Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016
10.12.2016 | 16:45
Orsakast næsta kreppa af okri og græðgi?
Seljendur vöru og þjónustu til ferðamanna fara mikinn þessa dagana vegna styrkingar krónunnar og segja að með áframhaldandi styrkingar hennar verði hér efnahagslegt hrun áður en langt um líður.
Ísland er orðið eitt dýrasta land jarðarinnar fyrir ferðamenn og landsmenn finna sannarlega fyrir því hvernig allt verðlag hækkar í takt við ferðamannafjölgunina undanfarin ár.
Vöru- og þjónustusalarnir afsaka verðlagið sífellt með því að flutningskostnaður innfluttra vara sé mikill, húsnæðisverð sé hátt, vextir háir, launakostnaður mikill o.s.frv. Í öllum samanburði við stórborgir nágrannalandanna er verðlag hér miklum mun hærra og að sjálfsögðu þarf ekki að reyna að telja fólki trú um að húsnæðisverð sé lægra þar en hér, ekki eru launin lægri þar og ekki er orkukostnaður þar minni en á Íslandi, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Flutningskostnaður innfluttra vara er í flestum tilfellum aðeins örlítið brot endanlegs söluverðs, þannig að ekki skýrir hann þennan verðmun nema að örlitlu leyti og varla er hver króna í viðskiptum á landinu í skuld og á hæstu hugsanlegu vöxtum.
Enginn fulltrúi þeirra sem spá því að stutt sé í næsta hrun nefnir nokkurn tíma álagningu seljendanna sjálfra og að hún gæti verið svo mikil að nálgaðist hreint okur og græðgi. Undanfarið hefur verið bent á fjölda dæma um ótrúlegan verðmun á ýmsum vörum milli Íslands og annarra landa og hefur ekki verið hægt að skýra hann út með neinu öðru en lygilegri álagningu innlendu söluaðilanna.
Ef vilji er til þess að Ísland haldi áfram að vera ferðamannaland, jafnvel án þess að fjöldinn aukist mikið á næstu árum, verður að hætta öllu okri á vörum og þjónustu og hemja græðgina sem virðist hafa verið að grafa um sig undanfarið sem aldrei fyrr.
Bara dýrara í Genf og Monte Carlo | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2016 | 20:37
Sleggjudómur Kastljóss um dómara
Kastljós RÚV hefur farið mikinn að undanförnu, t.d. með aftöku eins stærsta eggjabús landsins og í framhaldinu virðist hafa átt að ganga frá nokkrum hæstaréttardómurum ærulausum og þá ekki síst forseta réttarins.
Einhver sem hlýtur að hafa hagsmuni af því að gera tortryggilega dóma vegna ýmissa mála sem tengjast Glitni og slitabúi þess virðist hafa lekið skjölum um fjármál dómaranna fyrir hrun og láta líta út fyrir að þeir væru vanhæfir til að kveða upp dóma í málum tengdum hrunverjum Glitnis.
Kastljós hefur greinilega farið fram af meira kappi en forsjá í þessu máli, enda hefur forseti Hæstaréttar lagt fram gögn sem sýna fram á að upphlaup Kastljóss vegna málsins hefur verið unnið af óvandvirkni og af hreinni æsifréttamennsku.
Eins og venjulega stendur ekkert á hörðum viðbrögðum frá dómstóli götunnar, sem umsvifalaust tekur undir falska niðurstöðu Kastljóssins og er algerlega tilbúinn til að dæma æruna af Hæstaréttardómurunum og fróðlegt verður að fylgjast með því hvort sönnunargögn um sakleysi sakborniga kemur til með að breyta þeirri niðurstöðu.
Það er merkilegt að sjá hve auðvelt virðist vera að gera dómstóla landsins tortryggilega af þeim sem dóma hafa fengið á sig vegna ýmissa sakamála, eða einhverra huldumanna sem þeim tengjast.
Markús svarar fyrir verðbréfin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.12.2016 | 22:11
Fimm flokka stjórn væri óstarfhæf og sjö flokka stjórn algert grín
Það verður að teljast furðulegt að Katrín Jakobsdóttir skuli láta sér detta í hug að nefna "þjóðstjórn" núna í blússandi góðæri, en eina dæmið um slíka stjórn er frá því að seinni heimsstyrjöldin var yfirvofandi, sem olli ótta við þá óáran og upplausn sem slíkar hörmungar myndu valda.
Um þá "þjóðstjórn" segir Wikipedia: "Á Íslandi hefur einu sinni verið mynduð þjóðstjórn, Þjóðstjórnin þann 17. apríl 1939, með þátttöku Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Hermanns Jónassonar. Ástæðan var yfirvofandi styrjöld í Evrópu." Stjórnin sú var sem sagt þriggja flokka stjórn, en nú eiga sjö flokkar fulltrúa á Alþingi og auðvelt að gera sér í hugarlund að útilokað sé að þeir geti orðið sammála um hvernig eigi að stjórna í góðærinu sem nú ríkir, sem auðvitað eru þveröfugar aðstæður og voru fyrir hendi árið 1939.
Viðræður um fimm flokka stjórn sem átti að verða undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur og Vinstri grænna rann út í sandinn vegna þess að ekki náðist samkomulag milli þeirra um grundvallarmál. Nú vilja Píratar koma viðræðum þessara flokka á aftur undir forystu Birgittu Jónsdóttur, sem hlýtur þá að vera hugsuð sem forsætisráðherra í slíkri ríkisstjórn.
Ekki þarf að velkjast í nokkrum vafa um að slík fimm flokka stjórn gæti aldrei orðið langlíf, hvort sem hún yrði undir fosæti VG eða Pírata, enda engar líkur á að samstaða yrði mikil milli þessa fjölflokka stjórarviðundurs og hvað þá að það myndi endast heilt kjörtímabil.
Eina leiðin til að mynda starfhæfa ríkisstjórn í landinu við núverandi skipan á þingi er að Sjálfstæðisflokkur, VG og Björt framtíð komi sér saman um helstu mál sem brýnt er að afgreiða og komi einhver brestur í samstarfið á kjörtímabilinu, yrði umsvifalaust boðað til kosninga í von um skarpari skilaboð kjósenda um ríkisstjórnarmyndun.
Til þess að svo geti orðið þarf Björt framtíð að ákveða hvort hún er raunverulegur stjórnmálaflokkur eða peð í pólitísku tafli Heiðu Helgadóttur, sem virðist stjórna bæði Bjartri framtíð og Viðreisn bak við tjöldin.
Hugsanlega þörf á þjóðstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)