Atkvæðasmölun

Ögmundur Jónasson ríður nú um héruð og tilkynnir heimamönnum að þeir eigi sjálfir að ráða því hvort heilbrigðisstofnanir verði sameinaðar eða ekki.  Hann gæti alveg sparað sér ferðakostnaðinn, því það vita allir að í hreppapólitíkinni gildir að halda í hvert einasta starf, ekki síst betur launuðu yfirmannastörfin.  Hugmyndin á bak við sameingingu stofnannanna var alls ekki að þær yrðu lagðar niður, heldur að fækka stjórnendum, en tryggja störf heilbrigðisstarfsmannanna sjálfra.

Það liggur fyrir að strax á næsta ári þarf að skera ríkisútgjöld um allt að sjötíu milljarða króna til viðbótar við niðurskurð þessa árs og síðan þarf að skera niður um aðra sjötíu milljarða árið 2011.  Þetta þýðir að mikill niðurskurður verður á öllum sviðum hins opinbera rekstrar og ekki síður í heilbrigðisgeiranum en öðrum.  Ætli Ögmundur hafi kynnt sveitarstjórnarmönnunum fyrirhugaðan niðurskurð, eða var þetta eingöngu ferð til þess að leika "góða gæjann".

Líklegast er að fagurgalinn hljómi fram að kosningum og svo verði niðurskurðarhnífurinn dreginn fram strax að þeim loknum. 

Vonandi festast kjósendur ekki í blekkingarvefnum.


mbl.is Fallið frá sameiningu heilbrigðisstofnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt vandamál leyst

Vandræðagangur "aðgerðaríkisstjórnarinnar" hefur ekki riðið við einteyming þessar fjórar vikur sem stjórnin hefur setið og eitt dæmið um það var skipun Steingríms, fjármálajarðfræðings, á vini sínum sem stjórnarformanns í Nýja kaupþingi.  Vinurinn var skipaður á mánudegi og afskipaður á miðvikudegi, þegar fjármálajarðfræðingurinn komst að því að nýji stjórnarformaðurinn stóð í tugmilljóna skaðabótamáli gegn Fjármálaráðuneytinu.

Annað vandræðamál er að eftir samþykkt hefndarlaganna gegn Davíð Oddssyni skuli stjórnarskráin brotin með skipun hins nýja seðlabankastjóra.  Einnig er athyglisvert að aðalhagfræðingur seðlabankans skuli hafa verið skipaður aðstoðarbankastjóri og eigi þar með að koma í stað tveggja hagfræðinga, sem áður gengdu bankastjórastöðum í bankanum.  Samkvæmt kenningunni er hrun þjóðarbúsins seðlabananum að kenna og þar með mætti ætla að hagfræðingaliðið í bankanum væri samsekt í þrotinu, en a.m.k. virðist aðalhagfræðingurinn hafa staðið utanvið þetta allt saman, fyrst honum er treyst í aðstoðarbankastjórastólinn.  Varla verður fram hjá honum gengið þegar staðan verður auglýst.

Eftir vandræðaganginn með tveggja daga stjórnarformanninn hefur vel menntuð og reynslumikil kona verið sett í stól stjórnarformanns Nýja kaupþings og vonandi verður hún ekki sett af aftur á næsta aðalfundi bankans, eins og búið var að hóta næstsíðasta stjórnarformanni.

Stjórnmálaskoðanir Huldu Dóru Styrmisdóttur eru ekki ljósar og skipta í sjálfu sér engu máli, en hún á a.m.k. ættir að rekja til valinkunnra og heiðarlegra sjálfstæðismanna.  Það eru mikil meðmæli.


mbl.is Aðeins konur í stjórn Nýja Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefndin fullkomnuð

Líklegt er Ólafi Ragnari Grímssyni hafi verið létt í sinni svörtu sál þegar hann undirritaði hefndarlögin gegn Davíð Oddssyni í gærkvöldi.  Þar með náðist fullkomin hefnd vinstri manna, sem lengi hafa þráð þessa stund.  Þeir þurfa að búa við þessa lítilmennsku um ókomin ár.

Athygli vekur að því hefur verið haldið fram að glapræði væri að ráða fyrrverandi pólitíkusa í starf seðlabankastjóra, en nú bregður svo við það telst í lagi, svo fremi pólitíusinn sé erlendur.  Þá skiptir ekki heldur máli að um stjórnarskrárbrot sé að ræða.  Tilgangurinn helgar meðalið.

 Einnig er merkilegt að Arnþór Sighvatsson sem verið hefur aðalhagfræðingur seðlabankans skuli vera settur aðstoðarbankastjóri.  Samkvæmt kenningunni er allt sem aflaga hefur farið í þjóðfélaginu seðlabankanum að kenna og þá hlýtur hagfræðingaliðið í bankanum að hafa leikið stórt hlutverk í því að koma þjóðfélaginu á hausinn.  Nú er hins vegar sagt að aðalhagfræðingurinn sé svo snjall að hann skuli koma í staðinn fyrir tvo hagfræðinga sem áður gengdu bankastjórastöðum.  Skelfing hefur aðalhagfræðingurinn haft lítið til málanna að leggja fram að þessu.

Í ljósi þess að nú skal öll stjórnsýsla vera opin og allar upplýsingar skulu liggja á lausu, hlýtur ríkisverkstjórinn að senda út tilkynningu um ráðningarkjör hins nýja bankastjóra. 

Hinn nýji bankastjóri er hokinn af reynslu, bæði úr pólitík og fjármálaheiminum, og er honum árnað allra heilla í hinu nýja starfi.


mbl.is Bankastjórinn beið átekta á hóteli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. febrúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband