28.4.2010 | 08:38
Evruland í ruslflokki
Ísland hefur orðið fyrir hlutfallslega mesta bankahruni í veröldinni og er í mikilli fjármála- og skuldakreppu, sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Þrátt fyrir allt, sem á undan er gengið hefur tekist að halda uppi bankaþjónustu við almenning, þó mikið vanti upp á að þjónustan við atvinnulífið sé komin í viðunandi horf.
Lánshæfismat íslenska ríkisins og þjóðarinnar í heild er í næsta flokki fyrir ofan ruslflokk, þ.e. það hefur haldist í fjárfestingarflokki og ástandinu nýlega verið breytt úr neikvæðu í stöðugt. Þeir sem lenda í ruslflokki í þessum mötum teljast ekki lengur nógu traustir aðilar, til þess að óhætt sé að versla með skuldabréf þeirra af öryggi á fjármálamörkuðum, því í slíku mati felst spá, um að viðkomandi muni ekki geta greitt skuldir sínar í nánustu framtíð.
Grikkland hefur nú dottið niður í ruslflokk hjá matsfyrirtækjunum og getur því ekki lengur endurfjármagnað skuldir sínar og hefur orðið að leita til AGS og ESB eftir neyðarhjálp. Því hefur lengi verið haldið fram, að Íslendingar hefðu ekki lent í neinni kreppu, ef þeir hefðu verið gengnir ESB á hönd og búnir að taka evruna upp sem gjaldmiðil.
Grikkland, Spánn, Ítalía, Írland, Portúgal og fleiri ESB lönd hafa nú afsannað þessa kenningu á eftirminnilegan hátt.
![]() |
Skuldir Grikkja verða endurfjármagnaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.4.2010 | 21:27
Nornaveiðarnar halda áfram
Um þessar mundir er þjóðfélagið á hvolfi vegna nornaveiða og beinast þær helst að stjórnmálamönnum, enn sem komið er að minnsta kosti. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var knúin til að segja af sér varaformennsku í Sjálfstæðisflokknum og taka sér hlé frá þingstörfum, vegna fyrri starfa og gerða eiginmanns hennar. Þingmenn hafa tekið frí frá þinginu vegna tengsla við bankana fyrir hrun og einstakir þingmenn eru umsetnir á heimilum sínum af nornaveiðurum, sem þykjast geta dæmt æruna af fólki, án nokkurra sannana um lögbrot af hálfu viðkomandi fórnarlambs.
Nýjasta dæmið um þessa sefasýki er brotthvarf Guðrúnar Valdimarsdóttuir, hagfræðings, af lista Framsóknarflokksins í Reykjavík og jafnframt hefur hún sagt sig úr öllum trúnaðarstörfum á vegum hans þ.m.t. formennsku í Félagi framsóknarkvenna í Reykjavík.
Þessa ákvörðun tekur þessi unga og vammlausa kona vegna þess að eiginmaður hennar tók þátt í milljarða plotti fyrir bankahrun og tapaði á því verulegum peningum, ef rétt er skilið. Vegna þessara viðskipta eiginmannsins krafðist fulltrúaráð Framsóknarflokksins þess, að hún segði sig af framboðslistanum fyrir borgarstjórnarkosningarnra í Reykjavík, en þar skipaði hún annað sætið, eftir prófkjör fyrr í vor.
Fróðlegt verður að fylgjast með því hvar blóðþorstinn endar þegar hjarðhegðunin beinist inn á nýja braut, en hún hefur sveiflast frá algerri meðvirkni í efnahagsruglinu fyrir bankahrun, yfir í nánast algerar ofsóknir gegn þeim, sem einhver bein tengsl eða viðskipti áttu við banka- og útrásarruglarana.
Um þessar mundir er vandlifað í þessu ágæta landi.
![]() |
Segir sig af lista Framsóknarflokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.4.2010 | 14:55
Slæmt er þeirra óréttlæti, en verra er "réttlætið"
Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, hefur oft átt góða spretti í málflutningi sínum, síðan hún kom inn á þing, en nýjasta útspil hennar um "réttlætið" er svo yfirgengilet, að hefðu orðin ekki fallið inni á hinu háa Alþingi, hefði ekki nokkrum manni dottið í hug, annað en að hún væri að grínast.
Lilja lét eftirfarandi út úr sér í þingræðunni; Skuldarar hrópa á réttlæti, norrænt réttlæti. Það felst í því að gripið er til almennra aðgerða og svo er skattkerfið notað til að taka frá þeim sem ekki þurfa á aðgerðunum að halda.
Eins og ástandið er í efnahagsmálunum í landinu snúast hlutirnir hjá flestum um að fleyta sér frá degi til dags og þeir eru sárafáir, sem eiga einhvern afgang, a.m.k. sem heitið getur þegar líður að mánaðamótum og næstu útborgun. Þannig er ástandið hjá þeim, sem ekki lentu verst úti í hruninu, en þeir sem tóku erlendu lánin og fóru óvarlega að öðru leyti í lántökum árin fyrir hrun, eru auðvitað í miklum vandræðum og munu margir missa eignir sínar á uppboð og jafnvel verða gjaldþrota.
Margir hafa nýtt sér þau úrræði sem skuldurum hafa staðið til boða og enn fleiri verða að skoða þau mál, áður en uppboðsfrestir renna út og leita allra leiða til að bjarga sér fyrir horn. En að láta sér detta í hug, að þeir sem ekki yfirveðsettu sig fyrir hrun, geti tekið á sig að borga niður lánin fyrir hina, er svo glórulaust, að óskiljanlegt er að nokkrum þingmanni skula detta svona vitleysa í hug.
Og þó, kannski er þess einmitt að vænta að þingmenn VG fái hugdettur, sem ekkert vit er í.
![]() |
Skuldarar hrópa á réttlæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.4.2010 | 13:52
Tíðkast nú hin breiðu spjótin
Mikill slagur virðist vera í uppsiglingu í Blaðamannafélagi Íslands vegna stjórnarkjörs, sem fram á að fara á fimmtudaginn, en Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins, býður sig fram til formannsembættis á móti sitjandi formanni, Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur.
Greinilegt er á öllu, að grunnt hefur verið á því góða, milli formannsins og framkvæmdastjórans í langan tíma og stöðugt rifrildi verið um fjármál félagsins, sem ókunnur hefði getað haldið að væru ekki stórmerkileg eða flókin í eitt- til tvöhundruð manna félagi, jafnvel illskiljanlegt að slíkt smáfélag þyrfti formann, með sex stjórnarmenn með sér, ásamt varamönnum og framkvæmdastjórna, og í ofanálag virðist formaðurinn helst hafa viljað ráða gjaldkera til viðbótar.
Hvað sem því líður, stendur stríð um uppáskrift ársreiknings félagsins fyrir liðið ár og neita fjórir af sjö stjórnarmönnum að undirrita, þrátt fyrir að reikningarnir hafi verið endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og yfirfarnir af skoðunarmönnum félagsins.
Með neitun á uppáskrift reikninganna er ekki einungis verið að gefa ýmislegt í skyn um vafasama fjármálastjórn framkvæmdastjórans, heldur verið að lýsa vantrausti á löggilta endurskoðendur félagins og skoðunarmenn þess, sem kjörnir eru af félagsmönnum á aðalfundi ár hvert.
Fróðlegt verður að fylgjast með þessum harkalega bardaga og frásögnum félagsmannanna af honum í fjölmiðlum sínum, enda telja þeir sjálfir að þeirra helgasta skylda sé, að uppfræða almenning um hvern þann sóma og ósóma, sem þeir komist á snoðir um.
Þjóðin hlýtur að bíða eftir úrslitunum með öndina í hálsinum.
![]() |
Neita að skrifa undir ársreikninga BÍ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2010 | 09:06
Ólafur Ragnar er öflugur skaðvaldur
Ólafur Ragnar Grímsson var var aðal-grúppía banka- og útrásarliðsins og þeyttist um allan heim í einlægum stuðningi sínum við þá og þáði marga góða veisluna fyrir, ásamt því sem honum finnst skemmtilegast, en það er að fá að halda uppskrúfaðar ræður á opinberum vettvangi og ekki spillir ef erlendir fjölmiðlar eru á vettvangi, en þá líður honum eins og þriggja ára barni í leikfangabúð.
Þó engin ástæða sé til að reyna sérstaklega að halda því leyndu fyrir umheiminum að hætta sé á Kötlugosi, er heldur engin ástæða til að forseti þjóðarinnar sitji ekki af sér nokkurt tækifæri til að komast í heimspressuna til þess að vara við þeirri stórkostlegu hættu, sem veröldinni sé búin þegar þar að kemur, sem hann útlistar svo vel í fjölmiðlunum að geti orðið á morgun, hinn daginn eða eftir 5, 10 eða fimmtán ár, en þangað til gætu ferðamenn orðið innlyksa á Íslandi, verði þeir svo vitlausir að hætta sér þangað í fríum sínum.
Ólafur Rgagnar er svo sólginn í sviðsljós erlendra fjölmiðla og svo málgefinn að hann má hvergi sjá hljóðnema, hvað þá myndatökuvél, að hann stökkvi ekki til og haldi fjálgar ræður um hvað sem honum dettur í hug og honum dettur alltaf eitthvað í hug, sem kemur hans eigin persónu í sviðsljósið og gerir hana að aðalatriði allra viðtala við hann.
Það þyrfti sérstakur varðmaður að fylgja honum hvert fótmál og varna honum aðgangs að öllum þeim hljóðnemum og myndavélum, sem á vegi hans verða.
Það yrði þjóðinni til mikilla heilla og forða henni frá mörgum skaðanum af forsetans völdum.
![]() |
Tjón þjóðarbúsins stefnir í 10 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.4.2010 | 23:20
Ekki lengur fjárhagslegt vandamál, heldur sálfræðilegt?
Ráðherrarnir tala út og suður um skuldamál heimilanna, annan daginn segir Jóhanna að "fljótlega" verði lögð fram frumvörp sem eigi að veita fleiri og betri úrræði fyrir skuldug heimili, en næsta dag kemur Árni Páll og segir að því miður sé ekki hægt að gera meira, en þegar hafi verið gert.
Fyrir nokkrum dögum sagði Árni Páll í viðtali, að þau úrræði í skuldamálum, sem þegar væru komin til framkvæmda dygðu flestum skuldugum heimilum ágætlega og ef menn vildu ekki notfæra sér þau, þá væri þeim ekki viðbjargandi, því ríkisstjórnin myndi ekki gera meira í þessum málum.
Eftir að Seðlabankinn birti síðustu skýrslu sína um skuldir heimilanna, sagði Árni að góðu fréttirnar væru þær, að erfiðleikarnir væru ekkert meiri hjá fólki, en þeir hefðu verið í Janúar 2008, löngu fyrir hrun og því væri ástandið í raun bara nokkuð gott og ekki þörf á frekari aðstoð við skuldara.
Samkvæmt því sem Árni Páll segir og ekki annað að skilja á Steingrími J. en hann sé samþykkur, þá lenda einungis húseignir þeirra á uppboði í haust, sem ekki vilja nýta sér "skjaldborgina" sem ríkisstjórnin hefur svo rausnalega slegið um heimilin í landinu.
Eftir þessum boðskap ríkisstjórnarinnar er það ekki lengur getuleysi fólks til að ganga frá sínum skuldamálum, heldur viljaleysi og þar með er þetta ekki lengur efnahagslegt vandamál, heldur sálfræðilegt.
Verst að það skuli ekki vera neinn sálfræðingur í ríkisstjórninni.
![]() |
Nauðungaruppboðum ekki frestað frekar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2010 | 15:53
Linnir skattahækkanabrjálæðinu eða ekki?
Þegar stöðugleikasáttmálinn var undirritaður í júní í fyrra lofaði ríkisstjórnin því, að fjárlagahallanum yrði náð niður á þrem árum og skyldi 45% af honum fjármagnaður með hækkun skatta og 55% skyldu nást með niðurskurði ríkisútgjalda.
Á árunum 2009 og 2010 hafa skattar verið hækkaðir svo mikið, að samkvæmt loforði stjórnarinnar mun ekki verða hægt að hækka skatta meira á næstu árum, heldur verður að ná halla áranna 2011 - 2013 niður með sparnaði í ríkisrekstrinum. Um þetta hafa aðilar vinnumarkaðarins marg oft gefið yfirlýsingar, þ.e. að allar þær skattahækkanir, sem um hafi verið rætt við gerð stöðugleikasáttmálans séu þegar komnar fram og gott betur.
Jóhanna Sigurðardóttir sagði í sjónvarpsfréttum nýlega, að nú væri unnið að fjárlögum fyrir árið 2011 og þar væri unnið út frá þeirri hugmynd að helmingur hallans á því ári yrði fjármagnaður með enn meiri skattahækkunum og aðeins helmingurinn með sparnaði. Strax við þessa yfirlýsingu var augljóst, að ríkisstjórninni dettur ekki í hug að standa við gerða samninga og það sem verra er, er að almenningur mun ekki þola frekari skattahækkanir á næstu árum. Brjálæðið er orðið nóg í því efni, nú þegar.
Í dag sagði Steingrímur J. á Alþingi, að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um hvernig halla næsta árs yrði mætt opg sagði engar ákvarðanir hafa verið teknar, s.s. hvort skattar verði hækkaðir frekar.
Það verður að teljast með ólíkindum hvernig ráðherrarnir tala alltaf út og suður og í allar áttir, en engin leið er að vita hver þeirra segir satt og hver ekki.
Líklega vita þeir það ekki einu sinni sjálfir.
![]() |
Stefnir í 100 milljarða kr. halla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.4.2010 | 19:05
Banna þarf búrkur og blæjur
Trúarbrögðin skiptast í alls kyns söfnuði og iðkar hver trúboðið eftir eigin geðþótta og túlka trúarritin á svo mismunandi hátt, að varla er hægt að greina að um söfnuði af sömu trú sé að ræða.
Kóraninn segir ekkert um að konur skuli hylja andlit sín á almannafæri, en vegna karlaveldisins í múslimalöndum, hafa einhverjir á leiðinni frá Múhameð til nútímans, komið á þeirri viðbótarundirokun kvenna, að skylda þær til að ganga með andlitsblæjur eða jafnvel í búrkum sem hylja líkamann frá toppi til táar og aðeins er net í augnhæð, sem konurnar geta skoðað heiminn í gegnum. Líklega eru þessir öfgar sprottnir af þeirri boðun Múhameðs að konur skyldu hylja hár sitt, en vegna afbrýðissemi karlanna hefur þeim dottið blæjan og búrkan í hug, sem vörn gegn því að aðrir karlmenn gætu dáðst að konum þeirra og dætrum, enda ákveða feðurnir hverjum dæturnar skuli giftar.
Belgar hafa nú bannað blæjur og búrkur á almannafæri og Frakkar eru í þann mund að fylgja því fordæmi. Ekki er það vegna þess að svo margar múslimakonur séu neyddar til þess að bera þessa ömurlegu búninga, heldur til að hjálpa þeim að aðlagast evrópsku samfélagi, sem karlarnir vilja í mörgum tilfellum meina þeim að gera.
Áður en blæjur og búrkur fara að sjást á götum hérlendis verður Alþingi að setja lög sem banna þennan kúgunarklæðnað, enda á hérlendis að ríkja fullt jafnrétti karla og kvenna, en konur sem neyddar eru í þessa búninga verða alltaf afskiptar.
Alþingi þarf að bregðast við nú þegar og sýna fyrirhyggju, en á það hefur skort í mörgum málum. Of seint er að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í hann.
Það er líka allt of vel þekkt, að of seint er að bjarga bönkum, eftir að þeir hafa verið rændir inanfrá.
![]() |
Ver bann við blæjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
25.4.2010 | 14:47
Hagstæðar lántökur?
Dagur B. Eggertsson, varaformaðu Samfylkingarinnar, oddviti hennar í Reykjavík og borgarstjóraefni flokksins, boðar átak í atvinnumálum í borginni, sem á að byggjast á samstarfi við ríkisstjórnina, verkalýðshreyfinguna, samtök atvinnulífsins og aðra velunnara.
Þetta er göfug stefna, sem varaformaðurinn ætti að kynna fyrir formanni Samfylkingarinnar og öðrum í ríkisstjórninni, því eins og allir vita hefur ríkisstjórnin barist með oddi og egg gegn hvers konar uppbyggingu nýtta atvinnutækifæra og beitt til þess öllum tiltækum ráðum, sem ríkisstjórn getur búið yfir.
Fjármögnun þessarar atvinnuuppbyggingar í borginni á að vera mjög auðveld, enda á hún að byggjast á lánum, eða eins og segir í stefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar: Borgarsjóður ræður við þessar lántökur, hægt er að fá hagstæð tilboð og forða þannig algeru hruni í framkvæmda- og byggingariðnaði."
Í samtali sínu við forsætisráðherrann gæti Dagur spurst fyrir um þá margendurteknu yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að hvergi sé hægt að fá lán á góðum kjörum, vegn þess að ekki sé búið að gangast undir fjárkúgun Breta og Hollendinga vegna Icesave. Einnig hefur hann margsagt sjálfur að skuldastaða borgarinnar sé allt of mikil og vinda þyrfti ofan af henni.
Það undarlega í þessu öllu er, að sennilega trúa stuðningsmenn Samfylkingarinnar bæði formanninum og varaformanninum, þó þeir tali algerlega í sitt hvora áttina í flestum málum.
![]() |
Vilja stefna að 3,5% hagvexti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2010 | 13:12
Jarðarbúar varasamastir?
Stephen Hawking, breskur stjarneðlisfræðingur, varar við tilraunum til að hafa samband við lífverur á öðrum hnöttum, vegna þess að hætta gæti verið á að þær myndu nýta jörðina sem nýlendu og ræna hana öllum auðæfum.
Þetta er reyndar hugsunarháttur, sem ríkt hefur á jörðinni í árhudruð og voldug ríki stundað skefjalaust að gera önnur, sem veikari eru fyrir, en þó rík af náttúruauðlindum og vinnuafli, að nýlendum sínum og arðrænt miskunnarlaust. Þó þetta heyri nú að sumu leyti fortíðinni til, eymir þó ennþá eftir af þessu hjá stórþjóðum og er tilraun Breta og Hollendinga til að gera Ísland að skattanýlendu sinni síðasta dæmið um nýlendukúgun.
Hawking segir m.a: Við þurfum ekki að líta lengra en í eigin barm til að sjá hvernig vitsmunalíf gæti þróast í eitthvað sem við viljum ekki eiga samskipti við."
Líklega svara lífverur annarra hnatta engum boðum frá jörðinni einmitt vegna óttans um að jarðarbúar myndu undiroka hnetti þeirra sem nýlendur í sína þágu.
Það væri alveg örugglega ekki ástæðulaus ótti.
![]() |
Geimverur geta verið varhugaverðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)