Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014
24.3.2014 | 19:29
Verður er kennarinn launa sinna
Framhaldsskólakennarar hafa verið í verkfalli undanfarna daga til að knýja á um kjarabætur stéttarinnar og útlit er fyrir verkföll fleiri félaga ríkisstarfsmanna á næstu mánuðum.
Flest, eða öll, félögin benda á að "aðrir" hafi fengið meiri hækkanir en þeirra eigin félagar og því þurfi að "leiðrétta" launabilið á ný og þannig ganga kaupin á eyrinni varðandi kjarabaráttuna árum og áratugum saman.
Ekkert stéttarfélag getur unað öðru að fá meiri launahækkun en það sjálft og því gengur kjarabaráttan nánast eins fyrir sig árum og áratugum saman, þrátt fyrir fögur fyrirheit um að lægstu laun skuli hækkuð umfram önnur, en þegar til á að taka sættir sig enginn við minni hækkun en "aðrir" hafa fengið.
Hvað sem öðru líður er kennarastarfið með þeim mikilvægustu í þjóðfélaginu og menntun að verða sífellt nauðsynlegri hverjum manni til að takast á við lífið í æ flóknara og tæknivæddara þjóðfélagi. Í hverju starfi eru gerðar sífellt meiri og meiri kröfur um menntun og hver sá sem heltist úr skólalestinni á sífellt minni möguleika á góðu framtíðarstarfi.
Kennarar eiga því og þurfa að fá góð laun fyrir sín störf og á móti á og verður að gera miklar kröfur til þeirra, enda ábyrgðin mikil á að skila unga fólkinu út í lífið tilbúið til að takast á við lífið og tilveruna án vandkvæða.
Kennaranámið ætti að vera ekki síðra eða minna í það lagt en t.d. læknanám og vera launað í samræmi við það.
Samingur til 2½ árs líklegur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.3.2014 | 17:21
Seðlabankinn á ekki að vera pólitískt leikfang
Fyrsta verk Jóhönnu Sigurðardóttur var að flæma þrjá seðlabankastjóra úr starfi til í heiftúðugum hefndaraðgerðum sínum gegn Sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddssyni, eftir að henni tókst að kaupa VG til ríkisstjórnarþátttöku eftir bankahrunið haustið 2008.
Heiftin var slík að ekki var einu sinni hægt að undirbúa málið almennilega, heldur voru lög brotin með því að skipa erlendan mann seðlabankastjóra á meðan að Már Guðmundsson væri að losa sig frá starfi sínu erlendis, svo hann gæti tekið við starfi seðlabankastjóra til frambúðar.
Í millitíðinni, þ.e. eftir að Már var ráðinn með loforði um ákveðin starfskjör, datt Jöhönnu í hug að setja lög um að enginn opinber embættismaður mætti hafa hærri laun en hún sjálf, enda farinn að líta svo á að enginn í landinu væri verðugur hærra starfsmats en hennar hátign.
Með þessari geðþóttaákvörðun voru fyrri launaloforð til handa Má svikin og hans eina ráð til að kanna réttarstöðu sína var að stefna bankanun (auðvitað sem staðgengli Jöhönnu) til að fá botn í réttarstöðu sína í málinu. Eins og Már segir sjálfur, ekki eingöngu launaupphæðarinnar vegna heldur "Hitt skiptir mig miklu máli hvernig að þessu öllu var staðið."
Það er nefninlega hárrétt hjá Má, að það var með eindæmum hvernig ríkisstjórn Jóhönnu stóð að þessu máli, eins og flestum öðrum. Allt þetta mál var eintómt klúður og Lára V. Júlíusdóttir gerði örugglega ekkert varðandi þetta mál nema að viðhöfðu nánu samráði við flokksformann sinn, Jóhönnu Sigurðardóttur.
Það er svo eftir öðru, að Selabankinn borgi brúsann og í raun ekki við öðru að búast, enda klúðrið bankans og ríkisstjórnarinnar, en ekki Más Guðmundssonar sem í raun er fórnarlamb ruglsins.
Það þarf að koma Seðlabankanum í skjól frá pólitískum fíflagangi, að ekki sé talað um hefnarþorsta einstakra ráðherra.
Hefði annars látið málið niður falla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.3.2014 | 16:44
Vantar fátækrahverfi í Reykjavík?
Á tíma seinni heimstyrjaldarinnar og árin eftir hana flykktist fólk af landsbyggðinni til Reykjavíkur vegna þeirrar atvinnu sem þar stóð til boða og skapaðist af þessu mikill íbúðaskortur og var því nánast hver kompa sem hægt var að komast yfir nýtt til íbúðar.
Braggahverfin, sem herinn skyldi eftir sig, fylltust af "nýbúum" og Höfðaborgin var byggð sem "bráðabyrgðahúsnæði" fyrir hina aðfluttu og víða var búið í húsnæði sem varla var fólki bjóðandi, t.d. Pólunum og fleiri slíkum stöðum.
Með sameiginlegu átaki aðila vinnumarkarðarins og stjórnvalda tókst að útrýma þessu heilsuspillandi húsnæði og bjóða íbúunum gott og traust húsnæði til frambúðar. Því miður er aftur orðið talsvert um að verið sé að bjóða upp á nánast óíbúðarhæft húsnæði til leigu vegna þess húsnæðisskorts sem hrunið leiddi af sér og verða margir að láta sér slíkt lynda, þar sem ekki er annað að hafa miðað við þá greiðslugetu sem fyrir hendi er.
Hugmyndir um að reisa íbúðahverfi úr gömlum innréttuðum gámum væri risaskref til fortíðar, ef af yrði, þar sem slík hverfi myndu strax minna á fátækrahverfi erlendra stórborga, fyrir utan að varla væri fólki bjóðandi að búa í slíkum hrófatildrum, enda hæpið að slíkir gámar gætu talist mannsæmandi bústaðir eða að þeir stæðust nútímakröfur um hollustuhætti og aðbúnað íbúa til langs tíma.
Það sem vantar líklega síst af öllu í Reykjavík er gámahverfi sem myndi ekki minna á neitt meira en skúrahverfi stórborga með öllum þeim vandamálum sem slíkum hverfum fylgja.
27 m² íbúðir á 80 þúsund á mánuði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)