Skítleg kosningabarátta

Svandís Svavarsdóttir, fyrsti maður á lista VG í Reykjavík suður, fellur í sama farið og aðrir vinstri menn, með því að ásaka pólitíska andstæðinga sína um glæpamennsku.  Það sem af er hefur farið lítið fyrir málefnum í kosningabaráttunni, en fjölmiðlar og vinstri menn hins vegar kappkostað að ata Sjálfstæðisflokkinn auri á gjörsamlega ómálefnalegan og ódrengilegan hátt.  Þetta eru gjörsamlega málefnalausir og rökþrota flokkar.

Það er hárrétt hjá Þorgerði Katrínu, að vinstri menn forðast að ræða pólitísk málefni, atvinnuleysi, getuleysi ríkisstjórnarinnar í gjaldeyris- og peningamálum og önnur brýn hagsmunamál þjóðarinnar. 

Kosningabarátta vinstri flokkanna til þessa er þeim til háborinnar skammar.  Svona leðjuslagur er engum bjóðandi.

Það er skammt til kosninga og mál til komið að ræða alvörumálin. 

Fyrst þarf auðvitað að koma vinstra liðinu upp úr drullupollunum.


mbl.is Aldrei heyrt alvarlegri ásakanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málþóf og þöggun

Stjórnarliðar (Framsókn meðtalin) ásaka sjálfstæðismenn enn um málþóf um stjórnarskrárfrumvarpsræksnið og þumbast ennþá við að ljúka afgreiðslu brýnni mála, sem varða þjóðarhag.

Á sama tíma ríkir alger þöggun um hvernig á að bregðast við halla ríkissjóðs, sem stefnir í 180 milljarða á þessu ári, en samkomulag er við AGS um að fjárlög verði hallalaus á árinu 2013.  Það þýðir að skera þarf niður ríkisútgjöld um 60 milljarða króna á næsta ári, aðra 60 milljarða árið 2011 og enn aðra 60 milljarða árið 2012. 

Þrátt fyrir yfirlýsingar um "réttláta skatta" á hátekju- og stóreignafólk, mun slík skattheimta skila sáralitlu upp í þessar upphæðir.  Auðvitað verða skattar hækkaðir á allan almenning, en það er líka þaggað niður fyrir kosningar.  Almenn skattahækkun mun ekki heldur skila nema broti af fjárvöntuninni.

Nú eru ekki nema tíu dagar til kosninga og það hlýtur að vera krafa alls almennings að fá að vita hvað flokkarnir ætla sér í þessu efni.  Upplýsa verður á næstu dögum hvar á að skera niður, því það sjá allir að um grundvallarbreytingu verður að ræða í íslensku þjóðfélagi á næstu þrem árum.

Skýr svör um niðurskurðartillögur verða að fást.  Það þýðir ekki lengur að benda á einhvern tittlingaskít sem á að "athuga" eða "skoða".  Ekki þýðir heldur að segja að "standa eigi vörð" um velferðarkerfið, án þess að útskýra það nánar, þar sem þangað rennur stærsti hluti ríkisútgjaldanna.

Tíminn til kosninga er stuttur.  Nú þarf að koma með alvörumálin upp á borðið.


mbl.is Stefnir í sigur „málþófsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veiking krónunnar

Fyrir viku, eða 07/04, var hér rætt um veikingu krónunnar frá því að norski förusveinninn og peningastefnunefndin tóku völdin í Seðlabankanum þann 27. febrúar s.l., í nafni ríkisverkstjórans og vinnuflokksins.  Þá færslu má lesa  hér 

Þegar þetta er ritað er gengisvísitalan komin í 224,01 stig og hefur því hækkað um 3,16% á einni viku, þ.e. úr 216,7 stigum.  Þetta þýðir það að myntkörfulán, sem var að upphæð kr. 30.000.000 þann 27/02, er nú komið í tæpar 36.000.000.  Lánið hefur sem sagt hækkað um eina milljón á viku síðan breytingin var gerð á yfirstjórn seðlabankans.  Yfirlýst markmið ríkisverkstjórans og stjórnar bankans hefur allan tímann verið það, að styrkja gengið, til að létta skuldabyrði heimila og fyrirtækja. 

Heimilin sem skulda erlend íbúða- eða bílalán hljóta að veita þessari stjórn, sem svona stendur við stefnumál sín, verðskuldaða ráðningu í komandi kosningum.

Nú hlýtur sú stund að fara að renna upp, að fjölmiðlarnir fari að fjalla um þau mál, sem brenna á þjóðinni fyrir kosningar.

 

 


mbl.is Mikil veiking krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tengsl þingmanna

Varast verður að gera of mikið úr því að þingmenn eigi hluti í fyrirtækjum, því ekki má offorsið í umræðunni í kjölfar banka- og útrásarævintýra verða til þess að eignarhlutur í atvinnurekstri verði talinn "glæpsamlegur" eða vafasamur, enda þarf víðtæk reynslu af atvinnulífinu, sem öðrum þáttum mannlífsins að eiga fulltrúa á Alþingi.

Í fréttinni kemur fram að: 

"Nær helmingur þingmanna á Alþingi er skráður í hlutafélagaskrá sem stjórnarformaður, prókúruhafi, framkvæmdastjóri, endurskoðandi, meðstjórnandi eða varamaður í stjórn. Fyrir utan eignarhald í fyrirtækjum eru þingmenn tengdir 55 fyrirtækjum skráðum í Hlutafélagaskrá. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Creditinfo."

Það hlýtur hins vegar að vera eðlileg krafa, að þingmenn séu ekki í stjórnum fyrirtækja, framkvæmdastjórar eða endurskoðendur þeirra, enda þingseta þannig starf, að ekki má með nokkru móti vera hægt að gera störf þingmanna tortryggileg með of nánum tengslum við einstök fyrirtæki.

Ekki kemur neitt fram í fréttinni um hvaða fyrirtæki er að ræða, en í flestum tilfellum eru þetta líklega smá fyrirtæki, jafnvel fjölskyldufyrirtæki, sem ekki mynda neina hættu á hagsmunatengslum.  Því þarf að fara varlega í umfjöllun um þessi mál og ekki setja sjálfkrafa einhvern spillingarstimpil á málið, ekki frekar en störf þingmanna fyrir verkalýðsfélög eða önnur félög.

Þingmenn eiga einfaldlega að gefa upp öll fjárhagsleg og félagsleg tengsl sín og hafa þau fyrir opnum tjöldum, til að koma í veg fyrir allt slúður um þessi mál.


mbl.is Þingmenn tengdir 55 fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband