Greiðsluþrot þjóðarbúsins

Nýjasta áætlun Seðlabankans er að skuldir þjóðarbúsins verði 5.150 milljarðar króna í árslok 2010, eða 320% af vergri landsframleiðslu.  Í fyrrahaust sagði AGS að ef skuldir þjóðarbúsins færu yfir 160% af landsframleiðslu, myndi ekkert annað blasa við en greiðsluþrot, því slíkar skuldir væru gjörsamlega óviðráðanlegar fyrir nokkra þjóð.

Nú, þegar skuldirnar eru metnar helmingi hærri, en AGS taldi óviðráðanlegar, þá breytir sjóðurinn einfaldlega mati sínu og segir að þetta sé vel viðráðanlegt.  Þar virðist vera notast við gamla íslenska ráðið:  "Þetta reddast einhvernveginn", en það hefur sýnt sig, að sú efnahagskenning er ekki alveg óbrigðul.

Gjaldeyristekjur af útfluttum sjávarafurðum á árinu 2008 voru um 100 milljarðar króna og samkvæmt skuldaáætlun Seðlabankans myndu allar gjaldeyristekjur vegna sjávarafurða í 52 ár, þurfa til að greiða niður þessar erlendu skuldir.  Jafnvel þó þessar tekjur tvöfölduðust í krónum talið, vegna gengishrunsins, tæki það sjávarútveginn samt 26 ár, að afla þess gjaldeyris, sem þarf til að greiða þessar skuldir.

Miðað við þessar forsendur mun þjóðin ekki hafa annan gjaldeyri, en þann sem álið og ferðamannaiðnaðurinn skapar, til að fjármagna allann innflutning á vöru og þjónustu, ásamt vöxtum af skuldunum.  Hver maður getur sagt sér að slíkt getur aldrei gengið upp, þó gjaldeyrishöft verði hert verulega.

Ekki er ólíklegt, að fljótlega stefni í skömmtunaseðlakerfi, eins og hér var við lýði fram á sjöunda áratug síðustu aldar.

Draumur skáldsins um Sovét-Ísland er líklega að rætast.


mbl.is Skuldum 5150 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sami þjösnagangurinn

Frumvarpið um niðurfellingu flestra fyrirvara Alþingis vegna ríkisábyrgðar á skuldum Landsbankans, var tekið út úr Fjárlaganefnd í morgun, án þess að farið væri yfir þau álit, sem nefndinni höfðu borist og fleiri aðilar áttu eftir að skila umsögnum.

Þar með er endanlega komið í ljós, að stjórnarmeirihlutinn ætlaði sér aldrei að standa við það samkomulag sem hann sjálfur gerði, um að Fjárlaganefnd færi vandlega yfir tuttugu atriði, sem stjórnarandastaðan vildi láta skoða betur og að nefndin tæki sér þann tíma til þess, sem hún þyrfti.

Enn á að beita sama þjösnaganginum og svikunum, til að knýja málið í endanlega atkvæðagreiðslu í þinginu, en við þriðju umræðu hafa þingmenn afar takmarkaðan tíma til umræðna.

Greinilegt er að svipuhöggin dynja enn á bakhluta stjórnarþingmanna og eymslin eru orðin svo óbærileg að allt skal til vinna, að geta farið að hylja bossann aftur.

Gallinn er bara sá, að íslenskum skattgreiðendum mun blæða í staðinn, næstu áratugina.


mbl.is Icesave tekið út úr nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími til að rita sögu söguritarans

Allir sem kynni hafa af Akraneskaupstað, vita að bærinn er bæði fallegur og vinalegur og íbúar skemmtilegir og viðkynningargóðir.  Einnig er saga bæjarins merkileg og hlýtur reyndar að vera miklu meiri og stórkostlegri, en margan hefði grunað, miðað við þann tíma, sem tekið hefur að draga saman helstu atriði úr sögu bæjarins.

Sagnaritari bæjarins hefur setið sveittur við skriftir í tíu ár og fengið fyrir tæpar 7,5 milljónir króna á ári, enda væntanlega unnið daga og nætur við gagnaöflun og minnispunkta.  Ekki er séð fyrir endann á verkinu ennþá, enda bætist alltaf við söguna, eftir því sem árin líða.

Þar sem þetta er orðin svona langur tími, sem farið hefur í söguritunina, hlýtur að fara að verða kominn tími til að ráða annan sagnaritara, til að skrifa söguna um skráningu Akranessögunnar.

Ekki má láta svo merka sögu glatast, en varla er við því að búast, að sagnaritari Akranesbæjar hafi tíma til að rita sína eigin ritarasögu, vegna þess hve vinnan við Akranessöguna er tímafrek.

Við ráðningu söguritara söguritarans þyrfti fyrirfram að ganga úr skugga um, að hann væri örugglega bæði læs og skrifandi. 


mbl.is 73 milljónir fyrir að rita sögu Akraness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn tryggingasjóður nema fyrir Breta og Hollendinga?

Breska lögmannsstofan Mishcon de Reya segir í áliti sínu vegna Icesave þrælasamningsins, að samningurinn banni íslenska ríkinu, að stofna nýjan innistæðutryggingasjóð innistæðueigenda í innlendum bönkum, svo lengi sem íslenskir skattgreiðendur verði ánauðugir Bretum og Hollendingum.

Það er með miklum ólíkindum, að stjórnvöld á Íslandi virðast ekki botna upp eða niður í þeim samningi, sem þau sjálf gerðu, um að selja þjóðina í þrældóm til áratuga, enda samningurinn skrifaður af húsbændunum sjálfum og á flóknu ensku lagamáli, sem ekki er auðskilið hverjum sem er, frekar en nýja íslenska skattalöggjöfin.

Ekki er hægt að líta öðruvísi á, en að niðurstaða Mishcon de Reya sé sú, að varla hefði verið hægt að skrifa undir samning, sem hefði orðið öllu óhagstæðari fyrir Íslendinga.

Það er erfitt að viðurkenna mistök og þess vegan þrjóskast stjórnarliðar enn við að falla frá stuðningi sínum við svikasamninginn, í örvæntingu sinni við að þóknast herraþjóðunum.

Svipusmellirnir hræða ennþá.

 


mbl.is Nýr sjóður samningsbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband