Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015
22.3.2015 | 16:45
Íhugar Sigríður Ingibjörg að flytja á hjáleiguna?
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir viðurkennir í raun að framboð hennar til formanns í Samfylkingunni hafi verið vandlega undirbúin hallarbylting þó hún hafi til að byrja með látið eins og svo hefði ekki verið og hún ákveðið algerlega upp á sitt einsdæmi að skella sér í formannsstríðið.
Nú segir hún hins vegar í viðtali við mbl.is: Það eru lýðræðislegar reglur innan flokksins og ég fór að þeim vegna fjölda áskorana og bauð mig fram. Með kosningarétt voru kjörnir fulltrúar á landsfundi sem eru þverskurður af flokknum. Við ættum að geta komið sterkari út úr formannskjörinu en ella en svona málflutningur er ekki til þess fallin, segir Sigríður Ingibjörg og bætir þó við að hún finni fyrir miklum stuðningi innan flokksins. Ég á náttúrulega mikinn stuðning og víðtækan innan flokksins en þarna er þó ljóst að áhrifafólk í flokknum er að gera mér upp persónueinkenni."
Þarna kemur skýrt fram að hreint ekki var um einstaklingsframtak hennar að ræða, heldur stóð stór hópur flokksmanna að baki því og nota átti veikleika í flokksreglum um formannsframboð til þess að gera leiftursnögga árás á Árna Pál, fella hann úr formannsstóli og leggja flokkinn undir klíkuna í kringum Sigríði Ingibjörgu.
Hún segist vera að íhuga stöðu sína innan flokksins vegna þess að "sumt áhrifafólk" í flokknum líkaði ekki byltingartilraunin og aðferðin sem beita átti til yfirtökunnar. Líklega á þessi yfirlýsing að hljóma eins og hótun um að hún færi sig formlega yfir í hjáleigu Samfylkingarinnar, þ.e. Bjarta framtíð.
Kannski á hótunin eingöngu að vera til að þagga niður í gagnrýnisröddunum, en þó er líklegra að næstu dagar fari í plott með Guðmundi Steingrímssyni og félögum um hugsanlega stöðu innan Bjartrar framtíðar og hvort og þá hvar hægt verði að bjóða fram í nokkuð öruggu sæti á listum flokksins í næstu kosningum.
Segist íhuga stöðu sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2015 | 23:03
Árni Páll fékk einu atkvæði meira, þ.e. sitt eigið
Formannskosningin sem fram fór í Samfylkingunni í dag mun komast í sögubækurnar fyrir ýmsar sakir og ekki allar merkilegar.
Formaður til tveggja ára, Árni Páll Árnason, fékk mótframboð frá einum ofstækisfyllsta þingmanni flokksins á vinstri kantinum og var eftir margendurtekna atkvæðatalningu úrskurðaður sigurvegari með eins atkvæðis mun.
Formaðurinn fékk 241 atkvæði, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir 240 atkvæði, eitt atkvæði var greitt öðrum og fimm kjósendur gerðu ekki upp á milli frambjóðenda, þ.e. leist á hvorugan.
Það sem upp úr stendur er að Árni Páll vann formannsslaginn með aðeins einu atkvæði, sem sagt sínu eigin og er það algert einsdæmi í lýðveldissögunni að nokkur formaður í stjórnmálaflokki skuli hafa náð kjöri þar sem eigið atkvæði réði úrslitum.
Samfylkingin sjálf er í algjörri rúst eftir þetta formannsstríð og mun seint ná vopnum sínum aftur. Afar ólíklegt er að Árni Páll sitji sem formaður út kjörtímabilið og að minnsta kosti mun hann varla bjóða sig fram til formennsku á næsta landsfundi flokksins ef það verður þá nokkur flokkur við lýði eftir tvö ár til að halda landsfund.
Mun líklegra er að hætt verði að bjóða fram í tvennu lagi og Björt framtíð og Samfylkingin verði formlega sameinuð, enda buðu þessir flokkar einungis fram í tvennu lagi til að skapa ásættanlegt embætti fyrir Guðmund Steingrímsson.
Í anda endurnýtingar verður hægt að nota öll gömlu slagorðin um sameiningu vinstri manna á Íslandi í einn stjórnmálaflokk.
Munaði bara einu atkvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
20.3.2015 | 17:25
Lágkúra eða ennþá meiri lágkúra?
Árni Páll Árnason, formaður og ef til vill fráfarandi formaður Samfylkingarinnar, talaði stórkarlalega í setningarræðu sinni á Landsfundi Samfylkingarinnar og lét eins og hann og flokkur hans hefði lausnir á öllum vandamálum þjóðfélagsins og myndi leysa þau fljótt og vel, bara ef hann og flokkurinn kæmust umsvifalaust í ríkisstjórn.
Árni Páll hlýtur að vera búinn að gleyma því að Samfylkingin sat í síðustu ríkisstjórn í heilt kjörtímabil og gegndi sjálfur ráðherraembætti í þeirri stjórn án þess að koma einu einasta máli í framkvæmd, sem hann segir nú að bráðnauðsynlegt sé að koma í verk núna og reyndar þó fyrr hefði verið.
Samkvæmt meðfylgjandi frétt sagði Árni Páll m.a. um setningarræðuna: "Að mati Árna þarf að hækka húsaleigubætur, fjölga íbúðum til leigu og draga úr svimandi háu leiguverði. Þess vegna þurfa leigutekjur af einni íbúð að vera skattfrjálsar fyrir einstaklinga, en því aðeins að leiga sé ekki yfir meðalverði, sagði Árni. Við þurfum að þróa kerfi viðbótarlána til að gera ungu fólki og tekjulágum fjölskyldum kleift að kaupa sína fyrstu íbúð. Samfylkingin ætlar að tryggja öllum húsnæði á sanngjörnum kjörum."
Ekki virðist hann hafa látið þess getið hvernig hann ætlar að galdra fram allar þessar leiguíbúðir þó hann segi að enginn tími sé til þess að bíða eftir því að þær verði byggðar. Undanfarin ár hefur Árni Páll og félagar í Samfylkingunni gagnrýnt Framsóknarflokkinn harðlega fyrir loforðið um 90% lán af kaupverði íbúða, en lofar nú að "þróa kerfi viðbótarlána til að gera ungu fólki og tekjulágum" að kaupa sína fyrstu íbúð. Þetta er auðvitað ekki útskýrt neitt nánar frekar en aðrir frasar í ræðunni.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður, ásamt unglíngahreyfingu Samfylkingarinnar og Reykjavíkurfélagi flokksins hefur lýst yfir stríði gegn Árna Páli og býður sig fram gegn honum í formannsstólinn. Í farteskinu hefur hún jafnvel enn óljósari og klisjukenndari frasa en andstæðingurinn, enda vita hvorki flokksmenn né aðrir um hvaða skýjaborgir frambjóðendurnir eru að tala.
Allt bendir því til að Samfylkingunni verði á næstunni stjórnað með mikilli lágkúru í málflutningi eða ennþá meiri lágkúrú.
Við getum ekki bara beðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.3.2015 | 18:51
Moska á Bessastöðum með Ólaf Ragnar sem Imam?
Útsendari Feisals kóngs og aðaleiganda Saudi-Arabíu átti leið um landið á dögunum og kom við hjá þeir sem alheimurinn álítur að sé æðstráðandi og jafnvel aðaleigandi Íslands, þ.e. Ólafi Ragnari á Bessastöðum. Erindið var að gauka aurum að forsetanum til byggingar mosku, enda hafði Feisal sjálfur fengið bónarbréf þar að lútandi eins og reyndar vinur hans og félagi Al-Thamini í Kúveit.
Varla þarf nokkurn að undra þó fáfróðir arabarnir hafi talið að moskuna ætti að reisa á Bessastöðum og jafnvel að Ólafur Ragnar myndi sjálfur verða þar imam, enda trúa flestir útlendingar Ólafi þegar hann á ferðalögum sínum um heiminn gefur í skyn að hann sé alráður á Íslandi.
Mikill hamagangur varð vegna orða flugvallarvina í Framsókn fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar um að stíga skyldi varlega til jarðar í moskubyggingum og málin skoðuð vel og vandlega áður en grunnur slíkrar byggingar yrði grafinn. Svo mikil urðu lætin að Samfylkingin gaf út sérstaka yfirlýsingu um að enginn skyldi nokkurn tíma kasta orði á slíkt fólk og hvað þá vinna með því að nokkru máli í nútíð eða framtíð.
Þegar sendimaður Feisals kóngs afhenti Ólafi Ragnari peningagjöfina hrökk Samfylkingin hins vegar illilega í kút og borgarstjórinn, vinkona Hamas og jafnvel formaðurinn sjálfur kröfðust skýringa á því hvað í ósköpunum stæði til og hvort landar Múhameðs sjálfs ætluðu virkilega að setja sem skilyrði fyrir peningaframlaginu að trúboð í nafni Islams yrði stundað í byggingunni.
Líklega hefur verið einhver misskilningur á ferðinni allan tímann og Samfylkingarforkólfarnir haldið að Islam væri olíufélag og moskur væru bensínstöðvar.
Mikilvægt að upplýsa moskumálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)