Samþykkja þrælavist, sem þjóðin mun ekki lifa af

Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson virðast ætla að styðja það, að þjóðin verði hneppt í þrælaánauð fyrir Breta og Hollendinga til næstu áratuga, vegna Icesave skulda Landsbankans, þvert á sína fyrri afstöðu til málsins.

Það merkilega er, að þau gera sér ennþá grein fyrir því, að íslenskir skattgreiðendur bera enga ábyrgð á þessu fjármálarugli bankamannanna og þar að auki viðurkenna þau, að skattgreiðendur muni tæpast standa undir þessum þrælaskuldbindingum, nema með því að lepja dauðann úr skel um áratuga skeið.

Þetta sést vel á áliti þeirra, sem fylgir meirihlutasamþykki Fjárlaganefndar Alþingis, þar sem fjallað er um skuldaklafa ríkissjóðs, en þar segir m.a:  „Ósjálfbærni skulda mun óhjákvæmilega leiða til greiðslufalls, en þá þurfa íslensk stjórnvöld að biðja kröfuhafa um hagstæðari endurfjármögnun á skuldum hins opinbera, þ.e. með lægri vöxtum og lengingu lánstímans. Í þessu felst mikil áhætta því að erfitt er geta sér til um viðbrögð kröfuhafa við slíkri beiðni," segir í álitinu.  Þar segir einnig, að draga þurfi verulega úr einkaneyslu og samneyslu á næstu árum til að þjóðin geti staðið undir greiðslubyrðinni.

Þessi afstaða minnir á atkvæðagreiðsluna um aðildarumsókn Íslands að ESB, en þá greiddu nokkrir þingmenn VG með umsókninni, en lýstu jafnframt yfir að þeir væru samt alfarið á móti aðild að ESB.

Nú virðast þeir ætla að samþykkja að hneppa þjóðina í þá þrælavist, sem þeir vita fyrirfram að hún muni ekki lifa af.


mbl.is Ekki hætta á greiðsluþroti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilraunastarfsemi

Enn er ríkisstjórnarnefnan við sama heygarðshornið varðandi þreifingar sínar um aðgerðir í þeim málum, sem hún er að kljást við.  Fyrst er alltaf lekið upplýsingum um, hvað stjórnin sé með á prjónunum og svo er dregið í land, eftir að almenningur hefur kveðið hugmyndirnar í kútinn og nýjar og svolítið mildari tillögur kynntar.

Þessi leikur hefur verið leikinn frá upphafi stjórnarsamstarfsins, nú síðast í skattamálunum.  Fyrst voru látnar leka út tillögur um gífurlegar skattahækkanir á millitekjufólkið og svo eftir mikil mótmæli í þjóðfélaginu eru kynntar nýjar tillögur, sem eiga að koma sér betur fyrir þann hóp og þá er reiknað með, að fólk taki endanlegu breytingunni betur, fyrst hún er ekki jafn skelfileg og þær sem voru látnar leka.

Félagsmálaráðherranefnan er nú að kynna arfavitlausar tillögur um að svipta ungt fólk, á aldrinum 18-24 ára helming atvinnuleysisbóta sinna, til þess að hægt verði að styrkja það til að sækja námskeið á atvinnuleysistímanum.  Hvers vegna manninum dettur ekki bara í hug að setja námskeiðin af stað og bjóða svo unga fólkinu að kaupa aðgang að þeim, er ráðgáta sem er eins skrýtin og margt annað í kýrhaus ríkisstjórnarinnar.

Þetta eru reyndar hefðbundin vinnubrögð, sem auðvitað verða dregin til baka, þegar einhver verður búinn að útskýra fyrir Árna Páli, hversu vitlausar hugmyndir hans eru.


mbl.is Skattatillögur kynntar á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan eða Evrutenging

Aðalhagfræðingur Nordea bankans hefur látið hafa þetta eftir sér:  "Erfiðleikarnir á Íslandi eru barnaleikur í samanburði við ástandið í Lettlandi,"  og skýringin er ekki flókin, að hans mati, eða eins og bankinn segir:  "Nordea segir að á Íslandi hafi gengisfall íslensku krónunnar örvað útflutning og ferðaþjónustu og þannig dregið úr áhrifum bankahrunsins. Lettnesk stjórnvöld hafa hins vegar haldið gengi gjaldmiðilsins stöðugu en brugðist við fjármálakreppunni með niðurskurði hjá hinu opinbera. Margir telja þó að ekki verði hægt að frysta gengið til lengdar og hrynji það munu erlendir bankar, sem eiga talsverðar eignir í Lettlandi, tapa miklu."

Hvað skyldi oft þurfa að benda á muninn á afleiðingum hrunsins á efnahag Íslands og ýmissa landa ESB, sem eru svo óheppin að hafa Evruna, eða fasttengingu við hana, til þess að ESB sinnar hætti stuðningi sínum við inngöngu landsins sem smáhrepps í stórríki ESB?

Útflutningur Lettlands hefur nánast hrunið vegna fastgengisins þar í landi á meðan útflutnings- og ferðaiðnaður blómstrar, sem aldrei fyrr á Íslandi og munu verða þær atvinnugreinar, sem munu koma Íslandi út úr kreppunni áður en langt um líður.  Hefðu þessar greinar búið við fast Evrugengi hefðu Íslendingar nú verið jafn illa, eða ver settir en Lettar og þykir þó flestum nóg um ástandið hér á landi.

Enn og aftur mega Íslendingar þakka sínum sæla fyrir að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil og að ekki skuli enn hafa tekist að flytja þjóðina hreppaflutningi inn í sambandsríkið ESB.

Viðbót:  Fróðlega frétt um Evruna og áhrif hennar á atvinnulíf Evrópu má lesa hérna

 


mbl.is Dökkt útlit í Lettlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona fór um sjóferð þá

Upphaf Íslenskrar erfðagreiningar var mikið ævintýri á fleiri en einn veg, misgóðan.  Gífurlegar vonir voru bundnar við að fyrirtækið myndi verða stórveldi á sviði erfðatækni og lyfjaþróunar og ÍE varð fyrsta fyrirtækið, sem Hannes Smárason, þá fjármálastjóri ÍE, tókst að selja fyrir stjarnfræðilegar upphæðir á "gráa" hlutabréfamarkaðinum.  Hann hefur síðan átt skrautlega sögu í öllum fyrirtækjum, sem hann hefur komið nálægt.

Öll árin, frá stofnun, hafa komið reglulegar tilkynningar frá félaginu, um að alveg á næstunni muni "afurðir félagsins" fara að skila gríðarlegum tekjum, en jafnoft hefur lítið, sem ekkert gerst á því sviði.  Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri félagsins, hefur verið talsmaður félagsins öll þessi ár og tekist furðu vel að halda því gangandi, þrátt fyrir takmarkaðan sýnilegan árangur af starfseminni.

Nú lýtur út fyrir, að félagið verði keypt, eða yfirtekið, af bandarískum fjárfestum, sem:  "Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri erfðagreiningu hyggjst  tilboðsgjafar í reksturinn halda starfsemi félagsins í sama horfi og verið hefur," eins og segir í fréttinni.

Auðvitað verður rekstrinum ekki haldið "í sama horfi og verið hefur", enda væri félagið ekki í núverandi stöðu, ef reksturinn hefði staðið undir sér, en það hefur hann aldrei gert, heldur þvert á móti verið geysi mikið tap á honum alla tíð.

Líklegast er, að reksturinn hérlendis leggist niður og verði sameinaður öðrum, líklegast í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir allt, verður mikil eftirsjá af þessum vonarneista íslensks hugvits.

 


mbl.is Íslensk erfðagreining seld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband