28.10.2010 | 08:59
Þarf að bjarga rjúpnaskyttum þessa helgina?
Á morgun opnast fyrir hina árlegu rjúpnaveiði og einhver hundruð manna hafa beðið spennt eftir því að komast til þess að ná í jólamatinn og svo eru nokkrir, sem þessar veiðar stunda af hreinni peningagræðgi og skjóta nánast á allt kvikt, þrátt fyrir sölubann á rjúpunni. Einmitt vegna sölubannsins selst rjúpan á svarta markaðinum á háu verði og eins og annarri svartri starfsemi fylgja skattsvikin jólamatnum, sem settur er í pottinn með þessari aðferð.
Hverri einustu rjúpnavertíð hefur fylgt að björgunarsveitir séu kallaðar út til að leita að týndum rjúpnaskyttum og hafa þessar óeigingjörnu sveitir þrautþjálfaðra karla og kvenna bjargað ófáum rjúpnaskyttulífum í áranna rás. Á hverri einustu rjúpnavertíð hafa verið gefnar út viðvaranir frá veðurstofum vegna líklegra óveðra, en oftast láta rjúpnaskytturnar slíkar viðvaranir sem vind um eyru þjóta og halda eftir sem áður til fjalla eftir jólamatnum og björgunarsveitir hafa svo fylgt í kjölfar búdrýgindamannanna.
Nú er spáð snarvitlausu veðri nánast um allt land á opnunardegi rjúpnaveiðanna. Hvað skyldu margar skyttur lenda í vandræðum og villum vegna veðurs þessa helgina?
![]() |
Útlit fyrir afar slæmt veður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2010 | 14:14
Kynfæramynd á bakið - dæmi um sanna vináttu
Ástralinn sem "féllst á" að leyfa vini sínum að húðflúra saklaust jin og jang merki á bakið á sér, axlaði allt annað en hann hafði reiknað með, þar sem vinurinn brenndi risastóra mynd af karlmannskynfærum á hann, með dyggri aðstoð og hvatningu enn eins vinar. Með myndinni var brennt í hörundið slagorð sem gaf í skyn að þessi fallega mynd væri tákn um samkynhneigð mannsins.
Þegar stoltur merkisberinn kom heim og sýndi kærustunni sinni listaverkið á bakinu, sagði blessuð konan bara sí svona: "Mig grunar að þetta sé ekki húðflúrið sem þig langaði í." Ekki fylgir sögunni hvernig henni leist á listaverkið, eða hvort hún hefði viljað halda því á baki kærastans til að dást að framvegis.
Hvernig sem á því stendur, varð maðurinn ekkert kátur við listsköpunina, né að eiga að hafa verkið á þessum grunnfleti til frambúðar og kærði vin sinn til yfirvaldanna fyrir uppátækið og krefst fjárbóta til að eyða þessu líklega einstaka listaverki. Ekki hefur heldur spurst til viðbragða ástralskra listgagnrýnenda vegna verksins, eða örlaga þess.
Sagan er hins vegar hjartnæm og hugljúf lýsing á sannri vináttu og hve djúpt hún ristir stundum.
![]() |
Húðflúrað kynfæri á bak vinar síns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.10.2010 | 11:42
Forsætisráðherralaunin fæla lækna úr landi
Síðan óhæfasti forsætisráðherra lýðveldistímans gaf út þá fyrirskipun að enginn á landinu, sérstaklega ekki í starfi hjá hinu opinbera, skyldi hafa hærri laun en hún sjálf, hefur verið stöðugur og sívaxandi atgerfisflótti úr landinu, ekki síst úr heilbrigðisgeiranum.
Læknar voru til skamms tíma einna hæst launaða stétt landsins, enda íslensku sjúkrahúsin og heilbrigðiskerfið í heild, talin með því besta sem heimurinn hafði upp á að bjóða, en líklega verður það ekki svo mikið lengur. Íslenskir læknar eru eftirsóttur starfskraftur erlendis og eiga ekki í minnstu erfiðleikum með að fá þar vinnu, jafnvel hlutastörf sem skapa þeim forsætisráðherralaun á fáeinum dögum og hina daga mánaðarins vinna þeir þá hér á landi nánast í þegnskylduvinnu.
Jóhanna gleymdi hins vegar að setja viðurlög við því að Íslendingar tækju við launum sem væru hærri en hennar eigin, þannig að nú þyrfti hún að endurbæta lögin og setja inn háar sektir og fangelsisvist, sem refsingu fyrir að fara í kringum lögin og þiggja laun annarsstaðar, sem t.d. koma læknum langt upp fyrir hana í mánaðarlaunum.
Slíka ósvífni er ekki hægt að þola af læknunum, né nokkrum öðrum, og því gæti jafnvel verið áhrifaríkara að banna fólki að sækja vinnu til útlanda og reyndar þyrfti að banna búferlaflutninga alfarið, til þess að girða endanlega fyrir þessa viðleitni manna til að þéna meira en forsætisráðherrann.
Til að flýta málinu gæti þurft að taka það fyrir á Alþingi á undan frumvarpinu um kjarnorkuvopnalaust Ísland, sem þó þolir ekki mikla bið að áliti flutningsmanna þess.
![]() |
Læknarnir leita til útlanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.10.2010 | 08:22
Vændið veldur bílslysum
Vændið á Spáni, sem er leyfilegt, er stórhættulegt bílstjórum og því hafa yfirvöld gripið til réttra ráðstafana til að auka umferðaröryggi á vegunum í kringum borgir og bæi, en það er auðvitað gert með því að gera vændiskonurnar sýnilegri, þannig að auðveldara verði fyrir akandi viðskiptamenn að koma auga á þær án þess að aka yfir þær fyrst.
Þessi klausa úr fréttinni segir það sem segja þarf um þetta mál: "Vændiskonum, sem leita viðskiptavina við þjóðveg nærri borginni Lleida í Katalóníu, hefur verið gert að klæðast gulum endurskinsvestum, ellegar greiða 40 evra sekt. Lögregluyfirvöld segja þetta gert til að tryggja öryggi ökumanna."
Einhver hefði getað látið sér detta í hug, að þessi aðgerð væri til að auka öryggi vændiskvennanna, en það er víst alger misskilningur, þar sem þetta er greinilega gert til að tryggja ökumanninum örugg vændisviðskipti, með því að forða honum frá að keyra yfir seljanda þeirra gæða. sem leitað er eftir í myrkrinu.
Umhyggja Spánverja fyrir ökumönnum er afar virðingarverð.
![]() |
Vændiskonur skikkaðar í vesti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.10.2010 | 15:29
Atli vill ákæra án fullnægjandi rannsókna
Atli Gíslason, vinstri grænn, lætur Bloomberg fréttastofuna hafa það eftir sér, að hann sé farið að lengja eftir ákærum frá Sérstökum saksóknara, vegna þeirra glæparannsókna sem hann annast vegna reksturs banka og fyrirtækja útrásargengja á árunum fyrir hrun og svona til að sýna hve alvarlega Atli tekur á málum, þá segir hann ýmislegt benda til afbrota á þessum tíma.
Eins og vitað er, er Atli yfirleitt ekkert að tvínóna við hlutina, þegar ákærur eiga í hlut, því hann lagði fram ákærur á fjóra fyrrverandi ráðherra fyrir það sem Atli vildi kalla hugsanleg brot á ráðherraábyrgð, sem hann sagðist alls ekki viss um að væri raunin, en það væri um að gera fyrir sakborningana að sanna sakleysi sitt fyrir Landsdómi. Vegna þess að Atli taldi sakborningana hafa svo gaman af því að koma fyrir dóm, taldi hann enga nauðsyn sérstakri rannsókn málsins og ekki fannst honum heldur taka því að gefa þeim kost á að leggja fram sín gögn, áður en ákærur væru gefnar út, enda væri það þeirra að sanna sakleysi, en ekki sitt mál að sýna fram á sekt.
Svona lúxus í sakamálarannsóknum getur sá sérstaki ekki leyft sér, því ætlast er til að hann leggi fram ýmis sönnunargögn í þeim málum, þar sem hann mun gefa út ákærur og því þarf hann bæði að rannsaka málin og yfirheyra sakborninga og vitni. Eins og sést af viðtali Atla við Bloomberg, finnst honum svoleiðis rannsóknaraðferðir alger tímasóun og óþarfi að vera að eyða tíma í öflun sönnunargagna.
Varla tekur því, að vera að minnast á þau ósmekklegheit þingmannsins að vera yfirleitt að skipta sér af dómstólum landsins, en vegna þrískiptingar valdsins eru slík afskipti langt utan verkahrings þingmanna og ættu þeir heldur að einbeita sér að því, sem þeirra verkum tilheyrir, en það er að setja landinu lög, sem síðan er dómstólanna að fara eftir í úrlausnum mála.
Atli er ekkert að láta smáatriðin vefjast fyrir sér, þegar hann kveður upp dóma yfir öðrum. Sjálfsgagagnrýni er hins vegar alls ekki fyrir að fara í hans ranni.
![]() |
Farið að lengja eftir ákærum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.10.2010 | 13:45
Sannkölluð hrunstjórn
Samkvæmt væntingavísitölu Gallup fyrir október eykst svartsýni almennings gífurlega milli mánaða, en hafði farið heldur vaxandi fram að því, en greinilegt að ljós hefur runnið upp fyrir fólki í október um að núverandi ríkisstjórn muni alls ekki leiða þjóðina út úr kreppunni, heldur þvert á móti dýpka kreppuna og lengja vegna harðrar baráttu hennar gegn hvers kyns atvinnuuppbyggingu í landinu og þar með gegn lífskjörunum og velferðinni.
Eftirfarandi samantekt úr Gallupskýrslunni segir allt sem segja þarf um örvæntingu fólks um betra líf undir stjórn Samfylkingar og VG: "Allar undirvísitölur lækka að þessu sinni og munar þar mestu minnkandi tiltrú fólks á að ástandið í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar muni batna á næstunni. Þannig lækka væntingar neytenda til næstu 6 mánaða um 52,7 stig og mælast nú 48,6 stig og er um verulegt bakslag að ræða enda hefur vísitalan mælst yfir 100 stigum síðustu þrjá mánuði.
Mat á núverandi ástandi lækkar um 10,2 stig og mælist nú 7 stig. Mat á atvinnuástandinu lækkar um 40,1 stig og mælist nú 32,5 stig og mat á efnahagslífinu um 34,9 stig og mælist nú 31,4 stig."
Hér á landi varð harðara og meira efnahagshrun vegna óhæfra og óheiðarlegra rekstraraðila banka-,fjárfestingarfélaga og fyrirtækja, sem nánast öll voru í eigu sömu glæframannanna og allir væntu þess að út úr þeirri kreppu sem af hlaust, myndi þjóðin komast á þrem til fjórum árum og þeir allra bjartsýnustu töldu að það myndi ekki taka nema tvö ár.
Allt byggðist sú bjartsýni á því að kapp yrði lagt á að efla atvinnulífið og aukna verðmætasköpun í landinu, en þær vonir hafa allar brugðist vegna forhertrar og fyrirlitlegrar baráttu ríkisstjórnarinnar gegn öllum atvinnuuppbyggingarhugmyndum, sem upp á borð hafa borist og því harðnar kreppan sífellt og hefur ekki verið verri en nú frá hruninu og gerir ekki annað en að fara versnandi.
Eigi einhver ríkisstjórn skilda nafnbótina "hrunstjórn", þá er það sú sem nú situr.
![]() |
Íslendingar verulega svartsýnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2010 | 11:48
Ótrúlegt fár út af Gillzenegger
Ef satt er að undirskriftasöfnun sé hafin á netinu gegn því að Gillzenegger starfi að útgáfu símaskrárinnar, þá eru slíkar undirskriftarsafnanir komnar niður á nýtt stig ómenningar og pólitísks rétttrúnaðar, sem slær marga aðra vitleysuna í þjóðfélaginu gjörsamlega við í drullupollaslagnum.
Egill Einarsson, hefur búið sér til nokkrar perónur sem hann leikur til skiptis, enda hefur maðurinn lifibrauð sitt af fíflagangi í bland við annað, rétt eins og Sveppi og Auddi og fleiri slíkir og allir muna eftir Silvíu Nótt, sem þjóðin elskaði og dáði, þrátt fyrir að vera einhver auðvirðilegasta persóna, sem sköpuð hefur verið í íslenskum leikbókmenntum. Engum datt þó í hug að krefjast útilokunar leikkonunnar, sem lék hana, frá öðrum störfum í þjóðfélaginu, enda hefur hún leikið og sungið síðan við ágætar undirtektir.
Ef femínistar standa á bak við þessa undirskirftasöfnun, vegna þess að leikpersónan Gillzenegger, hefur sínar skoðanir á þeim, eins og ýmsu öðru, þá er þetta framtak þeim til mikillar minnkunnar og er þó ekki úr háum söðli að detta fyrir þær vegna ýmissa furðuuppátækja sinna.
Annars er þetta svo hlægilegt og ótrúlegt uppátæki, að manni finnst sennilegra að þetta sé gert að frumkvæði Gillzeneggers sjálfs í auglýsignaskyni fyrir hann sjálfan og símaskrána.
![]() |
Safna undirskriftum gegn Agli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2010 | 10:04
Ríkisstjórn og þing skilningslaus á atvinnuleysisvandann
Atvinnuleysi mælist nú 6,4%, þar sem 11.400 manns eru á atvinnuleysisskrá, en það segir reyndar ekki nema hluta sögunnar, þar sem margir eru fallnir út af skránni vegna atvinnuleysis í meira en þrjú ár og a.m.k. 10.000 manns, sem voru á vinnumarkaði hafa snúið sér að námi eða eru flutt úr landi í atvinnuleit. Því er þessi uppgefna tala um atvinnuleysi ekki upplýsingar um raunverulega töpuð störf, heldur aðeins frásögn af því hve margir eru að fá greiddar atvinnuleysisbætur um þessar mundir.
Ríkisstjórnin og þingmeirihluti hennar hefur ekki nokkurn skilning á því, að atvinnumálin eru undirstaða allrar uppbyggingar og framfara í landinu og ekki síst verður ekkert velferðarþjóðfélag byggt upp nema kröftugt atvinnulíf dafni í landinu. Eina ráð ríkisstjórnarinnar í kreppunni er ítrekað skattahækkanabrjálæði á fyrirtæki og einstaklinga, sem þegar eru að kikna undan ástandinu og geta engum álögum á sig bætt, enda fækkar raungreiðendum stöðugt vegna gjaldþrota fyrirtækja og upplausnar heimila.
Alþingi, eins og ríkisstjórnin, hefur greinilega öðrum hnöppum að hneppa en að hafa áhyggjur af atvinnumálunum, því ekki má gleyma stórmálum sem afgreidd hafa verið undanfarna mánuði, svo sem bann við ljósabekkjanotkun unglinga og súludans á nektarbúllum.
Og nú er þingið upptekið við að ræða tillögu nokkurra þingmanna um kjarorkulaust Ísland. Eins og gefur að skilja, komast ómerkilegri mál ekki á dagskrá á meðan slík stórmál eru óafgreidd.
![]() |
6,4% atvinnuleysi í haust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.10.2010 | 18:58
Verður kosning til stjórnlagaþings tómt klúður?
Nú er það komið á hreint að 523 einstaklingar gefa kost á sér til setu á stjórnlagaþinginu og þar af eru aðeins um það bil þriðjungurinn konur, sem eftir sem áður eiga að hafa um það bil helming þingfulltrúa. Það hlýtur að þýða að atkvæði greidd kvenfólkinu gilda helmingi meira en atkvæði greidd karlmönnunum og verður það að teljast einkennilegt jafnrétti, ekki síst þar sem krafan um jöfnun atkvæða vegna Alþingiskosninga verður æ háværari og einnig að landið allt verði gert að einu kjördæmi, einmitt til að tryggja þá jöfnun atkvæða.
Einnig hafa ýmsir sett fram kröfu um að í öllum kosningum fari fram persónukjör og jafnvel að heimilt verði að kjósa fólk af mörgum listum og sumir hafa jafnvel krafist þess að alls ekki verði boðnir fram neinir listar, heldur verði um algera einstaklingskosningu að ræða, með svipuðu eða eins sniði og kosningin til stjórnlagaþingsins mun verða.
Ef kjósendur eyða tíu mínútum að meðaltali til að kynna sér hvern frambjóðanda til stjórnlagaþings og áherslur hans í sambandi við stjórnarskrárbreytingar, mun það taka 87 klukkustundir í allt og verður að telja að tíu mínútna skoðun á frambjóðendum og stefnuskrám þeirra vegna svona mikilvægs máls eins og stjórnarskráin er, sé í raun allt of skammur tími og þyrfti að vera að minnsta kosti helmingi meiri.
Þá væri það fullt starf með átta stunda vinnudegi í heilan mánuð að ákveða sig hverja kjósa skuli í kosningunni og eins að reikna út hvernig atkvæðið nýtist með tilliti til þess ójöfnuðar kynjahlutfallanna, sem í kosningareglunum felast.
![]() |
523 í framboði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.10.2010 | 14:30
Össur lúrir á gögnum um Írak, en vill ekkert segja
Mikið hefur verið rætt og ritað um þátttöku Íslands á lista yfir "viljugar þjóðir", þ.e. þær þjóðir sem studdu innrás í Írak á sínum tíma og hvernig að samþykkt þeirrar þátttöku var staðið á sínum tíma. Látið hefur verið í það skína, að málið sé svo dularfullt að sérstaka rannsóknarnefnd þurfi að setja í málið og nauðsynlegt að hún hafi nánast saksóknaraumboð, enda látið eins og málið sé svo dularfullt og gruggugt, að það geti jafnvel talist landráð.
Nú allt í einu upplýsir Össur Skarphéðinsson að til séu heilmiklar skriflegar upplýsingar í Utanríkisráðuneytinu um aðdraganda málsins, eða eins og haft er eftir honum í fréttinni:
"Það kæmi hins vegar á óvart, að meira væri til af upplýsingum en áður hefði verið talið og þær vörpuðu ljósi á það hvernig ákvörðunin hefði verið tekin og hvaða hagsmunir lágu til grundvallar. Einnig væri ljóst að ákvörðunin hefði ekki verið tekin með lýðræðislegum hætti.
Þá sagði Össur, að samtöl hefðu farið fram á milli bandarískra og íslenskra embættismanna í aðdraganda þessarar ákvörðunar. Það var auðvitað ljóst að Bandaríkin sóttu mjög fast að fá Ísland á þennan lista," sagði Össur."
Er Össur virkilega að gefa í skyn að hann og aðrir hafi haldið að ákvörðunin hafi verið tekin án alls samráðs við Bandaríkjamenn og íslensku ráðherrarnin hafi bara samþykkt viljayfirlýsinguna að fyrrabragði og Könunum algerlega að óvörum? Kemur virkilega á óvart að til séu skrifleg gögn í ráðuneytinu um samskipti þjóðanna vegna þessa? Eru engin skrifleg gögn til um það sem Össur hefur verið að gera í ráðuneytinu frá því að hann tók við embætti utanríkisráðherra.
Allt þetta þarf Össur að upplýsa um leið og hann upplýsir hvað þessi skriflegu gögn frá fyrri tíð innihalda, hvaða samtöl áttu sér stað milli embættismanna þjóðanna og hvaða hagsmunir lágu til grundvallar ákvörðuninni. Það myndi væntanlega spara heila rannsóknarnefnd, fyrst Össur liggur á öllum gögnum um málið.
Össur hefur þegar upplýst að gögnin séu til og nú kemst hann ekki hjá því að upplýsa um innihaldið.
![]() |
Lögðu áherslu á að Ísland styddi hernað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)