Bloggfærslur mánaðarins, desember 2017

Höldum í og eflum flugeldahefðina

Það er áratuga siður hér á landi að halda veglegar áramótabrennur og mikil þátttaka almennings í að skjóta upp flugeldum og verða þeir æ skrautlegri með hverju árinu sem líður.

Á árum áður tóku börn og unglingar sig saman eftir hverfum og söfnuðu efni í brennur og var mikil samkeppni um hverjir næðu að safna í mestu bálkestina og stundum hljóp krökkunum svo mikið kapp í kinn að vissara var að vakta vígin  til að forðast að óprúttnir keppinautar kveiktu í þeim fyrir áramótin.

Með sífellt meira reglugerðarfargani þjóðfélagsins endaði með að nú má enginn safna efni í brennu nema opinberir aðilar og almenningur má þar hvergi koma nálægt að öðru leyti en því að mæta á svæðið á gamlárskvöldi sem áhorfendur.  

Hinn almenni borgari hefur þó verið áhugasamur um að skjóta upp flugeldum og er það ólíklega nokkursstaðar á jarðarkringlunni sem óbreyttir borgarar standa fyrir tignarlegri skrautsýningu um áramótin og tíðkast hér á landi.  Björgunarsveitirnar hafa reitt sig á þennan áhuga og afla mestan hluta tekna sinna með flugeldasölunni, þó því miður hafi fleiri sótt inn á þann markað á síðustu árum.

Nú eru farnar að heyrast raddir um að banna flugeldana um áramótin vegna þess að frá þeim stafi hávaði og mengun.  Ekki eru þó til nokkrar tölur um að einn einasti maður hafi skaðast að þeim sökum um áramót, en vissulega hafa orðið misalvarleg slys við meðhöndlun skoteldanna, en það hefur þá oftast verið vegna fikts eða óvarlegrar meðferðar þeirra.

Vonandi mun almenningur standa fast gegn hvers konar tilraunum til að banna þessa glæsilegu áramótahefð og haldi áfram að láta björgunarsveitirnar sitja fyrir flugeldaviðskiptunum.


mbl.is Heilbrigt fólk gæti fundið fyrir áhrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blóðhundarnir eru ennþá á ferðinni

Nú þegar rifjuð er upp aðförin að Steinunni Valdísi Óskarssyni á árinu 2010 fyrir engar aðrar sakir en að hafa hagað prófkjörsbaráttum sínum á sama hátt og aðrir stjórnmálamenn fyrr á tíð og aldrei verið sýnt fram á að hún, eða aðrir, hafi brotið nokkur lög sem þá voru í gildi né að um óeðlileg tengsl hafi verið að ræða við þá sem styrkina veittu.

Steinunn Valdís var hins vegar talin liggja vel við höggi og vera auðveldari bráð en margur annar, vegna þess að hún var kona og móðir og því myndi ofbeldið sem heimili hennar var beitt verða árangursríkara en ef skrílslætin væru í frammi höfð fyrir utan heilimi Dags B. Eggertssonar, eða annarra sem samskonar styrki þáðu í prófkjörsbaráttu sinni.

Á sínum tíma var aðförin að Steinunni Valdísi fordæmd á þessari bloggsíðu, t.d. hérna: 

https://axelaxelsson.blog.is/blog/axelaxelsson/entry/1045434/  og hérna:  

https://axelaxelsson.blog.is/blog/axelaxelsson/entry/1060363/

Óþjóðalýðurinn sem stóð að þessari aðför að Steinunni Valdísi ætti að skammast sín fyrir fólsku sína og óþverrahátt, en til þess eru líklega litlar líkur og frekar að sagan endurtaki sig, eða eins og sagt var í einum þessara bloggpistla:  "Það er lágmarkskrafa, að í réttarríki sé hver maður álitinn saklaus, þangað til annað sannast og algerlega óásættanlegt að sá sem saklaus er, skuli þurfa að leggja fram sérstakar sannanir þar um, eingöngu vegna ofsókna ákveðins hóps í þjóðfélaginu, sem heilagari þykist vera en aðrir.

Með afsögn Steinunnar Valdísar hafa blóðhundarnir náð að rífa í sig fyrsta fórnarlambið og þegar þeir komast á bragðið hætta þeir aldrei árásum sínum og fá aldrei nóg. Að því leyti til er afsögn Steinunnar Valdísar óheppileg, en skiljanleg vegna þeirra ofsókna sem hún hefur orðið fyrir af hendi óvandaðra manna, því þarf sterk bein til að þola slíkt á heimili sínu, kvöld eftir kvöld.

Jafnvel þó allir, sem eina krónu hafa þegið í styrki vegna stjórnmálabaráttu sinnar, segðu af sér strax á morgun, myndu blóðhundarnir ekki hætta að gelta og glefsa, því þá yrðu bara einhverjir aðrir fyrir barðinu á þeim, þar sem blóðþorstinn slökknar ekki þó ein bráð sé felld.

Það er ófögur birtingarmynd þess þjóðfélags sem hér virðist vera að mótast, þegar löghlýðnir borgarar geta ekki orðið um frjálst höfuð strokið fyrir sjálfskipuðum aftökusveitum."

Því miður virðist fátt hafa breyst í þessum efnum, eins og ósvífnar árásir á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hafa sýnt undanfarnar vikur og ef að líkum lætur verður þeim haldið eitthvað áfram, eða a.m.k. þangað blóðhundarnir finna sér aðra bráð til að gelta að og glefsa í.


mbl.is „Öskureið að rifja þetta upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband