Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011
31.5.2011 | 19:37
Alltaf jafn snöggir, þingmennirnir
Þann 12. apríl 2010 skilaði Rannsóknarnefnd Alþingis skýrslu sinni um aðdraganda falls bankanna og hverjir bæru þar mesta sök, en niðurstaða nefndarinnar var að ótvírætt bæru eigendur og stjórnendur bankanna aðalábyrgðina, enda eru þeir flestir eða allir með stöðu sakborninga hjá embætti sérstaks saksóknara.
Nú hefur Allsherjarnefnd Alþingis lagt fram tillögu um að sambærileg rannsókn skuli fara fram vegna hruns sparisjóðakerfisins í landinu, eða eins og segir í greinargerð nefndarinnar með tillögunni: "Þrátt fyrir þessi miklu áföll innan sparisjóðakeðjunnar á síðustu árum er ekki fjallað sérstaklega um málefni sparisjóðanna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008. Þar er þó bent á að það verðskuldi slíka rannsókn. Undir það tók síðan Alþingi með samþykkt framangreindrar þingsályktunartillögu þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis."
Þingmannanefnd Atla Gíslasonar, sem vitnað er til í lokasetningunni hér að framan, skilaði sínum niðurstöðum í fyrrasumar, þannig að það hefur tekið Alsherjarnefnd Alþingis ótrúlega langan tíma að sjóða saman tillögu um rannsókn á falli sparisjóðanna og er illskiljanlegt í hverju sú töf liggur. Líklega er skýringin þó ekki flóknari en það, að allt sem stjórnarmeirihlutinn á Alþingi tekur sér fyrir hendur tekur ótrúlega langan tíma og niðurstöður oftast ófullnægjandi og stundum algerlega út í hött.
Rannsóknarnefnd sparisjóðanna á síðan ekki að skila niðurstöðum sínum fyrr en 1. september 2012, en þá verða liðin tæp fjögur ár frá bankahruninu og líklega allar hugsanlegar sakir fyrndar, þannig að ekki verði hægt að draga nokkurn mann fyrir dómstóla, jafnvel þó ásæða þætti til.
Röggsemi hefur aldrei verið aðalsmerki núverandi stjórnarmeirihluta á Alþingi. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum eins og skuldarar þessa þjóðfélags geta t.d. borið vitni.
Fall sparisjóðanna rannsakað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.5.2011 | 14:13
Hafa ríkisstjórnin og erlendir fjárfestar gleymt Icesave?
Fyrir örfáum vikum margítrekuðu Steingrímur J., Jóhanna Sig. og aðrir ráðherrar þá skelfingu sem ríða myndi yfir þjóðarbúið ef þrælasamningurinn um Icesave yrði ekki samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ráðherrarnir, með seðlabankastjóra sér til fulltingis, sögðu kreppuna dýpka til muna, efnahagsbati yrði enginn á næstu árum og algerlega yrði útilokað fyrir ríkissjóð, ríkisfyrirtæki og aðra að fá erlend lán og engir erlendir fjárfestar myndu fást til að millilenda á Keflavíkurflugvelli, hvað þá að leggja fjármagn til atvinnuskapandi verkefna hérlendis.
Núna, þessum fáu vikum síðar, keppist Iðnaðarráðherra við að lýsa því hve mikið sé framundan í orku- og stóriðjuuppbyggingu og í raun bíði erlendir fjárfestar í röðum á biðstofunni eftir að fá að taka þátt í hinum ýmsu stórverkefnum. Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sagði Jóhanna að kreppan væri búin og þvílík birta í efnahagslífinu, að helst þyrfti þjóðin að ganga með sólgleraugu til að fá ekki ofbirtu í augun af allri þeirri hagsæld, sem framundan væri.
Nú er Steingrímur J., í samstarfi við erlendar fjármálastofnanir, að undirbúa útgáfu ríkisskuldabréfa í erlendri mynt, sem reiknað er með að peningafurstar erlendis muni gleypa við, enda sé ríkissjóður Íslands með allra traustustu skuldurum, ekki síst í samanburði við evruríkin, sem mörg hver eru á barmi gjaldþrots, þrátt fyrir að hafa "traustan" gjaldmiðil, sem ráðherrarnir keppast við að segja umheiminum að Ísland hafi alls ekki, heldur þvert á móti "handónýta krónu", eins og Árni Páll segir, en líkir sér að vísu við "fábjána", varandi skilning á fjármálum.
Alveg er það stórmerkilegt hvað Ísland býr við gleymið ráðherralið, eða ef til vill ósannsögult og ómerkilegt, þegar að samskiptum við almenning kemur.
Undirbýr útgáfu erlendra skuldabréfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.5.2011 | 00:08
Samræma sjúkra- og lyfjaskrár
Umfjöllun Kastljóss undanfarið um læknadópið hefur verið sláandi og varpað skýru ljósi á hversu útbreitt vandamálið er. Að þeir fimm læknar, sem mest ávísa á lyf úr þeim lyfjaflokkum sem helst eru misnotaðir, skuli á árinu 2009 hafa gefið út lyfseðla fyrir slíkum lyfjum fyrir 160 milljónir króna, eru ótrúlegar og enn ótrúlegra að sá sem stórtækastur er skuli vera nálægt helmingi þeirrar upphæðar.
Miðað við upplýsingarnar sem fram komu í Kastljósinu um verð á þessum lyfjum á götunum, þá er augljóst að veltan á þessu læknadópi nemur einhverjum milljörðum króna. Ekki má gleyma því að þetta læknadóp er stórlega niðurgreitt úr ríkissjóði og auðvitað alger óhæfa að nokkur læknir skuli misnota aðstöðu sína á þennan hátt, ekki síst í því ljósi að þeir vinna eið að því að vernda og bjarga mannslífum, en ekki steypa þeim í helvíti eiturlyfjafíknar.
Á tækni- og tölvuöld er auðvelt að koma á samræmdum sjúkra- og lyfjaskrám, þar sem allir læknar hafi aðgang að allri sjúkrasögu sjúklinga, allri læknismeðferð þeirra um ævina og alla lyfjanotkun. Svo sjálfsagt ætti að vera að koma slíkum skrám í gagnið, að ekki ætti einu sinni að þurfa að ræða málið meira.
Slíkur sameiginlegur aðgangur lækna að sjúkrasögu sjúklinga væri ekki eingöngu til þess að koma í veg fyrir misnotkun sjúklinga á kerfinu og óhóflegar ávísanir einstakra lækna á ávanabindandi lyf, heldur ekkert síður vegna hagsmuna "venjulegra" sjúklinga, sem oft þurfa að leita til lækna með mismunandi sérfræðinám og ekki síður vegna þess mikla fjölda, sem ekki hefur fastan heimilislækni og hittir því einn lækni í dag, en annan næst og þarf þá að endurtaka alla sína sjúkrasögu og viðkomandi læknir hefur engin tök á að sannreyna söguna, eða samhæfa þá meðferð sem hann teldi nauðsynlega.
Það er allra hagur að samræma sjúkra- og lyfjaskrár strax og þó fyrr hefði verið.
Ávísuðu lyfjum fyrir 160 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.5.2011 | 18:48
Á ekki að banna svona þingmenn?
Þingmennirnir Siv Friðleifsdóttir, Þuríður Backman, Ásta R. Jóhannesdóttir, Árni Johnsen, Margrét Tryggvadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Þór Saari, Ólína Þorvarðardóttir og Eygló Harðardóttir hafa lagt fram ótrúlegustu og vitlausustu þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi og er þá langt til jafnað.
Fyrir utan að banna reykingar nánast alls staðar, leggja þingmennirnir til að tóbak verði einungis selt í apótekum, en þó án lyfseðils frá læknum, að því er virðist. Hvers vegna þeim dettur ekki í hug að nota verslanir ÁTVR ekki til þessara viðskipta, frekar en apótekin, er hulin ráðgáta. Reyndar er tillagan öll svo vitlaus, að tæplega þarf að undra sig á þessum hluta hennar, frekar en öðrum.
Ef banna á reykingar jafnt utan sem innan dyra, liggur beinast við að banna innfluting og sölu tóbaks alfarið og láta svarta markaðinn algerlega um smygl á tóbaki, eins og hassi, amfetamíni, heróíni og öðrum bönnuðum "neysluvörum". Ekki hefur tekist of vel að hefta sölu og dreyfingu eiturlyfja, þrátt fyrir algert innflutnings- og sölubann og engin ástæða til að ætla að betur myndi ganga að stöðva smygl á sígarettum. Líklega myndu nikótínfíklarnir leita í sterkari efni, sem afar auðvelt er að útvega á svarta markaðinum.
Allir vita að tóbak getur verið hættulegt heilsu manna, en samt eru alltaf einhverjir sem ánetjast því og nær væri að bjóða því fólki upp á aðgengileg úrræði til að losna undan tóbaksfíkninni, alveg eins og boðið er upp á meðferðarúrræði fyrir alkóhólista og eiturlyfjafíkla.
Boð og bönn eru ekki lausn allra mála, en líklega ætti þó að banna svona gjörsamlega óboðlega þingmenn á Alþingi Íslendinga.
Tóbak verði bara selt í apótekum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
29.5.2011 | 20:05
Alger örvænging Jóhönnu vegna ESB
Sá fáheyrði atburður gerðist á að öðru leyti gamansömum flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar, að formaður flokksins boðaði niðurlagningu flokksins í örvæntingu sinni vegna þess að þjóðin vill alls ekki gera Ísland að útnárahreppi í væntanlegu stórríki Evrópu.
Innan um brandara Hrannars, handritshöfundar uppistands Jóhönnu, um atvinnu- og efnahagsmálin, flutti hún þennan boðskap til þeirra fáu hugsanlegu fullveldisafsalsmenn sem gætu fyrirfundist í öðrum flokkum: "Samfylkingin á að standa öllum þessum hópum opin og við eigum að vera reiðubúin að ganga til móts við þá sem vilja stíga skrefið til fulls og leggja þessum mikilvægu málefnum lið í samstarfi við okkur. Breytt skipulag, nýtt nafn, ný forysta eða annað á ekki að standa í vegi fyrir því að þessi mikilvægu málefni fái kröftugan framgang og jafnaðarmenn í öllum flokkum geti sameinast á öflugum flokksvettvangi. Í þessum efnum má ekki standa á okkur í Samfylkingunni."
Líklega á ekki að taka þetta alvarlega, frekar en ummæli Hrannars/Jóhönnu um lok kreppunnar og efnahagsuppbygginguna, en eftir sem áður lýsir þetta algerri örvæntingu Samfylkingarinnar vegna þess að fyrirséð er að aðild að væntanlegu stórríki mun verða felld með afgerandi hætti í þjóðaratkvæðagreiðlu.
Hugmyndin um að leggja Samfylkinguna niður sem slíka, er hins vegar alls ekki svo vitlaus, þegar allt kemur til alls.
Lyktar af örvætningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2011 | 16:07
Gamanþáttur Jóhönnu og Hrannars endurtekinn
Flokksstjórn Samfylkingarinnar heldur um þessa helgi gleði- og skemmtifund, þar sem stjórnarmenn koma saman, fara með gamanmál og gantast hver við annan og er ekki annað að sjá, en allir hafi skemmt sér konunglega.
Jóhanna Sigurðardóttir var með uppistand á fundinum og fórst það nokkuð vel, enda handritið margnotað og endurskrifað af handritshöfundi hennar, Hrannari, og flest sem í þeim grínsögum kom fram verið notað nokkrum sinnum áður, t.d. skrítlurnar um allar væntanlegu orku- og stóriðjuframkvæmdirnar, kreppulokin og björtu framtíðina, sem á að vera rétt handan við hornið.
Allt er þetta í raun endurtekið efni frá síðustu tveim árum, en vegna þess að ekkert hefur gengið eftir af því sem sagt var á sambærilegum skemmtikvöldum síðustu ára, er alltaf hægt að fara með gamansögurnar lítt breyttar og alltaf skemmtir Samfylkingarfólk sér jafn vel við endurtekningu þeirra.
Að flutningi Jóhönnu loknum klappaði flokkstjórnarfólk hennni lof í lófa, eins og venjulega þegar prógrammið hefur verið flutt áður.
Ekki er þó alveg á hreinu hvort fundarmenn klöppuðu vegna þess að þeir tryðu sögunum ennþá, eða hvort þeim fannst orðagjálfrið bara jafn fyndið og venjulega.
Samfylkingarfólk er reyndar ekki þekkt af miklu, eða góðu, skopskyni.
Fullt tilefni til að vera bjartsýn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2011 | 21:20
Enski boltinn er annars flokks
Vinsældir enska fótboltans hér á landi er ótrúlegur í því ljósi að þar er leikinn í besta falli annars flokks knattspyrna í samanburði við mörg önnur lönd Evrópu.
Spænski boltinn er a.m.k. heilum styrkleikaflokki ofar en sá enski og á Spáni ber lið Barcelona höfuð og herðar yfir önnur lið þar í landi.
Leikurinn í kvöld sýndi og sannaði hvar besti boltinn er spilaður og hvaða lið er langbest í Evrópu og þó v´ðar væri leitað.
Barcelona besta lið Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.5.2011 | 15:27
Góðar álver(ð)sfréttir
Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað um 25% á síðustu tólf mánuðum, sem leiðir til stórhækkaðra gjaldeyristekna þjóðarbúsins og aukinna tekna orkufyrirtækjanna, enda raforkuverðið til stóriðjunnar að stórum hluta bundið heimsmarkaðsverði á áli.
Í fréttinni kemur m.a. fram að: "Meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju á síðasta ári hafi verið 25,7 dalir á megavattsstund, og hafi hækkað um liðlega 30% á milli ára. Álverð nú sé nærri fimmtungi hærra en að meðaltali á síðasta ári. Það samsvari því að meðalverð til stóriðju sé nú um 30 dalir á megavattsstund, miðað við fyrrgreindar tölur Landsvirkjunar."
Þetta eru góðar fréttir mitt í öllum þeim hörmungartíðindum sem yfir þjóðina hafa dunið á undanförnum misserum, bæði vegna náttúruhamfara og ekki síður af dug-, getu- og viljaleysi ríkisstjórnarinnar í glímunni við efnahagsvandann. Þó undarlegt sé, þá er eitt aðalstefnumál stjórnarinnar að berjast gegn hvers konar stóriðjuuppbyggingu í landinu, þrátt fyrir að þau fáu stóriðjuver sem starfa í landinu skili gríðarlegum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið, en án þeirra væri glíman við erlendu skuldirnar mun erfiðari og er þó nógu erfitt að glíma við þær samt.
Í því atvinnuástandi, sem nú er í landinu, er alveg ótrúlegt að fylgjast með þeim krafti sem lagður er í baráttuna gegn iðjuverum, því aðaláherslan ætti auðvitað að vera á aukinni verðmætasköpun, ekki síst auknum útflutningi sjávar- og iðnaðarvara, ásamt aukningu ferðaþjónustunnar. Í þeirri viðleitni er fráleitt að berjast gegn aukningu á orkufrekum iðnaði, heldur ætti að leggja áherslu á alla möguleika, sem til aukinnar atvinnu gæti leitt og ekki útiloka neitt í því sambandi.
Kreppan herðir tökin á almenningi frá degi til dags og þrátt fyrir gaspur ríkisstjórnarinnar um annað, er botninum ekki náð ennþá og raunverulegur bati langt undan, haldi stjórnin velli lengi enn.
Hagsmunum þjóðarinnar verður ekki borgið til framtíðar, nema með gjörbreyttri stefnu í atvinnumálum.
Hækkandi álverð skilar auknum tekjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2011 | 14:40
Ráð í andstöðu - ráðalaus í stjórn
Steingrímur J., er staddur á Írlandi og lætur þar eins og hann hafi öll ráð í sínum fórum til bjargar efnahagskreppunni í Evrópu, enda hafi hann nánast einn manna séð alla erfiðleikana fyrir og varað við þeim, en enginn hafi á sig hlutstað.
Í sjónvarpsþættinum Prime Time viðurkenndi Steingrímur það, sem hann hefur alltaf þrætt fyrir hér á landi, þ.e. að hann hafi hækkað skatta á öllum, jafnt þeim tekjuháu og -lágu og skert bætur velferðarkerfisins verulega. Til áréttingar þessu er þetta haft eftir honum orðrétt: "Allir leggja sitt af mörkum hvort sem það kemur fram í sköttum eða niðurskurði." Til heimabrúks heldur ráðherrann því stöðugt fram, að skattar hafi ekki verið hækkaðir hjá tekjulágu fólki og alveg sérstök áhersla hafi verðið lögð á að skerða ekki kjör aldraðra og öryrkja. Enginn hefur að vísu tekið mark á þeim fullyrðingum hans, frekar en gert var um annað sem frá honum kom á meðan hann var í stjórnarandstöðu.
Maður, sem hafði ráð við öllum heimsins vandamálum í stjórnarandstöðunni, hefði ekki átt að vera í vandræðum með lausnir þegar í ríkisstjórn var komið, en allir vita að svo hefur sannarlega ekki verið, heldur hafa flestar aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið fálmkenndar og illa undirbúnar og margar hverjar orðið til að auka á vandann en ekki til að minnka hann.
Í Prime Time var rætt við Elaine Byrne, dósent við Trinity College í Dublin, en hún hefur fylgst með málum hér á landi eftir hrun. Í fréttinni segir svo um ummæli hennar: "Metur hún stöðuna á Íslandi svo að stjórn Samfylkingar og VG hafi komist til valda á öldum reiðinnar. Nú sé sú skoðun hins vegar farin að verða útbreidd að stjórnina skorti hugmyndir til frekari viðreisnar."
Þetta verður að teljast kurteislegt orðalag hjá dósentinum, þ.e. að sú skoðun sé útbreidd "að stjórnina skorti hugmyndir til FREKARI viðreisnar, því sú skoðun er afar almenn að stjórnin hafi aldrei haft neinar marktækar hugmyndir til viðreisnar efnahagslífsins.
Einmitt vegna þessa hugmynda- og getuleysis ríkisstjórnarinnar nýtur hún einskis trausts, hvorki innanlands né utan.
Þess vegna fer reiði almennings og óþolinmæði sívaxandi og líklega fer að verða tímaspursmál hvenær upp úr sýður.
Steingrímur: Varaði við kreppunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2011 | 20:02
Ríkisstjórnin og Icesavelögin frá 2009
Fjárlaganefnd Alþingis hefur fyrir sitt leyti samþykkt að leggja til að frumvarp Framsóknarflokksins um að lögin frá 2009 þar sem Svavarssamningurinn um þrælasölu íslenskra skattgreiðenda til Breta og Hollendinga var staðfestur.
Sem betur fer fyrir þá sem þrældóminn fyrir erlendu húsbændurnar áttu að þola, neituðu Bretar og Hollendingar að samþykkja þá fyrirvara sem Alþingi setti fyrir þeirri hámarksánauð, sem á bandingjana mætti leggja á afnotatíma hinna erlendu húsbænda á þeim.
Steingrímur J. hefur marg oft undanfarna daga harmað að þessi þrælasamningur skyldi ekki samþykktur fyrirvaralaust, enda ekki líklegt að hann hefði kostað skattgreiðendur "nema 70 milljarða króna". Fáir, ef nokkrir aðrir en Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, eru sammála ráðherranum í þessu efni, enda skilja fáir hugsanagang Steingríms J. og má til viðbótar við afstöðuna til þrælahaldsins nefna ummæli hans um að enginn eignabruni hafi orðið eftir hrun hjá "venjulegu fólki".
Þessi undarlega afstaða ráðherrans speglast einnig í þeirri staðreynd að hvorki hann eða ríkisstjórnin hefur látið sér detta í hug að leggja fram frumvarp til laga, sem afnema myndu smánarlögin um Icesave frá 2009.
Það segir mikla sögu að slíkt frumvarp skuli stjórnarandstöðuflokkur þurfa að leggja fram.
Icesave-lögin frá 2009 verði felld úr gildi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)