28.9.2009 | 14:39
Óskiljanleg rök seðlabankans fyrir stýrivöxtum
Seðlabankinn kynnti í síðustu viku, þá ákvörðun sína, að stýrivextir yrðu óbreyttir, 12%, og verðbólga væri 11% og því væri ekki um að ræða nema 1% raunstýrivexti. Þetta er áreiðanlega í fyrsta skipti, sem hugtakið raunstýrivextir er notað og ótrúlegt að útreikningurinn sé kominn frá seðlabankanum, sem hefur innan sinna vébanda ótal hagfræðinga og nýjan maxista í bankastjórastól, sem er með álíka margar háskólagráður og Georg Bjarnfreðarson.
Það er rétt hjá seðlabankanum, að verðbólga mæld tólf mánuði aftur í tímann var tæp 11%, en núveandi verðbólguhraði er allt annar, eða eins og fram kemur í fréttinni: "Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,5% sem jafngildir 6,1% verðbólgu á ári (8,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis)."
Háir stýrivextir í fortíðinni voru réttlættir með því, að þeir ættu að draga úr þenslu í framtíðinni, enda tæki nokkra mánuði að ná fram áhrifum stýrivaxtabreytinga. Nú þegar verðbólguhraðinn er 6,1% á ári og engin þensla í þjóðfélaginu, er hrein aðför að atvinnulífinu, að halda stýrivöxtum í 12%.
Bankarnir voru uppfullir af alls kyns fræðingum fyrir hrunið, svo sem viðskipta- hag og lögfræðingum ásamt þjóðhagfræðingum, viðskiptaverkfræðingum og endurskoðendum, en ekki var nú samt meiri skilningur á efnahagsmálum þar innanborðs en svo, að fræðingunum tókst í samvinnu við útrásarmógúlana, sem einnig höfðu sambærilega sérfræðinga á sínum snærum, að rústa efnahafskerfi landsins á undra skömmum tíma.
Skilningsleysi menntamannanna í seðlabankanum er á góðri leið með að keyra íslenskt efnahagslíf í aðra kollsteypu og ríkisstjórnin stendur aðgerða- og ráðalaus hjá og lýsir bara vonbrigðum með að ástandið lagist ekki.
Hvað er með svona seðlabanka og ríkisstjórn að gera?
Verðbólgan nú 10,8% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.