Ekki allt sem sýnist

Venjulega þegar verðkannanir eru gerðar er aðeins sagt að vörukarfan sé ódýrust í Bónus og dýrust einhvers staðar annarsstaðar og verðmunurinn gefinn upp í prósentum.  Þetta segir ekki alla söguna varðandi lágvöruverðsverslanirnar, þar sem verðmunurinn á milli þeirra getur legið í verði fáeinna vörutegunda.

Þeir sem versla t.d. í Krónunni á Bíldshöfða, koma þar varla svo að ekki sé þar staddur starfsmaður frá Bónusi við verðkönnun, sem hann sendir síðan í höfuðstöðvarnar og þar eru Bónusverðin iðulega sett einni krónu lægri en þau eru í Krónunni.  Í nýjustu verðkönnun ASÍ er nánast sama verð í þessum verslunum á 24 vörutegundum af 37 og munar oftast einni til tveim krónum á milli verslananna.  Verðmunurinn liggur aðallega í kílóverði á kalkúni og reyktum laxi, sem ekki eru á borðum manna dags daglega. 

Þetta bendir til þess að ekki sé um eðlilega samkeppni í verðum að ræða, þar sem Bónus stillir svo oft sínu verði einni krónu undir verð keppinautarins, í þeim eina tilgangi að geta auglýst að Bónus sé alltaf ódýrastur.

Það er greinilega Krónan sem verðleggur vörurnar út frá sínum forsendum og síðan verðleggur Bónus sínar vörur eftir verðkannanir í Krónunni. 

Þetta geta ekki talist eðlilegir viðskiptahættir.


mbl.is 41% verðmunur á matarkörfunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingglöp

Mikill tími á Alþingi hefur undanfarna daga í að ræða um stjórn forseta og þingsköp.  Nú er að koma betur og betur í ljós, að þinginu veitir líklega ekki af að sitja alveg fram að kosningum til að leiðrétta hin ýmsu þingglöp stjórnarflokkanna.

Mánaðargömul lög um endurgreiðslu virðisaukaskatts af viðhaldi og byggingu íbúða- og frístundahúsnæði standast ekki skoðun um orðalag og þeim þarf að breyta fyrir þinglok.  Þá hefur komið fram að yfir þúsund manns hafa nú þegar sótt um greiðsluaðlögun til Íbúðalánasjóðs, en með greinargerð laganna var reiknað með að alla eitt- til tvöhundruð manns myndu sækja um slíka aðlögun hjá öllum fjármálafyrirtækjum, sem væru með íbúðalán.  Væntanlega þarf einnig að endurskoða forsendur þessara laga.

Ríkisstjórnin á, samkvæmt fréttum, eftir að leggja fram þrjú eða fjögur frumvörp sem hún vill fá afgreidd fyrir þinglok og þyrftu þau að fara að líta dagsins ljós, því einhverja daga hlýtur að taka að koma þeim í gegnum þingnefndir og umsagarferlið sem tilheyrir.

Mikið má ríkisverkstjórinn og vinnuflokkur hennar þakka Sjálfstæðisflokknum fyrir hve hann er duglegur að ræða mál í þinginu og gefa þannig þessari einstaklega seinheppnu og seinu ríkisstjórn rýmri tíma til að vinna sinn málatilbúnað og væntanlega að vanda hann þá aðeins betur, en gert hefur verið hingað til.


mbl.is Vilja breyta nýbreyttum lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðarleg tillaga

Sjálfstæðismenn á Alþingi hafa nú lagt fram dagskrártillögu á Alþingi um að þingfundi verði slitið og annar boðaður, með nýrri uppröðun þingmála.  Við atkvæðagreiðsluna kemur í ljós hvort stjórnarmeirihlutinn vill raunverulega koma þeim frumvörpum sem gagnast almenningi og atvinnulífi í gegn um þingið fyrir kosningar. 

Ósamkomulag stjórnarflokkanna hefur t.d. komið í veg fyrir að hægt hafi verið að ræða um heimild til samninga um álver í Helguvík og þetta sundurlyndi kemur einnig í veg fyrir að önnur mál fáist rædd.  Í fréttum hefur komið fram að ríkisverkstjórinn og vinnuflokkurinn eigi enn eftir að leggja fram 3 - 4 mál sem tengjast efnahagsástandinu.  Líklega er það ástæðan fyrir því að þingforseti reynir að tefja þingstörf eins lengi og honum er nokkur kostur, svo hinn hægfara vinnuflokkur komi í verk að ljúka samningu þeirra frumvarpa, sem hann hefur boðað.

Það verður að teljast einstaklega heiðarlegt af sjálfstæðismönnum að leggja þessa dagskrártillögu fram um hábjartan dag, þegar þingmenn meirihlutans eru á fótum og jafnvel staddir í vinnunni.

Sjálfstæðismenn hefðu hæglega getað lagt þessa tillögu fram undanfarin kvöld, þegar þeir voru einir í þingsalnum, en skróparaþingmenn stjórnarinnar sváfu á sitt græna eyra, annað hvort heima hjá sér, eða í hliðarsölum þinghússins.

Þetta eru heiðarleg vinnubrögð, en það sama verður ekki sagt um mætingarleti stjórnarþingmanna.


mbl.is Vilja taka stjórnskipunarlög af dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband