Verðtrygging eða efnahagsstjórn?

Verðtrygging lána hefur verið við lýði hér á landi síðan 1978, eða í 32 ár, en ennþá er fjöldi manna sem telur hana vera vandamál í fjármálakerfinu, en virðast ekki gera sér grein fyrir því að verðbólgan er sjúklingurinn, en verðtryggingin aðeins hitamælir, sem mælir líðan sjúklingsins hverju sinni.

Alveg frá lýðveldisstofnun hefur Ísland nánast verið laust við efnahagsstjórn, nema í fáein ár í einu með löngum verðbólguköflum á milli.  Einstaka sinnum er gert átak til að slá verðbólguna niður, en alltaf er slakað á peningamálastjórninni aftur og allt fer í sama farið.  Ekki bregst þá heldur, að á slíkum tímum er ráðist með offorsi gegn verðtryggingunni, en ekki vandamálinu sem við er að glíma.

Viðskiptanefnd Alþingis er nú enn einu sinni að fjalla um verðtrygginguna og Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram tillögu um að setja þak á verðtryggingu í stað þess að leggja til að efnahagsstjórn landsins verðir tekin föstum tökum og verðbólgan kveðin niður, helst í eitt skipti fyrir öll.

Gylfi Magnússon, hagfræðingur og lausamaður í Viðskiptaráðuneytinu, verður yfirheyrður af nefndinni, en hann er að sjálfsögðu á þeirri skoðun að verðtryggingin sé ekki skaðvaldurinn, heldur lausatök á efnahagsmálum þjóðarinnar.  Hann segir m.a. að:  "Óstöðugt verðlag væri sjúkdómurinn og óstöðugt gengi krónunnar. Það væri ástæðan fyrir því að Ísland væri eina landið í þessum heimshluta með verðtryggingu í þetta langan tíma." 

Gylfi segir einnig að fyrsta og mikilvægasta skrefið væri að taka betur á stjórn peningamála til að hafa hemil á verðlaginu og gengi krónunnar.  Með því telur hann að koma megi meira viti í umræðuna um verðtrygginguna.

Vonandi verður Gylfa að ósk sinni um að farið verði að ráðast að rót vandans í stað þess að ræða endalaust um afleiðingar hans.

 


mbl.is „Yfirheyrsla yfir verðtryggingunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldi Sigurður veita saksóknaranum áheyrn?

Samkvæmt fyrirsögn á frétt DV, sem mbl.is vitnar til, mun Ólafur Hauksson, Sérstakur saksóknari, hald til Bretlands í dag, þar sem hann mun freista þess að ná tali af Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings. 

Hvers vegna saksóknarinn gerir sér ferð til útlanda til að freista þess að ná tali af aðila, sem hefur stöðu grunaðs manns í sakamáli, í stað þess að knýja viðkomandi til þess að mæta til yfirheyrslu á skrifstofu embættisins, eins og aðrir þurfa væntanlega að gera, er ekki alveg auðskilið mál. 

Enska rannsóknardeild alvarlegra efnahagsbrota mun vera í samstarfi við embætti Sérstaks saksóknara við rannsóknir "bankaránanna", svo hugsast getur að bæði embættin ætli að vinna saman að yfirheyrslum yfir Sigurði, en sé það ekki raunin, verður það að teljast óvenjuleg ráðstöfun, að saksóknarinn sjálfur skuli skreppa yfir hafið til að spjalla við sakborning.

Vonandi veitir Sigurður saksóknaranum áheyrn og býður jafnvel ferðaþreyttum manninum upp á te. 

VIÐBÓT:

Allt sem að ofan var skrifað er byggt á misskilningi, þar sem fréttin á DV, sem umsögnin var byggð á var tóm lygi, sem er svo sem ekki neitt einsdæmi um það sorprit.  Ólafur Hauksson mun vera á leið til Svíþjóðar, til að sitja fund norrænna saksóknara.  DV þóttist hafa staðfestingu Ólafs á því að hann væri að fara til Bretlands til að yfirheyra Sigurð Einarsson, en allt var þetta uppspuni blaðsins, samanber þessa frétt  hérna


mbl.is DV: Freistar þess að ræða við Sigurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bestaflokksbrandarinn bliknar hjá þessum

Litið hefur verið á framboð "Besta flokksins" sem fyndið framboð og því tekur fólk því ekki alvarlega og ekki líkur á að það fái mikið fylgi, þegar kemur að kosningum.  Að vísu hafa frambjóðendur flokksins breytt nokkuð um stefnu undanfarið og farið að láta eins og framboðið sé alvöruframboð og aðstandendur þess langi í raun og veru til að setjast í borgarstjórnina.

Nú er komið nýtt framboð, sem kynnir sig sem alvöruframboð, en er miklu fyndnara en "Besti flokkurinn", en það er Reykjavíkurframboðið.  Listinn er leiddur af varaþingmanni Hreyfingarinnar og þó ekki sé boðið fram í hennar nafni, hlýtur að mega reikna með því að tengin sé þar á milli.

Samkvæmt fréttinni er eftirfarandi hluti af stefnuskrá Reykjavíkurframboðsins:  "Reykjavíkurframboðið vill ennfremur að hið minnsta sjö milljarðar króna verði nýttir til að efla atvinnustig og nýsköpun og eyða kreppuáhrifum á borgarbúa, svo hvorki þurfi að hækka útsvar og þjónustugjöld né að draga úr þjónustu við borgarbúa."´

Þar sem Reykjavíkurframboðið ætlast greinilega ekki til að það verði tekið alvarlega, þá kemur ekkert fram um það hvar þeir ætli að taka sjömilljarða, án þess að hækka útsvar eða þjónustugjöld, hvað þá að draga úr þjónustu við borgarbúa.  Jafnvel þó taka ætti lán fyrir þessu, þá þyrfti væntanlega að endurgreiða það og varla yrði það gert nema með skattfé borgarbúa.

Það fyndnasta er náttúrlega loforðið um að eyða kreppuáhrifunum á borgarbúa, en þar býr rúmlega helmingur þjóðarinnar og þrátt fyrir fjórtán mánaða setu, hefur ríkisstjórninni ekki tekist að eyða kreppuáhrifunum á þjóðarbúið og enginn reiknar heldur með því að það takist, nema á mörgum árum.

Borgarstjórnarkosningarnar í vor verða greinilega mikil barátta á milli fyndinna uppistandara.


mbl.is Fara gegn fjórflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfa og Rögnu fórnað til að losna við Jón Bjarnason

Samfylkingin vill losna við Jón Bjarnason úr stóli sjávarútvegsráðherra vegna eindreginnar andstöðu hans við innlimun Íslands í ESB og því að yfirráðum fiskveiðiauðlindarinnar verði fórnað á því altari.  Til þess að losna við Jón, verður ráðuneytið lagt niður í heilu lagi og Samfylkingarráðherrar látnir taka yfir verkefni þess.

Til þess að fela raunverulegan tilgang sameiningarhugmynda Samfylkingarinnar verður Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, og Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, fórnað og þeirra ráðuneyti einnig sameinuð öðrum.  Þar með fækkar ráðuneytum og ráðherrum úr tólf í níu, eins og Samfylkingin hefur lagt til, en ekki er alveg víst að VG samþykki að fórna Jóni úr ráðherraliðinu og þurfa að sætta sig við að fá fjóra ráðherra á móti fimm ráðherrum Samfylkingarinnar.  Ekki er útilokað að Jóhanna kaupi VG til að samþykkja tillöguna gegn því, að Ögmundur kæmi aftur inn í stjórnina og þar með eftirláta VG fimmta ráðherrastólinn.

VG hefur alltaf gefið eftir gagnvart Samfylkingunni í stjórnarsamstarfinu og því mun þetta sjálfsagt enda með þeim ráðherrafórnum og hrókeringum sem hér hefur verið giskað á.


mbl.is Ríkisstjórnin fundar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrun í evrulöndum - hvað um eignir lífeyrissjóðanna

Sífellt berast fleiri og alvarlegri fréttir af fjármála- og skuldavanda margra evruríkjanna, lækkun á hlutabréfamörkuðum vegna þess og nú síðast hættu á falli banka og það engra smábanka.  Þegar fréttir koma af því, að annar stærsti banki Evrópu, spænski Santander bankinn, sé kominn í verulega erfiðleika og hlutabréf hans hafi fallið um 25%, staðfestir það hversu djúpstæður þessi vandi er orðinn.

Íslensku lífeyrissjóðirnir töpuðu hundruðum milljarða króna á íslenska efnahagshruninu og þá var þakkað fyrir hve stór hluti þeirra væri bundinn í "öruggum" erlendum hluta- og skuldabréfum og það hefði bjargað því, að ekki fór ennþá verr fyrir íslenskum rétthöfum lífeyris hjá sjóðunum.

Spurning vaknar um í hvers konar skuldabréfum þessar erlendu eignir lífeyrissjóðanna liggja og þá ekki síður í hvaða hlutabréfum þau hafa fjárfest úti í hinum stóra heimi.

Vonandi verða næstu hörmungarfréttir hér á landi ekki af nýjum eignabruna íslensku lífeyrissjóðanna.


mbl.is Santander sömu leið og Kaupþing?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað verður Sigurður yfirheyrður og fjöldi annarra

Það telst nú varla vera frétt að fyrirhugað sé að yfirheyra Sigurð Einarsson, fyrrverandi starfandi stjórnarformann Kaupþings, og nánasta samstarfsmanns Hreiðars Más á "bankaránsárunum".  Það væri hins vegar stórfrétt, ef hann yrði ekki yfirheyrður, enda var hann guðfaðir bankabólunnar.

Það telst varla heldur fréttnæmt að fyrirhugað sé að fleiri verði yfirheyrðir, það segir sig algerlega sjálft að fjöldinn allur af fólki mun verða yfiheyrt vegna mesta bakahruns, sem um getur og á sér enga hliðstæðu í veröldinni.

Rannsóknarskýrslan sýndi á óyggjandi hátt að miklar líkur hefðu verið á að stórkostleg lögbrot hefðu verið framin á "velmektarárum" banka- og útrásarruglaranna, enda sendi rannsóknarnefndin fjölda ábendinga til Sérstaks saksóknara um mál, sem hún taldi ólögleg og þyrftu frekari rannsóknar.  Sérstakur saksóknari hefur sagt að þær ábendingar hefðu fyllt enn frekar upp í þá mynd, sem embættið hefði verið að teikna upp síðustu fjórtán mánuði.

Ekki eru líkur á að Sigurður Einarsson, eða aðrir sem búsettir eru erlendis, flýti för sinni sérstaklega til landsins til þess að mæta í yfirheyrslur, enda hafa þeir þau fordæmi fyrir framan sig, að líklegra en ekki sé, að viðtölin við saksóknarann leiði þá beint í gæsluvarðhald.

Það er skiljanlega ekkert tilhlökkunarefni fyrir þá sem vanir eru að búa í glæsivillum erlendis að sjá fram á gistingu á Litla Hrauni.


mbl.is Sigurður Einarsson verður yfirheyrður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árásir hafnar á Sérstakan saksóknara, alveg eftir formúlunni

Í Baugsmálinu fyrsta var beitt öllum áróðursbrögðum, sem fyrirfinnast í slíkum fræðum, til þess að rægja saksóknara málsins og gera lítið úr rannsóknum þeirra og persónur þeirra dregnar niður í svaðið á skipulegan hátt.  Áróðursherferðin var þaulskipulögð og fór aðallega fram í Baugsmiðlunum, þó Ríkisútvarpið og fleiri drægju ekkert af sér heldur og var áróðurinn látlaus í þágu sakborninganna og að lokum fór svo, eins og til var sáð, að almenningsálitið snerist algerlega á sveif með þeim ákærðu og lá við að þeir væru teknir í guða tölu en ákæruvaldið átti fáa málsvara og Davíð Oddson, sem hatursáróðurnn beindist ekki síst að, var orðinn eins og hinn illi sjálfur í augum almennings og eymir enn af því í þjóðfélaginu, þó ástin á Baugsveldinu sé ekki eins heit ennþá.

Eftir handtöku tveggja manna og gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir þeim er ný áróðursmaskina komin í gang og byrjuð að sá tortryggni í garð Sérstaks saksóknara, alveg eins og í fyrra sinnið og beinist bæði að því að gera rannsóknir embættisins tortryggilegar og persónu Ólafs Þórs Haukssonar, sem sagður er óhæfur, reynslulaus og seinvirkur.  Þetta er auðvitað aðeins upphafið að skrifum leigupenna áróðursvélar þeirra sem rannsóknum og hugsanlegum ákærum sæta í stærstu bankaránsrannsókn allra tíma á vesturllöndum og víst er að ekki mun skorta fé til varnar hinum ákærðu, né til reksturs áróðursmaskínunnar í þeirra þágu.

Frá því að tvímenningarnir voru handteknir hafa þegar birst greinaskrif nokkurra aðila, sem beint er gegn saksóknaranum og nægir að nefna þá Ólaf Arnarson, hagfræðing, Sigurð G. Guðjónsson, lögfræðing og tónlistarmennina Jakob Frímann Magnússon og Bubba Mortens, sem lengi hefur verið leiguþý Baugsveldissins.

Framhald þessarar skipulögðu áróðursherferðar verður fróðleg og þá sérstaklega hvort tekst að snúa almenningsálitinu sakborningum í vil, eins og í Baugsmálinu fyrsta.


mbl.is „Þarf að færa fram sterk rök“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það vantar ekki skemmtikrafta í borgarstjórn

Reykjavíkurborg hefur verið vel stjórnað undanfarin tvö ár og Hanna Birna Kristjánsdóttir staðið sig einstaklega vel við að leiða borgarstjórnina til góðra verka og í fysta sinn í manna minnum hefur verið góð samvinna milli meiri- og minnihluta.

Fjárhagur borgarinnar er í þokkalega góðu lagi, þrátt fyrir bankaránshrunið og þá erfiðleika sem við er að glíma í efnahagsmálum borgarinnar, en ekkert má slaka á fjármálastjórn borgarinnar næstu árin og því áríðandi að styrk stjórn haldi áfram um taumana í borginni.

"Besti" flokkurinn var góður brandari í upphafi, en er nú orðinn þvældur, langdreginn og hreinlega leiðinlegur, en listann skipa hinir ágætustu listamenn, sem allir eru góðir á sínu sviði, en stjórn borgarinnar og ekki síst fjármálin mega ekki við neinum "skemmtilegheitum" og fæst af frambjóðendum listans hafa nokkra innsýn í borgarmálin og hika heldur ekkert við að viðurkenna það.  Efsti maður listans telur það sér alveg sérstaklega til tekna að hafa ekki "hundsvit" á málefnum borgarinnar og segist hvort sem er ekki ætla að gera eitt eða neitt sjálfur, en láta bara starfsmenn borgarinnar sjá um vinnuna.

Það sem Reykvíkingar þurfa síst á að halda núna eru trúðslæti í borgarstjórn.


mbl.is Besti flokkurinn kynnir lista sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja breyta Héraðsdómi í sirkus

Níu manns hafa verið ákærð fyrir húsbrot í Alþingi og að slasa þar starfsfólk með ofbeldi og skrílslátum og er réttað í málunum fyrir Héraðsdómi um þessar mundir.  Eins og við var að búast mætir fjöldi stuðningsmanna ofbeldismannanna í réttarsal og lét ekki að stjórn starfsmanna réttarins og þurfti því að kalla lögregluna til aðstoðar við að koma skikki á mannskapinn.  Eins og þessu liði þykir sæmandi kom til slagsmála við lögregluna og flugeldar sprengdir í dómshúsinu.

Þingmenn Hreyfingarinnar, sem oft koma á óvart með einkennilegum málflutningi, hafa nú lagt til að Héraðsdómi verði breytt í einhverskonar sirkus og bjóðast til að útvega sirkustjald eða sambærilegt mannvirki til að halda réttarhöldin í, svo nægt húsrými verði fyrir alla þá ólátabelgi, sem áhuga hafa á að láta til sín taka á meðan málin verða flutt.

Það er furðulegt að fylgjast með því, að þingmenn á löggjafarsamkundu þjóðarinnar skuli vilja breyta dómþingi í fjölleikahús.


mbl.is Vilja þinghald í stærra rými
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögfræðilegar æfingabúðir

Rannsókn Sérstaks saksóknara á meintum lögbrotum í tengslum við bankahrunið mun taka langan tíma, jafnvel mörg ár, þangað til öll kurl verða komin til grafar, enda málið gífurlega stórt og umfangsmikið og teygir sig í gegnum hundruð hlutafélaga til ótal landa, í gegnum fjölda banka og bankareikninga í öllum helstu banka- og skattaprarísum veraldarinnar.

Enginn þarf að láta sér detta í hug, að væntanlegir sakborningar í þessum málum hafi setið auðum höndum frá hruninu, heldur hafa þeir allir með tölu verið í ströngum "lögfræðilegum afingabúðum" og undirbúið vörn sína af mikilli elju.  Allar helstu lögfræðistofur hér á landi og erlendar að auki, hafa þjálfað þá vandlega í því, sem þeir eigi að svara í yfirheyrslum og hvernig eigi að bera sig að við vörnina að öðru leyti og alls ekki játa á sig nokkrar sakir.

Varðhaldsúrskurðirnir núna benda til þess að Hreiðar Már og Magnús hafi ekki verið samvinnuþýðir við yfirheyrslurnar og jafnvel neitað alfarið að tjá sig um sakargiftir og ætli að fyrirmælum lögmanna sinna að láta saksóknarann hafa alfarið fyrir því að sanna sakargiftirnar án játninga.

Áróðursmaskínur núverandi og væntanlegra sakborninga munu fara á fullt í fjölmiðlum á næstunni og ráðast að Sérstökum saksóknara persónulega og gera hann sjálfan og rannsóknirnar tortryggilegar og síðan þegar kemur að réttarhöldum munu herskarar lögfræðinga, endurskoðenda og annarra vinna að vörninni, þannig að allt sem sækendur munu leggja fram í réttinum mun verða tætt í sundur og sérstaklega mun verða hamrað á óvönduðum vinnubrögðum rannsakenda og þar sem dómarar eru ekki sérfræðingar í viðskiptum, mun verða harður slagur og langur fyrir dómstólum þegar þar að kemur.

Allt þetta sást í Baugsmálinu fyrsta og nú þegar eru leigupennar sakborninganna byrjaðir herferð sína t.d. á Pressunni.  Má þar sem dæmi nefna Sigurð G. Guðjónsson, lögfræðing, Ólaf Arnarsson, hagfræðing og Bubba Mortens, tónlistarmann.  Allir hafa þeir og fleiri reyndar skrifað lofgreinar um banka- og útrásargarkana í talsverðan tíma, en það er þó aðeins sýnishorn af því sem koma skal.

Balli er ekki einu sinni byrjað, en það verður fjörugt þegar hljómsveitin verður búin að hita upp.


mbl.is Kaupþingsmenn í gæsluvarðhald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband