleikrit, eða farsa, fyrir tvær þingnefndir Alþingis í morgun, að sögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, þingmanns Smáflokkafylkingarinnar.  Fjalla átti um verðmat á eignum við uppgjör gömlu og nýju bankanna og hefði mátt ætla að ekki væri um nein sérstök gamanmál að eiga.

Fleiri þingmenn voru ekkert ánægðir með farsann, eða eins og segir í fréttinni:  "Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það hefði verið mikil þrautaganga að fá upplýsingar um málið en fulltrúi Fjármálaeftirlitsins hefði komið á fundinn í morgun og sagt, að þeir hefði gert þannig samninga sl. haust, að engin leið væri að upplýsa þingmenn um þá."

Þær spurningar vakna hverjir "þeir" séu og við hvern gerðu "þeir" þannig samninga, að engin leið væri að upplýsa þingmenn um þá.  Stundum fá þingmenn upplýsingar, sem þeir eru bundnir trúnaði yfir, en í þessu tifelli er þeim ekki einu sinni treyst til að halda þessum upplýsingum fyrir sig, á meðan þeir væru að taka ákvarðanir í málinu.

Álfheiður Ingadóttir, einn af stjórnendum búsáhaldabyltingarinnar, kann ráð við þessu, eins og sönnum byltingarforingja sæmir, þ.e. að þingmenn fari að berja búsáhöld í þingsalnum, til að kalla fram upplýsingar.

Það væru hæg heimatökin, að sækja byltingardótið upp á skrifstofu VG.

 


mbl.is Tveimur þingnefndum meinað um upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþolandi afskipti af málefnum Íslands

Utanríkisráðherra Finnlands blandar sér í ESB umræðuna á Íslandi á freklegan hátt, með því að lýsa því yfir að hann vilji sjá Ísland í ESB "eins fljótt og auðið er en legg á það áherslu að þið skylduð ekki gera ykkur of miklar væntingar. Þetta er erfitt ferli."

Ekki er hann heldur meiri vinur Íslendinga en svo, að hann segist ekki styðja málstað Íslands í Icesave deilunni vegna þess að Finnar styðji „sérhverja þá ákvörðun sem greiði götu Íslands að Evrópusambandsaðild.“  Þetta er enn ein staðfestingin á því að ESB, ásamt Bretum, stóð fast að baki kúgunaraðgerðunum í þessu máli.

Utanríkisráðherrann hikar ekki við að beita blekkingum varðandi Evruna, þegar hann segir:  "Án evrunnar væri efnahagsástandið í ríkjum Evrópusambandsins, þar með talið í ríkjum sem standa utan evrunnar, skelfilegt. Ég vil ekki einu sinni hugsa til þess í hvaða stöðu Evrópa væri án gjaldmiðilsins.“  Fréttir undanfarna daga benda til alls annars, t.d. þessi frétt um vandræði Evrusvæðisins og ekki síður þessi frétt um erfiðleika Letta, sem ekki eru á Evrusvæðinu.

Það er nóg fyrir Íslendinga að þurfa sýnkt og heilagt að hlutsta á Smáfylkingarkórinn syngja sálminn sinn um ESB, þó erlendir trúboðar séu ekki að hjálpa til við boðun fagnaðarerindisins.

Ein lygi Smáflokkafylkingarinnar gengur út á að ESB og Evran sé nánast eitt og hið sama, en Finninn slær þá staðhæfingu út af borðinu, sjálfsagt óvart og í óþökk SMF, þegar hann segir, aðspurður um hvenær, eftir inngöngu í ESB, Íslendingar gætu tekið upp Evru:  „Aðild að Evrópusambandinu og evruupptaka er sitt hvor hluturinn. Aðild að sambandinu þýðir ekki sjálfkrafa upptöku evrunnar.“

Þjóð, sem á Evrópusambandslönd að vinum, þarfnast engra óvina.


mbl.is Varar við of mikilli bjartsýni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóralvarlegar fréttir frá Þýskalandi

Afar alvarlegar fréttir berast nú af kreppunni í forysturíki ESB, Þýskalandi.  Samdráttur í út- og innflutningi hefur aukist miklu meira að undanförnu, en sérfræðingar höfðu spáð fyrir um.  Þannig segir í fréttinni að:  "Útflutningur frá Þýskalandi í aprílmánuði síðastliðnum dróst meira saman en spár höfðu almennt gert ráð fyrir. Samdrátturinn frá fyrra mánuði var 4,8%, að því er fram kemur í nýjum tölum frá hagstofu Þýskalands. Samdrátturinn frá apríl í fyrra var tæplega 29%."

Þetta er mesti samdráttur í útflutningi Þýskalands síðan í seinni heimsstyrjöldinni og vegna stærðar hagkerfis landsins og þýðingar þess fyrir ESB í heild, eru þetta ekki góðar vísbendingar um það sem framundan er á ESB svæðinu.

Í fréttinni segir einnig að:  "Innflutningur til Þýskalands dróst einnig mikið saman á milli mars og apríl, eða um 5,8%. Samdrátturinn í innflutningi á milli ára var tæplega 23%."  Samdráttur í útflutningi hefur dregist talsvert meira saman á milli ára, en innflutningurinn, sem bendir til að áður en jöfnuður næst á nýjan leik og hagvöxtur verði að nýju í Þýskalandi, séu afar erfiðir tímar framundan.

Ísland fór landa fyrst inn í kreppuna og hefur möguleika á að verða landa fyrst upp úr henni aftur.

Leiðin til þess er ekki að sækja um aðild að ESB, heldur þvert á móti.

 


mbl.is Samdráttur í útflutningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisfjármálin í höndum vinnumarkaðarins

Athyglisvert er að nú eru ekki lengur teknar ákvarðanir um ríkisfjármálin í stjórnarráðinu, heldur hefur ríkisvinnuflokkurinn vísað þeim til aðila vinnumarkaðarins til afgreiðslu, eða eins og kemur fram í fréttinni:  "Vinnu viðsemjenda á vinnumarkaði og stjórnvalda að tillögugerð í efnahags- og atvinnumálum er nú lokið og verða þær kynntar innan skamms."

Einnig kemur fram að aðilar vinnumarkaðrins hafa nánast ákveðið hvernig lífeyrissjóðirnir eigi að koma að fjármögnun vinnuaflsfrekra framkvæmda og er undirbúningur hafinn að því að koma ríkisvinnuflokknum að málinu.

Enn athyglisverðara er, að stjórnarandstaðan var boðuð í stjórnarráðið í fyrradag og þar var henni boðið að eiga áheyrnarfulltrúa, sem gætu fylgst með vinnunni í KARPHÚSINU.  Það hlýtur að vera algert einsdæmi, að stjórnendur ríkisins gefi fulltrúum stjórnarandstöðunnar kost á að eiga áheyrnarfulltrúa að samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins.

Gætu Jóhanna og Steingrímur Jong opinberað vandræðagang sinn betur og skýrar?


mbl.is Púslað á öllum vígstöðvum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband