21.4.2009 | 16:57
Enn veikjast heimilin
Jóhanna, ríkisverkstjóri, og vinnuflokkur hennar hefur hamrað á því í margar vikur, að helsta stefnumál þeirra sé að vinna að styrkingu krónunnar og létta þannig byrðar þeirra heimila, sem eru að sigla í gjaldþrot vegna myntkörfulána á íbúðum og bílum.
Til þess að þetta gæti náðst fram, var fyrsta verk vinnuflokksins að flæma fyrrverandi bankastjórn seðlabankans frá störfum og ráða þangað norskan förusvein og setja á fót peningastefnunefnd, og átti þessi breyting að stuðla að meiri tiltrú á bankanum og gjaldmiðlinum. Síðan þessi breyting var gerð hefur gengið fallið stöðugt, eða um nærri 20%.
Tuttugu prósent hækkun á myntkörfuláni á sex vikum, hlýtur að bera vott um algert getuleysi nýrrar stjórnar seðlabankans til þess að ná markmiðum sínum, eða þetta sýnir að virðing seðlabankans og tiltrúin á ríkisverkstjóranum er engin.
Svo virðist sem margt af því fólki sem ríkisverkstjórinn og vinnuflokkurinn er að svíkja, ætli að kjósa þessa flokka til áframhaldandi stjórnarsetu.
Þangað leitar klárinn, sem hann er kvaldastur.
![]() |
Krónan veiktist um 0,9% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.4.2009 | 13:22
Til vandamála ESB með VG
Hvað ætlar Smáflokkafylkingin að komast lengi upp með það að blekkja sjálfa sig og þjóðina með tali sínu um að innganga í ESB sé einhver björgunarhringur fyrir Ísland í efnahagskreppunni? Það er skýlaus krafa að ríkisverkstjórinn útskýri hverju það muni breyta fyrir þjóðina, bara að sækja um inngöngu í sambandið, eins og hún heldur fram, án þess að útskýra það nokkurntíma. Eina skýringin sem hún gefur, er að það muni skapa þjóðinni svo mikið traust erlendis, að krónan muni styrkjast og að þá muni erlent lánsfé aftur fara að streyma inn í landið.
Einnig þyrfti Smáflokkafylkingin að útskýra hvers vegna Írland, Bretland, Austurríki, Ungverjaland, Spánn, Lettland o.sfrv., o.sfrv. eru í miklum fjárhagslegum erfiðleikum, öll í ESB, sum með Evru og önnur með gjaldmiðilinn tengdan Evrunni.
Það er ekki viðhlýtandi skýring, sem Árni Páll Árnason, smáfylkingarmaður, setti fram nýlega, að ESB aðild tryggði ekki að þjóðir kysu fífl í ríkisstjórnir. Samkvæmt þeirri kenningu Árna Páls, er flestum ESB ríkjunum stjórnað af fíflum, því nánast öll ESB löndin eiga við mikla erfiðleika að stríða um þessar mundir. Aðildin og Evran hafa ekkert bjargað þeim, enda fyrirfinnst sjálfsagt enginn afburðastjórnmálamaður, eins og Árni Páll, í neinu þessara landa.
Það er ekki þjóðinni samboðið, að áfram skuli haldið að bjóða henni upp á svona innihaldslausan og blekkjandi málflutning.
Það er a.m.k. lágmarkskrafa að Árni Páll og aðrir Smáflokkafylkingarmenn hætti að umgangast þjóðina eins og hún sé samsett af eintómum fíflum.
![]() |
Til Evrópu með VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.4.2009 | 11:37
Fólk hugsi sinn gang
Þegar fjórir dagar eru til kosninga eru vinstri flokkarnir teknir til fótanna vegna yfirlýsinga sinna um skattahækkanir og niðurskurð eftir kosningar. Það er með öllu óþolandi að þessir flokkar skuli ekki segja kjósendum hvað sé í vændum í efnahagslífi þjóðarinnar. Nú þegar VG og Smáflokkafylkingin þora ekki að upplýsa fólk um hvað sé í vændum, skal hér birtast spálisti yfir þá skatta sem þessir flokkar munu hækka, verði þeir í ríkisstjórn, suma strax á þessu ári og aðra á næsta ári og þarnæsta (verði stjórnin ekki sprungin áður):
Beinir skattar heimila:
Tekjuskattur verður hækkaður og hátekjuskatti bætt við.
Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður.
Eignaskattar verða teknir upp.
Erfðafjárskattur verður hækkaður.
Stimpilgjöld vegna íbúðarkaupa verða ekki aflögð.
Skattar á fyrirtæki og óbeinir skattar:
Tekjuskattar fyrirtækja verða hækkaðir.
Atvinnuleysistryggingagjald verður hækkað.
Tollar verða hækkaðir þar sem það er hægt (takmarkað vegna EES).
Vörugjöld verða hækkuð og þá sérstaklega á "lúxusvörum"
Þjónustugjöld hjá opinberum stofnunum verða hækkuð.
Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verða lækkaðar (sérstaklega hjá "breiðu bökunum").
Fyrir utan það sem hér hefur verið talið hafa vinstri flokkar endalaust hugmyndaflug við að finna nýja "skattstofna" og munu þeir leita logandi ljósi að nýjum sköttum til að leggja á "breiðu bökin" í nafni jöfnuðar og réttlætis.
Þrátt fyrir að allir mögulegir skattar verði hækkaðir, mun það ekki skila nema um það bil 1/3 af fjárvöntun ríkissjóðs, þannig að sparnaður í ríkiskerfinu mun þurfa að nema a.m.k. fjörutíu milljörðum á ári, en um það er einnig þagað þunnu hljóði. Sá niðurskurður verður sársaukafullur og mun koma niður á öllum sviðum ríkisrekstrarins, jafnt mennta- heilbrigðis- og velferðarkerfinu, sem öðrum sviðum.
Það er skylda allra, sem hafa hugsað sér að kjósa vinstri flokkana, eða skila auðu, að hugleiða það sem hér er sett fram, því þeir munu bera ábyrgð á þessum aðgerðum og munu ekki geta kennt neinum um, nema sjálfum sér á næstu árum, ef kosningarnar fara eins og nú lítur út fyrir.
Þennan lista ætti fólk að prenta út og merkja við, jafnóðum og spárnar rætast.
Þetta ætti þó að geymast þar sem börn og viðkvæmt fólk hefur ekki aðgang.
![]() |
Fleiri munu skila auðu og strika yfir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)