Falskur samanburður

Eiríkur Bergmann, eindreginn ESB sinni, sem gefur sig út fyrir að vera hlutlaus fræðimaður, segir að umsókn um aðild að ESB sé svipað ferli og aðildarumsókn Íslands að EES var á sínum tíma.  Þetta er vísvitandi falskur samanburður, sem sést best á því að ekki þurfti að breyta stjórnarskránni til að afsala fullveldi Íslands, eins og kemur fram í landsfundarályktun Smáflokkafylkingarinnar:

"Setja í stjórnarskrá ákvæði sem heimilar að fullveldi sé deilt með yfirþjóðlegum stofnunum og alþjóðastofnunum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Slík ákvörðun tekur því aðeins gildi að sé staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Nú leggur Smáflokkafylkingin áherslu á, að sækja þurfi um aðildina að ESB ekki seinna en í júlí, en í ályktuninni er talað um langan og vandaðan undirbúning, eða eins og þar stendur:

"Undirbúa stofnun fastanefndar um Evrópumál á Alþingi. Hún hafi fyrir hönd þingsins forystu um aðildarviðræður og undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslu um þá niðurstöðu sem í þeim fæst. Gangi Ísland í ESB hafi nefndin það verkefni að taka til umfjöllunar og afgreiðslu allar lagatillögur sambandsins áður en þær koma til endanlegrar afgreiðslu – að hætti Evrópunefndar danska þjóðþingsins."

Nú, aðeins nokkrum vikum eftir að þetta var samþykkt, er þessi fallega samþykkt gleymd og nú á að leggja fram þingályktunartillögu um umsókn að EBS strax og þing kemur saman, eftir viku.  Það er ekki langur tími til að stofna fastanefnd um Evrópumál á Alþingi, sem hafi forystu um aðildarviðræðurnar.

Smáflokkafylkingin er ekki trúverðugur flokkur í neinu tilliti og allra síst í Evrópumálum.

Því verðu ekki trúað, að stjórnarandstaðan skeri stjórnina niður úr snörunni í þessu máli.

 


mbl.is Svipuð aðferð og við inngönguna í EFTA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundrað daga ríkisstjórn

Venjulega er talið sanngjarnt að gefa nýjum ríkisstjórnum eitt hundrað daga til að sanna sig og einnig hafa þessir hundrað dagar verið nefndir "hveitibrauðsdagar" ríkisstjórnarflokkanna.  Að þessum tíma liðnum er ætlast til að stjórnarstefna sé að fullu komin í framkvæmd og stjórnin búin að sýna hvað í hana sé spunnið.

Minnihlutastjórnin sat í hundrað daga og því hefði hún átt að vera búin að koma í framkvæmd öllum þeim málum sem hún vildi leggja áherslu á.  Því skýtur það skökku við að nýja ríkisstjórnin, sem skipuð er sömu flokkum og að mestu leyti sömu ráðherrum, skuli telja sig þurfa eitt hundrað daga í viðbót, til að átta sig á þeim málum sem knýjandi eru í efnahagslífi þjóðarinnar.

Morgunkorn Greiningar Íslandsbanka fjallar um fyrirhugaðan niðurskurð ríkisútgjalda á næstu þrem árum og segir þar m.a:  "Öllum er ljóst að til þess að það gangi eftir þarf að grípa til bæði niðurskurðar ríkisútgjalda og breikkunar á tekjustofni með auknum sköttum. Hingað til hafa þó engin svör fengist um hvaða aðgerða stjórnvöld ætla að grípa til í þessum tilgangi. Svörin við þessum spurningum munu þó liggja fyrir að 100 dögum liðnum þegar hulunni verður svipt af áætlun stjórnvalda um ríkisfjármál til millilangs tíma og forsendur fjárlaga 2010 verða afgreiddar í ríkisstjórn."

Almenningur mun ekki hafa þolinmæði til að bíða í hundrað daga eftir því að hulunni verði svipt af áætlunum stjórnvalda.


mbl.is Skuldastaða skýrist ekki fyrr en Icesave samningar eru í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrautagangan framundan

Hér hefur oft verið fjallað um væntanlegan niðurskurð ríkisfjármála og kvartað undan því að fjölmiðlar hafi ekki sýnt þessu máli nokkurn áhuga og látið glepjast af ESB þvaðri alla kosningabaráttuna, þegar þeir voru ekki að fjalla um persónuleg fjármál frambjóðenda og flokka.  Ef til vill er það vegna upphæðanna sem um er að ræða, því það er auðveldara að skilja sextíu milljónir, en sextíu milljarða, margfaldaða með þrem.

Nú loksins virðast fjölmiðlar vera að kveikja á þessum væntanlæega niðurskurði í ríkisrekstrinum, eða eins og segir í fréttinni:  "Á árunum 2006-2008 nam þetta hlutfall um 28-29%. Miðað við að gert sé ráð fyrir 11% samdrætti landsframleiðslu í ár þyrftu frumútgjöld ríkissjóðs að dragast saman um 13%, eða 56,6 milljarða, á árinu til að þetta markmið næðist. Samkvæmt fjárlögum er hins vegar gert ráð fyrir því að frumútgjöldin aukist um 7,8% eða 34 milljarða króna. Verða þau því um 38,4% af vergri landsframleiðslu í ár."

Í löngum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er aðeins sagt að jafnvægi þurfi að nást í ríkisfjármálunum fyrir árið 2013, en ekkert talað um hvernig á að fara að því.  Hins vegar er almennt orðagjálfur um að vernda skuli velferðarkerfið og störf opinberra starfsmanna.  Minna er sagt um að vernda störf starfsmanna á almennum vinnumarkaði, enda eru hátt í 20 þúsund þeirra án vinnu.

Vonandi fara fjölmiðlar að sinna þeirri skyldu sinni að upplýsa almenning um þrautagönguna, sem framundan er.

 


mbl.is Mikil þrautaganga framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt "hernám"

Þann 10. maí 1940 gekk Breskur her á land á Íslandi og þar með var landið hernumið.  Hernámið var framkvæmt með því markmiði, að Ísland félli ekki í hendur Þjóðverja, sem þá höfðu lagt undir sig meginhluta Evrópu, með hernaði.  Ríkisstjórn Íslands mótmælti hernáminu kröftuglega og neitaði að gangast formlega undir yfirráð Breta.

Þann 10. maí 2009 var stofnað til ríkisstjórnar á Íslandi, með það sem eitt sitt meginmarkmið, að óska eftir nýju "hernámi" og er í þetta sinn biðlað til Breta, Frakka og Þjóðverja í sameiningu, að taka að sér stjórn í landinu.  Eftir stríð hefur Þjóðverjum tekist að verða ráðandi ríki í Evrópu og nú eru önnur lönd ekki tekin hernámi á sama hátt og áður, heldur með fjármagni og pólitískum gylliboðum.  Þannig séð, má segja, að eftir allt saman hafi Þjóðverjar náð sínu fram eftir stríð, en nú án hernaðarátaka.

Annar ríkisstjórnarflokkanna, Smáflokkafylkingin, segir skýrt og skorinort í sinni stjórnmálaályktun, að takmarkið sé, að afsala Íslandi fullveldi sínu, eða eins og þar segir orðrétt:

"Setja í stjórnarskrá ákvæði sem heimilar að fullveldi sé deilt með yfirþjóðlegum stofnunum og alþjóðastofnunum samkvæmt ákvörðun Alþingis. Slík ákvörðun tekur því aðeins gildi að sé staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Íslendingar samþykktu álíka ákvæði árið 1262. 

Það tók meira en 600 ár að endurheimta það, sem þá var afsalað.


mbl.is Evrópumálið setur alla í nokkurn vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband