Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014
29.11.2014 | 12:32
Náttúruskoðarar greiði kostnaðinn sem fylgir ferðum þeirra
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur lengi verið að veltast með hugmyndir um náttúrupassa, eða aðrar leiðir til fjármögnunar á viðhaldi ferðamannastaða vítt og breitt um landið, og virðist loksins komin fram "lausn" á málinu sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra, hefur nú lagt fram.
"Lausnin" felst í því að íslendingar, sem aldrei fara í náttúruskoðun" skuli taka þátt í að greiða fyrir átroðning ferðafólks í viðkvæmri náttúrunni til jafns á við þá sem valda spjöllunum sem náttúrupassinn á að notast til að fjármagna viðgerðirnar.
Því verður seint trúað að slíkur nefskattur verði lagður á þá íbúa landsins sem sjaldan eða aldrei fara á viðkvæm landssvæði.
Þeir sem valda kostnaði vegna uppbyggingar og viðhalds á ferðamannastöðum eru auðvitað þeir sem eiga að greiða þann kostnað. Seljendur ferða á þessa staði eru auðvitað þeir sem eiga að greiða kostnaðinn.
Þann kostnað munu þeir auðvitað leggja á viðskiptavini sína með gjaldi á hvern farmiða sem seldur verður og þannig munu þeir greiða fyrir afnotin sem þeirra njóta.
Náttúrupassi samþykktur í ríkisstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.11.2014 | 13:08
Eru verkalýðsfélögin algerlega handónýt í réttindabaráttu?
Ekki er langt síðan umræða varð í fréttamiðlunum um svindl ýmissa skyndibitakeðja og reyndar fleiri varðandi launagreiðslur til starfsmanna. Þrátt fyrir margar ábendingar og athugasemdir árum saman gerðu félögin ekkert til að aðstoða félagsmenn sína fyrr en farið var að fjalla um það í fjölmiðlunum og þá þóttust verkalýðsforingjarnir vera að heyra af svindlinu í fyrsta sinn.
Núna birtast fréttir í fjölmiðlum af nánast þrælahaldi hreingerningarfyrirtækis vegna þrifa á Landspítalanum og líklega má álykta sem svo að slíkt þrælahald sé ástundað víðar í "hreingerningabransanum", enda berast reglulega sögur um gríðarlegan sparnað stofnana við útboð á þrifunum til verktaka.
Í gildi eru kjarasamningar um skúringar og þrif, eins og um alla aðra vinnu, og verkalýðsfélögunum ber skylda til að fylgjast með því á vettvangi, þ.e. á vinnustöðunum sjálfum, að kjarasamningar séu haldnir hvað varðar laun, vinnutíma og annan aðbúnað.
Aumara yfirklór og aumingjaskap er ekki hægt að hugsa sér en yfirlýsingu formanns Eflingar um að það væri í verkahring verkkaupandans að hafa eftirlit með launagreiðslum verktakanna, því auðvitað er það í verkahring hans sjálfs að annast slíkt eftirlit.
Vakni minnsti grunum um að slíkt og þvílíkt svínarí viðgangist gagnvart starfsfólki í nokkru fyrirtæki ber stéttarfélögunum skylda til að stöðva alla vinnu á staðnum þar til bætt hefur verið úr og fyrirheit gefin um bót og betrun, ekki síst í framkomu við starfsfólkið.
Fulltrúi Eflingar mátti ekki sitja fund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.11.2014 | 21:59
Þétting byggðar er ágæt, en hvert fer atvinnan?
Undanfarið hafa borgaryfirvöld keppst við að benda á ýmis svæði innan borgarmarkanna, aðallega í eldri hverfum, þar sem áhersla verður lögð á að þétta byggðina. Það verður aðallega gert með byggingu fjölbýlishúsa með afar fáum, jafnvel engum, bílastæðum en áhersla lögð á umferð gangandi, hjólandi og strætisvagna.
Á a.m.k. sumum þessara fyrirhuguðu byggingasvæða, t.d. Skeifunni, Elliðavogi og Ártúnshöfða svo nokkur svæði séu nefnd, eru nú ýmis atvinnufyrirtæki eins og verslanir, verkstæði og ýmis smærri atvinnurekstur og allir skuli þessir vinnustaðir víkja fyrir íbúðabyggingum.
Sá, sem hér slær á lyklaborð, hefur ekki orðið var við að í umræðunni um breytingar á skipulagi og öll þessi nýju byggingarsvæði sé nokkurn tíma rætt um hvert öll þessi atvinnustarfsemi skuli flytjast. Engu er líkara en að fyrirtækin eigi að víkja með nánast engum fyrirvara, t.d. í Elliðavogi, án þess að nokkur minnist á hvert þau ættu að flytja sig.
Smáiðnaður og verkstæði hafa oftast byggst upp í útjaðrði byggðarinnar en nú bregður svo við að ekki virðist vera gert ráð fyrir neinu nýju athafnasvæði í borgarlandinu, enda allt gert sem mögulegt er til að torvelda umferð ökutækja um borgina, þannig að erfitt verður í framtíðinni fyrir starfsmenn og viðskiptavini fyrirtækja að komast á fyrirhugaðan áfangastað.
Getur verið að borgaryfirvöld í Reykjavík ætlist til að atvinnustarfsemi flytjist að mestu leyti í nágrannasveitarfélögin án þess að reiknað sé með að fólk komist á milli staða nema á reiðhjólum?
100 milljarðar í nýtt hverfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)