Bloggfærslur mánaðarins, september 2014
25.9.2014 | 16:07
Auðkýfingar byggi spítala - tímabundið
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. lagði á svokallaðan auðlegðarskatt og strax í upphafi var því lýst yfir að hann yrði tímabundinn til nokkurra ára á meðan ríkissjóður væri að komast yfir erfiðasta hjallann eftir bankahrunið um haustið árið 2008.
Eins og til var ætlast rann skattur þessi sitt skeið og lýsti ríkisstjórnin því yfir að hann yrði ekki endunýjaður, heldur myndi hann falla niður eins og upphaflega hefði verið ráð fyrir gert.
Núna, eftir að vera komin í stjórnarandstöðu, ber Steingrímur J. og tveir aðrir þingmenn VG fram tillögu um að skatturinn verði lagður á aftur og tekjur ríkissjóðs af honum eyrnamerktar til byggingar nýrra húsa á Landspítalalóðinni. Ennfremur er látið fylgja að skatturinn skuli vera tímabundinn, sem fyrr, og einungis verða lagður á í fimm ár, þ.e. árin 2016-2020.
Samkvæmt fréttinni á íbúðareign að vera undanþegin auðlegðarskatti og þó ekki komi fram við hvaða upphæð verið er að miða, getur það varla talist til mikillar auðlegðar þó hjón eigi skuldlausa íbúð og jafnvel rúmlega það og njóti þeirra eigna sinna í ellinni án mikilla fjárhagslegra áhyggna.
Svona skattur mun samt sem áður njóta mikillar hylli í þjóðfélaginu, enda verður hann lagður á "hina", enda njóta allir skattar mikillar hylli sem leggjast á alla aðra en þann sem dásamar skattana hverju sinni.
Hitt er annað mál að hafi þeir eignamiklu góðar tekju af eignum sínum er ekkert athugavert við að þær séu skattlagðar sérstaklega, tímabundið auðvitað.
Auðlegðarskattur til byggingar spítala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.9.2014 | 15:52
Samkeppnislög yfir Mjólkursamsöluna
Mjólkursamsalan hefur samkvæmt úrskurði Samkeppniseftirlitsins beitt keppinauta sína, fyrst Mjólku og síðar Mjólkurbúið Kú, níðingslegum brögðum til að koma þeim út af markaði. Mjólkursamsalan notaði markaðsráðandi stöðu sína til að okra á samkeppnisfyrirtækjunum í verði hráefna sem þau gátu ekki keypt annarsstaðar vegna einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar á því sviði.
Mjólkursamsalan er undanþegin samkeppnislögum og hefur nýtt sér það til að einoka markaðinn fyrir mjólkurvörur og tókst að leggja Mjólku undir sig í samstarfi við Kaupfélag Skagfirðinga, sem mun vera stærsti eigandi Mjólkursamsölunnar og þar með ráðandi aðili á þeim markaði í landinu.
Í ljósi þessa alvarlega máls hljóta stjórnvöld að grípa í taumana og setja lög um aðskilnað samrekstrar Kaupfélags Skagafjarðar og Mjólkursamsölunnar, brjóta Mjólkursamsöluna upp í smærri einingar og færa allan rekstur fyrirtækja sem tengjast landbúnaði undir samkeppnislög, eins og hver önnur fyrirtæki í landinu.
Núverandi skipan laga og reglna um fyrirtæki landbúnaðarins og þá alveg sérstaklega um rekstur Mjólkursamsölunnar er nánast eins og hvert annað nátttröll úr þjóðsögunum sem dagað hefur uppi með breyttum kröfum um nútímalega og heiðarlega viðskiptahætti.
Ekki síður þyrfti að breyta lögum í þá veru að brjóti fyrirtæki jafn gróflega af sér og Mjólkursamsalan hefur orðið ber að, þá verði stjórnendur þeirra gerðir persónulega ábyrgir alveg eins og gildir um stjórnendur ef þeir standa ekki skil á gjöldum starfsmanna sinna til hins opinbera.
Segir tjónið nema 200 milljónum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.9.2014 | 16:30
Sykraður Landspítali?
Fólk er misjafnlega áhugasamt um háa skattlagningu og oftast snýst áhuginn um að sleppa sjálfur sem best frá allri skattlagningu en þykja jafn sjálfsagt að "hinir" borgi sem allra mest, bæði í beina og óbeina skatta.
Fyrirhuguð niðurfelling hins fáránlega sykurskatts gefur einum þingmanni Framsóknarflokksins tilefni til að viðra þær hugmyndir að vænlegra væri að láta nammigrísi þjóðarinnar halda áfram að borga slíkan skatt, enda sé sykur óhollur og á tuttugu árum gæti skatturinn greitt byggingarkostnað nýs landspítala. Með sömu rökum má segja að með því að tvöfalda skattinn væri hægt að borga nýjan spítala upp í topp á tíu árum.
Til að fjármagna tækjakaup fyrir nýja sjúkrahúsið ætti með sömu rökum að skattleggja saltnotkun landans sérstaklega með háu vörugjaldi og þá ekki síður feitt kjöt, hveiti og alla aðra óhollustu sem hægt er að tengja þeim lífsstílssjúkdómum sem nú til dags eru raktir til mataræðis fólks og þar með aukningu innlagna á sjúkrahúsin og aukins álags á heilbrigðiskerfið í heild sinni.
Áhugafólk um skattpíningu mun alltaf geta fundið réttlætingu á skattahækkunum, sérstaklega á alla "hina".
Gæti borgað nýjan Landspítala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.9.2014 | 10:14
Misræmi í máli Ríkissaksóknara sem verður að rannsaka
Ríkissaksóknari segir eitt í viðtölum við RÚV, en allt annað í skriflegu svari til Morgunblaðsins.
Í viðtalinu við RÚV gaf hún í skin að lögreglustjóri hafi haft stjórn á rannsókn "lekamálsins" svokallaða, en í svarinu til Moggans játar hún að hafa sjálf haft stjórn þeirrar rannsóknar með höndum.
Umboðsmaður Alþingis hlýtur að kalla eftir skýrslum frá Ríkissaksóknara, Lögreglustjóra, RÚV og Mogganum og rannsaka þetta misræmi í málflutningi saksóknarans og fá endanlegan botn í það dularfulla mál hver það var sem stjórnaði rannsókninni.
Níðurstaða slíkrar rannsóknar gæti varpað ljósi á það hver hafði leyfi til að tala við hvern um rannsóknina og hvort einhver hefði mátt spyrja einhvern um gang málsins og þá hvern.
Allt stefnir í að vegna "lekamálsins" verði að fara fram viðamestu rannsóknir Íslandssögunnar, ef undan er skilin rannsóknin vegna bankahrunsins.
Ríkissaksóknari mælti fyrir um framkvæmdina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)