16.10.2009 | 16:40
Lítilsvirt atvinnugrein sem ekki ætti að reyna að banna
Vændi er elsta atvinnugrein í heimi og er stunduð í öllum löndum, öllum þjóðfélögum og öllum stigum þjóðfélaganna, en nú á tímum er þetta lítilsvirt atvinnugrein, sérstaklega í tvískinnugslöndunum sem kenna sig við "norrænt velferðarkerfi".
Þeir, sem kenna sig við baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi, prédika stíft að hver manneskja ráði sjálf yfir sínum eigin líkama og megi gera við hann það sem hún vill, svo lengi sem það skaði ekki aðra. Undir þessa frelsisbaráttu fellur krafan um frjálsar fóstureyðingar, en þegar kemur að því að vilja nota líkamann í vændisstarfssemi, þá er allt annað hljóð í strokknum og þá eru það karlmennirnir sem eru versti óvinurinn og í raun kvenníðingar, vilji þeir kaupa þessa þjónustu.
Það felst mikill tvískinnungur í þessari baráttu og er í raun eingöngu til þess fallin, að niðurlægja þær konur, sem velja að vinna fyrir sér með öðrum líkamspörtum en höndunum, fótunum eða höfðinu.
Að sjálfsögðu á að berjast með hörku gegn glæpamönnum, sem hneppa konur í þrældóm og neyða þær til að stunda þessa atvinnu, og alveg eins á ekki að líða glæpamönnum, eða öðrum, að hneppa fólk í þrældóm yfirleitt og skiptir þá engu máli um hvaða störf er þar að ræða.
Konur sem stunda vændi af einhverri neyð, t.d. vegna áfengis- eða dópfíknar, eiga að fá hjálp til þess að losna undan fíkninni og þar með ástæðunni fyrir atvinnuvalinu, og á það að vera verkefni félagsmálayfirvalda, að leysa þau mál, en ekki lögreglunnar.
Þær konur, sem kjósa að vinna við vændi, af fúsum og frjálsum vilja, eiga að hafa fullt leyfi til þess, alveg eins og "kvenfrelsisbaráttufólkið" hefur frelsi til að velja sér störf, eftir sínum hentugleika.
Vændi verður ekki upprætt með valdboði, eða lögreglurassíum. Það ættu menn að vera farnir að skilja, eftir allar þessar þúsundir ára, sem vændi hefur verið stundað.
![]() |
Götuvændi stundað í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2009 | 14:36
Þrælapískararnir hræddir við dómstóla
Bretar og Hollendingar ætla að hneppa íslensku þjóðina í fjárhagslega ánauð til áratuga, vegna ævintýramennsku einkabanka, sem alls ekki var í ríkisábyrgð og raunar bannar tilskipun ESB alla ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðum banka í ESB löndum, af samkeppnisástæðum. Án sérstaks leyfis, má til að visa á ÞETTA blogg Lofts Altice Þorsteinssonar og athugasemdirnar við það, en það er afar fróðleg og nánast tæmandi umræða um þetta efni.
Nú segir Jóhanna, forsætisráðherralíki, og Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, að það sem út af standi í viðræðum við þrælapískarana "sé annars vegar hvort Íslendingar geti leitað réttar síns komi í ljós að þeir þurfi ekki að borga, og hins vegar hvað gerist eftir 2024 þegar ríkisábyrgð fellur af lánunum, samkvæmt ákvörðun Alþingis."
Skyldu þessar ráðherranefnur ekki spyrja, a.m.k. sjálfar sig, hvers vegna þrælahaldararnir séu svona hræddir við að málið fari fyrir dómstóla? Svarið liggur auðvitað í augum uppi. Þeir vita sem er, að þeir myndu tapa málinu fyrir hvaða dómi sem er í veröldinni.
Það furðulega er, að íslensku ráðherranefnurnar skuli ennþá vera í viðræðum við þessa þrælahöfðingja, en láta ekki frestinn, sem er til 23. október, renna út, innistæðutryggingasjóðinn lýsa sig gjaldþrota og láta síðan þessa svipusveiflandi kvalara sína stefna málinu fyrir dóm.
Þá, og einungis þá, mun réttlætinu verða fullnægt og allt ESB klanið verða að athlægi.
![]() |
Enn deilt um dómstólaleið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2009 | 11:11
Hvað um Fréttablaðið?
Nú er Skjár einn að gefast upp á að senda út ókeypis dagskrá sína, vegna mikils samdráttar auglýsingatekna. Mánaðaráskrift er boðuð að verði 2.200 krónur á mánuði og verður fróðlegt að sjá hvernig Skjá einum mun takast upp í samkeppninni við Stöð 2, en þar er mánaðaráskrift nú 6.990 krónur á mánuði.
Skjá einum hefur tekist að verða aðaláhorfsstöð margra, sérstaklega unga fólksins, þannig að afar erfitt er að spá um, hvernig stöðinni mun ganga að fá þessa tryggu áhorfendur sína til þess að fara að borga áskriftargjald. Unga fólkið hefur margt alist upp við að þurfa ekki mikið fyrir lífinu að hafa, hafa getað treyst á foreldrana um peninga og horft ókeypis á Skjá einn og lesið Fréttablaðið, sem dreyft hefur verið "ókeypis" í hús fram að þessu.
Reyndar er Fréttablaðinu ekki dreyft lengur í hús, nema á höfuðborgarsvæðinu og nokkrum stærstu kaupstöðunum, annars staðar verður fólk að hafa fyrir því að sækja blaðið á bensínstöðvar eða í götukassa.
Nú hafa auglýsingatekjur Fréttablaðsins hrunið, eins og annarra fjölmiðla, þannig að nú hlýtur að fara að styttast í því, að blaðið verði gert að áskriftarblaði. Aðalauglýsingatekjur blaðsins koma nú frá fyrirtækjum eigenda þess, þ.e. Baugsveldinu, og líklega dugar sá stuðningur einn ekki til lengdar.
Þegar Fréttablaðið verður orðið áskriftarblað, verður það eingöngu smekkur almennings fyrir efni fjölmiðlanna, sem mun ráða lífi þeirra og dauða.
![]() |
SkjárEinn verður áskriftarstöð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.10.2009 | 09:24
Mikilvægt að halda samninga
Rio Tinto Alcan hefur lagt til hliðar áætlanir áætlanir um byggingu risaálvers í Suður-Afríku, vegna þess að yfirvöld þar og raforkufyrirtækið Eskom vilja ekki standa við upphaflegan orkusölusamning til Rio Tinto. Á svipuðum tíma upplýsti íslenski fjármálajarðfræðingurinn að ekki yrði staðið við langtímasamninga við íslensk stóriðjufyrirtæki, heldur yrði lögð á þau nýjir orkuskattar upp á milljarða króna, hvert um sig.
Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, því samningur við Norðurál um álver í Helguvík er kominn í uppnám og Alcan hefur slegið á frest stækkunaráformum sínum í Straumsvík. Garðyrkjubændur hafa lýst því yfir, að með þessum nýju sköttum, neyðist þeir líklega til að hætta gróðurhúsaræk yfir vetrarmánuðina og svona mætti áfram telja. Örfá prósent í hækkun rekstrarkosnaðar, geta skipt þessi fyrirtæki öllu máli, hjá þeim gilda ekki happa- og glappaaðferðir, eins og hjá ríkisstjórnum.
Í þeirri kreppu sem nú ríkir hérlendis, ríður mest á að efla atvinnulífið og auka þar með atvinnu, sem aftur eykur skatttekjur ríkissjóðs, en minnkar atvinnuleysisbætur, sem ekki veitir af, enda atvinnuleysistryggingasjóður tómur.
Því miður þurfa Íslendingar að lifa við ríkisstjórn, sem ekki skilur einföldustu undirstöðuatriðin, sem máli skipta, til að koma landinu út úr kreppunni.
![]() |
Rio Tinto Alcan hættir við í S-Afríku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)