Stórmerkileg frétt um mokkasíur

Alveg er þessi frétt um páfann og mokkasíurnar merkileg, eða hitt þó heldur.  Er virkilega ekkert merkilegra við þessa heimsókn páfans til Jórdaníu, annað en það að páfinn hafi gengið á mokkasíum eftir dregli, sem fylgdarmenn hans leiddu hann "rakleiðis á"?

Það mun vera venja að fara úr skóm, áður en gengið er inn í það helgasta í moskum múslima, en líklega hefur þessi dregill einmitt verið settur þarna sérstaklega af þessu tilefni, til þess að blessuðum páfanum yrði ekki kalt á tánum.

Fylgdarmaður páfa var ekki ómerkari maður en Ghazi bin Muhannad bin Talal, prins Jórdaníu og eins og sést vel á myndinni, sem fylgir fréttinni, gekk hann eftir þessum sama dregli á sandölum, að vísu berfættur, svo honum hefur kannski orðið kalt á tánum.  Reyndar eru allir, sem sjást á myndinni, í skóm, jafnvel öryggisverðirnir sem alls ekki ganga eftir dreglinum.

Þó heimspressan sé upptekin af svona dellu, er óþarfi að hafa hvaða vitleysu sem er eftir henni.


mbl.is Páfinn á mokkasíum í moskunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kattameindýr

Hvernig í ósköpunum á að framfylgja banni við lausagöngu kattameindýra í þéttbýli?  Jú, þau eru auðvitað skotin á færi með haglabyssu, enda hefur meidýraeyðirinn á Húsavík heyrt að "margir óþolinmóðir borgarar hafi tekið málin í sínar hendur og aflífað lausa ketti og hunda."

Það er sennilega auðveldara að passa upp á hundameindýr en kattameindýr, því þau fyrrnefndu venjast taumi betur en hin.  Kattameindýrin hinsvegar eru svo sjálfstæð, að þau kæra sig ekkert um að fara í spássitúra með eigendunum, hangandi í bandi.  Þau vilja miklu frekar valsa um laus og liðug og meira að segja færa þau eigendum sínum stundum músameindýr inn í stofu og jafvel gera stykkin sín þar sem þeim sýnist. 

Við þessu verða almennir borgarar náttúrulega að bregðast og a.m.k. Húsvíkingar ganga vopnaðir um götur til þess að losa bæinn við þessa meindýraplágu.

Í yfirlýsingu meindýraeyðis Húsavíkur segir:  "Í raun svo það sé bara á hreinu þá ber mér að halda dýrunum í vörslu þangað til eigandi hefur vitjað þeirra og borgað umsamið gjald þeim til lausnar."

Til hvers er þá haglabyssan?  Eiga eigendurnir að leysa hræin úr vörslu með því að borga umsamið lausnargjald?

 

 


mbl.is Meindýraeyðir ver sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðvaranir seðlabankans

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að spá seðlabankans, um að krónan eigi ekki eftir að styrkjast verulega á næstunni, sé eins og blaut tuska framan í þau, þar sem menn hefðu vonast eftir að krónan styrktist allverulega.

Sennilega hefði verið betra að taka mark á spám seðlabankans fyrr, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir viðvörunarorð Seðlabankans varðandi skuldsetningu í erlendri mynt hafa verið hundsuð. „Það hefur ýmislegt verið sagt um Seðlabanka Íslands í umræðu um efnahagsmál en það er ekki hægt að segja að Seðlabankinn hafi ekki varað við lántökum í erlendri mynt á meðan tekjurnar eru í krónum. Það hafa forsvarsmenn bankans gert við ýmis tilefni undanfarin ár,“ sagði Þórarinn."

Þetta er hárrétt hjá Þórarni.  Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, varaði oft opinberlega við erlendum lántökum einstaklinga og í Peningamálum seðlabankans, sem kemur út ársfjórðungslega, var í mörg ár varað við að gengi krónunnar væri allt of hátt í sögulegu samhengi.

Í nóvember árið 2007, þegar "lánærið" stóð sem hæst kom fram að seðlabankinn reiknaði með a.m.k. 20% gengisfellingu á fyrri hluta ársins 2008, með þessum fyrirvara:  "Hátt raungengi , viðskiptahalli og endurmat erlendra fjárfesta á áhættu, gætu skapað þrýsting til lækkunar á gegni krónunnar umfram það sem gert er ráð fyrir í grunnspá."

Á þessum tíma var sagt að allt sem frá seðlabankanum kæmi, væri nánast grín, af því að aðalbankastjórinn væri fyrrverandi pólitíkus, sem ekkert mark væri á takandi.

Greinigdardeildir bankanna tóku undir að seðlabankinn væri ómarktækur og kepptust þess í stað við að útmála það fyrir landanum, að allt væri í blóma í landinu og bankarnir kepptust við að ýta erlendum lánum að almenningi, fyrirtækjum og sveitarfélögum vegna þess að þau væru svo hagkvæm, einmitt vegna hárra stýrivaxta seðlabankans.  Stýrivextirnir voru auðvitað til þess að reyna að sporna gegn lánaæði landans.

Bankarnir og almenningur hefðu átt að hlusta betur á Davíð Oddsson, áður en það varð of seint.


mbl.is „Eins og blaut tuska“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur grínari

Össur Skarphéðinsson, uppistandari, hélt mikinn fjölmiðlasirkus vegan ummæla "flokksbróður" síns, Gordons Brown, um að Bretar ættu í viðræðum við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn um skuldir íslendinga vegna Icesave. 

M.a. segir í fréttinni:  "Össur bar í gær fram formlega kvörtun vegna ummæla Gordons Browns, forsætisráðherra Bretlands, í fyrirspurnatíma breska þingsins."  Einnig kemur fram að:  "Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segist ánægður með það sem kemur fram í yfirlýsingu frá breska forsætisráðuneytinu sem send var út í gærkvöldi. Þar er viðurkennd ábyrgð breska fjármálaráðuneytisins á Kaupthing Singer and Friedlander-bankanum auk þess sem fram kemur stuðningur við samkomulag íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn."

Hvað er Össur svona ánægður með í svarinu?  Þar er ekkert minnst á það sem Gordon Brown sagði í þinginu, aðeins aumkunarverður útúrsnúningur og falsskýringar.  Ekkert er minnst á hvort og þá um hvað, Bretar hafa verið að ræða við AGS um Icesave.  Svarið virðist eingöngu sýna það, að Bretar, eins og Íslendingar, taka aldrei mark á Össuri, heldur glotta bara út í annað, af því að brandararnir eru oftast ekki í háum gæðaflokki.

Össur sagði í sjónvarpinu í gær, að hann væri bara "starfsmaður á plani", væntanlega hjá Steingrími J. Bjarnfreðarsyni. 

Miðað við þessa uppákomu, ætti hann ennþá að vera "starfsmaður í þjálfun".


mbl.is Ánægður með svör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband