20.10.2009 | 15:57
Ótrúleg léttúð í umræðu um hundruð milljarða
Það hefur margoft komið fram frá stjórnarliðum, sérstaklega Samfylkingunni og stuðnigsmönnum hennar hér á blogginu, svo og annarsstaðar, að það verði ekkert mál fyrir Íslendinga, að borga Icesave skuldir Landsbankans, ekki síst þar sem búið er að blekkja almenning með því að 90% fáist upp í kröfurnar úr þrotabúi Landsbankans. Það var reiknað út eftir að nýji Landsbankinn var látinn leggja 300 milljarða skuldabréf til gamla bankans, til þess að dæmið liti betur út í áróðrinum.
Jafnvel þó 90% fengjust upp í Icesaveskuldina án blekkinga, þá standa alltaf útaf nokkur hundruð milljarðar vegna vaxta og að láta eins og nokkur hundruð milljarðar séu bara smámál, er algert ábyrgðarleysi og að ekkert mál verði að borga það, er helber lygi.
Nóg er að vitna til Guðlaugs Þórs, þingmanns, er hann segir: "Með 200 milljarða áætluðum vaxtagreiðslum af Icesave hlyti stuðningur VG við samninginn að vera í uppnámi. Hér væri á ferð upphæð sem jafngilti fjórum nýjum háskólasjúkrahúsum." Hér er vægast sagt varlega áætlað, þegar "aðeins" er talað um 200 milljarða í vexti, því líklega verður upphæðin nær 400 milljörðum.
Til að setja upphæðina í annað samhengi, má vitna til Péturs Blöndals, þingmanns, þegar hann segir: "Ísland þyrfti að greiða vexti af Icesave-skuldinni þótt enginn hagvöxtur væri í landinu á greiðslutímabilinu, eða árlega 15 til 50 milljarða króna, samanborið við 10 milljarða árlegt framlag ríkisins til Háskóla Íslands."
Að ræða þessar upphæðir af þeim hálfkæringi, sem stjórnarsinnar gera, er algerlega út í hött og eintómt ábyrgðarleysi, ekki síst í því ljósi, að samkvæmt ESB tilskipuninni ber íslenskum skattgreiðendum ekki að borga eina einustu krónu af þessu.
Líklega fara menn að skilja þetta, þegar skattahækkanir vegna Icesave skella á, eftir fimm ár, eða fyrr.
![]() |
Gleymdu 200 milljörðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2009 | 13:14
Umræðan ekki á villigötum
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, mótmælir málflutningi Gunnars Tómassonar, hagfræðings, og annarra, sem telja skuldastöðu þjóðarbúsins orðna svo slæma, að í óefni stefni, jafnvel að stefni í þjóðargjaldþrot.
Gylfi segir þennan málflutning á algerum villigötum og að engin hætta sé á slíku og nefnir að álíka skuldastaða sé hjá Bandaríkjamönnum og Dönum. Ekki er hægt að líkja ástandinu hérlendis við Bandaríkin, því dollarinn er heimsgjaldmiðill og hann hefur verið að falla upp á síðkastið og það léttir á erlendri skuldabyrði Bandaríkjanna, en Íslendingar verða að treysta á vöruskiptajöfnuð við útlönd, til þess að geta greitt niður erlendar skuldir.
Það sem skapar erlendan gjaldeyri hérlendis er aðallega sjávarútvegur, áliðnaður og ferðaiðnaður og undanfarna áratugi hefur ekki verið mikill afgangur af vöruskiptajöfnuði við útlönd, enda hafa Íslendingar stöðugt aukið við erlendar skuldir sínar og gekk það algerlega út yfir öll mörk á síðustu árum.
Íslendingar geta ekki reiknað með að taka nánast nein ný lán í útlöndum á næstu áratugum, enda þjóðarbúið svo skuldsett, að engar erlendar lánastofnanir munu þora að lána stórar upphæðir hingað til lands, nem þá helst til orku- og stóriðju.
Tími lánaniðurgreiðslu er kominn og fyrir því mun íslenska þjóðarbúið finna verulega næstu áratugina.
![]() |
Umræða um erlendar skuldir á villigötum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2009 | 10:22
Bókfært verð - söluverð - skuldir
Allar fréttir, sem berast frá útrásargörkum eru misvísandi, segja lítið sem ekkert og eru oftar en ekki villandi, til að reyna að fegra gjörningana, sem er verið að segja frá.
Landic Property, sem átt hefur í miklum erfiðleikum, eftir heimsútrásina, sendir nú frá sér tilkynningu um að félagið hafi selt eignir í Danmörku fyrir tæpa 50 milljarða króna, sem sé ásættanlegt verð, enda það sama og bókfært verð eignanna. Ekki er víst, að þetta segi alla söguna, þar sem ekkert er greint frá því, hvað félagið hafði tekið stór lán til þessara kaupa á sínum tíma. Lánin geta verið miklu hærri en þetta söluverð og því sölutapið mikið, en um það er ekkert getið í tilkynningunni.
Annað garkafélag, Hagar, tilkynnti í gær, sigri hrósandi, að það hefði verið að greiða upp sjö milljarða skuldabréfaflokk, sem skráður var í Kauphöllinni og að Hagar væru eina félagið sem hefði afrekað slíkt eftir hrun. Í framhjáhlaupi var þess getið að Landsbankinn og Kaupþing hefðu lánað fyrir þessari greiðslu, þannig að alls ekki var um greiðslu á skuld að ræða, heldur framlengingu skuldabréfanna.
Þetta bendir til þess, að þessir garpar hafi ekki sama skilning og aðrir á greiðslu skulda, enda hafa þeir aldrei borgað nokkra einustu skuld upp, aðeins "endurfjármagnað" þær.
Þannig þykjast þeir greiða upp skuldir, en oftast eru þeir að auka skuldir sínar, en ekki að minnka þær.
![]() |
Landic selur starfsemi í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)