Stórfrétt úr Héraðsdómi Reykjavíkur

Í dag kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp þann úrskurð að myntkörfulán væru fullkomlega lögleg, en því hefur verið haldið fram af Hagsmunasamtökum heimilanna og a.m.k. einum lögmanni, að þau stæðust ekki ákvæði laga um verðtryggingu skulda.

Í frásögn mbl.is af niðurstöðu málsins kemur þetta fram:  "Fallist var á með SP fjármögnun að heimilt hefði verið að binda afborganir lánsins í íslensum krónum við gengi krónunnar gagnvart japönsku jeni og svissneskum frönkum.  Maðurinn hafi vitandi vits tekið lán í erlendri mynt. Lög stæðu ekki í vegi fyrir að hægt væri að krefjast skila á sambærilegu verðmæti og lánað var."

Afar líklegt má telja, að þessum dómi verði áfrýjað til Hæstaréttar og verði hann staðfestur þar, verður ekki lengur deilt um lögmæti myntkörfulánanna.  Héraðsdómur segir að maðurinn hafi vitandi vits tekið lán í erlendri mynt og það sama á við um alla aðra, sem glöptust til að taka sambærileg lán og ætluðu að græða einhver lifandis ósköp á vaxtamuninum, sem var milli lána í erlendri mynt og lána í íslenskum krónum.

Niðurstaða Héraðsdóms sætir stórtíðindum, vegna þeirra deilna, sem staðið hafa um erlendu lánin.


mbl.is Gert að greiða myntkörfulán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta eitthvað skrýtið?  Það er ekki til of mikils mælst að fólk borgi það sem það fær að láni.  Það er merkilegt í allri umræðunni um að menn eigi að bera ábyrgð á gjörðum sínum og borga til baka það sem þeir sviku út úr bankakerfinu, þá skuli rísa upp fólk sem tók myntkörfulán og heimta að fá að sleppa við að borga.  Það er bara þannig að maður sem tekur lán í öðrum gjladmiðli en hann fær útborgað í er að treysta á það að útborgaða myntin haldi verðgildi sínu gagnvart lánuðu myntinni.  Þannig ætlar fólk að græða mismuninn á lánaðri upphæð og þeirri sem það borgar til baka.  Það er því alveg sjálfsagt að þeir sem tóku þessa áhættu borgi til baka það sem þeir fengu lánað.  Þeir sem tóku svona lán skrifuðu undir skilmálana og eiga ekki að sleppa með að borga það sem þeir tóku að láni. 

Haraldur Geir (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 15:38

2 identicon

En ekkert er minnst á þá staðreynd að SP hefur einhliða breytt samsetningu myntkarfanna hjá fjölda lántakenda, samanber grein sem Þórdís nokkur skrifaði í MBL fyrir skömmu.

Elias Bjarnason (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 15:40

3 identicon

Það er ekkert deilt um það í dag að bankarnir felldu gengið sjálfir.

 Sennilega stóð SP ekki í því, en stóru bankarnir gerðu það klárlega.

Það stenst ENGA heilbrigða skynsemi, vitandi að bankarnir felldu sjálfir, vísvitandi og skipulega gengið, að segja að lántakandinn hefði átt að gera sér grein fyrir "gengisáhættu".

Þá er allt eins hægt að segja að gangandi vegfarendur séu réttdræpir í augum bílstjóra.

Að það megi vísvitandi keyra niður gangandi vegfarendur, vegna þess að gangandi vegfarandi megi vita það að það er alltaf hætta á að verða fyrir bíl þegar maður labbar yfir götu.

Bankarnir gerðu skipulegar árásir á lántakandann, það hefur nákvæmlega EKKERT með eðlilega gengisáhættu að gera.

Haraldur Geir. (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 15:43

4 identicon

Lög stæðu ekki í vegi fyrir að hægt væri að krefjast skila á sambærilegu verðmæti og lánað var." ... fékk hann lánað Japönsk jen og Svissneska franka?

Guðni Kristjánsson (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 15:43

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Haraldur Geir, þetta er alveg rétt hjá þér.

Elías, þetta er hinsvegar misskilningur hjá Þórdísi.  "Gjaldmiðillinn" SP5 er samsettur úr ákveðinni upphæð fjögurra erlendra mynta, sem er reiknað yfir í íslenskar krónur á lántökudegi og verðmæti þessarar föstu myntsamsetningar er svo uppreiknað á gjalddaga lánanna.  SP5 stenst því fullkomlega skilyrði myntkörfuláns.

Axel Jóhann Axelsson, 3.12.2009 kl. 15:47

6 identicon

Ég, sem skrifa fyrstu færsluna, skrifaði ekki ruglið sem er í færslu númer 3.  Það þarf heimskingja til að halda því fram að það sé löglegt að keyra niður fólk af því að það veit af áhættunni.  Það er alls ekki sambærilegt.  Ef eigandi síðunnar væri til í að skoða ip tölurnar og staðfesta að þetta kemur ekki frá sama aðila væri ég þakklátur.

Haraldur Geir (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 15:49

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Haraldur, þessi samanburður er algerlega út í hött.

Guðni, já, væntanlega hefur maðurinn skrifað undir það, að hann tæki lán í þessum myntum, sem síðan voru umreiknaðar í íslenskar krónur, til þess að hann gæti keypt bílinn.

Axel Jóhann Axelsson, 3.12.2009 kl. 15:50

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Haraldur fyrri, ég trúi þér algerlega.  Það eru alltaf einhverjir rugludallar að villa á sér heimildir.

Axel Jóhann Axelsson, 3.12.2009 kl. 15:52

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lánin voru aldrei veitt í erlendum gjaldmiðli heldur íslenskum krónum, þar stendur hnífurinn í kúnni. Samkvæmt íslenskum lögum er krónan lögeyrir í viðskiptum innanlands og því óheimilt að nota aðra gjaldmiðla. Þegar ég tók lán fyrir bílnum mínum þá var kaupverð bílsins gefið upp og þ.a.l. greitt í krónum, ekki erlendum gjaldmiðli enda hefði það stangast á við áðurnefnd lög. Ég fékk aldrei lánaðar Evrur, Pund eða Yen heldur samþykkti eingöngu að endurgreiðsla lánsins tæki mið af gengi þessara gjaldmiðla. Það sem ég vissi hinsvegar ekki þá en veit núna er að slíkt er óheimilt þar sem lög um vexti og verðtryggingu heimila eingöngu að miðað sé við innlenda verðvísitölu Hagstofunnar en ekki SP5 eða önnur tilbúin viðmið.

Í þessum viðskiptum hafði ég stöðu neytanda sem vildi einfaldlega bara kaupa sér bíl og þáði það sem kynnt var sem góð lausn á fjármögnun viðskiptanna. Seljandi þjónustunnar og lánveitandi hafði hinsvegar stöðu sérfræðings sem selur sérhæfða þjónustu (sbr. fasteignasala eða húsasmíðameistara) og hefði því mátt vera ljóst að lausnin sem mér var boðin var ekki bara slæm heldur skorti fyrir henni lagastoð. Hefði fjármagnsleigan upplýst mig um þetta þá hefði ég aldrei skrifað undir samninginn, enda er ég heiðvirður borgari. Í þessu samhengi er fullkomlega eðlilegt að gera ríkari kröfur til sérfræðingsins um að hann hafi vit á því hvað sé góð ráðgjöf og hvernig vinnubrögð sé best að viðhafa, en neytandans sem kaupir þjónustuna. Þessum sjónarmiðum virðist héraðsdómur hinsvegar hafa kastað út um gluggann.

Þessu má líkja við lækni sem gefur þér ákveðið lyf, lætur þess reyndar getið að því fylgi viss áhætta en mælir samt með því að þú takir það og þiggur greiðslu fyrir ráðgjöf sína. Seinna kemur svo í ljós að lyfið sem læknirinn gaf þér hefur ekki verið samþykkt til sölu á Íslandi og notkun þess þ.a.l. ólögleg en þú ert byrjaður að upplifa lífshættulegar aukaverkanir. Hver er ábyrgur fyrir þínu heilsufarstjóni í slíku tilviki? Sennilega myndu fáir telja lækninn vera algjörlega saklausan.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.12.2009 kl. 16:35

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Guðmundur, það hlýtur að mega reikna með því, að þú hafir skrifað undir lánspappíra, sem hafa hljóðað upp á skuld í ákveðnum gjaldmiðlum.  Í tilfelli SP fjármögnunar var miðað við SP5, sem samsett var af ákvðnum erlendum gjaldmiðlum, í ákvðnu hlutfalli (sjá athugasemd nr. 5).  Bæði þú og aðrir, hljóta að hafa gert sér grein fyrir því, hvað þeir voru að skrifa undir og væntanlega gert það af fúsum og frjálsum vilja.

Sjálfur keypti ég bíl fyrir nokkrum árum og datt ekki í hug að taka myntkörfulán fyrir þeim hluta kaupverðsins, sem ekki var greiddur út.  Mér var boðið myntkörfulán, en vegna gengisáhættunnar hvarflaði ekki einu sinni að mér að taka slíkt lán.  Ég sneri mér að sjálfsögðu til lánastofnunar, sem veitti lán í íslenskum krónum.

Að taka erlent lán til nokkurra ára, er algert glapræði, þegar tekjurnar eru í íslenskum krónum.

Axel Jóhann Axelsson, 3.12.2009 kl. 16:53

11 identicon

Já það er nú aldeilis gott að vera ekki fífl Axel eins og hinir vitleysingjarnir sem tóku erlend lán.. Annað ég tók nú erlent og íslenskt lán fyrir íbúðinni minni.. og það að taka erlent lán var svo sannarlega ekki hugsuð sem einhver gróðaleið heldur var boðið upp á þetta sem góða leið fyrir fjármögnunni. Og einnig talar þú um vitleysingjarnir hefðu ekki átt að taka erlent lán þegar tekjurnar væru nú í íslenskum krónu,, mér finnst svolítið athugavert að ég reyndar hafði tekur í erlendri mynt.. fór í bankann og vildi greiða með "erlendu" tekjunum af "erlenda" láninu mínu.. en NEI... það var sko ekki hægt.

BV (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 17:11

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já, ég vissi svosem hvað ég var að skrifa undir og gerði það af fúsum og frjálsum vilja. Ég vissi hinsvegar ekki að það sem ég var að skrifa undir væri hvergi heimilað í lögum, og tel að fjármagnsleigan hefði átt að upplýsa mig um það, en þá hefði ég líklega aldrei tekið lán í erlendri mynt. Ég gerðist því ekki sekur um neitt nema þau mistök að treysta lánveitandanum til að fara að lögum, sem hann gerði ekki. Það er vissulega rétt sem þú bendir á, að það er varasamt að skuldbinda sig í öðrum gjaldmiðli en þeim sem maður hefur tekjur í, en þegar ég tók bílalán árið 2007 hafði ég ekki vit á því enda þá ekki menntaður í hagfræði eða viðskiptum. Þetta hefðu hinsvegar fjármála"snillingarnir" átt að vita og taka mið af því við mat á greiðslugetu minni, sem reyndar var aldrei framkvæmt og hlýtur það að teljast vanræksla af hálfu fjármálafyrirtækis að lána út á ekkert nema góðvildina eina saman.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.12.2009 kl. 17:23

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Athyglisvert sem BV bendir á að ekki hafi verið tekið við erlendum gjaldmiðlum sem greiðslu inn á svokallað "erlent" lán. Þetta staðfestir það sem er á allra vitorði, að það var aldrei um nein lán í erlendum gjaldmiðlum að ræða heldur krónulán með gengisviðmiði. Erlendu peningarnir sem verið var að gengistryggja voru hinsvegar lánaðir áfram til að fjármagna útrás íslenskra fyrirtækja, en íslenskir lántakendur látnir bera gengisáhættuna.

Krónulán með gengisviðmiði eru einmitt það sem lögum um vexti og verðtryggingu var ætlað að banna, eins og kemur skýrt fram í athugasemdum löggjafans með frumvarpinu, en þar stendur meðal annars:

Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.

Skv. 13. og 14. gr. er hinsvegar heimilt að miða endurgreiðslu við innlenda verðvísitölu reiknaða af Hagstofu Íslands, en það fyrirkomulag er venjulega kallað verðtrygging.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.12.2009 kl. 17:36

14 identicon

Spurningin er þessi Axel...

Þegar SP lánaði þessum manni peninga í íslenskum krónum til að kaupa bíl á íslandi, tóku þeir þá peninga af gjaldeyrisreikningum sínum og skiptu yfir í íslenskar krónur og létu hann síðan fá.... eða tóku þeir íslenskar krónur og lánuðu honum en tengdu þá bara við gengi viðkomandi gjaldmiðla?

Ef ég tæki lán upp á miljón íslenskar krónur hjá þér, þú tækir þá peninga út af þínum íslenska tékkareikningi en við semdum síðan um það að endurgreiðsla lánsins tæki mið af gengi Liverpool í ensku deildinni þá væri verið að brjóta lög

Alveg eins og SP hefur brotið lög ef þeir hafa lánað fólki sína íslenska peninga en eingöngu tengt þá við gengið ákveðinna gjaldmiðla, án þess að höndla nokkurn tíma með viðkomandi myntir

Cicero (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 19:32

15 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

BV, auðvitað hlýtur þú að hafa getað greitt með erlendum gjaldeyri.  Bankinn hefði væntanlega tekið við erlendu peningunum, en að sjálfsögðu hefði kvittunin sem þú hefðir fengið fyrir greiðslunni verið í íslenskum krónum.  Hafir þú tekjur í erlendum gjaldmiðli, er þitt tap á erlenda láninu ekkert, þar sem erlendu tekjurnar hafa tekið sömu breytingum gagnvart krónunni og erlenda skuldin hefur gert.

Guðmundur og Cicero, ekki veit ég hvernig þið getið sagt að þessi lán séu ólögleg, þar sem Héraðsdómur var einmitt í dag að kveða upp þann dóm, að myntkörfulán SP hafi einmitt verið löglegt.  Héðan af verður ekki hægt að véfengja lögmætið, fyrr en Hæstiréttur hefur fjallað um málið og hnekkt þessum dómi.

Staðfesti Hæstiréttur dóminn, verður það væntanlega endanleg afgreiðsla málsins.

Auðvitað eru þessi lán hábölvuð og ótrúlegt að bankamenn hafi mælt með þeim.

Hafi þeir trúað því sjálfir, að þetta væri viturlegt, þá þarf enginn að undrast að bankarnir hafi allir hrunið, eins og spilaborg.

Axel Jóhann Axelsson, 3.12.2009 kl. 19:53

16 identicon

Ef menn ætluðu ekki að hagnast á því að taka lán sem tengd voru gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni, hvers vegna voru menn þá að því?  Það er merkilegt.  Ég er ekki að segja að einn eða neinn sé vitlaus eða neitt í þá veru, ég er bara að benda á það að menn taka varla lán í öðrum gjaldmiðli en þeir fá útborgað í nema til að hagnast á gengismuninum.  Þegar flest lánin voru veitt var íslenska krónan skráð fáránlega hátt miðað við aðra gjalmiðla og menn sáu í hendi sér að gengið gæti jafnvel styrkst.  Þar lá freistingin. 

Haraldur Geir (IP-tala skráð) 3.12.2009 kl. 19:59

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Cicero, ég held að þú hafir hitt naglann á höfuðið.  Það eru engar sannanir fyrir því að skuldbindingin að baki lánveitingunni hafi verið í erlendri mynt.  Oft hafa fyrirtækin lánað fyrst út og síðan keypt sig inn í skuldbindingu í erlendri mynt.  Ég held að það gæti orðið fróðlegt, ef sérstakur saksóknari eða FME færu inn í SP Fjármögnun og skoðuðu bækur fyrirtækisins.  Kjartan G. Gunnarsson virðist hafa orðið tvísaga í tveimur mismunandi málum greinilega í trausti þess, að ekki er hægt í héraðsdómi að reka missagnirnar ofan í hann.  Skoðið færslu Þórdísar Bjarkar Sigurþórsdóttur SP5 mynktarfan er sjóður við þessa frétt.

Marinó G. Njálsson, 3.12.2009 kl. 20:01

18 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Marinó, telur þú að héraðsdómarinn hafi ekki verið læs á samninginn, sem hann var að kveða upp dóm út af?

Hefur þú sjálfur skoðað hvernig SP5 er samansett?

Það hef ég gert og tel að SP5 standist alla gagnrýni.  Sjá svar til Elíasar í athugasemd nr. 5.

Axel Jóhann Axelsson, 3.12.2009 kl. 20:27

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Axel, ég hef fylgst með máli Þórdísar Sigþórsdóttur í tæpa þrjá mánuði og þekki ýmsa anga þessara mála hjá SP.  Ég treysti mér ekki til að segja að SP5 standist alla gagnrýni.  Raunar bendir ýmislegt til þess að SP5 standist ekki kröfur Neytendastofu og talsmaður neytendur hefur SP5 líka til skoðunar.  Ég býð eftir niðurstöðu úr þeirri skoðun áður en ég tjái mig um þennan sjóð.

Marinó G. Njálsson, 4.12.2009 kl. 00:37

20 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Með takmarkaðri virðingu fyrir skoðunum talsmanns neytenda, mun hinn endanlegi dómur koma frá Hæstarétti.

Þeim dómi verður að hlíta, á hvorn veginn sem hann fellur..

Axel Jóhann Axelsson, 4.12.2009 kl. 06:23

21 identicon

Verðum við ekki að bíða eftir dómi Hæstaréttar um þetta mál ?

Dómur Héraðsdóms hefur ekki fordæmisgildi.

Sigrún Unnsteinsdóttir (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 11:14

22 identicon

Axel, vissulega dæmdi Héraðsdómurinn á þennan veg - enda hugsa ég að það væri erfitt ef ekki ómögulegt að sanna það hvernig SP höndlaði þessi myntkörfulán - ég er þó þeirrar skoðunar (tek sérstaklega fram að það er bara mín skoðun) að bankarnir hafi einfaldlega verið að lána sína íslensku peninga en tengt þá við viðkomandi gjaldmiðla

Við bíðum eftir dómi Hæstaréttar, hann hefur nú í gegnum tíðina ekki verið ragur við að snúa við héraðsdómum

Cicero (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 11:23

23 identicon

Hvað umræðu um myntkörfulán áhrærir má bæta því við að rétt fyrir síðustu aldamót, þá stökk t.d. dollarinn upp í ca. 115 kr. um tíma. Af þessu má ráða að úr ófölnaðri fortíð hafði fólk dæmi um mikla lækkun krónu gagnvart erlendum gjaldmiðli þegar það fór svo að taka myntkörfulán nokkrum árum síðar á þeim forsendum að áhættan væri lítil og lánin að öllu leyti hagstæðari en lán í íslenskum krónum. Gjaldmiðlabrask, en þetta er auðvitað ekkert annað en það, felur alltaf í sér áhættu. Hægt er að græða mikið, en einnig tapa mikið. 

Með þessu er þó á engan hátt borið í bætifláka fyrir vitfirrtan rekstur bankakerfisins á árunum 2002-2008.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 4.12.2009 kl. 12:01

24 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þorgeir, það er óhætt að taka undir það, að menn draga afar lítinn lærdóm af sögunni.

Axel Jóhann Axelsson, 4.12.2009 kl. 13:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband