Ráðherra á hausnum

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisstarfsmaður, fór á hausinn í bókstaflegri merkingu, þegar hún datt af hjólinu sínu á leið í vinnuna.  Það er virðingarvert, að vilja sýna gott fordæmi, með því að hjóla í vinnuna, en aftur á móti er það óafsakanlegt gagnvart öðrum börnum landsins, að hjóla um allar trissur, án þess að vera með hjálm.  Ef hún vill ekki nota ráðherrabílinn, þá væri kannski ráð að láta ráðherrabílstjórann stjórna hjólinu og reiða Svandísi og bæði yrðu með hjálm auðvitað.

Svandís telur sig hafa verið heppnari en hún ætti skilið, að hafa dottið á höfuðið.  Það minnir á manninn, sem sagði, þegar planki datt á höfuðið á honum, að hann hefði verið heppinn að þetta skyldi einmitt detta á hausinn á honum, en ekki á annað, því þá hefði getað farið illa.

Svandís fékk stóra kúlu á hausinn og vegfarandi sagði að ekki væri vit í öðru, en að láta athuga á henni höfuðið. 

Ekki er víst, að hann hafi verið að meina kúluna.


mbl.is Svandís: Heppnari en ég á skilið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðislán og bankarnir

Íbúðalánasjóður hefur tilkynnt um smávægilega vaxtalækkun, þ.e. vextir sjóðsins verða 4,6% með uppgreiðsluákvæði og 5,10% án þeirra skilmála.  Þetta leiðir hugann, enn og aftur, að ákvæði margra húsnæðislána bankanna, um endurskoðun vaxta á fimm ára fresti.  Í haust verða fimm ár liðin frá því að bankarnir ruddust með látum inn á húsnæðislánamarkaðinn með nánast ótakmörkuð lán á lágum vöxtum.

Nú eru húsnæðislánavextir bankanna á bilinu 5,9% - 7,8% eftir "tegundum" viðskiptavina.  Ef bankarnir hækka vexti á íbúðalánum sínum í haust og stýrivextir hafi þá ekki lækkað verulega, mun greiðslubyrði þeirra, sem keyptu íbúðir með lánum bankanna hækka umtalsvert.  Sem dæmi má nefna að skuldari, sem tók lán með vaxtaendurskoðunarákvæði með 4,15% vöxtum, haustið 2004, gæti átt von á allt að fimmtíuþúsund króna hækkun mánaðargreiðslna, ef bankarnir beita þessu ákvæði og núverandi vaxtakjör verða ennþá við lýði.

Annarsstaðar á mbl.is birtist  þessi frétt, um að Íbúðalánasjóður hefði óskað eftir því fyrir þrem vikum, að fá að hækka sín hámarkslán úr 20 milljónum króna í 30 milljónir.  Árni ESB Árnason, félagsmálavinnumaður, hefur ekki haft tíma ennþá til að svara sjóðnum og er líklegasta skýringin talin sú, að slík hækkun gæti ýtt undir þenslu.

Nú er akkúrat engin þensla í þjóðfélaginu og það eina sem heldur verðbólgu á floti, er hækkun innfluttrar vöru vegna aumingjaskapar ríkisvinnuflokksins í því verki að styrkja gengi krónunnar.

Íbúðamarkaðurinn er algerlega frosinn og því gæti hækkun lána Íbúðalánasjóðs komið einhverjum viðskiptum af stað og lífgað þar með upp á stöðnunina sem ríkir á öllum sviðum þjóðlífsins.

Ríkisvinnuflokkurinn þyrfti að líta upp úr ESB ruglinu og fara að snúa sér að áríðandi málum.


mbl.is Vextir Íbúðalánasjóðs lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrakin úr einu víginu í annað

Í upphafi stjórnarsáttmála Smáflokkafylkingarinnar og Vinstri grænna er þessi grein feitletruð og undirstrikuð:

"Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum. Ríkisstjórnin mun kappkosta að byggja upp á Íslandi opið og skapandi umhverfi sem stenst samanburð við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar í Evrópu, bæði að því er varðar efnahag og lífsgæði. Í þeim efnum horfum við sérstaklega til frændþjóða okkar á Norðurlöndum."

Frá því að þetta var sett á blað, hefur öll stjórnsýsla einkennst af leynd, hálfsannleik, blekkingum og jafnvel hreinum ósannindum.  Ríkisvinnuflokkurinn reynir eins og kostur er, að halda öllum upplýsingum um gerðir sínar og fyrirætlanir leyndum fyrir almenningi og ef kemst upp um einstaka fyrirætlanir er reynt að snúa út úr málum, segja hálfsannleik eða beita algerum blekkingum.

Oft verða ráðherrar og æðstu embættismenn þeirra tví- og þrísaga um málin og til að púsla saman réttum upplýsingum, þarf að toga allt út úr þessu fólki með töngum.

Þannig hrekst ríkisvinnuflokkurinn úr einu víginu í annað.

Að endingu verður ekkert vígi eftir.


mbl.is Icesave-samningar birtir í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brussel á hraða snigilsins

Leiðtogar ESB eru á fundi í Brussel í dag til að ræða framtíð Lissabonsáttmálans og munu í örvæntingu reyna að finna leið til þess að fá Íra til þess að samþykkja sáttmálann, sem allra fyrst, því þeir eru skelfingu lostnir yfir því að ef Íhaldsflokkurinn komist til valda í Bretlandi, þá muni hann vísa sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Slíkt líðræði er illa liðið í Brussel.

Í fréttinni segir:  "Fundurinn er haldinn í kjölfar Evrópuþingskosninga sem leiddu í ljós töluverða hægrisveiflu og mótstöðu við nánari sameiningu innan sambandsins. Fréttaskýrendur segja það auka þrýsting á framkvæmdastjórn sambandsins að fá fram staðfestingu Lissabonsáttmálans en hann var felldur í þjóðaatkvæðagreiðslu á Írlandi á síðasta ári."  

Samþykkt Lissabonsáttmálans er skref á þeirri leið, að gera ESB að stórríki, með eigin her, en það er einmitt ein ástæða þess, að Írar felldu sáttmálann.

Áróðursmeistarar ESB og íslenskir taglhnýtingar þeirra, tala nú fjálglega um að gott væri að fá Íslendinga inn í sambandið, til þess að vinna að breytingum á sjávarútvegsstefnu ESB, vegna þess hve Íslendinar hafi mikla og góða reynslu af verndun fiskistofna.  Ef ESB vantar ráðgjöf á því sviði, á sambandið einfaldlega að óska eftir sérfræðiráðgjöf Íslendinga, án þess að landið gangi í ESB. 

Lok fréttarinnar upplýsir hvað allar breytingar taka langan tíma innan ESB, en þar segir:  "Leiðtogar sambandsins segja sáttmálann nauðsynlegan til þess að sambandið geti starfað með árangursríkum hætti. Hann er niðurstaða samningaviðræðna sem fram fóru í kjölfar þess að Danir höfnuðu Maastricht-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992."

Vandræðagangurinn í kringum Lissabon sáttmálann er sem sagt búinn að taka sautján ár og niðurstaða ekki fengin ennþá.

Breyting sjávarútvegsstefnunnar mun gerast á þessum sama hraða. 

Hraða snigilsins.


mbl.is Leiðtogafundur í Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvísaga embættismaður

Indriði H. Þorláksson, sérlegur aðstoðarmaður fjármálajarðfræðingsins, verður neyðarlega tvísaga í einni og sömu setningunni, þegar hann segir:  "Aldrei hefur staðið til að Icesave-samningurinn yrði leyndarmál. Líklega er það spurning um daga hvenær samkomulag sem nú er unnið að næst við Breta og Hollendinga um að aflétta leynd yfir samningnum, meðal annars til að þingmenn geti kynnt sér hann."

Hvers vegna þarf að skrifa bréf til Hollendinga og Breta með beiðni um að fá að opinbera samninginn, ef aldrei stóð til að hann væri leyndarmál?  Hvers vegna er það spurning um daga hvenær samkomulag næst við Hollendinga og Breta um að aflétta leynd yfir samningnum?  Þarf leyfi til að aflétta leynd, sem aldrei stóð til að yrði nein leynd?

Það er alveg með ólíkindum hvað ráðherrar og embættismenn geta bullað mikið, án þess að fréttamenn sjái í gegnum ruglið og gangi eftir skýrari svörum.

Það er kannski ekki undarlegt, þegar Icesave og ESB eru annars vegar.

Flestir fjölmiðlamenn eru í reynd áróðursmenn fyrir hvoru tveggja.


mbl.is Spurning um daga hvenær leynd verður létt af Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband