Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
3.11.2010 | 09:41
Skuldavandatillögur koma kannski bráðum
Í heilt ár boðaði Árni Páll tillögur vegna gengistryggðra lána "eftir helgi" eða "í næstu viku", þegar búið yrði að "útfæra" tillögurnar nánar. Aldrei komu neinar raunhæfar lausnir frá Árna Páli og sem betur fer fyrir alla er hann nú ekki lengur félagsmálaráðherra og dómstólarnir tóku að sér að leysa úr þeim ágreiningsmálum sem Árni Páll ætlaði alltaf að leysa "í næstu viku", en gerði aldrei.
Í septembermánuði sagði Árni Páll að sitt fyrsta verk, þegar þing kæmi saman þann 1. október, yrði að leggja fram "heilstætt" frumvarp um hvernig uppgjörum og endurreikningi erlendra og gengistryggðra bíla- og fasteignalána, enda yrði þá búið að "útfæra" tillögurnar. Nú er liðinn rúmur mánuður frá þingsetningu og ekkert frumvarp verið lagt fram af Árna Páli, en kemur væntanlega "eftir helgi" eða a.m.k. "í næstu viku", þegar "útfærslu" tillagnanna lýkur.
Þann 1. október flutti Jóhanna Sigurðardóttir stefnuræðu sína á Alþingi undir dynjandi tunnuslætti og eggjakasti, sem hafði þau hræðsluáhrif á hana að hún boðaði frumvarp "strax eftir helgi" um skuldavanda heimilanna og þar yrði lögð áhersla á flata niðurfellingu allra húsnæðisskulda um a.m.k. 18% eins og Hagsmunasamtök heimilanna hefðu krafist og fannst Jóhönnu ekki nema sjálfsagt að verða við þeirri kröfu um leið og búið yrði að "útfæra tillögurnar".
Jóhanna setti nefnd í málið, eins og venjulega er gert til að svæfa mál og nú rúmum mánuði eftir að "útfærslan" átti að vera tilbúin, boðar formaður nefndarinnar að tillagna hennar sé að vænta á næstu vikum, en getur ekki tímasett það nánar. Þess ber þó að geta, að ný mótmæli með tunnuslætti og tilheyrandi hafa verið boðuð fyrir framan Alþingishúsið á morgun og af því tilefni mun Jóhanna vafalaust endurnýja loforð sín um skuldaniðurfellingar "eftir helgi" eða "í næstu viku" þegar endanlega verði búið að "útfæra" tillögurnar.
Sjálfsagt mun Jóhönnu verða trúað eins og venjulega, enda vita allir hvað Jóhanna er yndisleg manneskja sem vill allt fyrir fólkið gera. Vandamálið er bara það, að hún hefur aldrei getað gert eitt eða neitt, enda ástandið síst betra í þjóðfélaginu núna, en það var eftir hrunið fyrir tveim árum.
Það eina sem gæti bjargað einhverju úr því sem komið er, er að fá nýja ríkisstjórn strax eftir helgi.
![]() |
Sér fyrir endann á vinnunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2010 | 16:31
Grænar einkaþotur
Forsætisráðherrar norðurlandanna sitja nú á þingi Norðurlandaráðs og eru áreiðanlega að ræða um hversu góðir vinir norðurlandabúar séu og hjálplegir hver við annan, þegar eitthvað bjátar á. Til dæmis hafa "vores nordiske venner" væntanlega útskýrt hversvegna lánveitingar í tengslum við efnahagsáætlun Íslands og AGS séu tengdar við Icesave og hvaða hjálp sé í því fyrir Íslendinga.
Einnig ætla þessar erlendu frændþjóðir að fjalla um "grænan hagvöxt" sem leið út úr kreppunni og leggja m.a. áherslu á þróun endurnýjanlegra orkugjafa. Öll slík þróun hlýtur reyndar að taka talsvert langan tíma og því verður ekki séð að þessir miklu leiðtogar ætli að leysa kreppuna alveg á næstu árum, en vonandi sjá þeir þó fyrir endann á þessu verkefni innan ekki alltof margra áratuga.
Það sem vekur einkum athygli í ljósi þessa mikla áhuga á "grænum hagvexti" og endurnýjanlegum orkugjöfum er, að erlendu ráðherrarnir komu til landsins hver í sinni einkaþotunni og vafalaust útskýra þeir á þinginu hversu græn hugsun það er í ljósi umræðuefnis þingsins. Kannski liggur skýringin á notkun þessara farkosta í því, að koltvísíringsútblástur norrænu einkaþotnanna sé miklu grænni en annar slíkur útblástur.
Halda menn virkilega að einhver trúi að svona kjaftafundir um falsmálefni séu einhvers virði og skili einhverju vitrænu til framtíðarinnar? Ef til vill halda þeir að almenningur sé svo grænn, að hann gleypi við þessari dellu?
Ráðherrum norðurlandanna er þó óskað góðrar heimferðar á grænu, vistvænu, þotunum sínum.
![]() |
Rætt um grænan hagvöxt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2010 | 11:02
Algjör nekt Jóns Gnarr
Engin orð koma upp í hugann til að lýsa þeim hughrifum, sem þetta myndbrot gefur af þeim aumkunnarverða manni sem bauð sig fram til setu í borgarstjórn Reykjavíkur, fékk heilmikið fylgi, þáði laun og hlunnindi fyrir embætti borgarstjóra, en kom sér undan nánast öllum þeim störfum sem embættinu tilheyra.
Það eina sem hægt er að gera, er að vitna í ævintýrið alkunna:
"Keisarinn er ekki í neinum fötum."
![]() |
Frumsýning á myndbút úr Gnarr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
2.11.2010 | 09:01
Er Össur að reyna nýja stjórnarmyndun?
Þó Össuri Skarphéðinssyni þyki útkoma skoðanakönnunar um fylgi Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar verri en hundsbit, ber hann sig mannalega og telur bitið ekki skaða flokkinn og stjórnina meira en svo, að hún verði gróin sára sinna áður en langt um líður, eða strax og kjósendur öðlast skilning á verkum ráðherranna, sem að vísu hafi verið tóm misstök fram að þessu, en góður vilji til sé til að bæta úr af þeirra hálfu, ef hægt verður að fá góðar hugmyndir að láni einhversstaðar frá.
Þó virðist öryggi Össurar með lengra líf ríkisstjórnarinnar ekki meira en svo, að hann er farinn að daðra við Sjálfstæðisflokkinn um nýtt stjórnarsamstarf og er nú farinn að hæla flokknum og málflutningi hans á hvert reipi, en fram að þessu hefur hvorki Össur né aðrir í stjórnarflokkunum nokkuð viljað hafa með tillögur Sjálfstæðisflokksins að gera, hversu góðar og skynsamlegar þær hafa verið.
Nú segir Össur hins vegar um Sjálfstæðisflokkinn: "Hann nýtur þess líka að hafa reynt að vera málefnalegur og leggja fram jákvæðar tillögur. Menn meta það við hann, og það geri ég líka. Það er jákvætt. Það er líka hlutverk stjórnarandstöðu að bera ekki bara fram gagnrýni heldur að koma fram með hugmyndir. Þess nýtur hann, hvort sem menn eru glaðir eða óánægðir með þær, eins og gerist og gengur. Hann hefur gert sér far um að reyna að vera uppbyggilegt stjórnmálaafl, og nýtur þess. En hann skortir hins vegar, ennþá að minnsta kosti, burðina til að leiða stjórnarandstöðuna. Síðustu vikur hefur það verið minnsti flokkurinn, Hreyfingin."
Síðastu setninguna lætur Össur fljóta með til þess að bónorðið líti ekki alveg afgerandi út, en eftir sem áður er ekkert hægt að misskilja meiningu hins örvæntingarfulla ráðherra í aumustu ríkisstjórn lýðveldistímans a.m.k.
Nú er að sjá hvort rósirnar verða rauðari og vendirnir fari stækkandi á næstu dögum.
![]() |
Láti ekki börnin borga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.11.2010 | 19:22
Ótrúlegt fylgi ónýtrar ríkisstjórnar
Það sem vekur mesta furðu við niðurstöðu þjóðarpúls Gallups er að ríkisstjórnin skuli njóta stuðnings hátt í þriðjungs þjóðarinnar og gefur þá vísbendingu að þessi hluti þjóðarinnar sé haldinn einhverskonar Masokisma, sem lýsi sér í því að fólkið njóti þess að láta handónýta ríkisstjórn húðstrýkja sig dag eftir dag og mánuð eftir mánuð.
Stjórnin hefur marg sýnt að hún er ekki bara ófær um að leysa nokkurt vandamál, heldur er hún sjálf orðin eitt helsta efnahagsvandamál þjóðarinnar, með baráttu sinni gegn hverju atvinnutækifæri sem mögulega hefði verið hægt að stofna til og berja niður allar tilraunir til aukinnar verðmætasköpunar í þjóðfélaginu.
Það er lítil björg fyrir skuldsett heimili að fá einhverja lækkun á skuldum sínum, ef enginn í fjölskyldunni hefur vinnu og laun til að greiða eftirstöðvar lánanna og ógjaldfærum einstaklingi er lítil huggun í styttri fyrningarfresti, ef hann hefur enga möguleika á að fá vinnu til að vinna sig til sjálfshjálpar á ný og verða virkur þjóðfélagsþegn aftur.
Fylgislaus og handónýt ríkisstjórn á að sjá sóma sinn í að láta af völdum umsvifalaust og láta þeim eftir að leysa úr vandamálum þjóðfélagsins, sem hafa til þess bæði vilja og getu.
![]() |
Fylgi ríkisstjórnarinnar hrynur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.11.2010 | 15:03
Loksins raunhæfar tillögur til úrbóta
Loksins virðast vera komnar fram raunhæfar og heilstæðar tillögur til að bregðast við þeim vanda sem skapaðist í efnahagsmálunum við hrunið 2008 og ríkisstjórnin hefur ekki getað brugðist við á viðunandi hátt og er nú endanlega búin að gefast upp á að leysa og leggur þann litla kraft sem hún hefur til þess að lafa við völd frá degi til dags.
Boðað hefur verið þingsályktunartillaga allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins í rúmlega fjörutíu liðum, með aðgerðaráætlun til úrbóta í efnahagsmálunum, atvinnusköpun og vandamálum heimilanna og innihalda þær m.a. að allar skattahækkanir síðustu tveggja ára verði dregnar til baka og skattlagning á inngreiðslum í séreignarlífeyrissjóðina verði tekin upp í staðinn. Þá er endurnýjuð tillaga flokksins um að gefa öllum skuldurum húsnæðislána að lækka greiðslubyrði þeirra um 50% næstu þrjú ár og skapa fólki þannig færi á að greiða úr sínum málum, án þess að byrja á því að lýsa sig gjaldþrota.
Mestu skiptir þó sú áhersla, sem flokkurinn virðist ætla að leggja á atvinnuuppbyggingu, nýja verðmætasköpun og þar með fjölgun starfa í þjóðfélaginu, því slíkar aðgerðir eru þær einu raunhæfu til þess að koma hagkerfinu upp úr þeim djúpa dal, sem það nú er í og ríkisstjórnin lætur þjóðlífið velkjast bjargarlaust í. Í fréttinni segir m.a. um tillögurnar í atvinnumálunum: "Á meðal þess sem talið er til aukning þorskafla um 35 þúsund tonn, fyrirgreiðsla vegna framkvæmda í Helguvík og á Bakka, ráðist verði í arðbær verkefni í samstarfi við lífeyrissjóði og skattkerfinu beitt til að skapa störf og vernda þau sem fyrir eru."
Vonandi verður þessum tillögum tekið betur af ríkisstjórnarflokkunum en gert hefur verið hingað til, þegar stjórnarandstaðan hefur lagt fram skynsamlegar tillögur til úrbóta á þeim vanda sem við er að glíma.
HÉRNA mál lesa aðra frétt af tillögum til uppbyggingar og atvinnusköpunar, en því miður eru engar líkur á því að þeim verði betur tekið af þingmeirihlutanum á Alþingi, en öðrum tillögum í þá veru.
![]() |
Vilja draga skattahækkanir til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.11.2010 | 09:18
Að þegja eins og kelling
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, hæddist á grófasta máta að Steingrími J. á fundi í Stapa á fimmtudgainn fyrir að þegja eins og kelling, en eins og allir vita eru kerlingar þekktastar fyrir flest annað en þögnina, eins og sést best af blaðri Oddrýjar G. Harðardóttur, þingkerlingar, í tilefni orða Ásmundar á fundinum.
Þegar karlar kalla aðra karla kellingar er meiningin alls ekki sú að þeir séu eins og kerlingar, heldur þýðir orðið kelling einfaldlega aumingi í munni karlmanns um annan karlmann og karlar heyrast ekki nota þetta orð um kerlingar í sömu merkingu og þeir nota það um karla. Þetta þurfa kerlingar að fara að skilja og vera ekki svo gjörsamlega blindaðar af pólitískum rétttrúnaði, að ráðast með offorsi að öðru fólki fyrir að notfæra sér hin ýmsu blæbrigði og orð íslenskunnar til að skreyta mál sitt.
Það var alger óþarfi af Ásmundi að vera sú kelling að hlaupa til og biðjast afsökunar á orðavali sínu, eingöngu vegna þess að kerlingar rykju upp til handa og fóta og þættust móðgaðar vegna þess, að því er virðist, að Steingrími J. væri líkt við kerlingu, en það er auðvitað alger misskilningur, þar sem honum var líkt við kellingu, sem er með því versta, sem hægt er að líkja karlmanni við, en engin niðurlæging felst hins vegar í því að vera kallaður kerling og getur hver karlmaður verið fullsæmdur af slíkum samanburði.
Ætli það sé ekki rétt að hætta nú að rausa svona, eins og hver önnur kelling.
![]() |
Ásmundur biðst afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)