8.5.2009 | 09:56
Misgengi fasteignaverðs og -lána
Frá því að verðtrygging fasteignalána var sett í lög, í tíð vinstri stjórnar Ólafs Jóhannessonar, hefur nokkrum sinnum skapast svokallað "misgegni" milli verðmætis fasteigna og lánanna, sem á þeim hafa hvílt. Þetta kom einna verst út á árunum 1982-1984, þegar verðbólga fór yfir 100%, en verðtrygging launa var afnumin. Þrátt fyrir það hefur verð fasteigna alltaf hækkað meira en sem nemur vísitölu lánanna, þegar yfir lengra tímabil er litið, þannig að eignmyndun í fasteignum hefur verið mikil.
Nú er svipað ástand uppi og var á fyrrnefndum árum, hvað varðar misgengi fasteignaverða og lána, en engin ástæða til að ætla annað, en að eftir nokkur ár muni þetta jafna sig aftur. Þess vegna vekur þessi hluti ályktunar málefnahóps VG upp spurningar: "Fall bankanna og efnahagshrunið samfara því hafi síðan aftur orsakað verðfall fasteigna, þannig að raunvirði þeirra sé í miklum fjölda tilfella orðið mun lægra en áhvílandi skuldir.
Málefnahópurinn leggur til að VG muni því beita sér fyrir því að þau lán sem hærri eru en sem nemur raunvirði eigna, verði færð niður sem því nemur."
Á þá að færa lánin niður í áætlað raunvirði eignanna, eins og það er núna, eða á að færa þau niður í það raunvirði, sem seðlabankinn áætlar að það verði 2011? Hvað á að gera, þegar fasteignaverð hækkar aftur og lánin verða lægri en raunvirði fasteignarinnar? Á þá að hækka lánin aftur? Hvað á að gera fyrir þá sem skulda 95% í sinni fasteign? Á að hækka þeirra lán í nafni jöfnuðar?
Svona illa fram settar tillögur eru ekki boðlegar í alvöru umræðu um vanda heimilanna.
Málefnahópur VG vill lækka höfuðstól lána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég held að það sé númer eitt að leiðrétta verðtryggðu lánin. Setja vísitöluna til baka.
Einnig þarf að bjóða fólki uppá að setja erlend lán yfir í Íslensk.
ThoR-E, 8.5.2009 kl. 10:41
AceR með hvaða skilmálum viltu færa erlend lán yfir í íslensk?
Eina sem ég hef heyrt af tillögum af því tagi er að umbreyta þeim þannig að þau séu vísitölutryggð frá lántökudegi, og að á þau reiknist vextir og verðbætur frá þeim tíma. Þá má búast við að innborganir sem gerðar voru á hið erlenda lán fyrir hrun hafi verið lægri en innborganir á verðtryggt lán hafi átt að vera. Þetta þýðir að greiðslubyrði verðtryggða lánsins yrði þyngri en almennur útreikningur þess tíma á verðtryggðu láni heði skilað, þar sem minna væri búið að greiða af því.
Eru menn reiðubúnir að sætta sig við þá stöðu eitthvað frekar heldur en almenna stöðu á verðtryggðum lánum?
Ég hugsa að það gæti verið hagkvæmara fyrir skuldarann að nýta sér greiðslujöfnun erlendra lána og treysta því að krónan styrkist á nýjan leik, sem myndi leiðrétta höfuðstólsóréttlæti erlendu lánanna.
Elfur Logadóttir, 8.5.2009 kl. 13:49
Greiðslujöfnun og að treysta því að krónan styrkist??? Talið er að t.d dollarinn muni aldrei fara niður fyrir 100 krónurnar. Verði eflaust á bilinu 110-130kr.
Bankarnir tróðu þessum erlendu lánum upp á fólk.. og það er lágmark að bankarnir bjóði upp á raunhæfar leiðir fyrir fólk.
Það þýðir hreinlega ekki að lántakendur, fjölskyldurnar í landinu, taki einar á sig "spilavítis"skuldir og brask bankanna.
En vissulega þegar og ef krónan styrkist að þá líta erlendu lánin aðeins betur út. En verðtryggðu lánin í Íslenskum krónum lækka aldrei. Þessi hækkun .. gengur ekki til baka. Það þarf að leiðrétta!
Ég veit ekki hvort þú hafir séð dæmið með mína íbúð. Ég tók lán fyrir 3 árum fyrir íbúð á Akranesi. Lánið var 11 milljónir og hef borgað af því tugi þúsunda á mánuði þessi ár (mán. afborgun. fer hækkandi) en lánið stendur í 15 milljónum tæpum í dag. Bara eitt dæmi ....... á fólk síðan bara að sætta sig við þessa eignaupptöku bankanna .. og brosa bara og segja takk fyrir???
Það þarf að leiðrétta þetta ... fólk sem hefur átt ævisparnaðinn í íbúðunum ... horfir á hann fuðra upp. Þetta er bara ótækt!
ThoR-E, 8.5.2009 kl. 14:06
AceR, ég sagði hagkvæmara, ekki hagkvæmt.
Annars er mitt dæmi verra, ég tók lánið í lok árs 2000 nafnverð lántökunnar minnir mig að hafi verið rétt um átta milljónir + yfirtaka á gömlum byggingasjóðslánum uppá milljón og hálfa - s.s. ca 9,5 milljónir. Í dag eru eftirstöðvarnar ca. 17 milljónir.
Ég veit hins vegar að íbúðin mín hefur hækkað meira að verðgildi en sem þessu nemur, þess vegna er ég ekki í sömu stöðu og þú - hlutfallslega.
Verðtryggð lán á Íslandi hafa alltaf verið svona, þau hækka að raunvirði fyrri hluta lánstímans og síðan fara þau lækkandi. Vissulega hafa þau hækkað mismikið yfir mismunandi tímabil, en það hefur alltaf verið einhver verðbólga á Íslandi. Stærstan hlutann af síðustu 20 árum hefur hún verið yfir 3 prósentustigum.
Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að sækja langtímastöðugleikann út fyrir landsteinana, því margföld óðaverðbólgutímabil fortíðarinnar sýna okkur að við getum ekki séð um stöðugleikann sjálf - það er allt of oft freistandi að gera lagfæringar fyrir atvinnulífið - eins og margoft hefur verið gert í gegnum tíðina.
Varðandi leiðréttingar / niðurfellingar / breytingar / tilfæringar, eða hvað sem við nefnum aðgerðirnar sem verið er að óska eftir, þá verður að líta til tilvika eins og míns, þar sem raunverðgildi fasteigna hefur hækkað meira en eftirstöðvar skuldanna. Samkvæmt fasteignamati á minni eign, þá er ég ennþá í jákvæðri stöðu, þó ég hafi tapað gríðarlega frá verðmati eignarinnar fyrir 18 mánuðum síðan. Bottom line, flatar breytingar geta ekki gengið og þeir sem voru komnir á fasteignamarkaðinn vel fyrir bólu (eins og ég) eiga ekki að fá miklar niðurfellingar. Hins vegar þarf að skoða vel þá sem keyptu sér sína fyrstu íbúð á síðustu ca 4-5 árum, það eru einungis þeir sem ég tel réttlætanlegt að aðstoða við þessar aðstæður. Almennari aðgerðir mætti mögulega fara í þegar þjóðarbúið stendur betur.
Elfur Logadóttir, 8.5.2009 kl. 14:54
Gott að heyra að fasteignin þín hefur hækkað meira en lánið. En í mínu tilviki held ég að íbúðin hafi frekar lækkað aðeins .. frekar en staðið í stað.
Ég skil alveg hvað þú ert að meina Elfur .. það er bara svo blóðugt að vera að borga tugi þúsunda á mánuði ... mánuð eftir mánuð .. og lánið hækkar bara ... í stað þess að lækka um það sem afborgunin er ... þetta bara gengur ekki mikið lengur :Þ
ThoR-E, 8.5.2009 kl. 15:50
Alveg er ég sammála þér um öll atriði nema eitt og það er að sækja þurfi stöðugleikann út fyrir landsteinana, eða eins og þú segir: "Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að sækja langtímastöðugleikann út fyrir landsteinana, því margföld óðaverðbólgutímabil fortíðarinnar sýna okkur að við getum ekki séð um stöðugleikann sjálf - það er allt of oft freistandi að gera lagfæringar fyrir atvinnulífið - eins og margoft hefur verið gert í gegnum tíðina."
Það er náttúrulega atvinnulífið, sem stendur undir öllu hinu, þ.m.t. þeirri velmegun sem hér hefur ríkt til lengri tíma litið, með þeim sveiflum upp og niður, sem komið hafa reglulega.
Ef þú ert að meina, að við þurfum ESB og Evruna, til að koma á stöðugleika, þá fáum við a.m.k. ekki Evruna nema hér verði kominn á stöðugleiki með lágri verðbólgu til lengri tíma. Þegar við höfum náð þeim stöðugleika, þurfum við auðvitað ekki Evruna, heldur getum alveg notað krónuna áfram, enda urðum við ein ríkasta þjóð heimsins með krónuna sem gjaldmiðil.
Það er hrein uppgjöf í efnahagsmálunum, að leita út fyrir landsteinana, eingöngu vegna þess að við treystum ekki sjálfum okkur til að stjórna efnahagslífi landsins. Eins og áður sagði, verðum við hvort sem er að vera búin að koma á stöðugleika, áður en við getum vænst þess að skipta um gjaldeyri.
Í talinu um að taka upp Evru, er aldrei minnst á það, á hvaða gengi eigi að skipta yfir. Ekki litist mér á að taka upp Evru á núverandi gengi hennar. Ísland yrði fátæksta land Evrópu með því skiptigengi.
Þess vegna verðum við sjálf að vinna okkur út úr þessu og reikna með að gengið styrkist aftur, þó ekki þýði líklega að reikna með að gengisvísitalan fari nokkurn tíma aftur undir 140-150 stig.
Axel Jóhann Axelsson, 8.5.2009 kl. 16:20
Já það er mjög blóðugt, það get ég auðveldlega tekið undir.
Elfur Logadóttir, 8.5.2009 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.