Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Óvinsæl afstaða til verðtryggingar

Þeir eru ekki margir stjórnmálamennirnir núna, sem þora að tjá sig um verðtrygginguna og ræða hana út frá öðrum forsendum en því slagorðaglarmri gegn henni sem tröllriðið hefur allri umræðu um málefnið undanfarin misseri.

Pétur Blöndal hefur verið trúr sinni skoðun á málinu allan tímann og nú  bætist Vilhjálmur Bjarnason í þann hóp, en eftir honum er m.a. haft í fréttinni:  "Vilhjálmur bendir á að laun hafi hækkað um 235% síðan 1992, en á sama tíma hafi verðbólgan verið 148%. Á þessum tíma hafi því orðið mikil aukning kaupmáttar. Ef horft sé til skemmri tíma, til dæmis 5 ára, sé þessu aðeins öfugt farið, eða 43% verðbólga á móti 34% launahækkun, en á síðustu 3 árum hafa launin hækkað um 19,5% á móti 12,5% verðbólgu. Hann segir því nauðsynlegt fyrir fólk að hafa þolinmæði og að til lengri tíma muni launakjör aukast umfram verðbólguna."

Ekki þarf að efast um að Vilhjálmur mun liggja undir miklum árásum á samskiptavefjum næstu daga vegna þessara ummæla, sem þó eru aðeins staðreyndir málsins. 


mbl.is Óþarfi að setja heilt samfélag á hvolf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki batnar ástandið í ESB enn

Enn eykst efnahagssamdrátturinn í ESBríkjunum sem eru slæm tíðindi fyrir Íslendinga, eins og aðra, enda um mikilvægan markað að ræða fyrir útflutningsvörur landsins.

Erfiðleikarnir eru miklir og hafa verið langvarandi, þrátt fyrir að Össur Skarphéðinsson noti hvert tækifæri til að lýsa yfir kreppulokum í Evrópu, enda sé evran töframeðalið sem öllu muni bjarga þar.

Hvað sem veldur þessari niðursveiflu innan ESB er a.m.k. ólíklegt að hægt sé að kenna Geir H. Haarde og íslensku krónunni um hana.

Beðið er eftir nánari útskýringu Össurar á töfum efnahagsbatans sem evran átti að sjá um að yrði afar skjótur og mikill. 


mbl.is Efnahagslægðin dýpkar á evru-svæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti naglinn í kistu stjórnarskrárfrumvarpsins?

Undanfarna mánuði hafa sérfræðingar af ýmsum sviðum unnið að smíði líkkistu hins andvana fædda stjórnarskrárfrumvarps, sem sttjórnskipuð nefnd fæddi af sér eftir stutta meðgöngu.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þó fram til þessa neitað að gefast upp á að endurlífga krógann, en nú hefur Feneyjanefndin rekið síðasta naglann í kistuna og verður ekki annað séð en að ekki verði lengur hægt að fresta útförinni.

Í fréttinni kemur m.a. fram um álit nefndarinnar:  "Feneyjarnefndin segir að verði tillögurnar samþykktar sé hætta á pólitísku þrátefli og óstöðugleika sem geti valdið alvarlegum vandræðum við stjórn landsins."

,Varla getur það hafa verið vilji nokkurs manns að  flækja stjórnkerfi landsins  og valda meira þrátefli og ósöðugleika frá því sem nú er.  Því verður ekki einu sinni trúað upp á Jóhönnu Sigurðardóttur og aðra flækjufætur, sem ásamt henni hafa fram til þessa neitað að kistuleggja líkið.

Hjá því verður þó ekki vikist lengur. 


mbl.is Flókin ákvæði í stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB njósnar um skoðanir einstaklinga

ESB boðar nú nýja njósnastofnun á vegum sambandsins, sem fylgjast á með skrifum einstaklinga á samskiptavefjum um ESB og bregðast við neikvæðum skoðunum sem fram koma um stórríkið væntanlega.

Í viðhangandi frétt segir að m.a. komi fram í leyniskjali um málið:  "Þá segir að embættismenn Evrópuþingsins þurfi að geta fylgst með slíkum samskiptum á milli almennings á netinu sem og utan þess með skipulögðum hætti og tekið þátt í þeim og haft áhrif á þau með því að leggja fram staðreyndir og bregðast þannig við goðsögnum um Evrópusambandið. Þjálfun starfsmanna þingsins í þeim efnum hefst síðar í þessum mánuði."

Í Sovétríkjunum og fleiri harðstjórnarríkja, sem virðast vera orðin fyrirmynd ESB, tíðkaðist að njósna á svipaðan hátt um einstaklinga og almenningur var jafnframt látinn fylgjast með nágrönnum sínum og ættingjum og tilkynna til yfirvalda um allt sem hægt væri að túlka á neikvæðan hátt fyrir yfirvöld.

Í Sovétríkjunum voru "neikvæðir" einstaklingar sendir í Gúlagið og í Kína og Norður-Kóreu eru fjölmennustu þrælabúðir veraldar, þar sem fólk er "endurmenntað" í þágu opinberra skoðana og fjölmargir eru umsvifalaust teknir af lífi fyrir óæskilegar skoðanir.

ESB stefnir hraðbyri í starfsemi  í ætt við það sem tíðkaðist og tíðkast í  fyrirmyndarríkjum sínum. 


mbl.is Vill taka á gagnrýni á ESB á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grín og gaman hjá Samfylkingunni?

Samfylkingin hefur setið í ríkisstjórn í fjögur ár með VG og allan tímann hefur logað ófriðarbál innan flokkanna sjálfra (sérstaklega VG), milli þeirra innbyrðis og ekki síst af hálfu beggja stjórnarflokkanna í garð stjórnarandstöðunnar, en við hana hefur alls ekki mátt ræða um eitt eða neitt allt kjörtímabilið.

Þessu stríðsástandi virðist meira að segja Samfylkingin vera orðin leið á, ef marka má ályktun landsfundar hennar, en þar segir m.a:  Augljós þörf er fyrir bætt vinnubrögð í íslenskum stjórnmálum og nýja samskiptahætti. Þar vill Samfylkingin slá nýjan tón. Jafnaðarmenn vilja hvetja til samstarfs um mikilvæg hagsmunamál þvert á flokka og leggja áherslu á vandaða umræðu og víðtækt samráð við undirbúning mikilvægra ákvarðana.“

Bragð er að, þá barnið finnir, sagði kerlingin og því hlýtur að mega reikna með að Samfylkingin ætli nú að taka upp algerlega ný vinnubrögð þá tuttugu þingdaga sem eftir eru af kjörtímabilinu og leita eftir víðtækri sátt um þau mál sem stjórnin hefur verið að reyna að þvinga í gegn um þingið undanfarið, t.d. stjórnarskrármálið, fiskveiðistjórnunina og skuldavandann svo örfá atriði séu nefnd af þeim hátt í tvöhundruð málum sem bíða afgreiðslu.

Ef halda á uppteknum háttum við þingstörfin, verður að líta á stjórnmálaályktun landsfundarins eins og hvert annað grín og gaman sem eingöngu hefur verið til að skemmta fundarmönnum. 


mbl.is Augljós þörf fyrir bætt vinnubrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaráðherra Írlands fer með tómt fleipur

Michael Noonan, fjármálaráðherra Írlands, hlýtur að vera með fáfróðari ráðherrum Evrópu.  Hann uppljóstraði fávisku sinni á fundi þar sem hann hélt því fram að Ísland hefði ekki unnið neinn sigur fyrir Eftadómstólnum, enda hefði sparnaður almennings á Íslandi "þurrkast út".

Samkvæmt fréttinni sagði blessaður maðurinn á fundinum m.a:  "Sagði hann að mótmælendur á Írlandi kölluðu eftir því að láta hlutabréfaeigendur éta það sem úti frysi en á Íslandi hefði það átt við um innistæðueigendur. Fólk hafi glatað sparnaði sínum."

Þarna snýr ráðherrann staðreyndunum algerlega á hvolf, því á Íslandi héldu  sparifjáreigendur öllu sínu, þökk sé Neyðarlögunum, en stærstur hluti hlutabréfaeigna þurkaðist hins vegar út.

Ekki er líklegt að íslensk stjórnvöld reyni að leiðrétta þessa vitleysu, enda er Írland í ESB og þar má engan styggja. 


mbl.is „Ísland vann engan sigur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurlægja Jóhönnu í kveðjuskyni

Guðbjartur Hannesson, erfðaprins Jóhönnu Sigurðardóttur, tapaði með miklum mun í formannskjöri Samfylkingarinnar, en úrslitin voru tilkynnt á landsfundi flokksins fyrr í dag.  Aðeins tæpur þriðjungur þeirra sem rétt höfðu til þátttöku í kjörinu nennti að rétta út hendina til að greiða atkvæði þrátt fyrir að þurfa aðeins að kveikja á heimilistölvunni og þurfa ekki að ómaka sig um langan veg á kjörstað í óvissum veðrum.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið í einhverri óskiljanlegri hefndarherferð gegn Sjálfstæðisflokknum allt kjörtímabilið þrátt fyrir að hafa starfað í ríkisstjórnum með þeim flokki árum saman og nú síðast í þeirri ríkisstjórn sem hún sjálf kallar "hrunstjórn".  Í lokaræðu sinni sem formaður sagði Jóhanna að framundan væri harðvítugt stríð við Sjálfstæðisflokkinn, sem hún vonaðist til að erfðaprinsinn myndi stjórna.

Árni Páll Árnason, hinn nýkjörni formaður, sneri niðurlægingarhnífnum í sári Jóhönnu með ýmsu móti í þakkarræðu sinni og sagði m.a., samkvæmt viðhangandi frétt:  "Við erum á tímamótum og það er erfitt að sjá að frekari stríðsrekstur verði Samfylkingunni til árangurs eða virðingarauka. Við höfum háð of mörg stríð án árangurs þetta kjörtímabil og við verðum að læra af þeirri reynslu,“ sagði Árni Páll og hvatti til annarra lausna.

Sjaldan hefur viðtakandi formaður í stjórnmálaflokki niðurlægt og afneitað fyrirrennara sínum á beinskeittari hátt. 


mbl.is „Stríðsrekstur ekki til árangurs“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband