22.10.2009 | 22:09
Skipanir gefnar og þeim verður hlýtt
Nú er Mark Flanagan, landfógeti, búinn að leggja línurnar fyrir Seðlabankann og ríkisstjórnina fyrir næstu mánuði, bæði varðandi stýrivexti og aðrar efnahagsaðgerðir og eins og áður mun bæði Selabankinn og ríkisstjórnin láta eins og þau taki sjálfstæðar ákvarðanir á næstunni.
Landfógetinn setur skipanirnar fram eins og ráðleggingar, en allir vita að eftir þeim "ráðleggingum" verður farið í einu og öllu. Stýrivexti má ekki lækka vegna þess að þá muni verðbólga rjúka upp og gengi krónunnar myndi hrynja.
Stýrivextir hafa verið háir og ekki hefur það haldið verðbólgu í skefjum fram að þessu, hvað þá að það hafi orðið til að styrkja krónuna. Krónan styrkist ekki á meðan gjaldeyrisafgangur af útflutningstekjum verður minni en greiðslur vaxta og afborgana erlendra lána og það ástand mun haldast um mörg ókomin ár.
Það sem helst hefur valdið mikilli verðbólgu undanfarna mánuði, eru skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og hún hefur boðað brjálæðislega hækkun á sköttum á næsta ári, bæði á beinum og óbeinum sköttum, en þeir fara beint út í verðlagið og kynda undir verðbólgunni.
Eina "ráðlegging" AGS, sem ríkisstjórnin tregðast við að fara eftir, er að spara í ríkisrekstrinum og því verður verðbólga næstu mánaða í boði ríkisstjórnarinnar, því ekkert annað knýr verðbólgu núna, annað en aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.
Flanagan landfógeti segir að stjórntæki peningamála dugi ekki til að halda aftur af verðbólgunni. Stýrivextirnir eru helsta tæki peningamála, svo í því ljósi er óskiljanlegt hvers vegna hann vill þá alls ekki leyfa lækkun þeirra.
Hann ætti að ráðleggja ríkisstjórninni að draga úr skattahækkunarbrjálæðinu.
![]() |
Vill varkárni í vaxtalækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2009 | 16:54
Óáreittir glæpahópar?
Upplýsingar lögreglunnar um að hér á landi starfi margir skipulagðir glæpahópar, bæði íslenskir og erlendir, vekja upp margar áleitnar spurningar. Ef lögreglan hefur haft vitneskju um slík glæpagengi árum saman, hvers vegna ganga þau þá laus ennþá?
Á blaðamannafundi lögreglunnar í dag kom fram að: "Margir glæpahópar hérlendis falla undir skilgreiningu evrópsku lögreglunnar Europol um skipulagða glæpastarfsemi, þar á meðað pólskir, litháískir og íslenskir glæpahópar með tengsl erlendis."
Hérlendis starfa sem sagt margir glæpahópar, en samkvæmt fréttum síðustu daga er aðeins verið að rannsaka starfsemi eins þeirra og snýst sú rannsókn m.a. um fjármunabrot, Þjófnaði, ofbeldisbrot, fíkniefnabrot, skjalafals og peningaþvætti. Áður höfðu tveir erlendir hópar verið upprættir, en þeir virtust hafa sérhæft sig í innbrotum, bæði á heimili og í fyrirtæki.
Þarna er þá samtals um að ræða þrjá glæpahópa, en ef margir í viðbót eru starfandi hérlendis og lögreglan veit um starfsemi þeirra, því eru þeir þá ekki teknir úr umferð samstundis?
![]() |
Margir glæpahópar með erlend tengsl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.10.2009 | 15:06
Pétur Blöndal er alltof tilætlunarsamur
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, missti út úr sér á Alþingi, væntanlega í hita leiksins, kröfu um að ráðherrar skildu það, sem þeir væru að tala um, eða eins og fram kemur í fréttinni: ""Hann er að borga frá 22. apríl 40 milljarða meiri skuld og hann borgar á hverjum degi 100 milljónir í vexti. Það vex og vex hjá innlánstryggingasjóði og hver skyldi borga það: ríkissjóður. Og ég krefst þess að ráðherrar sem standa í þessu máli skilji þessa hluti, sagði Pétur og barði í ræðupúltið."
Þarna var Pétur að tala um innistæðutryggingasjóð í tilefni af frumvarpi ríkisstjórnarinnar um algera uppgjöf gagnvart þrælahöldurunum, vegna Icesave skulda Landsbankans.
Að ætlast til þess, að ráðherrarnir skilji það sem þeir eru sjálfir að tala um, er náttúrlega alger tilætlunarsemi af Pétri Blöndal.
Hann ætti að temja sér meira umburðarlyndi gagnvart ríkisstjórninni, því hún er hvort sem er óskiljanleg.
![]() |
100 milljónir í vexti á dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2009 | 13:14
Grínari með uppistand
Össur Skarphéðinsson, grínráðherra, var með eitt af sínum uppistöndum á Alþingi í dag og reitti af sér sína venjulegu og lélegu brandara fyrir þingheim.
Afar misvísandi tölur hafa verið nefndar um hugsanlegar endurheimtur Landsbankans upp í Icessaveskuldir sínar, allt frá 35% og nú síðast um 90%, eftir að Nýji Landsbankinn var látinn gefa þeim gamla um 300 milljarða króna í gengistryggðu skuldabréfi, til tíu ára. Eftir það kom fjármálajarðfræðingurinn fram með þá von sína, að endurheimturnar yrðu allt að 90% og þar með yrðu skattgreiðendur aðeins látnir borga 75 milljarða króna, að viðbættum 250 - 300 milljarða vöxtum.
Í sínu uppistandi segir grínarinn Össur, að endurheimturnar verði líklega betri en nokkurn hafi látið sér detta í hug áður og hlýtur hann þá að meina að þær fari yfir 100%, en það er tala sem hvorki fjármálajarðfræðingurinn eða forsætisráðherralíkið hafa látið sér detta í hug að ljúga að nokkrum manni, ekki einu sinni sjálfum sér.
Það er óborganlegt að hafa slíkan skemmtikraft sem Össur á þingi á þessum erfiðu tímum.
Hann hefur þann fágæta hæfileika, að fá fólk til að hlægja, meira að segja áður en hann byrjar að tala.
![]() |
Mun léttari pakki en áður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2009 | 08:29
Stjórnarandstaða VG
Stjórnarandstæðingurinn Lilja Mósesdóttir, þingmaður ríkisstjórnarflokksins VG, ræðst fram á ritvöllinn í Mogganum í dag og segir bráðnauðsynlegt að endurnýja samstarfssamninginn við AGS, enda hafi sjóðurinn, einhliða, sagt upp samstarfinu við Ísland.
Lilja segir að AGS hafi svikið afgreiðslu allra mála, ekki síst lánaafhefdingar, á árinu og því verði að semja að nýju og segir m.a. í greininni: "Semja þarf um verulega vaxtalækkun, að lánum sjóðsins verði breytt í lánalínur sem aðeins verða notaðar í neyð og að niðurskurður verði mildaður til að tryggja fulla atvinnu. Jafnframt þarf AGS að aðstoða íslensk stjórnvöld við að endursemja við erlenda lánardrottna um lægri vexti og afskriftir til að forða ríkissjóði og þjóðarbúinu frá greiðsluþroti strax á næsta ári."
Fyrir tveim dögum mótmælti Gylfi Magnússon, viðskipta- og efnahagsmálaráðherra, því harðlega, að skuldastaða þjóðarbúsins væri slík, að nokkur hætta væri á greiðsluþroti í framtíðinni, enda væru mörg ríki á vesturlöndum miklu skuldsettari en Ísland. Allar raddir um greiðsluþrot væru því út úr kú og til þess eins að blekkja þjóðina og hræða.
Nú segir Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og þingmaður VG, að forða verði þjóðarbúinu frá greiðsluþroti strax á næsta ári.
Er ekki kominn tími til að stjórn og stjórnarandstaða í ríkisstjórnarflokkunum fari að koma sér saman um málin og tala einni röddu? Ekki væri síðra, að stjórnin færi að segja þjóðinni satt.
Það gæti orðið til að minnka hræðslu þjóðarinnar við framtíðina og gæti jafnvel eflt kjark hennar.
![]() |
Gera þarf róttæka breytingu á efnahagsáætlun AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)