Tilskipun um innistæðutryggingar verndar ríkissjóð

Í tilskipun ESB um innistæðutryggingar, sem má sjá hér kemur fram að Tryggingsjóðir innistæðueigenda skuli ekki vera á ábyrgð yfirvalda, enda skulu lánastofnanir sjálfar bera kostnaðinn af fjármögnun þeirra.  Þetta má glögglega sjá á eftirfarandi klausum úr tilskipuninni:

"Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma
leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánin
eða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess að
lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við
fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg
geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar.
Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis
aðildarríkisins í hættu.

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld
þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa
séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum
af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar
sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu
í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun."

Með svokölluðum Icesave samningi er verið að neyða Íslendinga, með ógnunum, til að taka á sig a.m.k. 500 milljarða króna, sem allir geta séð að ríkissjóður Íslands getur aldrei greitt.

Það hlýtur að vera hægt að koma ESB þjóðunum til þess að fara eftir sínum eigin tilskipunum.

Ef ESB þjóðirnar eru ekki sáttar við það, eiga þær að leita til dómstóla.

Málið er ekki flóknara en það.


mbl.is Ísland fær helming eigna Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi á ekki að staðfesta

 

Tryggvi Þór Herbertsson bendir á leið út úr Icesave ruglinu, sem væntanlega myndi ekki setja íslenska þjóðarbúið á hausinn, en í fréttinni kemur fram að:  "Tryggvi Þór segist vilja, að málið verði leyst með því að gefa ríkisábyrgð á óbreyttan samning en þó með því skilyrði að við þyrftum aldrei að greiða meira en eitt prósent af landsframleiðslu á ári í sjö ár.

Hann viðurkennir að sjálfstæðismenn hafi í raun rutt veginn með því að samþykkja að semja um greiðslur vegna Icesave reikninganna án þess að málið fari fyrir dómstóla. Íslendingum hafi verið stillt upp við vegg af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu vegna EES samningsins og aðeins hafi verið samþykkt að fara samningaleiðina. Hann spyr þó hvort það sé fimmhundruð milljarða virði að hafa þá góða. Sjálfur telji hann ekki að svo sé."

Íslendingar voru þvingaðir til þess að fara samningaleið, en ekki dómstólaleið, vegna hagsmuna ESB, en ekki Íslands og auðvitað var það aumt, að láta kúga sig til að samþykkja yfirleitt að fara samningaleiðina.  En það að fara samningaleiðina, er ekki það sama og að samþykkja hvað sem er.  Ef gagnaðilarnir hafa talið að það þýddi það, að þeir gætu kúgað íslensku samninganefndina til að samþykkja hvaða afarkosti sem er, þá verður Alþingi að snúa þessu máli á upphafsreit.

Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis, þannig að hann hefur ekkert gildi fyrr en sú staðfesting liggur fyrir.  Fáist hún ekki, hlýtur málið að fara sjálfkrafa á byrjunarreit aftur.

Þetta yrði dýrari aðgöngumiði að ESB en Íslendingar geta réttlætt að kaupa.


mbl.is Icesave kostar minnst 300 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpur gegn þjóðinni

Fleiri og fleiri af mestu lögspekingum landsins hafa verið að tjá sig undanfarið um Icesave málið og komast allir að þeirri niðurstöðu, að það sé glapræði að láta ekki á málið reyna fyrir dómstólum.  Flestir ganga svo langt að segja, að samningurinn sem ríkisvinnuflokkurinn ætlar að troða ofan í kok þjóðarinnar sé algerlega andstæður þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. 

Því verður ekki trúað að óreyndu, að Alþingi láti kúga sig til hlýðni í þessu máli, sem samkvæmt nýjasta mati skilanefndar Landsbankans, mun skilja eftir sig að minnsta kosti 250 milljarða króna gat.  Ríkisvinnuflokkurinn getur ekki komið sér saman um sparnað í ríkisrekstrinum á næstu þrem árum, um 170 milljarða króna, sem reyndar á að ná inn a.m.k. að helmingi með skattahækkunum.  Hvernig í ósköpunum á ríkissjóður að geta tekið á sig það sem upp á vantar í Icesave málinu, sem í raun er alls ekki skuld íslenska ríkisins, enda engin ríkisábyrgð á Tryggingasjóði innistæðueigenda.

Um þetta hefur áður verið fjallað í  þessu bloggi og þar reynt að rökstyðja, að neyðarréttur leyfir að gera sérstakar ráðstafanir á ákveðnum svæðum vegna hamfara sem yfir ganga.  Sama hlýtur að gilda um efnahagslegar hamfarir, eins og náttúruhamfarir.

Að láta ekki reyna á dómstólaleið vegna Icesave, er glæpur gegn þjóðinni.

 


mbl.is Eignir duga ekki fyrir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin þvinguð til aðgerða

Sá lánlausi ríkisvinnuflokkur, sem nú er að störfum í landinu, getur ekki komið sér saman um niðurskurð og sparnað í ríkisrekstrinum, frekar en nokkuð annað, t.d. Icesave, ESB o.fl.  Aðilar vinnumarkaðarins þurfa að pína aðgerðir út úr fjármálajarðfræðingnum, til þess að mögulegt sé að ljúka kjarasamningum.

Í fréttinni er haft eftir forseta ASÍ:  "Gylfi sagði að allt hefði verið undir á fundinum. Menn hefðu rætt um gjaldeyrishöft og stefnu í vaxtamálum. Einnig hefði verið rætt um ríkisfjármál á árunum 2011 og 2012."  Ómögulegt hefur verið að fá fram fyrirhugaðar aðgerðir í ríkisfjármálum, öðruvísi en með þvingunum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda.

Ekki tekst ríkisvinnuflokknum að koma sér saman um aðgerðir, aðrar en niðurskurð verklegra framkvæmda, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Á fundinum var m.a. rætt um mikinn niðurskurð í verklegum framkvæmdum sem ríkisstjórnin hefur boðað, en í honum felst m.a. 3,5 milljarða niðurskurður til vegamála á þessu ári og 8,2 milljarða niðurskurður á næsta ári." 

Í stað þess að spara í rekstri, á að spara allar framkvæmdir, sem gætu skapað störf á almennum vinnumarkaði og þar með á ekki að gera neitt til þess að reyna að minnka atvinnuleysi hjá verkafólki og iðnaðarmönnum.

Í stað þess að ríkissjóður spari í rekstri, á að "þjóðnýta" lífeyrissjóðina til verklegra framkvæmda.

Verklegar framkvæmdir eru verkefni ríkissjóðs en ekki lífeyrissjóðanna.


mbl.is Halda áfram viðræðum í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband