Þjóðstjórn?

Nú virðist vera að koma í ljós, sem oft hefur verið fjallað um hér, að Smáflokkafylkingin (SMF) og VG geti ekki komið sér saman um þær bráðnauðsynlegu efnahagsaðgerðir, sem grípa verður til strax.  Út á við er látið sem ESB málið sé eitthvert aðalatriði í samningaviðræðum flokkanna, svona til að geta kennt því um, ef ekki næst samkomulag um myndun stjórnar.

Hvort sækja á um aðild að ESB er algert aukaatriði í viðræðum flokkanna, því báðir flokkarnir eru gjörsamlega ráðalausir gagnvart efnahagsvandanum og munu ekki geta komið sér saman um nauðsynlegan niðurskurð ríkisútgjalda.  Þó þessir flokkar hafi farið í kringum það mál eins og kettir í kringum  heitan graut fyrir kosningar og aldrei svarað hreinskilnislega, hvernig ætti að taka á vandanum, þá eru þær blekkingar að baki og nú tekur alvaran við.

Það þarf að skera ríkisútgjöld niður um 40% á næstu þrem árum og það sjá allir sem vilja, að þetta verður ekki gert, nema með blóðugum niðurskurði velferðarmála, menntamála, heilbrigðismála og raunar allra annarra útgjalda ríkisins.

Nú, þegar ekki er lengur hægt að skjóta sér undan vandanum, byrja vinstri grænir að tala um þjóðstjórn og að nú þurfi að leggja pólitískt þras til hliðar, því þetta sé svo stórt og alvarlegt mál.

Auðvitað er þetta tilkomið vegna þess að vinstri flokkarnir koma sér ekki saman um neitt.

Líklega verður Sjálfstæðisflokkurinn að koma þeim til bjargar.


mbl.is Atli: Atvinnuleysið er þjóðarböl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegra en bankahrun?

Enginn lét lífið í bankahruninu, þótt afleiðingarnar hafi verið skelfilegar fyrir heimilin í landinu, ekki síður en atvinnulífið.  Nú er hins vegar hætta á að ofan í aðra óáran, skelli á landinu plága sem gæti dregið allt að 5000 manns til dauða, eða eins og segir í fréttinni:

"Í áhættumati, sem gert hefur verið á vegum landlæknisembættisins vegna hugsanlegs heimsfaraldus inflúensu, er gert ráð fyrir því að helmingur þjóðarinnar muni sýkjast á 12 vikna tímabili og allt að 3% þeirra, sem sýkjast, geti látist."

Ef það verður raunin, að svínaflensan verði að heimsfaraldri á næstu vikum, verður að setja allt pólitískt þras til hliðar og sameina kraftana til úrlausnar á bráðum efnahagsvanda þjóðarinnar, því ekki mun hann lagast, ef það gengur eftir, sem fram kemur í lok fréttarinnar:

"Þá segir, að gera megi ráð fyrir að atvinnulífið hér á landi lamist í tvær til þrjár vikur, en með gerð viðbragðsáætlunar sé reynt að lágmarka þann skaða sem sjúkdómurinn valdi. En þrátt fyrir að öllum tiltækum ráðstöfunum verði beitt  megi alltaf búast við ófyrirséðum afleiðingum.  Reikna megi með að fjárhagsleg afkoma heimila rýrni tímabundið, verðmæti glatist, til dæmis sjávarfang vegna skorts á vinnuafli og þjóðartekjur minnki í ákveðinn tíma."

Nú er ekki tími til að þjarka um fánýta hluti eins og ESB.


mbl.is Búist við að helmingur þjóðarinnar gæti sýkst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svínaflensa

Í nokkuð mörg ár hafa menn óttast að fuglaflensuveira myndi stökkbreytast og verða að banvænum smitfaraldri milli manna, með upphafi í Asíu, eins og flestar aðrar flensur.  Það hefur ekki gerst ennþá, en nú berast allt í einu fréttir af nýrri stökkbreyttri veiru, sem ættuð virðist vera frá Mexikó og er tekinn að breiðast til annarra landa með miklum hraða.

Nú á dögum er erfitt að verjast faraldri sem þessum, þar sem samgöngur milli heimshluta eru svo miklar og ekki tekur nema hálfan til einn sólarhring að komast með flugi milli fjarlægustu staða veraldarinnar.  Þannig getur veiran hafa borist til margra landa, jafnvel áður en menn átta sig í upprunalandinu, á alvarleika málsins.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld verða að bregðast strax við og hefja allan þann varnarundirbúning sem mögulegur er og ekki síður að setja saman sérfræðingahóp til stjórnar aðgerðum þegar svínaflensan verður að faraldri hérlendis.

Svínaflensan virðist á ótrúlega stuttum tíma ætla að verða að nánast óviðráðanlegri heimsvá, ofan í heimskreppuna í efnahagsmálum.

Allt virðist ætla að verða óláni heimsins að vopni.


mbl.is Óttast svínaflensuna meira en fuglaflensuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárlögin eða ESB?

Kosningar eru afstaðnar og því miður fyrir þjóðina urðu úrslitin þau að hætta er á, að mesta afturhaldsstjórn, sem sögur færu af á vesturlöndum, gæti orðið að veruleika á næstunni.

Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, að rúmlega fimmti hver Íslendingur myndi kjósa nánast hreinræktaðan kommúnistaflokk af gamla skólanum, sem að vísu hefur hulið sig grænni slikju umhverfisverndar.  Sterk útkoma hans mun gera stjórnarmyndun með Smáflokkafylkingunni erfiða, enda gefur þessi niðurstaða VG miklu sterkari stöðu gegn SMF við stjórnarmyndun.

Eina góða við þetta er, að nú minnka líkur á að SMF geti þvingað fram aðildarumsókn að ESB, en á móti kemur að nauðsynlegar aðgerðir til bjargar atvinnulífinu eiga sér engan málsvara í þessari ríkisstjórn.

Fyrir kosningar var látin í ljós sú skoðun að hætta gæti verið á stjórnarkreppu eftir kosningar og nú eru fleiri farnir að velta fyrir sér þeim möguleika, eins og sést á  þessari hugleiðingu Egils Helgasonar á Eyjunni.

Strax á kosninganóttina og ekki síður á Sunnudeginum, hertu bæði SMF og VG á áherslum sínum í ESB málum og nú lýsir Steingrímur J. því yfir að fjárlagavinnan muni taka allan tíma stjórnarinnar næstu vikur og mánuði, á meðan SMF klifar enn á því að forgangsverkefnið sé umsóknaraðild að ESB, strax í maí.

Næstu dagar verða fróðlegir, en afdrífaríkir, fyrir þjóð í vanda.


mbl.is Steingrímur: Fjárlagavinna sett í forgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband