4.10.2009 | 15:32
Skömm sé norðurlöndunum, að undanskildum Færeyingum
Fram að síðasta hausti var Íslendingum alltaf talin trú um, að norðurlöndin væru okkar kærustu vinaþjóðir, ekki síst Norðmenn, en eftir hrunið hefur annað komið í ljós. Strax eftir hrunið veittu Færeyingar íslendingum lán, að upphæð 6 milljarða króna, algerlega skilyrðislaust og nú lána Pólverjar 25 milljarða, óháð frágangi á Icesave skuldum Landsbankans, en þau skilyrði settu norðurlöndin, enda engin aðstoð borist þaðan.
Athyglisvert er að lesa þessa tilvitnun í fréttinni: "Það var sérstaklega gaman að eiga í þessum samskiptum við Pólverja, því þeir voru svo jákvæðir og hjálplegir og lögðu upp úr því að þeir væru með þessu að leggja sitt af mörkum. Þetta er að mörgu leyti ný staða fyrir Pólverja, sem sjálfir hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika á undanförnum áratugum og þegið mikla aðstoð. Núna má segja að þeir séu komnir hinum megin við borðið, segir Steingrímur."
Þetta er þveröfugt við það, hvernig norðurlöndin hafa komið fram við Íslendinga. Þau hafa hvorki verið jákvæð, né hjálpleg, hvað þá að þau reyni að leggja sitt af mörkum í baráttunni við þrælahöfðingjana í Bretlandi og Hollandi.
Hafi norðulöndin ævarandi skömm fyrir sína framkomu.
![]() |
Mikilvægt að þetta sé í höfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.10.2009 | 12:35
Sanngjörn leið til jöfnunar afborgana
Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, hefur hrakist úr einu víginu í annað, vegna skulda heimilanna. Fram eftir öllu ári hélt hann því fram, að ekkert væri hægt að gera til að létta greiðslubyrði lána, en smátt og smátt hefur hann komist að þeirri niðurstöðu, sem var í raun lögleidd af fyrri ríkisstjórn á fyrra ári, að lausnin væri að færa afborganir í sama horf og þær voru í fyrravor og miða síðan við greiðslujöfnunarvísitölu, sem tekur mið af launa- og atvinnustigi í landinu á hverjum tíma.
Þetta er sanngjörn leið, því hún dreifir afborgununum í takt við launa- og atvinnuþróun, sem líklega mun leiða til þess, að allir geti greitt skuldir sínar á lánstímanum, a.m.k. húsnæðislánin, en ólíklegt er að allir jeppar, húsvagnar, húsbílar og vélsleðar greiðist að fullu á lánstímanum, að viðbættum þeim þrem árum, sem lánstíminn mun lengjast.
Þeir, sem "endurfjármögnuðu" íbúðalánasjóðslánin sín með nýjum og miklu hærri erlendum lánum, munu líklega þurfa að borga leikföngin með íbúðalánunum á lánstímanum og munu ekki fá hluta kaupverðs þeirra eftirgefin, eins og hinir, sem tóku sérstök erlend lán til kaupanna.
Að sjálfsögðu munu þeir skuldsettustu ekki sætta sig við þessa leið, þar sem "greiðsluvilji" þeirra er ekki lengur fyrir hendi og þeim finnst sjálfsagt að almennir skattgreiðendur taki á sig hluta af skuldunum.
Þessi leið er hinsvegar sanngjörn í ljósi þeirra gömlu og góðu gilda, að þeir sem taka lánin, endurgreiði þau sjálfir, en láti þau ekki falla á aðra.
![]() |
Gott til skamms tíma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2009 | 09:50
Skattaæðið í hnotskurn
Í meðfylgjandi frétt, er fjárlagafrumvarpið sett fram á nokkuð skýran og skiljanlegan hátt, þótt samandregið sé. Athyglisvert er það sem kemur vel fram á myndinni, sem fylgir fréttinni, hver lausatök á ríkisfjármálunum hafa verið mikil á þessu ári, en halli á ríkisreikningi er þar áætlaður að verði 35 milljarðar króna umfram fjárlög, en þegar upp verður staðið er miklu líklegra að hann verði 50-60 milljarðar króna.
Þessi lausung í fjármálum ríkisins kallar á miklu snarpari aðgerðir á árinu 2010, til að rétta af fjárhag ríkisins og þá er gripið til mestu skattpíningar, sem sögur farra af, í stað þess að skera hraustlega niður í ríkisútgjöldum. Í fréttinni segir: "Gert er ráð fyrir að gjöld ríkisins verði tæplega 556 milljarðar króna á næsta ári og tekjur 468 milljarðar. Fjárlagahallinn er því rúmlega 87 milljarðar. Tekjuskattar einstaklinga eru áætlaðir 143,5 milljarðar sem er aukning um 38,9% miðað við áætlaðar tekjur ríkisins í ár. Þá eru skattar á vöru og þjónustu áætlaðir rúmlega 76 milljarðar sem er 44,6% aukning. Gert er ráð fyrir að virðisaukaskattur verði 125,2 milljarðar sem er 2,3% samdráttur."
Áætlað er að einstaklingar sem greiða tekjuskatt séu um 160 þúsund, þannig að meðalhækkun á hvern skattgreiðanda, 16 ára og eldri, verður þá um 20 þúsund krónur á mánuði, sem auðvitað kemur misjafnt niður, sumir munu greiða minna og aðrir miklu meira. Það breytir því ekki, að þetta er í raun árás á afkomu heimilanna í landinu.
Þegar hækkun óbeinna skatta er bætt við, sjá allir í hvað stefnir með fjárhag heimilanna á næsta ári.
Ríkisstjórnin gerir sannarlega sitt til að auka á vanda þjóðfélagsins, með því að flækjast fyrir og reyna að koma í veg fyrir alla atvinnuuppbyggingu, sem myndi fjölga skattgreiðendum og minnka byrði hvers og eins.
Hófleg skattahækkun er nauðsynleg, en aðgerðir í atvinnumálum eru í raun eina ráðið, sem mun koma þjóðinni út úr kreppunni.
Það mun ekki takast að skattleggja hana til betri lífskjara.
![]() |
Fjárlagafrumvarpið í hnotskurn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)