Bloggfærslur mánaðarins, október 2014
28.10.2014 | 12:59
"Norræna velferðarstjórnin" og barnafátæktin
UNICEF hefur birt skýrslu um breytingu á barnafátækt í fjörutíu og einu landi innan OECD á árabilinu 2008 - 2012 og er niðurstaðan svo sláandi varðandi Ísland að algerlega óviðunandi er, ásamt því að vera falleinkunn fyrir "Norrænu velferðarstjórnina" eins og ríkisstjórnin nefndi sjálfa sig svo ósmekklega á þessum umræddu árum.
Í skýslunni segir m.a: "Barnafátækt á Íslandi jókst um rúm 20 prósentustig frá árinu 2008 (en þá bjuggu 11,2% íslenskra barna við fátækt) til 2012 (en þá bjuggu 31,6% íslenskra barna við fátækt) ef miðað er við lágtekjumörk frá árinu 2008. Ísland er þannig í neðsta sæti af ríkjunum 41, næst á eftir Grikklandi, en þessi aukning samsvarar því að um 17 þúsund fleiri börn hér á landi hafi fallið undir lágtekjumörkin frá 2008 á þessu tímabili."
Allir vita að bankahrun, ásamt meðfylgjandi efnahagserfiðleikum, varð víða um heim á árinu 2008 og Ísland fór ekki varhluta af þeim erfiðleikum þó ýmis lönd innan ESB hafi jafnvel orðið enn verr úti, t.d. Grikkland, Spánn, Írland o.fl.
Þrátt fyrir að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. hafi sífellt flutt þann áróður að forgangsraðað væri í þágu velferðar, menntunar og heilbrigðismála er útkoman sú að velferð barna hafi hvergi fengið annan eins skell og einmitt undir stórn þeirrar "norrænu".
Greinilegt er að traust almennings og stéttarfélaganna til núverandi ríkisstjórnar er mikið, enda hávær krafa úr öllum áttum um að öll mistök síðustu ríkisstjórnar í efnahagsmálum verði leiðrétt umsvifalaust og stöðu heimila og velferðar verði komið í það horf sem þau voru í á árunum fyrir 2008 og verður ekki annað séð en að ríkisstjórnin sé reiðubúin til að gera allt sem mögulegt er til að verða við þeim óskum.
Þeir sem mest hafa milli handanna nú um stundir hljóta því að una því að fátækustu börnin verði sett í forgang þeirra lífskjaraleiðréttinga sem fram undan eru.
Fátækt íslenskra barna jókst mest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
24.10.2014 | 16:32
"Leiðréttingar" í kjarasamningum
Lengstum hafa stéttarfélög barist fyrir bættum kjörum félaga sinna, bæði varðandi laun og ýmis önnur kjaraefni, svo sem ellilífeyri, veikindarétt, orlof o.fl.
Eins lengi og elstu menn muna hefur í upphafi nánast hverra einustu kjarasamningatarnar þeirri kröfu verið hampað að nú skuli leggja ríkasta áherslu á að hækka lægstu launin og aðrir verði látnir bíða betri tíma.
Í hvert einasta skipti hefur verið samið um hækkun lægstu launa og svo hafa nánast allir aðrir samið um meiri hækkanir sér til handa og því meiri hækkanir sem launin hafa verið hærri áður.
Alltaf snúast kröfur einstakra félaga um að "leiðrétta" þann launamun sem myndaðist í síðustu samningum "viðmiðunarstéttanna", þar sem þær sömdu eins og venjulega um enn meira og betra en hinum tókst að semja um sér til handa.
Um þessar mundir eru aðildarfélög ASÍ að móta kjarakröfur sínar fyrir næstu samningalotu og að sjálfsögðu munu þær kröfur byggjast á því að "leiðrétta" kjörin vegna þeirra samninga sem aðrir gerðu í fyrra og jafnvel á árunum þar á undan.
Svo koma hinir og krefjast "leiðréttinga" á sínum kjörum og þannig mun þetta ganga áfram næstu áratugina eins og áður.
Deilt um viðmið launaþróunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.10.2014 | 19:50
Var byssugjöfin keypt?
Dularfulla hríðskotabyssumál ríkislögreglunnar verður sífellt einkennilegra í eyrum og augum almennings í landinu, ekki síst eftir fréttatíma sjónvarpsstöðvanna í kvöld.
Stöð2 sagði frá því í sínum fréttatíma að á árinu 2011 hefði Innanríkisráðuneytið falast eftir byssunum að gjöf frá Norðmönnum og endanlega hafi verið gengið frá þeim málum í maí 2013 þó samningur hafi ekki verið formlega undirritaður fyrr en í desember það ár og byssurnar svo afhentar í framhaldinu. Skilyrði fyrir gjöfinni hefði þó verið að Landhelgisgæslan yrði móttakandi gjafarinnar og greiddi flutningskostnaðinn til Íslands. Landhelgisgæslan hafi síðan afhent Ríkislögrelunni hluta gjafarinnar, enda hafi norski herinn talið eðlilegra að gefa vopnin til gæslunnar en lögreglunnar.
Í fréttatíma RÚV var hins vegar sagt að byssurnar hefðu verið keyptar fyrir tólf milljónir króna og birt viðtal við fulltrúa norska hersins því til staðfestingar. Ekkert kom fram í þeim fréttatíma hvort Landhelgisgæslan hefði komið beint eða óbeint að þessum vopnakaupum.
Burtséð frá því hvaða álit fólk hefur á því hvort lögreglan í landinu eigi að hafa aðgang að svona vopnabúri eða ekki er alveg óþolandi leynimakk í kring um þetta mál af hálfu lögreglunnar, gæslunnar og ráðuneytisins.
Það hlýtur að vera einfalt mál af hálfu ráðuneytisins að upplýsa í eitt skipti fyrir öll hvernig í þessu máli liggur og hvort Norðmenn hafi selt Íslendingum þessar byssur eða gefið þær.
Gæslan keypti hríðskotabyssur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.10.2014 | 16:31
Er Wikileaks orðin málpípa morðingja?
Wikileaks hafa sent frá sér einhverskonar yfirlýsingu um að samtökin fordæmi lokun vefsíðunnar Kfilafah.is, sem er eða var áróðurssíða hryðjuverkasamtakanna sem vilja láta kalla sig Ríki Íslams en eru ekkert annað en samsafn morðóðs glæpalýðs.
Að minnsta kosti einn þingmaður Pírata hefur sent frá sér álíka yfirlýsingu og eins og Wikileaks virðist hann álíta lokun síðunnar brot á mál- og tjáningarfrelsi þeirra ógeðslegu villimanna sem flykkst hafa til þátttöku í hryllingsverkum þessara morðvarga sem framin eru og réttlætt með ótrúlegu trúarofstæki.
Stuðningur við "mál- og tjáningarfrelsi" þessara skrímsla í mannsmynd hlýtur þá að ná til þess að "venjulegir" morðingjar og aðrir ribbaldar fái frið til þess að halda úti vefsíðum til að útskýra málstað sinn og sýna myndbönd af manndrápum sínum og öðrum illverkum svo almenningur geti tekið upplýsta afstöðu til þeirra.
Mál- og tjáningarfrelsið er dýrmætara en svo að réttlætanlegt sé að misbjóða þeim sem þess njóta á eins lágkúrulegan hátt og talsmenn Wikileaks og Pírata leyfa sér að gera.
Wikileaks fordæmir lokun vefsíðu Ríkis íslams | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
8.10.2014 | 12:28
Verður ekki að slaka á innflutningsbanni á kjöti, eða hvað?
Eftirlitsstofnun EFTA hefur í dag birt þann úrskurð sinn að íslensk yfirvöld hafi ekki getað sýnt fram á að innflutningshöft á kjöti séu nauðsynleg til að vernda líf og heilsu almennings og dýra og því andstæð EFTAsamningnum.
Samkvæmt þessum úrskurði verða íslensk yfirvöld að breyta lögum um matvælainnflutning innan tveggja mánaða en sæta málshöfðun ella.
Þetta kallar á skjót viðbrögð til lagabreytinga og kollvarpar í raun öllu landbúnaðarkerfinu hérlendis. Ekki er að sjá að íslendingar geti með nokkru móti komið sér hjá að breyta reglunum hvað þetta varðar og því eins gott fyrir bændur og framleiðslufyrirtæki landbúnaðarafurða að bregðast hratt og vel við þeirri samkeppni sem nú blasir við þeim.
Þetta ætti að verða til þess að lækka matvælaverð í landinu, nema hugvitssömum kerfisköllum takist að finna upp ný og endurbætt vörugjöld (hvað svo sem þau yrðu látin heita) til að halda uppi verði á innfluttu vörunum eins og gert hefur verið hingað til.
Kannski þarf ekki að breyta neinu öðru en leyfisumsóknunum, en halda innflutnigsgjöldunum. Kerfið mum nánast örugglega ekki gefa neitt eftir af sínum tekjum af þessum málaflokki, frekar en öðrum.
Takmarkanir á innflutningi brjóta í bága við EES-samning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)