Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020
26.11.2020 | 17:14
Er bjartsýnin of mikil vegna bóluefna?
Um leið og fréttir tóku að berast af því að prófanir bóluefna gegn coronaveirunni væru jákvæðar og virtust gefa mikla virkni, allt upp í 95%, fór bjartsýnisstraumur um heimsbyggðina og fólk fór að trúa því að nú sæi fyrir endann á faraldrinum.
Hlutabréfavísitölur í kauphöllum heimsins hækkuðu í kjölfarið og almenningur fagnaði fréttunum innilega, enda orðinn langþreyttur á samkomubanni, sóttkví og öðrum þeim takmörkunum sem baráttan við veiruna hefur haft í för með sér.
Eitt lyfjafyrirtækjanna, AstraZeneca, sem miklar vonir voru bundnar við hefur nú gefið út að mikil mistök hafi verið gerð við prófun bóluefnis þess og því sé allt í óvissu um virkni efnisins til langs tíma, eða hvort það muni hljóta samykki eftirlitsaðila, eða eins og segir í fréttinni: "Uggvænlegasta staðreyndin er sú að rannsakendur AstraZeneca og Oxford-háskóla segjast ekki sjálfir skilja þetta þversagnakennda misræmi."
Á sama tíma og bjartsýnin og eftirvæntingin vegna bóluefnanna er mikil er uppgangur veirunnar að sama skapi mikill um allan heim og ekkert lát á faraldrinum. Hér á landi hefur baráttan gengið vel með ströngum sóttvörnum, en eins og útlitið er núna gæti faraldurinn jafnvel verðið á uppleið aftur og ef svo færi er útlit fyrir að jólagleði landsmanna verði lítil.
Jafnvel þó að bóluefnaframleiðsla kæmist á fullan skrið öðru hvoru megin við áramótin eru litlar líkur á að hægt yrðir að byrja bólusetningar að ráði hér á landi fyrr en í fyrsta lagi í febrúar eða mars og þá yrði byrjað á heilbrigðisstarfsfólki, eldri borgurum og öðrum þeim sem teljast vera í viðkvæmum hópum.
Bólusetja þarf tvisvar gegn veirunni, þannig að þrjár vikur líði frá fyrri sprautunni til þeirrar seinni og síðan þarf að líða vika áður en full virkni næst. Heill mánuður mun því líða frá því að bólusetning hefst og þar til virkni er náð, en ekkert hefur komið fram ennþá um hvernig staðfest verður hvort sá bólusetti sé orðinn ónæmur fyrir veirunni.
Hvernig sem allt veltist í þessu efni verður komið fram á mitt ár, eða jafnvel haust, áður en hjarðónæmi verður náð í landinu, en sigur verður þó ekki unninn í baráttunni við veiruna fyrr en sama árangri verður náð í öllum löndum veraldar og það mun örugglega ekki nást á nsta ári.
Viðurkenna mistök við bóluefnaþróun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.11.2020 | 17:03
Stökkbreytt veira ætti að vekja mikinn ugg
Fyrir u.þ.b. ellefu mánuðum barst stökkbreyttur kórónuvírus úr beltisdýri (?) yfir í einn kínverja og út frá honum hafa síðan smitast meira en 49 milljónir manna og rúmlega 1,2 milljónir látist af völdum óværunnar.
Þessi gríðarlega útbreiðsla hefur orðið þrátt fyrir að flestar þjóðir hafi barist af öllum mætti gegn henni og þar með væntanlega tekist að fækka dauðsföllum svo um munar, þó flestum þyki meira en nóg um þann fjölda látinna sem fallið hefur í valinn fyrir þessum skæða óvini.
Stríðið við veirunaa hefur einnig haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslíf heimsins og sér ekki ennþá hvernig þau mál fara að lokum, því óvíst er hvaða fyrirtæki muni lifa af og hve margir munu missa atvinnu sína vegna þess til skemmri eða lengri tíma.
Nú berast þær skelfilegu fréttir að veiran hafi tekið annan snúnig í Danmörku, þ.e. smitast frá manni í mink og þar hafi hún stökkbreyst og smitast til baka yfir í fólk. Engin ástæða er til að reikna með að þetta nýja afbrigði veirunnar sé minna smitandi eða hættulegt en eldra afbrigðið og því gæti allt það bóluefni sem unnið hefur verið að undanfarið ár orðið gagnslaust og þar með þurft að byrja alla varnarbaráttu gegn þessum óvini upp á nýtt og þjóðir heimsins standi í sömu sporum í varnarbaráttunni og þær voru í upphafi faraldursins.
Fréttin af þessari nýju stökkbreyttu útgáfu kórónuveirunnar virðist falla í skuggann af kosningaúrslitunum í Bandaríkjunum, sem alls ekki eru merkileg í samanburði enda verða afleiðingar af völdum veirunnar margfaldar á við þau áhrif sem sigurvegari kosninganna kemur til með að hafa.
Það er langt í land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)