Lausn fyrir ESB eða Ísland?

Joe Borg, sjávarútvegsstjóri í framkvæmdastjórn ESB, segist viss um að ásættanleg lausn fyndist í sjávarútvegsmálum, ef Ísland sækti um aðild að ESB.  Þessu slær mbl.is upp, eins og þar með sé komin staðfesting á að enginn hætta sé á að Íslendingar missi yfirráð yfir sjávarauðlindum sínum.  Hvað héldu menn að Joe Borg myndi segja?  Dettur einhverjum í hug að hann myndi segjast vera afar efins um að lausn fyndist?  Auðvitað gat hann ekki sagt neitt annað.

Í fréttinni segir einnig:  "Þetta kom fram á blaðamannafundi, þar sem Borg kynnti skýrslu, svonefnda grænbók, um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Þar kom m.a. fram að níu af hverjum 10 fiskistofnum í lögsögu bandalagsins væru ofveiddir. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er að skoða hvort taka eigi upp frjálst framsal á veiðikvótum að íslenskri fyrirmynd og vísaði Borg til þess á blaðamannafundinum." 

Gæfuleg sjávarútvegsstefna þetta hjá ESB, eða hitt þó heldur.  Framkvæmdastjórnin er að skoða hvort taka eigi upp frjálst framsal á kvótum að íslenskri fyrirmynd.  Íslenska ríkisstjórnin er að skoða að afnema frjálsa framsalið, þannig að sennilega fylgist Joe Borg ekki vel með væntanlegum viðsemjendum sínum, eða vinstri menn á Íslandi viti ekkert hvað er að gerast innan ESB.  Reyndar ganga allar breytingar innan ESB á hraða snigilsins, svo ekki þarf að reikna með að neitt gertist í þessum efnum á næstu árum og þá verða allir fiskistofnar ESB væntanlega útdauðir.

Svo klikkir Joe Borg út með þessu:  "... mun landið finna í framkvæmdastjórninni samningsaðila sem er reiðubúinn til að ræða með mjög jákvæðum hætti hvort hægt sé að finna lausn sem tryggir að framtíð íslenskra sjómanna verði svipuð og þeir hafa haft það til þessa, en það yrði að vera innan marka sameiginlegu sjávarútvegsstefnunnar."

Lykilatriðið í þessu er niðurlag setningarinnar sem kemur á eftir orðinu en.  Það verður ekkert samið við Íslendinga nema á grundvelli sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB.

Hvað ætli ESB sinnar skilji ekki í þessari einföldu setningu?


mbl.is Viss um að lausn fyndist á sjávarútvegsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útflutningstekjur þjóðarinnar

Í kjölfarið á hruni banka- og útrásarævintýra er þjóðin að verða ónæm fyrir þeim upphæðum, sem menn leyfðu sér að spila með í þeirri óráðsíu allri.  Allar upphæðir sem talað er um, nema hundruðum eða þúsundum milljarða og er skemmst að minnast, að innstu koppar í búri Kaupþings lánuðu sjálfum sér fimm hundruð milljarða króna rétt fyrir bankahrunið.

Með hliðsjón af þeim glæfraskap (eða glæpamennsku) sem viðgekkst í útrásarkerfinu, er fróðlegt að skoða þær upphæðir, sem útflutningsatvinnuvegirnir eru að skapa þjóðinni, eða eins og segir í fréttinni: 

"Fyrstu þrjá mánuðina 2009 voru fluttar út vörur fyrir 100,7 milljarða króna en inn fyrir 86,1 milljarð króna. Afgangur var því á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 14,6 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 37,5 milljarða á sama gengi. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 52,1 milljarði króna hagstæðari en á sama tíma árið áður." 

Þessir 14,6 milljarðar króna, sem gjaldeyrisafganginum nemur, eiga að duga til að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum þjóðarbúsins.  Þetta dugar ekki einu sinni til að endurgreiða bruðl þjóðarinnar fyrstu þrjá mánuði síðasta árs, ekki einu sinni vextina af eyðslufylleríi síðustu ára.  Erlendar skuldir bankanna og útrásarvíkinganna verða aldrei greiddar, þar sem þær sitja eftir í gömlu bönkunum og erlendir lánadrottnar munu tapa þeim að verulegu leyti.

Þessir erlendu lánadrottnar eru stórir bankar og fjármálastofnanir um allan heim og þeir munu ekkert gleyma þessum lánum og hverrar þjóðar lántakendurnir voru, sem hlupu frá skuldum sínum.

Útrásarvíkingunum mun ekki duga að skipta bara um jakkaföt til að öðlast traust aftur og Íslendingum mun ekki heldur takast að skapa sér nýtt lánstraust, eingöngu með því að skipta um nafn á gjaldmiðlinum.

Það mun taka að minnst kosti tíu ár að skapa nýtt traust á Íslandi, sem viðskiptalandi og þangað til verða menn að sætta sig við að lifa á eigin aflafé, því "lánærin" eru liðin tíð.


mbl.is Vöruskiptin hagstæð í mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband