Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

Furulegt hvernig bankar og lífeyrissjóðir hafa látið blekkjast

Allt í kringum stofnun og uppbyggingu United Silicon er með slíkum ólíkindum að hugmyndaríkustu glæpasagnahöfundar hefðu varla getað skálð upp þann söguþráð allan.

Frá upphafi virðist stofnandi og fyrrum forstjóri félagsins hafa dregið alla á asnaeyrunum varðandi málefni félagsins, svo sem ríkið, banka, lífeyrissjóði og bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ.

Ofan á allt annað virðist forstjórinn, fyrrverandi, hafa stolið stjarnfræðilegum upphæðum sem hann hefur komið úr landi og virðist svo sjálfur vera kominn í felur, a.m.k. næst ekki til hans á uppgefnu heimilisfangi í Danmörku.

Málið allt virðist vera svo stórt í sniðum að furðulegt má heita að ekki skuli hafa verið gefin út alþjóðleg handtökuskipun á manninn og óskað aðstoðar Interpol við að hafa hendur í hári hans og framselja í hendur íslenskra yfirvalda.

Þó aðeins brot af þeim ásökunum sem settar hafa verið fram á hendur manninum væru sannar og hann fundinn sekur um þær, hlyti hann að teljast einn mesti glæpamaður þjóðarinnar og komast í sögubækurnar sem slíkur.  

Þetta mál verður að rannsaka frá upphafi til enda, frá öllum hliðum, enda eitt furðulegasta svika-, þjófnaðar- og blekkingamál sem upp hefur komið eftir blekkingarnar sem banksterar og útrásargengin beittu í aðdraganda bankahrunsins 2008.


mbl.is Magnús krafinn um hálfan milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarlína og einkabíllinn eiga samleið

Nokkur umræða hefur skapast um svokallaða borgarlínu, sem er í grunninn sérstakar akreinar fyrir strætisvagna, og þrátt fyrir að samkomulag virðist vera orðið milli allra sveitarfélaga á Stór-Reykjavíkursvæðinu um framkvæmdina eru ekki allir sannfærðir um ágæti málsins.

Fólk virðist aðallega skiptast í tvær fylkingar vegna borgarlínunnar, þ.e. annar hópurinn krefst aukinna framkvæmda til að greiða fyrir umferð einkabíla og eyða óþolandi umferðahnútum á álagstímum og hinn hópurinn vill helst fækka einkabílum og nánast skylda fólk til að nota almenningssamgöngurnar.

Báðir hópar tefla fram sterkum rökum fyrir sínum málstað, en alger óþarfi er að stilla þessum valkostum upp hverjum á móti öðrum, því eðlilegasta lausnin er að efla hvort tveggja, þ.e. að greiða fyrir umferð einkabíla og efla almenningssamgöngur um leið, m.a. með borgarlínunni.

Einkabíllinn mun gegna stærsta hlutverkinu í samgöngum Íslendinga, sem annarra, um margra áratuga framtíð og að berjast gegn þeirri þróun er mikil skammsýni og ber ekki vott um mikinn skilning á þörfum og vilja stórs hluta íbúa um samgöngumöguleika sína.  Að sama skapi er lítil skynsemi í að berjast á móti þróun almenningssamganga, því að sjálfsögðu þarf að greiða fyrir hvoru tveggja. 

Strætisvagnakerfið í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum er ótrúlega óaðlaðandi ferðamáti og má þar bæði nefna leiðakerfið, ferðatíðnina, biðstöðvarnar og að bílstjórarnir skuli ekki geta tekið við staðgreiðslu fargjalda og haft skiptimynt í vögnunum til að gefa til baka ef farþegar hafa ekki smámynt í vösunum sem dugar fyrir farinu.

Í öllum nálægum löndum er slík þjónusta í boði í strætisvögnum og þrátt fyrir miklu meiri notkun vagnanna gefa bílstjórar sér tíma til að afgreiða þá farþega sem þurfa að staðgreiða fargjöld og sums staðar gegna vagnarnir a.m.k. að hluta til einnig sem þjónustufarartæki fyrir þá fatlaða sem geta nýtt sér þjónustu almenningsvagna.

Byrja þarf á því að gera almenningssamgöngur meira aðlaðandi fyrir viðskiptavinina með bættu leiðakerfi, boðlegum biðstöðvum og þjónustu og á sama tíma verður að stórlaga gatnakerfið í Reykjavík og greiða þar með úr umferð einkabíla.  Vitlausasta leiðin er að reyna að neyða fólk upp í strætisvagna sem alls ekki kæra sig um eða geta notað almenningssamgöngurnar.

Fólk á að geta valið um að nota einkabíl eða almenningssamgöngur.  Bíleigendur munu stundum nota strætisvagna ef leiðakerfið verður aðgengilegt og þægilegt og ekki þurfi að vera í hættu á að frjósa í hel við bið eftir vögnunum.

 


mbl.is Segir grein Frosta rökleysu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með Davíð Oddsson

Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, seðlabankastjóri og nú ritstjóri Morgunblaðsins, er sjötugur í dag og eru honum færðar innilegar haminguóskir með afmælið.

Ekki er síður ástæða til að óska þjóðinni til hamingju með að hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa notið starfskrafta hans á öllum þessum sviðum, landi og þjóð til heilla.

Óþarft er að rekja sögu Davíðs Oddsonar í stuttri afmæliskveðju, en hans verður minnst svo lengi sem land byggist sem eins merkasta stjórnmálamanns Íslandssögunnar, þó ýmsir reyni að gera lítið úr verkum hans og níða hann niður á allan mögulegan hátt.

Slíkt niðurrif og persónuníð helgast aðallega af öfund andstæðinga hans vegna þess að þeir hafa aldrei átt annan eins foringja í sínum röðum og gera því það sem í þeirra valdi stendur til að fella Davíð af þeim stalli sem honum ber og þar sem hann gnæfir yfir samferðamenn sína á pólitíska sviðinu og mun hans nafn verða í heiðri haft löngu eftir að hælbítarnir verða öllum gleymdir.

Davíð Oddssyni eru hér með færðar hugheilar afmæliskveðjur og vonir um að þjóðin fái notið krafta hans um mörg ár enn.  Þjóðinni er jafnframt óskað til hamingju með þennan þjóðskörung.

Þess er jafnframt óskað að hann gefi sér tíma frá önnum dagsins til að skrifa ævisögu sína og greina þar frá glæsilegum ferli sínum og draga ekkert undan um samskipti sín við pólitíska samferðamenn, innlenda sem erlenda.


mbl.is Ekkert að hugsa um að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband