Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020

Duga smitvarnir okkar gamlingjanna ekki?

Í tæpan mánuð hefur COVID-19 verið að herja á landsmenn, en hún er talin hafa borist til landsins í lok febrúar frá skíðasvæðunum í Ölpunum, þó ekki séu óyggjandi sannanir fyrir því að hún gæti ekki hafa tekið sér far með ferðamönnum annarsstaðar frá áður en hún uppgötvaðist hérlendis með vissu.

Frá upphafi hefur baráttunni geng veirunni verið stjórnað af fulltrúa ríkislögreglustjóra og land- og sóttvarnalæknum, ásamt stórum hópi sérfræðinga og starfsmanna embættanna, ásamt starfsfólki Landspítalans.

Starfsaðferðir þessara aðila hafa notið mikils stuðnings í þjóðfélaginu, þó ekki hafi hann verið algerlega einróma.  Ekki hefur hins vegar borið á öðru en læknastéttin væri almennt fylgjandi þeirri aðferðafræði sem beitt hefur verið til þessa, þ.e. að skima fyrir veirunni, setja útsetta í sóttkví og hvetja eldri borgara og aðra með undirliggjandi sjúkdóma til að halda sig heima og forðast mannleg samskipti, nema með fjarskiptum.

Nú hafa hins vegar tveir heilsugæslulæknar á norðausturhorni landsins farið fram á að landshlutanum verði lokað fyrir allri utanaðkomandi umferð og að hver sá sem kæmi inn á svæðið yrði settur í fjórtán daga sóttkví.  Þessari málaleitan var algerlega hafnað og í meðfylgjandi frétt er haft eftir sóttvarnalækni:

"Sagði Þórólf­ur sam­hljóm um að það að ekki næðist ár­ang­ur með því að loka sig af. Það væri skamm­góður verm­ir og að far­ald­ur­inn myndi koma í bakið á okk­ur fyrr eða síðar, nema við mynd­um loka okk­ur af í mjög lang­an tíma, eða eitt til tvö ár."

Samkvæmt annarri frétt var svar læknisins fyrir austan við þessum rökum á þessa leið: 

 "Atli gef­ur lítið fyr­ir þessi rök og seg­ir þau ekki halda. Hann seg­ir að sótt­varna­lækn­ir sé um leið þá líka að segja að varn­ar­hug­mynd­ir þeirra fyr­ir fólk í áhættu­hóp­um á t.d. hjúkr­un­ar­heim­il­um haldi ekki held­ur. „Hversu lengi þarf að vera sjálf­stætt sótt­varnaum­dæmi. Því er sjálfs­varað. Það verður hægt að opna á sama tíma og sótt­varn­ar­lækn­ir blæs af viðbrögðin inn­an­lands al­mennt. Hann veit ef til vill hvenær það verður?“ seg­ir hann."

Þessi deila vekur upp þá spurningu hvort tilgangslaust sé að loka fyrir heimsóknir á sjúkrastofnanir, þ.m.t. hjúkrunarheimilin og að hvetja aldraða og aðra sem veikir eru fyrir til að einangra sig á heimilum sínum.

Þremenningarnir sem eru í framlínu sóttvarnanna verða að svara því skilmerkilega hvað þeir reikna með að innilokanirnar þurfi að endast lengi.  Eru þær tilgangslausar nema þær standi yfir þangað til búið verður að útrýma veirunni algerlega á landinu, eða þarf að bíða þangað til hún hefur endanlega gengið sér til húðar í heiminum öllum.

Verður þetta fólk í hættu um leið og það fer á stjá meðal fólks og hvenær verður það óhætt?


mbl.is Samgöngubann yrði skammgóður vermir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband