11.12.2009 | 16:32
Seðlabankinn stóð sig tiltölulega vel
Á græðgisárunum gagnrýndu bankamógúlar Seðlabankann harkalega fyrir að vera tregur í taumi í lánveitingum til þeirra og þar sem Seðlabankinn hélt verulega að sér höndum, tóku bankarnir upp á því, að útbúa svokölluð ástarbréf, sem stóru bankarnir seldu litlum bönkum og fjármálafyrirtækjum með afföllum, en smálaxarnir endurseldu svo Seðlabankanum og hirtu þannig drjúg umboðslaun.
Þegar Seðlabankinn stoppaði þennan gjörning af í ágústmánuði 2008, varð allt vitlaust í bankakerfinu og ásakanir á hendur bankanum jukust geysilega mikið og honum kennt um að lausafjárstaða bankanna væri orðin hættulega lítil og allt væri það Seðlabankanum að kenna og hann bæri ábyrgð á því, ef bankarnir færu í lausafjárþrot.
Vel má vera, að þessi lánatregða Seðlabankans hafi orðið til þess að bankarnir féllu fyrr en ella, en þá hefði líka tap Seðlabankans og ríkisstjóðs orðið miklu meira, en raunin varð á. Tapið á Seðlabankanum vegna þessara viðskipta nam 345 milljörðum króna, sem er auðvitað geysihá upphæð, en til að setja hana í eitthvert samhengi voru Icesave innistæður í Landsbankanum um 1.300 milljarðar króna og þar af er reiknað með að allt að 600 - 700 milljarðar geti lent á íslenskum skattgreiðendum.
Talið er að erlendir kröfuhafar muni tapa sex til áttaþúsundmilljörðum króna á bankahruninu, þannig að í því samhengi er tap Seðlabankans ekki há upphæð, þannig að segja má, að Seðlabankinn hafi haldið vel á málum gangvart því bankaskrímsli sem vaxið hafði í landinu, óáreitt af Fjármálaeftirlitinu, sem hafði það verkefni að fylgjast með bankakerfinu.
Að því er sýnist, hefur Seðlabankinn staðið sig vel í stykkinu gagnvart bankaskrímslinu, en Rannsóknarnefnd Alþingis mun örugglega taka á þessum ástarbréfaviðskiptum og gefa út álit á þeim og hvort Seðlabankinn hefði átt að hætta þeim fyrr en gert var.
Hefði það verið gert fyrr, hefði það væntanlega flýtt bankahruninu og óvíst hvort þá hefði verið tilbúin viðbragðsáætlun, eins og reyndin var um mánaðarmótin september og október 2008.
Mesti ríkissjóðshalli í sögu lýðveldisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Seðlabankinn stóð sig tiltölulega vel? Kannski, ef það telst góður árangur að vera eini seðlabankinn í heiminum sem hefur orðið gjaldþrota. Þú veltir upp þeirri spurningu hvort það hefði ekki bara flýtt fyrir bankahruninu ef Seðlabankinn hefði stoppað þetta fyrr. Svarið er: já, en þá hefði líka tjónið ekki orðið eins mikið og raun bar vitni, því bankahrunið var hvort sem er óhjákvæmilegt. Viðbragðsáætlunin sem þú nefnir var tilbúin löngu fyrir hrun, það var bara aldrei farið eftir henni vegna þess að pólítískur ágreiningur var um það innan ríkisstjórnar xD og xS sem átti rætur að rekja til persónulegrar óvildar Samfylkingarmanna í garð lykilmanna í Seðlabankanum. Með því að benda á það er ég þó ekki að reyna að verja þá, sem eins og áður sagði eiga heiðurinn af einhverjum mestu hrakförum í stjórn peningamála sem sögur fara af.
Guðmundur Ásgeirsson, 11.12.2009 kl. 16:57
Já það er ekki að spyrja að því, hann verður okkur dýr Davíðs-skatturinn!
Valsól (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 17:21
Að lánatregða seðlabankans hafi fellt bankana???? Þvílík fyrra, Davíð lánaði veðlaust eða með ónýtum veðum fyrir 300,000 þúsund miljónir, já 300 miljarða sem fóru beint á reikning almennings. Þetta þýðir á mannamáli að við verðum næsta áratuginn að greiða Davíðs-skattinn fyrir plat-góðærið sem hér ríkti í stjórnartíð þessa skaðvalds. Alveg með ólíkindum hvað fólk getur haft mikla ást á einum manni að það verði gjörsamlega blint á gjörðir hans.
Svo segir þú að seðlabankinn hafi haldið vel á málum. Hvernig í ósköpunum færðu 7 út með því að leggja saman tvo og tvo? Er það bara af því maðurinn sem stjórnaði bankanum hét Davíð? Það er þetta sem er að skaða þjóðina, þið standið með hrunverjum og verjið þá með kjafti og klóm. Erlendis erum við taldir siðspilltir glæpamenn fyrir vikið.
Valsól (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 17:27
Man einhver eftir kröfu bankamógúlanna um að Seðlabankinn tæki tvöþúsundmilljarða króna erlent lán, til að endurlána til þeirra? Man einhver eftir viðbrögðum almennings við þeim viðbrögðum Seðlabankans, að verða ekki við þessari kröfu? Man einhver eftir því hvernig bloggheimar loguðu í samstöðu með bankabarónunum og í hatri á Seðlabankanum og sérstaklega Davíð, fyrir illmennsku gagnvart bönkunum?
Hvernig ætli staða væri nú, ef mark hefði verið tekið á þessum kröfum bankanna og stuðningsmanna þeirra úti í þjóðfélaginu? Þá var Davíð illmennið, vegna þess að hann vildi ekki ausa ótakmörkuðum lánum inn í bankakerfið og nú er hann illmenni, vegna þess að hann lánaði þeim of mikið.
Seðlabankar eru viðskiptabankar viðskiptabankanna, þ.e. banki bankanna og þeim ber skylda til að lána þeim rekstrarfé og það gerði Seðlabanki Íslands eins og aðrir seðlabankar, eins og skyldan bauð. Hvað skyldu seðlabankar annarra landa, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu hafa ausið stjarfræðilega háum upphæðum inn í bankakerfi viðkomandi landa, án þess þó að bjarga þeim öllum? Hvaðan skyldu þeir peningar hafa komið, nema úr ríkissjóðum viðkomandi landa? Þeir seðlabankar eru hins vegar ekki búnir að afskrifa þá peninga, bæði vegna þess að þeir reikna með að fá eitthvað af þeim til baka og svo geta þeir líka gripið til seðlaprentunar og það er raunar þegar hafið í Bandaríkjunum a.m.k.
Hvergi í veröldinni, nema hjá öfgamönnum á Íslandi, er stjórnvöldum og seðlabönkum kennt um bankahrunið, heldur er sökinni skellt á þá, sem hana bera, en það eru bankafurstar og aðrir fjármálarugludallar, þ.m.t. íslenskir útrásarmógúlar.
Hérlendis er ekki nokkur möguleiki að ræða orsakir hrunsins og afleiðingar þess, vegna ótrúlegs Davíðsheilkennis vinstriruglara, sem aldrei geta komið með eitt orð af sæmilegu viti inn í þessar umræður.
Það var tekið fram í upphaflegu færslunni að Rannsóknarnefn Alþingis myndi væntanlega gefa sitt álit á því, hvort Seðlabankinn hefði átt að loka á ástarbréfin fyrr en hann gerði og líklega verður það álit merkilegra, vitrænna og rökstuddara, en vinstraruglið, sem tröllríður bloggheimum. Komist nefndin ekki að sömu niðurstöðu og ruglararnir mun ruglið bara halda áfram og nefndin mun verða sökur um svik og yfirhylmingar.
Á þessu bloggi hefur aldrei verið haldið hlífisskildi yfir nokkrum einasta banka- eða útrásarberserkjum, heldur þvert á móti krafist rannsóknar á öllum þeirra gerðum. Sama hefur verið sagt um stjórnmálamennina, þ.e. að vonandi komist rannsóknarnefndin með álit á þeirra þætti og ef tilefni gæfist til, yrðu þeir látnir axla sína ábyrgð, eins og aðrir.
Annars er líklega tilgangslaust að reyna að ræða þessi mál á rólegu nótunum, vinstra liðið fyllir allar athugasemdir með ofstopa og bulli og svívirðingum, en segja fátt, sem mark er takandi á.
Axel Jóhann Axelsson, 11.12.2009 kl. 20:20
Seðlabankinn bera að mínu áliti einn ábyrgð á gríðarlegri erlendri skuldsettningu einstaklinga og fyrirtækja.
Það eina sem getur gerst þegar seðlabankinn hækkar vexti á innlendum lánum er að fólk leitar í ódýrari lán, og eini staðurinn til að gera það var að taka erlend lán. Það er ekki hægt að kenna neinum um þetta nema Seðlabankanum.
Eia vopnið sem virðist hafa verið gegn þenslu var vaxtahækkun, en þá þarf að stöðva allar flóðgáttir, ekki bara eina.
Teitur Haraldsson, 11.12.2009 kl. 21:13
Teitur, það er alveg rétt, að eina vopnið, sem Seðlabankinn hafði gegn þenslunni var að hækka vexti. Með því var hann að senda út þau skilaboð, að bankar ættu að draga úr útlánum og skilaboðin til einstaklinga og fyrirtækja voru, að draga úr eyðslu, en spara peninga og leggja þá inn til ávöxtunar á tiltölulega háum vöxtum.
Seðlabankinn var sem sagt að reyna að draga úr eyðslu og þar með þenslu, en svar bankanna, fyrirtækjanna og almennings var að sniðganga ráð bankans og hella sér út í erlendar lántökur, sem var það vitlausasta, sem nokkrum manni gat dottið í hug að gera, því ekki eingöngu jókst þenslan upp úr öllu valdi, heldur tóku lántakendur þessara erlendu lána fáráðlega gengisáhættu, eins og síðar kom í ljós.
Að nokkrum, sem hefur allar sínar tekjur í íslenskum krónum, skuli detta í hug að taka erlend lán til íbúða- eða bílakaupa, er í raun algerlega óskiljanlegt.
Þessu varaði Seðlabankinn við margítrekað, en hvorki bankarnir, fyrirtækin eða almenningur tók nokkurt einasta mark á þeim viðvörunumþ
Að kenna svo Seðlabankanum um allt saman, er það sama og að hengja bakara fyrir smið.
Axel Jóhann Axelsson, 11.12.2009 kl. 21:28
Það sýnir bara að ákvarðanatökurnar sem bankinn tók, tóku ekki mið af fólki, þeir miðuðu við vélar sem gera það sem þeim er sagt og þær vélar vita líka að sá sem segir þeim hvað á að gera hefur alltaf rétt fyrir sér. Seðlabankinn hefur ekki alltaf rétt fyrir sér, alls ekki.
Mannfólk er hinsvegar gallað, það vita allir og flestir viðurkenna. Við borðum of mikið, drekkum drykki sem svifna okkur skynsemi. Kemur ekkert rökum við "þetta er bara gaman".
Þar að auki hefur aldrei verið sá tími að Seðlabankinn hafi ekki hvatt til sparnaðar, á alltaf að spara? Bankarnir, sem eru þeir sem ráðleggja okkur, almúganum um fjármál sögu að þetta væri allt í lagi. Ég trúði þeim, ég meina hvað græða þeir á að allt fari á hausinn...
ÉG VEIT BETUR NÚNA. Máltækið sem ég man ekki hvernig er á Íslensku á akkúrat við núna. Hindsight is 20/20.
Teitur Haraldsson, 11.12.2009 kl. 22:07
Já, menn eyddu og spenntu á þessum tíma, af því að það var svo gaman.
Eftir sem áður varaði Seðlabankinn við, en honum var bölvað í sand og ösku fyrir sitt framlag til að stoppa eyðslufylliríið.
Eins og svo oft áður, var sendiboðinn tekinn af lífi.
Axel Jóhann Axelsson, 11.12.2009 kl. 22:23
Það er hreint út sagt ótrlegt að lesa skilgreinigu þína á bankahruninu og vanstjórn Seðlabankana á peningamálum þjóðarinna á sl. árum. Sjaldan hef ég séð meiri afneitun á staðreyndum og þú við hefur í söguskýringum þín um gjaldþrot Seðlabankanns, þú gleymir því að eitt sterkasta vopn Seðlabankans er það að auka binndiskyldu lánastofnanna. Stýrivextirnir er einn stærsti þáttur í efnahagshruni þjóðarinnar, sem stuðluðu að ótakmarkalausum innfluttingi erl. lánsfé, og rangskráningu á ísl. kr. er orsakaði mörg hundurð milljarða neikvæðan vöruskiptajöfnuð til margra ára, og falskan kaupmátt og hagvöxt.
Þetta er ekki spurning um hvort þú er hægri eða vinstri maður í ísl. pólitík, heldur borðleggjandi staðreyndir, og það eitt að sitja uppi með viðvaning í stöðu yfirbankastjóra Seðlabankans er skipaði sig sjálfur segir okkur landsmönnum það eitt að leggja verður niður pólitískar vensla, og vinaráðningar í stjórnunarstöður hjá hinu opinbera.
Ekki væri ég hissa á að þú værir með svima eftir að hafa hnoðað saman þessu bloggi þínu Axel, mín tilllaga til þín er sú að þú takir niður flokksgleraugun og vitir hvort þú sjáir ekki betur eftir að hafa tekið þau niður.
bolli (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 00:44
Axel og blogg hans, er þörf áminning til almennings um það hvað er að gerast í höfðinu á Sjálfstæðismönnum....
hilmar jónsson, 12.12.2009 kl. 01:04
Bolli, þú sakar mig um að gleyma bindiskyldunni. Það er mikill misskilningur, því á þessum árum hefði hún ekki gert mikið gagn, því bankarnir voru alls ekki að endurlána fé innistæðueigenda. Hefði svo verið, hefði verið vandalaust að stoppa þá af.
Þeir voru að ausa takmarkalausu erlendu lánsfé inn í landið, sem enginn gat í raun stoppað af vegna fjórfrelsis ESB og EES. Eitt meginatriðið í fjórfrelsinu felst einmitt í frjálsu flæði fjármagns milli landa og það var sannarlega nýtt ótæpilega af bankaruglurunum. Bindiskylda hefði ekkert stoppað það af, hún hefði hins vegar orðið til þess, að erlenda lánsféð hefði streymt í enn meira mæli inn í landið, en það þó gerði. Nóg var nú samt.
Þú ættir að setja upp einhver gleraugu, til þess að sjá, þó ekki væri nema einföldustu atriðin í þessu máli öllu.
Axel Jóhann Axelsson, 12.12.2009 kl. 01:05
Hilmar, innsæi þitt í höfuð Sjálfstæðismanna er aðdáunarvert.
Betra væri samt, að þú notaðir einstaka sinnum, það sem er í höfðinu á sjálfum þér.
Axel Jóhann Axelsson, 12.12.2009 kl. 01:08
Já, Davíð varaði við hruni bankanna, sagði okkur að allt væri að fara til fjandans, og viku seinna ákvað hann að gefa bönkunum lán upp hundruð milljarða án þess að taka veð fyrir einu eða neinu, þrátt fyrir að hafa vitað að þeir mundu hrynja
þetta er bara glórulaust...
Axel minn, þú ert staurblindur.
Seðlabankinn stóð sig vel? Bjó til skuld sem er trúlega hærri heldur en Icesave skuldinn verður.
helstu markmið seðlabankans er halda genginu stöðugu, verðbólgu niðri. Einnig stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi. Tókst svona hrikalega vel upp líka!
Án þess að ætla að vera of dónalegur, það er bara erfitt að svara svona vitleysu án þess.
Axel þú ert staurblindur!
Tryggvi (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 01:15
Tryggvi, eða hvað þú nú heitir, ég sagði að Seðlabankanum hefði tekist tiltölulega vel upp með sitt hlutverk.
Það var ekki hans hlutvert að hafa eftirlit með rekstri bankanna, það átti Fjármálaeftirlitið að gera.
Það er ekki nóg að hafa sjón, en vilja ekkert sjá.
Axel Jóhann Axelsson, 12.12.2009 kl. 01:29
Var skylda að taka upp þessa opnu óheftu fjármagns flutninga milli landa, NEMA þeir sem voru með Evru? Ég held ekki.
Er ekki vandamálið þessi endalausa léti ríkisstarfsmanna hérna að taka upp allt sem kemur frá EES og ESB. Þá þarf ekkert að hugsa, bara innleiða, hvort sem það á við eða ekki. Reglugerða ást býr bara til erfitt, dýrt og leiðinlegt samfélag.
Það er hlutverk Selabankans að hafa umsjón með fjármálakerfinu í landinu, ekki að þetta kerfi fylgi reglum, heldur að það fúnkeri. Þá þýðir ekkert að standa uppá turni „blindur“ gjammandi þetta og hitt. Þeir áttu að loka á erlent innstreymi lánfjár, að loka á innlent fjárstreymi og halda að allir hætti, bara hætti, er fáránlegt í kapítalisma. Hagkerfið er bara ekki hannað þannig að það stoppi sig sjálft af.
Seðlabankinn sá ekkert hvað var að gerast. Svipað og Steingrímur, hann hafði 100% rétt fyrir sér með hrunið. Einfaldlega vegna þess að hann var á móti ÖLLU, varaði við öllu, allt var slæmt. Hann tók úlfur, úlfur og tók það á næsta plan.
Teitur Haraldsson, 12.12.2009 kl. 02:54
Auðvitað eru í gildi reglur um frjálsa fjármagnsflutninga milli landa innan ESB og þar með á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem ríkin eru með Evru eða ekki.
Seðlabankinn hefur engar heimildir til að banna innstreymi erlends fjár, eða erlendra lána. Slíkt er alls ekki í hans verkahring, heldur þveröfugt, þá er hans hlutverk, að framfylgja lögum, sem sett eru á Alþingi.
Núverandi gjaldeyrishöft eru sett með lögum frá Alþingi og með tímabundinni undanþágu frá ESB, vegna þeirra sérstöku aðstæðna, sem hér eru.
Steingrímur var á móti öllu, rétt er það, en nú er ekki lengu kallað "úlfur, úlfur", heldur er "seðlabanki, seðlabanki" komið í staðinn vegna ótrúlegrar einsýni og pólitísks ofstækis, vegna þess hver var einn þriggja bankastjóra í nokkur ár.
Fólk þyrfti að fara að komast upp úr þeirri gröf og fara að horfa yfir bakkann, þá gæti verið að það sæji hvað raunverulega olli hruninu. Það var auðvitað alþjóðlega bankakreppan, að viðbættri hreinni glæpamennsku íslenskra banka- og útrásargarka.
Hver þáttur Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og stjórnvalda var í þessu öllu, kemur væntanlega í ljós, þegar skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis verður birt og þá verður vonandi hægt að fara að ræða þessi mál öll af einhverri alvöru.
Axel Jóhann Axelsson, 12.12.2009 kl. 07:49
Eftirfarandi orð Yngva Örns fyrrverandi hagfræðings Landsbankans og núverandi hagfræðingur félagsmálaráðuneytisins, eiga ágætlega við í þessu samhengi, en hann fór yfir þetta í viðtali í DV hvað það væri sem hefði sett þjóðina á hausinn: Ákvarðanir sem hafi ýtt undir miklu þenslu á góðæristímabilinu, svo sem lækkun bindiskyldu Seðlabankans sem skapaði 800 milljarða útlánagetu hjá innlendum lánastofnunum, hækkun lána og lánahlutfalls Íbúðalánasjóðs, tvennar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir, tilslakanir í ríkisfjármálum á borð við skattalækkanirnar 2005 sem og miklar opinberar framkvæmdir á þessum tíma. Þá láðist að setja skorður við erlendar lántökur fjármálafyrirtækja og kaup íslenskra banka á erlendum vettvangi.
Það er Davíðs lykt af þessu öllu saman. Ég trúi því svo ekki að þó svo fólk kjósi Sjálfstæðisflokkinn að það sjái þetta ekki. Er þriðjungur þjóðarinnar með bundið fyrir bæði augun og fylgist þess utan ekkert með fréttum? Það sjá þetta allir sem vilja, þess vegna er það óþolandi að fólk sé að verja þetta bara af því það er í einhverju liði. Óheiðarleikinn sem hefur einkennt forystu Sjálfstæðisflokkinn er með hreinum ólíkindum og stórundarlegt að venjulegt fólk skuli hafa geð í sér að styðja við þennan blessaða Sjálfstæðisflokk. Flokkurinn er undirlagður af smá klíkum sem ná inn í Samtök atvinnulífsins og LÍÚ. Fulltrúar þessara samtaka véla síðan í samráði við stjórnmálamenn úr flokknum hvernig megi lækka laun hjá almenningi og auka hagnað fjármagnseigenda. Þetta er gert með ýmsum hætti, reglur sveigðar til hins ýtrasta og skattaumhverfið gert gróðavænlegt fyrir fyrrgreinda aðila. Eitt plottið og blöffið var þegar skattar voru lækkaðir niður í 15% á ÖLL fyrirtæki landsins. Afsökunin var sú að það myndi gera fyrirtæki í útflutningi samkeppnishæfari. En bíð þið við, það voru ekki bara fyrirtæki í útfluttningi sem fengu skattalækkun, nei það voru ÖLL fyrirtæki. Í Svíðþjóð þykir eðlilegt að fyrirtæki taki þátt í að reka leikskóla fyrir börn. Þetta er jú gert svo foreldrarnir geti mætt í vinnu og því ættu þá ekki fyrirtækin að koma að því? Fyrirtæki í Svíþjóð borga hæstu skatta í heimi, en fara samt ekki í burtu. Sama má segja um hin Norðurlöndin. Forstjóri Nokia sagði á fundi að ástæðan fyrir því að fyrirtæki flyttu ekki væri stöðugt efnahagslíf og ánægðir íbúar. Hérna er þessu öllu snúið á haus með hjálp þriðjungs landsmanna sem virðist ekki fatta að það er verið að skjóta það í lappirnar. Það er bara ein kaka til skiptanna og þeim mun meira sem fjármagnseigendur fá, þeim mun minna fær almenningur. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að klíkan ræðst á allar hugmyndir um ESB aðild. Vextir myndu lækka um 228 miljarða á ári, já á hverju ári. Þetta þýðir einfaldlega að heimilin og fyrirtækin í landinu fengju frá fjármagnseignedum 228 miljarða á ári til ráðstöfunar. Það er ekki af ástæðulausu sem Sjálfstæðisklíkan ræðst svona hatramlega gegn því að fólkið í landinu fái að kjósa um þessa aðild.
Valsól (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 13:20
Það er svo erfitt að ræða við fólk, sem er haldið Davíðsheilkenninu á háu stigi, því rökin eru endalaust þau sömu á báða bóga.
Eini munurinn er sá, að Davíðsheilkennafólkið, er sífellt með fullyrðingar um að allir séu glæpamenn, heimskingjar og þaðan af verrna, þ.e. allir nema það sjálft.
Ekki er skárri umræðan um ESB, þar fer ekkert fyrir rökunum, sami söngurinn um glæpi, heimsku og þaðan af verra.
Ef íslenskir bankar geta lánað á lágum vöxtum innan ESB, þá geta þeir það líka utan ESB, svo þetta eru alger falsrök, eins og flest annað, sem ESB sinnar bera á borð.
Axel Jóhann Axelsson, 12.12.2009 kl. 13:48
Axel þú er snillingur og rökstyður mál þitt í nauðvörn fyrir óstjórn Seðlabankans í peningamálum þjóðarinnar á undanförnum árum, með heimasmiðuðum hagfræðirökuum auk tilvitnanna í stórnskipun EES er það hefur ekki hafa verið gerð að lögum enn. Skif þín mynna mig á mann er ég þekkt hér á árum áður er hafði að orðatiltæki: Eg hef aldrei gert nein mistök í lífinu, en hafi ég gert þau reyndust þau rétt.
Axel gangi þér allt í haginn, og mundu gamala málsháttinn. Það er auðveldast að trúa lyginni í sjálfum sér.
bolli (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 13:58
Bolli, tilskipun ESB um innistæðutryggingasjóði var tekin upp í íslensk lög 1999. Tilskipanirnar um fjórfrelsið voru teknar í íslensk lög strax við lögleiðingu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið 1992.
Hvaða stjórnskipanir EES hafa ekki verið verið gerðar að lögum enn?
Þú ert greinilega að ljúga einhverju í sjálfan þig og átt auðvelt með að trúa henni, enda segir þú sjálfur, að það sé svo auðvelt.
Axel Jóhann Axelsson, 12.12.2009 kl. 18:49
Þessi "velstaða" Seðlabankans er þykir mér dálítið í ætt við sjúkraskýrsluna frægu:
Aðgerðin tókst vel en sjúklingurinn dó
Jón Bragi Sigurðsson, 12.12.2009 kl. 18:56
Hrunið gerði sig tiltölulega vel...he he
hilmar jónsson, 12.12.2009 kl. 20:30
He he Hilmar.
Já það tók sig alveg ljómandi vel út
Jón Bragi Sigurðsson, 12.12.2009 kl. 21:38
Hilmar, aldrei veður sagt um þig, að þú sért fynginn, en alveg erut ótrúlega hlægilegur.
Jón Bragi virðrðist vera álveg á sama plani.
Axel Jóhann Axelsson, 12.12.2009 kl. 23:53
Nei við Hilmar erum vel meðvitaðir um að DO er í hugum flestra eini löggilti húmoristinn á Íslandi.
Fyndið alla vega hvernig hann fór með Seðlabankann ekki satt?
Skattgreiðendur landsins veltast um af hlátri núna
Jón Bragi Sigurðsson, 13.12.2009 kl. 12:41
Já Axel, mönnum er misskammtaður húmorinn..
hilmar jónsson, 13.12.2009 kl. 13:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.