Er réttarstaðan ótvíræð?

Björn Þorri Viktorsson, hrl., fagnar nýjum dómi héraðsdóms um gengistryggð lán, en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ólöglegt væri að gengistryggja lán, þar sem höfuðstóllinn væri tilgreindur í íslenskum krónum.  Annar héraðsdómari hafði komist að þveröfugri niðurstöðu í sambærilegu máli í desember s.l.

Þrátt fyrir þennan tímamótadóm, sem verður áfrýjað til Hæstaréttar, telur Björn Þorri að lántakendur gætu hafa glatað réttindum, með því að gera ekki fyrirvara við lánasamningana, hafa samþykkt frystingu eða skilmálabreytingu lánanna.  Ef slíkar aðgerðir hafa rýrt réttarstöðu lántakenda, þá er þessi dómur sýnd veiði, en ekki gefin, því þorri lántakenda hefur gert einhverjar slíkar ráðstafanir með lán sín og væntanlega ekki margir, sem hafa gert það með því að árita fyrirvara á nýju pappírana.  Líklega hefur enginn tekið slík lán með því að árita fyrirvara á upphaflega lánasamninginn, enda hefði lánið þá líklega aldrei verið veitt.

Því vekja þessi ummæli Björns Þorra upp nýjum spurningum við þessi lánamál, til viðbótar við ýmsar aðrar spurningar, sem bloggað var um í morgun og má sjá hérna


mbl.is Sigur fyrir réttarríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi finnur deCode markaðinn

Newsweek segir að deCode hafi verið árangursríkustu mistök í heimi, ekki vegna þess að fyrirtækinu hafi mistekist vísindaleg ætlunarverk sín, heldur vegna þess að því hafi ekki tekist að skapa tekjur úr mörgum merkum niðursöðum rannsókna sinna.

Ef til vill má rekja þessi rekstrarlegu mistök til upphafs fyrirtækisins, en þá var Hannes Smárason fjármálastjóri þess og hans helsta "afrek" var að tala upp gengi hlutabréfa fyrirtækisins, með þeim árangri að verð þeirra fór upp úr öllu valdi, sjóðir fyrirtækisins urðu digrir, en fljótlega féllu bréfin aftur í verði, þegar tekjur af rekstri létu standa á sér.

Hannes fór tiltölulega fljótlega frá fyrirtækinu og nýtti sér reynsluna af markaðssetningu þess, til þess að leika sama leikinn í fjölda annarra fyrirtækja, sem öll eru nú gjaldþrota, en sjálfur býr hann í lúxusvillu í auðmannahverfi London, án þess að nokkur maður viti hvaðan honum kemur fé til að fjármagna lúxuslíf sitt.

Líklega hefur sá gífurlegi sjóður, sem deCode áskotnaðist í upphafinu deyft skilning forystumanna félagsins á nausyn þess, að koma uppgötvunum félagsins í söluvænlegt horf, enda urðu tekjurnar aldrei miklar í samanburði við útgjöldin, enda varð félagið gjaldþrota, þegar sjóðina þraut.

Nú hafa nýjir fjárfestar komið inn í fyrirtækið, með nýtt fjármagn og bandarískan framkvæmdastjóra, með reynslu af rekstri á þessu sviði og verður það vonandi til þess að koma fyrirtækinu á nýjan rekspöl, sem treysti rekstur þess til frambúðar.

Kári Stefánsson hefur sannað sig á vísindasviðinu, en ekki sem rekstrarmaður, en nú verður vonandi breyting á, þegar hann fær góðan fjármálalegan framkvæmdastjóra sér við hlið.

Íslensk erfðagreining er geysilega mikilvægt fyrirtæki, sem skapar verðmæt störf, sem ekki standa annarsstaðar til boða á Íslandi og því bráðnauðsynlegt fyrir land og þjóð, að það nái að vaxa og dafna.


mbl.is Fjallað um deCODE í Newsweek
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörgum spurningum ósvarað

Dómurinn, sem nýfallinn er í héraðsdómi, um að ólöglegt sé að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, er stórmerkilegur, ekki síst vegna þess að hann varpar ljósi á vankunnáttu og flumbrugang lánastofnana við lánveitingar.  Í lögum er þetta alveg skýrt, þ.e. að bannað sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum, en hins vegar er ekki óheimilt að veita erlend lán, en það er tvennt ólíkt.

Í skuldabréfi þar sem tekið er fram að lántakandi sé að taka að láni ákveðna íslenska upphæð, er óheimilt að binda greiðslur við erlenda gjaldmiðla, en ef höfuðstóllinn er í erlendum gjaldmiðli, er eðlilegt að afborganirnar séu einnig í þeim sama gjaldmiðli.  Þetta tvennt er gjörólíkt, það fyrra ólöglegt, en það síðara löglegt.

Í tilefni af þessum dómi vakna margar spurningar, sem dómurinn sjálfur svarar ekki, þar sem einungis segir að gengisviðmiðunin sé ólögleg, en sjálfur lánssamningurinn ekki.  Er þá lánastofnuninni heimilt að endurreikna afborganirnar miðað við vísitölu neysluverðs, eða á að líta svo á að lánið sé algerlega óverðtryggt?  Hvað með vexti?  Væntanlega hafa vextir verið lægri á þessu láni, en venjulegum lánum í íslenskum krónum, allavega óverðtryggðum lánum.  Teljist lánið algerlega óverðtryggt, standa þá lágu vextirnir, eða er lánastofnuninni heimilt að endurreikna vextina, miðað við önnur óverðtryggð lán?

Þetta eru stórar spurningar, sem enn er ósvarað.  Þessum dómi verður örugglega áfrýjað til hæstaréttar, sem trúlega staðfestir hann.  Þá er líklegt að ný málaferli hefjist um aðra þætti, svo sem verðtryggingu og vexti.

Það verður spennandi að fylgjast með framhaldi þessa máls.


mbl.is Gengislánin dæmd óheimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur gefur ekkert eftir

Ólafur Hauksson, sérstakur saksóknari, stendur í ströngu þessa dagana úti í Luxemborg við leit á einkaheimilum og í Banque Havilland, bankanum sem yfirtók starfsemi Kaupþings þar í landi.

Margur fjárglæframaðurinn andaði léttar, þegar starfsemi Kaupþings í Luxemborg var seld, því þar með reiknuðu þeir með, að bankaleyndin í Luxemburg myndi sjá til þess, að engar upplýsingar fengjust þaðan, um þau "myrkraverk" sem unnin voru af íslensku bönkunum þar í landi og teygðu anga sína um öll skattaskjól veraldar.

Nú er þessum sömu fjárglæframönnum væntanlega þungt um andardráttinn, því við þessa rannsókn mum margt gruggugt koma í ljós og ýmislegt fleira, en tengist viðskiptum með hlutabréf Kaupþings og afleiðuviðskiptin, sem Ólafur segir að séu grunnur leitarinnar.

Ólafur Hauksson hefur staðið sig frábærlega frá því að hann tók til starfa sem sérstakur saksóknari, og ekki hefur skemmt fyrir, að njóta ráðgjafar Evu Joly um þessar glæparannsóknir.

Þó svona fjárglæfrarannsóknir séu afar flóknar og tímafrekar, mun hið sanna koma í ljós áður en yfir lýkur og þá mun margur "góðborgarinn" afhjúpast sem réttur og sléttur skúrkur af stærri gerðinni.


mbl.is Leitað í Lúxemborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri stjórnin tefur hagvöxt

Samtök atvinnulífsins segja, að það þurfi 5% árlegan hagvöxt, til þess að eyða atvinnuleysinu fyrir árið 2015, þ.e. með slíkum hagvexti tæki sjö ár, að koma landinu á sama stað og það var fyrir hrun.

Allir greiningaraðilar telja að 2,5% árlegur hagvöxtur sé ágætur í eðlilegu árferði og 3,5% afar gott, þó mögulega geti komið eitt og eitt ár, með meiri hagvöxt en þessi meðaltöl.

Með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi hefur vinstri stjórninni í landinu tekist að tefja alla atvinnuuppbyggingu í heilt ár og ekki útlit fyrir annað, en að hún muni halda áfram að flækja og tefja alla uppbyggingu, sérstaklega í útflutningsgreinunum, sem einmitt þyrfti allra helst að efla.

Fimm prósent árlegur hagvöxtur er gjörsamlega óraunhæft markmið, á meðan vinstri grænir ráðherrar sitja í þeim ráðuneytum, sem geta eyðilagt fyrir atvinnuuppbyggingunni. 

Samtök atvinnulífsins segja að verði ekki af þessum 5% árlega hagvexti, muni framundan vera áratugur hinna glötuðu tækifæra.

Sitji ríkisstjórnin út kjörtímabilið gæti hún verið búin að valda svo miklu tjóni, að það muni taka tvo áratugi fyrir þjóðarbúið að jafna sig.

Því fyrr, sem þjóðin losnar við þessa ríkisstjórn, því betra.


mbl.is 5% árlegur hagvöxtur nauðsyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hárrétt hjá Guðlaugi Þór

Það er alveg hárrétt hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að nauðsynlegt er að farið verði ofan í saumana á verkum fjármálastofnanna eftir hrun, ekkert síður en á því, sem gerðist fyrir hrun.  Á það bæði við um störf skilanefnda gömlu bankanna og starfsemi nýju bankanna.

Ekkert hefur verið upplýst um, hvað mikið hefur verið afskrifað af bankastjórum og starfsmönnum gömlu bankanna, né vegna útrásartaparanna og annarra af skilanefndum bankanna, enda hefur öll starfsemi þeirra verið þoku hulin og falin af bankaleynd. 

Ekki síður þarf að fara ofan í afskriftir og aðrar gerðir nýju bankanna gagnvart því liði, sem setti þjóðfélagið á hausinn með glæpsamlegum lántökum og áhættutöku í alls kyns fyrirtækjum, innanlands og utan.

Að minnsta kosti í tveim nýlegum tilvikum, hafa bankarnir algerlega gengið fram af almenningsálitinu, en  það er þegar Ólafi Ólafssyni var fært Samskip á silfurfati, þrátt fyrir gífurlegar fyrirséðar afskriftir skulda honum tengdum, fyrir utan að hann sætir sakamálarannsókn.

Hitt nýlega tifellið er sú ákvörðun Arion banka, að afskrifa meginhluta 70 milljarða skulda fyrirtækis Bónusfeðga, 1998 ehf., en afhenda þeim síðan Haga bakdyramegin, með því að gefa þeim og félögum þeirra kost á að ná þar undirtökunum á nýjan leik, enda þarf ekki stóran hlut í fyrirtæki, sem er á hlutabréfamarkaði, til þess að ná ráðandi stöðu.

Þetta og margt fleira þarf að rannsaka almennilega, með því að framlengja starf Rannsóknarnefndar Alþingis, eftir að hún hefur lokið störfum vegna þess sem gerðist fyrir bankahrun.

Margt bendir til að ýmislegt, sem ekki þolir dagsljósis, hafi átt sér stað allt frá hruni og fram á þennan dag.


mbl.is Rannsaka þarf það sem gerst hefur frá hruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju bjargaði evran þeim ekki?

Viðreisn efnahagslífs Evrópu hefur stöðvast aftur, eftir að það virtist ætla að rétta úr kútnum, eftir örlítinn bata á þriðja ársfjórðungi 2009.  Samdráttur varð aftur á Ítalíu á fjórða ársfjórungi 2009 og það sem mest um munar, er að stöðnun var í þýska hagkerfinu, en eins og allir vita hefur það verið Þýskaland, sem hefur í raun haldið efnahag ESB gangandi fram að þessu.

Evrópulönd eru að byrja að rétta úr kútnum eftir mesta efnahagssamdrátt, sem sögur fara af og þvert á fullyrððingar íslenskra aðdáenda ESB um að evran sé töfragjaldmiðill, þá hefur hún alls ekki bjargað neinu, heldur þvert á móti verið alger dragbítur á flest evrulönd, t.d. Grikkland, Ítalíu, Spán, Portúgal og Írland, svo einhver lönd séu nefnd.

Efnahagur Grikklands er hruninn og vegna evrunnar eru hin ESB ríkin komin í þá aðstöðu í fyrsta sinn, að neyðast til að láta skattgreiðendur sína yfirtaka stóran hluta ríkisskulda Grikklands og a.m.k. er víst, að þýskur almenningur mun ekki taka því fagnandi.

Líklega er þetta ekki bara upphafið að gliðnun ESB, heldur upphafið að endalokum evrunnar.

Er þetta draumurinn um stórríkið, sem sumir vilja innlima íslendinga í, án þess að hafa þar einu sinni hreppstjóra?


mbl.is Stöðnun í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ekki að svara fyrir sig

Hollendingr herða nú róðurinn gegn Íslendingum og beita hvers kyns áróðri, nú þegar þeir sjá fram á að þurfa að falla frá kúgunum sínum gegn saklausum íslenskum skattgreiðendum vegna Icesave skulda Landsbankans í Hollandi.

Bos, fjármálaráðherra Hollands, hefur sett af stað rannsókn á fullyrðingum hollenska seðlabankastjórans um að íslensk yfirvöld hafi verið síljúgandi að kollegum sínum í Hollandi, um stöðu íslensku bankanna og efnahags landsins.

Þetta er auðvitað áróðursbragð af hálfu Hollendinga, nú þegar nýjar samningaviðræður við þá og Breta eru fyrir höndum og komið hefur fram áður, að Hollendingar eru öllu illskeyttari i yfirgangnum gegn íslenskum skattgreiðendum, en Bretar og er þá mikið sagt.

Íslensk stjórnvöld hafa staðið sig ótrúlega illa í kynningu síns málstaðar, fram undir það allra síðasta og ekkert ber á því, að þau ætli að svara Hollendingum í sömu mynt og fullum hálsi.

Ætla Íslendingar virkilega að láta Hollendinga og Breta vaða yfir sig aftur með áróðri og ásökunum, án þess að gera minnstu tilraun til að slá frá sér.


mbl.is Rannsaka ásakanir um lygar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollendingar viðurkenndu ábyrgð tryggingasjóðsins

Hollenski seðlabankinn bannaði Kaupþingi að opna innlánsreikninga, svipaða Icesave, vegna þess að hann hafði áhyggjur af ótraustri stöðu íslensks efnahagslífs.  Þetta gerðist skömmu eftir að Landsbankinn opnaði Icesave í Hollandi og er undarlegt, að ekki hafi verið gripið til sömu aðgerða gegn Landsbankanum, fyrst Hollendingarnir voru orðnir áhyggjufullir vegna efnahagsástandsins.

Athyglisverðast er, að rök hollenska seðlabankans voru ekki síst þau, að íslenski innistæðutryggingasjóðurinn væri of veikburða til þess að geta tryggt innistæðurnar í Hollandi.  Á þeim tíma var Hollendingum fullkunnugt um, að engin ríkisábyrgð væri á sjóðnum og því yrði hann að vera bakhjarl innlánsreikninganna, einn og óstuddur.

Þetta sýnir þá hentistefnu, sem bresk og hollensk yfirvöld hafa iðkað í samskiptum sínum við íslensk yfirvöld, eftir bankahrun.

Svona hentistefna heitir öðru nafni yfirgangur, óréttlæti og kúgun.


mbl.is Kaupþing stoppað af í Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegt forval hjá VG

Óskiljanlegar prófkjörsreglur og misjöfn túlkun þeirra milli dags og nætur, hafa nú orðið til þess að mussuhippi mun leiða listann í borgarstjórnarkosningunum í vor og kjörstjórnin sá sér ekki fært að stilla listanum þannig upp og sagði af sér hið skjótasta.

Það hefur komið fram, að fólk út í bæ gat prentað út kjörseðla, væntanlega úr tölvu, og farið með þá heim til fólks, látið það kjósa, eða kosið fyrir það og skilað síðan seðlinum í kjörkassa á kjörstað.  Í öllum alvöru kosningum eru kjörseðlar forprentaðir og ekki afhentir neinum nema kjósanda sjálfum, sem svo merkir á hann og skilar honum svo sjálfur af sér í kjörkassann.

Ótrúlegt er að nokkur sátt verði innan VG um lista, sem verður til með svona vinnubrögðum, enda má reikna með því, að fylgi listans verði samkvæmt því í kosningunum í vor.


mbl.is Kjörstjórn víkur og forvalsreglur VG verða skoðaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband